Kvörtun til jafnlaunanefndar

""

Hjá Reykjavíkurborg starfar nefnd um jafnlaunakerfi sem móttekur, afgreiðir og skjalfestir kvartanir um ætluð brot á jafnlaunareglum. Nefndin tekur á móti erindum sem berast vegna hugsanlegs launamunar á milli kynja og er aðilum bent á að fylla út eyðublað.

Telji starfsmaður að honum sé mismunað í launum með tilliti til kyns getur hann leitað til nefndar um Jafnlaunakerfi Reykjavíkurborgar með kvörtun þar að lútandi.

Inntak kvörtunar og fylgigögn

Í erindinu skal koma fram starfsheiti og rökstuðningur fyrir því að viðkomandi telur að jafnlaunareglur hafi verið brotnar gagnvart sér. Rétt er að starfslýsing viðkomandi fylgi með erindinu. 

Nánari upplýsingar um inntak kvörtunar og fylgigögn er að finna á eyðublaði fyrir kvörtun til jafnlaunanefndar. Nefndin tekur málið til meðferðar og leggur, að aflokinni athugun á máli, mat á hvort jafnlaunareglur hafi verið brotnar gagnvart viðkomandi starfsmanni. Nefndin tilkynnir starfsmanni um niðurstöðu sína og er það að jafnaði gert innan þriggja mánaða frá því að kvörtun var lögð fram.

Niðurstaða

Komist nefndin að þeirri niðurstöðu að um mismun í launum á grundvelli kyns hafi verið að ræða sendir hún þá niðurstöðu til hlutaðeigandi stjórnanda með tillögu að úrbótum. Jafnframt sendir nefndin þá niðurstöðuna til sviðsstjóra Mannauðs- og starfsumhverfissviðs sem fylgir því eftir að úrbætur verði gerðar. 

Aðrir geta líka sent inn erindi

Aðrir aðilar sem eiga hagsmuni af launaákvörðunum hjá Reykjavíkurborg geta jafnframt sent inn erindi til nefndar um jafnlaunakerfi telji þeir að launamismunun á grundvelli kyns fyrirfinnist innan borgarinnar eða að jafnlaunakerfinu/framkvæmd þess sé ábótavant. Til þess geta þeir notað framangreint eyðublað eftir því sem við á. Nefndin afgreiðir slík erindi með viðeigandi  hætti og að jafnaði innan þriggja mánaða frá því að erindið var lagt fram.

Frekari leiðbeiningar

Hægt er að leita til mannauðsstjóra sviða og mannauðs- og starfsumhverfissviðs til að fá frekari leiðbeiningar.

Mikilvægt er að greina á milli kvartana starfsmanna samkvæmt ofangreindu og beiðna um endurmat á starfi hjá starfsmatsnefnd Reykjavíkurborgar. Leita skal með slíkar beiðnir til Verkefnastofu starfsmats og er nánari upplýsingar um það efni að finna á vefsíðu starfsmats.