Húsnæði fyrir fatlað fólk

Það er mikilvægt að fólk sem vill búa á eigin heimili eigi kost á því að láta þann draum rætast. Fatlað fólk getur fengið húsnæði sem það greiðir viðráðanlegt leiguverð fyrir. 

Sértækt húsnæði á við íbúðir í íbúðakjarna fyrir fatlað fólk sem þarf mikinn stuðning á eigin heimili. Þar fá íbúar þjónustu eftir stuðningsþörfum allan sólarhringinn eða hluta úr degi.

Húsnæði með stuðningi á við stakar íbúðir fyrir fatlað fólk sem þarf nokkurn stuðning til að búa á eigin heimili.

Á ég rétt á húsnæði?

Til að eiga rétt á húsnæði þarft þú að: 

  • Vera orðinn 18 ára. 
  • Hafa staðfesta fötlunargreiningu. 
  • Vera metinn í þörf samkvæmt viðeigandi matsviðmiðum reglna um félagslegt húsnæði og reglna um stuðningsþjónustu. 
  • Vera með dvalarleyfi sem gildir að lágmarki í 12 mánuði, hafi umsækjandi tímabundið dvalarleyfi á Íslandi.

Hvernig sæki ég um húsnæði?

Þú sækir um húsnæði fyrir fatlað fólk á rafrænan hátt á Mínum síðum. Einnig er hægt að fylla út umsókn á PDF-formi og senda á VELumsokn@reykjavik.is eða skila á miðstöð í þínu hverfi.

Hvað gerist næst?

Eftir að umsókn berst er umsækjanda boðið í viðtal til ráðgjafa sem leggur formlegt mat á hvort umsækjandi uppfylli skilyrði. Mat á stuðningsþörfum er unnið í náinni samvinnu við umsækjanda. Í kjölfarið er umsókn samþykkt eða synjað. 

Ef umsókn er synjað og þú telur sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir því að veita skuli þér undanþágu frá reglum getur þú sent inn beiðni um áfrýjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs.

Samþykktar umsóknir fara á bið eftir úthlutun húsnæðis. Umsækjandi fær upplýsingar um þá þjónustu sem hann getur fengið þar til úthlutun fer fram. 

Hvernig fer úthlutun fram? 

Úthlutun húsnæðis fer fram á fundum úthlutunarteymis. Umsækjanda er tilkynnt skriflega þegar hann hefur fengið húsnæði úthlutað. 

Hafi umsækjandi ekki fengið húsnæði innan árs frá því umsókn var samþykkt hefur ráðgjafi samband. Í samtalinu er umsókn uppfærð, farið yfir stöðu umsóknar á biðlista og möguleika á úthlutun húsnæðis á næstu 12 mánuðum. Samhliða því fer ráðgjafi yfir hvaða önnur úrræði og þjónusta standa til boða þar til úthlutun húsnæðis fer fram. 

Hvað kostar húsnæði fyrir fatlað fólk? 

Um er að ræða leiguíbúðir og fer kostnaður við leiguna eftir stærð og gerð húsnæðis. Leigan er greidd mánaðarlega og geta leigjendur átt rétt á húsnæðisbótum og sérstökum húsnæðisstuðningi.