Spurningar & svör | Reykjavíkurborg

Hvað er hverfisskipulag?

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 eru stóru línurnar lagðar að mótun borgarinnar til langs tíma. Eitt af meginmarkmiðum aðalskipulagsins er að öll hverfi borgarinnar verði sjálfbærari og mannvænni og að gæði hins manngerða umhverfis verði sett í öndvegi.

Hverfisskipulagið gegnir afar mikilvægu hlutverki við að innleiða stefnu aðalskipulagsins og útfæra nánar markmið þess. Hverfisskipulag er tegund deiliskipulags fyrir gróin hverfi – þ.e.a.s. skipulagsáætlun fyrir fastmótaða byggð sem nær yfir stærra landssvæði en hefðbundið deiliskipulag. Nýtt hverfisskipulag mun sameina ólíkar deiliskipulagsáætlanir innan hverfanna í eitt heildarskipulag sem einfaldar til muna gerð og eftirfylgni áætlana sem varða skipulag, uppbyggingu og framtíðarsýn hvers hverfis.

 

Reykjavík skiptist í tíu borgarhluta og innan þeirra eru alls 29 hverfi sem hvert fær sitt eigið hverfisskipulag.

 

  • Helstu markmið hverfisskipulags eru að:

  • einfalda skilmálagerð (skipulags- og byggingarheimildir) fyrir gróna byggð í hverfum borgarinnar.
  • stuðla að sjálfbærari, vistvænni  og heilnæmari hverfum.
  • þétta byggð og auka íbúafjölda til að styðja við fjölbreytta þjónustu í göngufæri innan hverfanna og nýta innviði betur.
  • þróa skipulagstæki sem gerir skipulagsyfirvöld heimilt að skilgreina uppbyggingu og/eða breytingar á gróinni byggð þar sem kominn er tími á endurnýjun eða þróun til að uppfylla nútímaþarfir t.d. varðandi svalir, lyftur, kvisti, sorpflokkun o.s.frv.
     

 

Algengar spurningar

Hér fyrir neðan eru algengar spurningar og svör við því sem tengist skipulagsmálum og hverfisskipulaginu.

Hvað er skipulag?

Skipulag (eða skipulagsáætlun) er formleg, bindandi áætlun sveitarfélags um fyrirkomulag byggðar og mótun umhverfis langt inn í framtíðina. Í skipulagi er ákveðið hvernig landi skuli ráðstafað, til dæmis fyrir íbúðarbyggð, frístundabyggð, verslun, þjónustu eða náttúruvernd. Þar eru einnig teknar ákvarðanir um fyrirkomulag gatna og lóða og settar reglur um hönnun einstakra bygginga, svo sem hæðafjölda, fjöldi íbúða, byggingarefni og þakform.

Samkvæmt íslenskum lögum á skipulag að tryggja að land sé nýtt á hagkvæman hátt með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

 

Hverfi

Hvernig mun hverfisskipulagið líta út?

Í grunninn er hverfisskipulag eitt stórt deiliskipulag fyrir hvert hverfi borgarinnar. Reykjavík skiptist í 10 borgarhluta en innan hvers hluta er 3–4 hverfi sem hvert um sig fær sitt eigið hverfisskipulag. 

Í heildina verða 29 hverfisskipulagsáætlanir í Reykjavík sem munu koma í staðinn fyrir þúsundir deiliskipulagsáætlana sem eru gildandi um ýmsa reiti og götur innan Reykjavíkur.

Hverfisskipulagið verður sett fram í stefnumiðuðum texta og skipulagsuppdráttum, þar sem koma fram almennar reglur og skilmálar fyrir hverfið: yfirbragð byggðar, byggingarheimildir, hæðir húsa, samgöngumynstur og ýmislegt fleira.

Hvert hverfisskipulag verður einstakt því hverfi borgarinnar eru ólík og með mismunandi þarfir og áherslur til framtíðar.

 

Hvers vegna þurfum við hverfisskipulag?

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 eru lagðar stóru línurnar að mótun borgarinnar til langs tíma. Eitt af meginmarkmiðum aðalskipulagsins er sú stefna að öll hverfi borgarinnar verði sjálfbærari og mannvænni og gæði hins manngerða umhverfis verði sett í öndvegi. Hverfisskipulagið gegnir afar mikilvægu hlutverki við að innleiða stefnu aðalskipulagsins og útfæra nánar markmið þess.

Með einu heildarskipulagi fyrir hvert hverfi borgarinnar verður einfaldara fyrir íbúa og fyrirtæki að sækja um ýmsar framkvæmdir og breytingar á eigin húsnæði innan ramma hverfisskipulagsins, án þess að þurfa að fara í kostnaðarsamar breytingar á gildandi skipulagi. Um leið sameinar hverfisskipulag gildandi deiliskipulagsáætlanir og skilmála í eitt heildarskipulag fyrir hvert hverfi borgarinnar. Slíkt einfaldar til muna gerð og eftirfylgni áætlana fyrir hvert og eitt hverfi.

Hverfin í Reykjavík standa misvel að vígi eftir því hvaða málaflokkar eru metnir, svo sem aðgengi að verslun og þjónustu, almenningssamgöngur, opin rými, fjölbreytilegt húsnæði og svo framvegis. Við gerð hverfisskipulags fyrir hverfin er lögð áhersla á að draga fram styrkleika hvers hverfis og draga úr þeim veikleikum sem gætu verið til staðar í gildandi skipulagi.

 

Er hverfisskipulagið tilbúið?

Nei, hverfisskipulag er ekki tilbúið fyrir neitt hverfi ennþá en vinna við það er langt komin víða.

Vinna við hverfisskipulag hófst á mismunandi tímum eftir borgarhlutum og er því mislangt komin. Skipulagsferlinu er skipt í 6 verkþætti og er áætlað að vinna við hverfisskipulag í hverju hverfi taki á bilinu 18-24 mánuði. Á hverfissíðunum má sjá hvar í ferlinu hvert hverfi er statt og nálgast ítarlegri upplýsingar um þá vinnu sem farið hefur verið í nú þegar.