Hverfisráð | Reykjavíkurborg

Tíu hverfisráð starfa í umboði borgarráðs skv. samþykkt fyrir hverfisráð, samþykktri í borgarstjórn 15. janúar 2008, og samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013.

Hverfisráð starfa í eftirfarandi hverfum Reykjavíkurborgar, sbr. samþykkt borgarráðs um hverfaskiptingu í Reykjavík frá 16. júní 2003, með breytingu samþykktri í borgarráði 21. september 2006: Vesturbæ, Miðborg, Hlíðum, Laugardal, Háaleiti, Breiðholti, Árbæ, Grafarvogi, Kjalarnesi og Grafarholti Úlfarsárdal.

Í Miðborg er félagið Miðborg Reykjavíkur jafnframt vettvangur samráðs og samstarfs atvinnurekenda, íbúa, félagasamtaka og borgaryfirvalda um málefni miðborgarinnar.

Hverfisráð skulu stuðla að hvers konar samstarfi innan hverfis. Þau eru vettvangur samráðs íbúa, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda, og eru virkir þátttakendur í allri stefnumörkun hverfanna. Þannig eru hverfisráð ráðgefandi fyrir starfsemi þjónustumiðstöðva í hverfum og stuðla að eflingu félagsauðs í hverfum. Þá stuðla hverfisráð að kynningu skipulags, framkvæmda og þjónustu borgarstofnana í hverfunum og beita sér fyrir því að samráð verði haft við íbúa, allt eftir eðli máls hverju sinni. Hverfisráð fá til kynningar auglýstar breytingar á skipulagi og umhverfi er snerta hverfið auk kynninga á stærri framkvæmdum og meginbreytingum á þjónustu.

Hverfisráð geta gert tillögur til stjórnar eignasjóðs um forgangsröðun framkvæmda í hverfinu.

Hverfisráð eru skipuð fimm fulltrúum kosnum af borgarstjórn og jafnmörgum til vara. Borgarstjórn kýs formann úr hópi kjörinna nefndarmanna. Kjörtímabil hverfisráða er hið sama og borgarstjórnar.

Framboðslistar, sem fulltrúa eiga í borgarstjórn en ekki í hverfisráðum, geta tilnefnt áheyrnarfulltrúa í hvert hverfisráð með málfrelsi og tillögurétt. Þá geta hverfisráð tekið ákvörðun um áheyrnarfulltrúa félagasamtaka í hverfunum með málfrelsi og tillögurétt.

Fundir hverfisráða eru að jafnaði opnir fulltrúum íbúasamtaka og skal þá gera ráð fyrir sérstökum dagskrárlið: fyrirspurnir og athugasemdir frá íbúasamtökum.

Hverfisráðin hvert um sig halda fundi sem opnir skulu almenningi einu sinni á ári hið minnsta. Þess utan halda ráðin fundi eftir þörfum.

Aðsetur hverfisráðanna er í þjónustumiðstöðvum.

Borgarstjórn kaus í hverfisráð án atkvæðagreiðslu 16. júní 2014, sjá ráðin hér að ofan til hægri.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

15 + 1 =