Hverfið mitt 2018 | Reykjavíkurborg

Hverfið mitt 2018

Íbúalýðræðisverkefnið Hverfið mitt felst í að fá hugmyndir frá íbúum og kjósa síðan um hvaða verkefni komi til framkvæmda. 
Hér neðar á síðunni má sjá nánar um fyrirkomulagið nú í ár - árið 2018.
 • Kosningar
 • Hugmyndasöfnun

Í hugmyndasöfnuninni 27. febrúar til 20. mars er leitað eftir hugmyndum að verkefnum sem kosið verður um í hverfakosningunni Hverfið mitt í október 2018. Hugmyndirnar eiga að:

 • bæta hverfið á einhvern hátt.
 • rúmast innan fjárhagsáætlunar hverfisins.
 • vera framkvæmanlegar innan þess tímaramma sem verkefninu er gefinn.
 • falla að skipulagi borgarinnar og stefnu og vera á borgarlandi.
 • færa hverfið nær framtíðarsýn íbúanna, t.d. snjallt hverfi, heilsueflandi, barn- og aldursvænt.

Hugmyndirnar geta t.d. varðað :

 • umhverfi og möguleika allra aldurshópa til útivistar og samveru.
 • aðstöðu til leikja og afþreyingar.
 • betri aðstöðu fyrir gangandi og hjólandi borgarbúa.
 • snjallar útfærslur á allskonar.

Innsendar hugmyndir eru svo metnar út frá þessum punktum og stillt upp til kosninga meðal íbúa.

Almenn kynning á verkefninu

Þetta er í sjöunda sinn sem slík hugmyndasöfnun og kosning fer fram og framkvæmt verður fyrir 450 milljónir króna. Nánari upplýsingar um framkvæmd hugmyndasöfnunar og kosninga eru hér fyrir neðan.Hverfið mitt er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í hverfum Reykjavíkurborgar. 

Hvaða hugmyndafræði liggur að baki?

Verkefnið byggir á hugmyndum að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku, umfram það sem gerist í hefðbundnu fulltrúalýðræði. Byggt er á reynslu fyrri ára en jafnframt leitað í smiðju sérfræðinga og annarra borga um heiminn þar sem þátttökufjárhagsáætlunargerð hefur verið reynd.

Skipting fjármagns eftir hverfum

Gert er ráð fyrir 450 milljónum króna til verkefnisins. Fjármagn er eins og áður bundið við smærri nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni.
Til að tryggja minnstu hverfunum lágmarksfjárhæð til umráða er fjórðungi fjárheimildarinnar skipt jafnt milli hverfa. Það fjármagn sem eftir stendur skiptist á milli hverfanna í réttu hlutfalli við íbúafjölda. Fyrstu 112,5 milljónunum er þannig skipt jafnt milli borgarhlutanna tíu og koma því að lágmarki 11,25 milljónir króna í hlut hvers hverfis. Því sem eftir stendur, eða 337,5 milljónum króna, er skipt á milli þeirra 122.664 íbúa sem staðsettir eru í hverfum borgarinnar þannig að í hlut hvers og eins koma kr. 2.751.418. Þessi tala er svo margfölduð með íbúatölu hvers hverfis og fæst þá heildarfjárheimild hverfisins. Fjöldi íbúa og skipting milli hverfa miðast lok árs 2017.* 
 
 
* Tölurnar eru byggðar á tölum sem birtust í borgarsjá þann 17. febrúar 2017. Heildar íbúafjöldi var skv. þessu 123.199 en þar af eru 535 íbúar óstaðsettir í hús eða skráðir í sendiráð erlendis. Eftir standa 122.664 íbúi sem dreifast á hverfin skv. meðfylgjandi töflu.
 

Hverfið mitt – verkáætlun og tímasetningar

Verkefnið í heild er í fjórum fösum. Hugmyndasöfnun; umræða um hugmyndir og úrvinnsla; kosningar og framkvæmd.

Helstu tímasetningar eru eftirfarandi:

 • 15.1.- 26.2 Undirbúningur fyrir hugmyndasöfnun
  Kynningar og markaðsmál:Samráð við auglýsingastofu, tengiliði þjónustumiðstöðva, Íbúa ses., borgarbúa. Samráð við hópa sem síður hafa tekið þátt; ungt fólk, innflytjendur, fatlað fólk og aldraða. Vefsíðan undirbúin.
 • 27.2- 20.3 Hugmyndasöfnun
  Íbúar setja fram hugmyndir á vefinn. Kynningarteymi vinnur að markaðssetningu. Áhersla lögð á nýja kjósendur, 15 ára. Áhersluatriði verða snjallborgin, heilsuefling, barnvæn borg og aldursvæn borg.
 • 27.2- 30.4 Fagteymi USK metur hugmyndir
  Fagteymi fundar reglulega ásamt verkefnastjóra á USK. Hugmyndir eru keyrðar úr kerfinu fyrir hvern fund, jafnvel þó að hugmyndasöfnun sé enn í fullum gangi. Á fundunum eru hugmyndir metnar tækar eða ekki og það rökstutt. Verkefnastjóri á USK (BB) skipuleggur nánar þennan verkhluta.
 • 1.4- 30.4 Verkefnastjórar funda með hverfisráðum
  Eftir að hugmyndamati lýkur funda verkefnastjórar með hverfisráðum og fara yfir niðurstöður matsins. Hverfisráðum gefst kostur á að koma með athugasemdir.
 • 1.5 – 8.5 Athugasemdir hverfisráða afgreiddar af fagteymi USK.
 • 8.5-15.5 Hverfisráð stilla upp 25 hugmyndum í hverju hverfi
 • 30.5- 1.9 Frumhönnun á hugmyndum sem kosið verður um
 • 15.8 -22.9 Undirbúningur fyrir rafræna atkvæðagreiðslu. Listar með verkefnum útbúnir og kynntir
  Tækniteymi fundar vikulega og undirbýr rafrænar kosningar. Á sama tíma eru kjörseðlar útbúnir og þýddir. Sérfræðingur á USK mun sjá um að hugmyndir hafi lýsandi heiti, lýsing þeirra passi við frumhönnun og að staðsetning á korti sé sem nákvæmust.
 • 22.9- 10.10 Álagsprófanir, prufuathafnir og ræsing kerfis – Kynningarmál undirbúin
  Eftir að kjörseðlar eru tilbúnir getur tækniteymið sett upp vefinn og framkallað álagsprófanir, prufutalningar o.þ.h. Á sama tíma vinnur kynningarteymi að undirbúningi fyrir auglýsinga og markaðsmál vegna kosningarinnar.
 • 11.10 -30.10 Hverfakosning
 • 6.11- 13.2.19 Verkhönnun verkefna og gerð útboðsgagna. Verkefni boðið út, samningar við verktaka og bækistöðvar
 • 14.2.19 - 14.3. Útboðsferli framkvæmdar
 • 14.4.19 – 30.9. Framkvæmd
 • Okt. 2019 Verklok

 

Hvað ef ég get ekki notað samráðsvefinn?

Þeir sem ekki geta sett fram hugmyndir á samráðsvef, s.s. vegna fötlunar, býðst á meðan á hugmyndasöfnun stendur að senda hugmyndir sínar með tölvupósti á betrireykjavik@ibuar.is eða með pósti stíluðum á Betri Reykjavík, Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, 101 Reykjavík. Einnig er hægt að hafa samband við þjónustumiðstöðvar í hverfunum eða þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 4 11 11 11 og óska eftir aðstoð.

 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 19 =