Hinsegin málefni í mannréttindastefnunni

Í 7. gr. mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar má finna þá þætti sem taka sérstaklega til hinsegin fólks, en þeir eru útlistaðir hér að neðan. Mikilvægt er að benda á að stefnan í heild sinni byggir á jafnræðisreglunni og miðar að því að allar manneskjur fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, lífs-, stjórnmálaskoðana, trúleysis, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu.

 

Í Mannréttindastefnunni segir: 

 

7. Kynhneigð, kynvitund, kyntjáning og kyneinkenni

Óheimilt er að mismuna fólki vegna kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna. Framlag hvers og eins skal metið að verðleikum án tillits til kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna. Ekki skal ganga út frá því að allt fólk sé gagnkynhneigt og sís-kynja.Greina þarf sérstaklega stöðu hinsegin fólks í borginni.

7.1 Reykjavíkurborg sem stjórnvald

Allir eiga rétt á virkri þátttöku í reykvísku borgarsamfélagi og sanngjarnri og réttlátri meðferð, óháð kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu eða kyneinkennum og skal þess sérstaklega gætt að hvergi halli á kynin.

7.1.2 Við undirbúning ákvarðana er varða hinsegin fólk skal hafa virkt samráð við hagsmunasamtök þeirra.

7.2 Reykjavíkurborg sem atvinnurekandi

Þess skal gætt við ráðningar, uppsagnir og ákvarðanir um kjör starfsmanna borgarinnar að ómálefnalegum ástæðum sé ekki beitt sem rökum gegn starfsfólki.

7.2.1 Virða ber rétt fólks til að tjá sig, eða tjá sig ekki, um kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu eða kyneinkenni sín.

7.2.2 Starfsfólk skapar andrúmsloft sem er laust við fordóma gagnvart hinsegin samstarfsfólki og á það við í starfi og leik á vinnustaðnum.

7.3 Reykjavíkurborg sem miðstöð þjónustu

Starfsfólk skal ekki ganga út frá því sem vísu að allir sem njóta þjónustu borgarinnar séu gagnkynhneigðir, sís-kynja eða eigi gagnkynhneigða eða sís-kynja foreldra. Starfsfólk gengur heldur ekki út frá því að allir eigi tvo foreldra þar sem sum börn eiga eitt foreldri og önnur fleiri en tvo foreldra. Samskipti starfsmanna og þeirra sem njóta þjónustu séu byggð á gagnkvæmri virðingu.

7.3.1 Allt uppeldis- og tómstundastarf, menntun og menningarstarf taki mið af því að þátttakendur geti verið hinsegin. Margs konar fjölskyldugerðir á að ræða á opinskáan og fordómalausan hátt. Kennarar og starfsfólk í skólum, frístundamiðstöðvum og öðru starfi með börnum og ungmennum geri fjölbreytileika mannlífisins sýnilegan í starfi sínu, til að mynda með vali á fræðslu- og afþreyingarefni sem notað er á öllum skólastigum. Skólastjórnendur og ábyrgðarfólk skóla- og frístundastarfs á vegum borgarinnar á að sjá til þess nemendur hljóti hinsegin fræðslu enda er það stefna borgarinnar að hinsegin fólk njóti virðingar og að um það sé fjallað í samræmi við almennan hluta aðalnámskrár frá árinu 2011.

 

  • Hinsegin fánar í gleðigöngu í Reykjavík.
 
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

3 + 12 =