Skólastig
Í grunnskólanum er sérhverju barni mætt í námi og félagsstarfi óháð atgervi þess og stöðu. Fullgild þátttaka allra barna og virðing fyrir réttindum þeirra byggir á skóla án aðgreiningar. Þetta merkir m.a. að foreldrar barna með alvarlegar fatlanir geta valið um það hvort börn þeirra sæki hverfisskóla, sérskóla eða sérdeildir.
Í grunnskóla eru þrjú skólastig þar sem ólíkum kennsluháttum er beitt til að mæta þörfum nemenda.
Fyrsta stig grunnskólans
Í 1.–4. bekk er megináhersla lögð á lestur og læsi, stærðfræði og list- og verkgreinar. Kennslutími samkvæmt námskrá er 4.800 mín. á viku. Algengt er að umsjónarkennari, einn eða fleiri, kenni flestar námsgreinar.
Samræmdar lesskimanir eru lagðar fyrir alla nemendur í grunnskólum Reykjavíkur í 2. bekk og í stærðfræði í 3. bekk. Samræmd könnunarpróf eru lögð fyrir í 4. bekk.
Flest börn á fyrsta stigi grunnskólans eru á frístundaheimili eftir að skóladegi lýkur og til kl. 17:00
Miðstig
Á miðstigi (5–7. bekk) fjölgar kennslustundum og bóknám eykst. Nemendur eiga rétt á 4.200 mínútum á viku í kennslu.
Gengið er út frá því að börn á miðstigi geti lesið sér til gagns og yndis. Jafnan kennir umsjónarkennari flestar bóklegar námsgreinar. Samræmd könnunarpróf eru lögð fyrir í 7. bekk.
Boðið er upp á fjölbreytt frístundastarf fyrir börn á miðstigi í félagsmiðstöðvum eftir að skóladegi lýkur og yfir sumartímann. Starfið er í formi námskeiða, hópastarfs eða opins starfs.
Unglingastig
Á unglingastigi (8.–10. bekk) fjölgar valgreinum til muna. Þá er einnig meira um sérhæfða faggreinakennslu. Heildarskólatími í er 4.400 mín. á viku.
Samræmd könnunarpróf eru lögð fyrir í 10. bekk.
Félagsmiðstöðvastarf fyrir unglingastigið byggir á hugmyndafræði um unglingalýðræði. Kosið er í unglingaráð sem tekur þátt í að skipuleggja dagskrá félagsmiðstöðvarinnar.
Ýmis frístundatilboð í boði, svo sem hópa- og klúbbastarf, billjard, borðtennis, tónlistariðkun, leiklist og fleira og er markmiðið að skapa vettvang fyrir unglinga til að vera virkir á eigin forsendum.