Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð - Fundur nr. 55

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð

Ár 2022, fimmtudaginn 10. febrúar var haldinn 55. fundur, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð og hófst kl. 13.02. Fundinn sátu Dóra Björt Guðjónsdóttir, Anna Wojtynska og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Ellen J. Calmon, Aron Leví Beck og Örn Þórðarson. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir.

Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar dags. 4. febrúar 2022, um drög að þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks nr. 10/2022. MSS22020053

    -    Kl. 13.08 tekur Diljá Ámundadóttir sæti á fundinum.
    -    Kl. 13.09 tekur Óskar J. Sandholt sæti á fundinum með rafrænum hætti.

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata, Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tekið er undir þær athugasemdir sem koma fram í umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu og Reykjavíkurborgar um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks. Ítrekað er mikilvægi þess að bæta inn aðgerðum sem varða menntakerfið en þar er vöntun á. Ráðið hefur bent á mikilvægi þess að tryggja að kennara- og uppeldisfræðinemar hljóti fullnægjandi jafnréttis-, kyn-, kynja- og hinseginfræðslu og að tryggt sé að góð námsgögn séu framleidd svo hægt sé að tryggja að nemendur hljóti slíka fræðslu á öllum stigum skólakerfisins og að hinsegin nemendur fái fullnægjandi stuðning innan skóla- og tómstundakerfisins. Einnig þarf að tryggja að innviðir samfélagsins taki betur mið af þörfum trans, intersex og kynsegin fólks.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks fagnar framlögðum drögum að þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks. Tekið er undir umsögn mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar í öllum meginatriðum og þær ábendingar sem þar koma fram. Þó er áréttað að framkvæmdaáætlunin er vel útfærð, verkefni áætlunarinnar skýrt vistuð í viðeigandi fagráðuneytum og fjármögnun tryggð innan fjárheimilda. Framkvæmdaáætlunin er mikilvægt og jákvætt skref í þeirri sjálfsögðu vegferð að bæta réttindi og félagslega stöðu hinsegin fólks á Íslandi. 

    Svandís Anna Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram skýrsla starfshóps um stöðu kynja- og hinseginfræði í skóla- og frístundastarfi SFS, dags. nóvember 2022. SFS2020060248

    Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þakkað er fyrir kynningu á góðri vinnu starfshópsins. Starfshópurinn um kynja- og hinseginfræði í skóla- og frístundastarfi var skipaður á sameiginlegum fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og skóla- og frístundaráðs 25. júní 2020 með því fyrir sjónum að efla kynja-, jafnréttis- og hinseginfræði í skóla- og frístundastarfi. Við sjáum mikilvægi fagsins aukast frá degi til dags í skólakerfunum okkar og því er gott að sjá hversu vönduð og umfangsmikil vinnan hefur verið. Það er mikill vilji fulltrúa ráðsins að ýta á eftir tillögunum. Næsta skref er að unnið sé fjárhagslegt mat á tillögunum.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins vill draga fram Viðauka 2 sem er tillaga frá Flokki fólksins um að gerð verði úttekt á jafnréttisfræðslu í skólunum, hvernig henni er háttað og hvernig hún hefur þróast undanfarna áratugi. Allt frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 hefur íslenskum skólum verið skylt að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna og að undirbúa bæði stráka og stelpur til jafnrar þátttöku í fjölskyldu- og atvinnulífi. Börn og ungmenni eru að biðja um meiri fræðslu t.d. hinseginfræðslu. Það er ekki síður brýnt að bjóða upp á hinseginfræðslu fyrir foreldra og forráðamenn í öllum grunnskólum. Þetta hafa ungmennin sjálf lögð til. Það skiptir máli að forráðamenn geti svarað spurningum sem vakna hjá krökkum og að fræðandi og uppbyggileg samtöl geti átt sér stað inn á heimilunum. Nú hefur komið í ljós sbr. upplýsingar frá starfshópnum að námsefni og innleiðing (t.d. samþætting og skipulag) á kynja– og hinseginfræði er af skornum skammti. Innleiðing á fræðslu af þessum toga er vandmeðfarin og þarf að vera með fjölbreyttum hætti á á öllum skólastigum og með öllum aldurshópum, þannig að kynja- og hinseginfræði snertir á öllu starfi með börnum og ungmennum. 

    Svandís Anna Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf félagsmálaráðuneytis dags. 27. janúar 2022, um opið bréf mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs ódags. til ríkisstjórnarinnar um innleiðingu laga um kynrænt sjálfræði tilv. R21110244. MSS21110034

    Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt er fram svar félagsmálaráðuneytisins við opnu bréfi til ríkisstjórnarinnar um innleiðingu laga um kynrænt sjálfræði sem er undirritað af mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði Reykjavíkur, Q - félagi hinsegin stúdenta, Stúdentaráði Háskóla Íslands, Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, Femínistafélagi Háskóla Íslands, Samtökunum ‘78 og Trans Íslandi. Vitnar svarið um að ráðuneytið sé loks að hefja heildarendurskoðun á reglugerð um húsnæði vinnustaða sem er frá árinu 1995. Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð hefur allt þetta kjörtímabil beitt sér fyrir uppfærslu þessarrar reglugerðar svo unnt sé að innleiða lög um kynrænt sjálfræði að fullu, bjóða upp á ókyngreind salerni í stjórnsýsluhúsnæði Reykjavíkurborgar og stuðla þar með að hinseginvænu starfsumhverfi í takti við samþykkt ráðsins á fyrsta fundi kjörtímabilsins. Því er þessu svari félagsmálaráðuneytisins fagnað innilega sem og því að það standi til að eiga samráð við ráðið og aðstandendur opna bréfsins við vinnuna.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 25. janúar 2022, þar sem óskað er umsagnar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, um tillögu borgarstjóra, dags. 25. janúar 2022, um samstarf við Höfða friðarsetur um framkvæmd samfélagshraðalsins Snjallræðis. Jafnframt er lögð fram umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 7. febrúar 2022. MSS22010171

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi umsögn:

    Tekið er undir umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs um samfélagshraðalinn Snjallræði og lýst er yfir stuðningi við áframhaldandi samstarf miðað við fyrirliggjandi forsendur. Snjallræði er samfélagshraðall sem haldið er utan um af hendi Höfða friðarseturs í samstarfi við Reykjavíkurborg, háskólasamfélagið, nýsköpunarsamfélagið og ríkið og hefur skipt verulegu máli við þróun mikilvægra samfélagslegra lausna. Verkefnið er í samræmi við áherslur mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og Reykjavíkurborgar er varðar stuðning við nýsköpunarsamfélagið og hugmyndaauðgi einstaklinga og fyrirtækja með markmiðum um að skapa réttlátara, grænna og betra velferðarsamfélag.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins telur að frumkvöðla- og nýsköpunarstarfssemi sé einmitt best borgið í þeirri umgjörð sem lýst er í tillögu borgarstjóra um þátttöku í framkvæmd samfélagshraðalsins Snjallræðis. Það er nefnilega miklu eðlilegra að hugmyndasmiðjum og tilraunastofum sé haldið á þeim forsendum sem tillagan lýsir. Eins og ljóst er hefur fulltrúi Flokks fólksins verið í rúmt ár að gagnrýna þá hugmynda- og tilrauna vinnustofur sem starfræktar hafa verið í langan tíma á Þjónustu og nýsköpunarsviði. Það er ekkert eðlilegt við það að almannafé hafi verið notað í endalausar tilraunir og hugmyndasmiðjur undir merkjum Gróðurhússins og annarra þróunarteyma sviðsins undanfarin ár án þess að sú vinna hafi skilað raunverulegum lausnum eða afurðum sem komnar væru í notkun. Hugmyndasmiðjur og tilraunastofur Þjónustu- og nýsköpunarsviðs virðast hafa haft þveröfug áhrif við það sem þeim hlýtur að hafa verið ætlað. Í stað þess að flýta innleiðingu lausna sem margar hverjar eru fyrir löngu tilbúnar, hafa mál verið að daga þar uppi. Það er von fulltrúa Flokks fólksins að meirihlutinn í Reykjavík fari nú að opna augun smám saman og átta sig á því hvað eigi heima hvar varðandi þá stafrænu umbreytingu borgarinnar sem að öllu leiti er fjármögnuð beint úr vösum borgarbúa.

    Pia Hansen tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  5. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks um fjölda heimsókna á vefsvæði, sbr. 11. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 27. janúar 2022. MSS22010320
    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs. 

    Fylgigögn

  6. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um útvistun starfa og verktöku, sbr. 12 lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 27. janúar 2022. MSS22010321
    Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um kynningar stafrænna leiðtoga, sbr. 13. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 27. janúar 2022. MSS22010322
    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs. 

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hlutverk og ábyrgð stafrænna leiðtoga, sbr. 14. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 27. janúar 2022. MSS22010323
    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs. 

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 8. febrúar 2022, um minnisblað þjónustu- og nýsköpunarsviðs um verkefnaræs: Betri borg fyrir börn. ÞON22010020 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Verkefnið Betri borg fyrir börn er fyrsta verkefnið af þremur sem nýsköpunarteymi Reykjavíkurborgar vinnur að í samstarfi við The Bloomberg Center for Public Innovation sem starfrækt er innan John Hopkins University. Tengist það alþjóðlegu stafrænu þróunarverkefni á vegum Bloomberg Philantrophies sem Reykjavíkurborg tekur þátt í meðal sex borga víðsvegar úr heiminum, ein af tveimur borgum úr Evrópu ásamt Amsterdam. Fólst í því vali mikil viðurkenning en líka fjárhagslegur og faglegur stuðningur sem mun skipta verulega máli í stafrænni vegferð borgarinnar.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins vill byrja á því að taka það fram að stafræn umbreyting er framtíðin. Um það er ekki deilt. Það sem Flokkur fólksins hefur hins vegar bent á að sú framsetning og nálgun þeirrar stafrænu vegferðar sem Þjónustu og nýsköpunarsvið hefur sett upp, er nánast algjörlega á skjön við það meginmarkmið opinberrar stjórnsýslu sem á að vera það að fara vel með almannafé sem og tíma starfsfólks. Það hefur vakið undrun og furðu margra hvað Þjónustu og nýsköpunarsvið hefur flækt málin og farið krókaleiðir að markmiðum sem oft eru illa skilgreind. Þetta hefur leitt til þess að mörg verkefni hafa dagað upp í allskyns hugmyndasmiðjum og tilraunastofum sem stundum virðast hvorki eiga sér upphaf né endi. Hér er enn og aftur dæmi um þetta, uppgötvunarfasi í margar vikur og síðan þróunarfasi í fjölmargar vikur. Alls eru „fasarnir“ fimm og taka hver um sig langan tíma. Bloomberg dæmið hefur einnig vakið upp spurningar enda minnir helst á „Stafræna þróunaraðstoð“ frá Bandaríkjunum. Þarna er verið að setja á laggirnar enn eina hugmynda- og tilraunasmiðjuna sem á eftir að taka mikinn tíma frá starfsfólki. 

    Fylgigögn

  10. Fram fer kynning á úrskurði Persónuverndar dags. 20. desember 2021, um notkun Seesaw nemendakerfisins í grunnskólum Reykjavíkur. SFS22020089

    -    Kl. 15.14 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundinum. 

    Teitur Skúlason og Bjarndís Fjóla Jónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 15:25

Dóra Björt Guðjónsdóttir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
55._fundargerd_mannrettinda-_nyskopunar-_og_lydraedisrad_10._februar_2022.pdf