Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð - Fundur nr. 54

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð

Ár 2022, fimmtudaginn 27. janúar var haldinn 54. fundur, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð og hófst kl. 13.02. Eftirtaldir fulltrúar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Diljá Ámundadóttir, Ellen J. Calmon, Aron Leví Beck, Anna Wojtynska, Kolbrún Baldursdóttir og Örn Þórðarson.

Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á fyrstu skrefum í innleiðingu lýðræðisstefnu, lýðræðisþátttöku og samráði við borgarbúa. MSS21110030 

    Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  2. Lögð fram umsögn mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs um hollustuháttarreglugerð nr. 2/2022, dags. 21. janúar 2022. MSS22010132

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins telur mannréttinda- og lýðræðisráð eigi að láta sig alls konar réttindi og hagsmuni fólks varða og hefði viljað sjá þessa umsögnina breiðari. Mikið af þeim athugasemdum lúta að breyttu orðalagi. Umsögnin ráðsins snýr að salernismálum í tengslum við kynrænt sjálfræði. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir hvert orð. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með Heilbrigðisnefnd Suðurlands að í 30. grein 3.mgr. vanti að sagt sé að salerni og handlaugar skuli vera við hæfi barna í leikskólum. En hér mætti einnig nota tækifærið og ræða um annars konar hagsmuna- og réttindamál fólks og benda á atriði sem eru löngu úrelt og ætti að fella út. Borið er sem dæmi niður í grein 44. sem kveður á um að “Óheimilt er að hleypa hundum, köttum eða öðrum dýrum inn í t.d. skóla, kirkjur eða fangelsi nema að fengnu leyfi heilbrigðisnefndar, sbr. 5. mgr. Hérna eru gamlar leyfar af frá því sullaveiki var landlægt vandamál. Þetta hefði mátt fella út. Skólar og leikvellir eru margskonar og það ætti að vera í höndum skólayfirvalda á hverjum stað að ákveða þetta. 

    Fylgigögn

  3. Lögð fram að nýju framhaldsfyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fjárfestingarverkefni þjónustu- og nýsköpunarsviðs, sbr. 11 lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 13. janúar 2022. Tilv. R21030087. FAS21120132
    Vísað til umsagnar fjárfestingar- og áhættustýringarsviðs. 

    Fylgigögn

  4. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um uppsagnir hjá Reykjavíkurborg vegna Covid, sbr. 12. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 13. janúar 2022. MSS22010163
    Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um kostnað við verkefnið Nýsköpunarvika, sbr. 13. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 13. janúar 2022. MSS21120156
    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. 

    Fylgigögn

  6. Fram fer kynning á nýjum vef Reykjavíkurborgar. ÞON22010051

    -    Kl. 13.40 tekur Óskar J. Sandholt sæti á fundinum með rafrænum hætti. 

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nýr vefur Reykjavíkur á reykjavik.is er kominn í loftið. Um er að ræða stærsta vefsvæði á Íslandi. Bætt aðgengi að upplýsingum og aukið gagnsæi er leiðarstef verkefnisins og til þess fallið að stórauka og bæta þjónustu borgarinnar hvarvetna. Nýja vefsíðan er létt, aðgengileg og notendamiðuð með framúrskarandi leitarvél og byggir á hugmyndafræði algildrar hönnunar. Allur texti hefur verið einfaldaður svo hann sé auðlesinn sem mætir breiðum hópi og þannig er textinn til þess fallinn að fara rétt í gegnum þýðingarvél, sem hefur lagt grunn að nýjum og mun betri enskum vef borgarinnar sem er mikilvæg nýjung. Það getur svo leitt til þess að vefsíðan verði aðgengileg á enn fleiri tungumálum.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það eru miklir byrjunarerfiðleikar með nýja vefinn sbr. að í margar fundargerðir vantar allar bókanir. Fulltrúi Flokks fólksins telur að uppfærsla á vefjum Reykjavíkurborgar sé góð og gild. Um leið má benda á að nánast allar stofnanir og fyrirtæki landsins halda úti vefjum, stórum og smáum með bæði verslun og þjónustu og því ekkert tiltökumál þegar slíkir vefir eru uppfærðir. Margir vefir landsins eru gríðarstórir og verulega flottir og góðir. Reykjavíkurborg hefur hins vegar verið töluvert á eftir hvað varðar þá rafrænu þjónustu sem hægt er að veita í gegnum vefgáttir. Ríkið er komið mun lengra hvað þetta varðar og nægir að nefna island.is, RSK og Vinnumálastofnun sem örfá dæmi af mörgum. Þrátt fyrir að vefur Reykjavíkurborgar hafi ekki verið uppfærður lengi, hefur fólk samt sem áður getað sótt sér ákveðna þjónustu þangað eins og með ýmsar umsóknir og ráðstöfun frístundastyrks og ýmislegt fleira. Fundargerðir hafa einnig verið í lagi. Vonandi styttist að vefurinn verði að fullu nothæfur. Laga þarf villur eins og uppsetningu skipurita og fleira þar á meðal skipurit sviðsins sjálfs sem hefur með þennan vef að gera.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands fagnar áherslu á aðgengileika og að heimasíðan verði á fjölbreyttum tungumálum. Mikilvægt er að þýða upplýsingar um þjónustu borgarinnar og það sem tengist borginni.

    Ólafur Sólimann Helgason og Þröstur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  7. Fram fer kynning á verkefnum stafrænna leiðtoga þjónustu- og nýsköpunarsviðs. ÞON22010019

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Stafrænir leiðtogar hafa tekið til starfa á öllum sviðum við að innleiða þjónustustefnu borgarinnar og vinna að stafrænni umbreytingu til að minnka vesen, sóun og mengun fyrir íbúa og starfsfólk sem felur í sér mikið hagræði. Það er hluti af stóru átaki borgarinnar í stafrænni umbyltingu. Þakkað er fyrir góða kynningu stafrænna leiðtoga á verkefnum sviðanna en þau eru fjölmörg og umfangsmikil og munu skipta verulegu máli og stórbæta þjónustu borgarinnar, nýta innviði borgarinnar betur, bæta gagnsæi og yfirsýn.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins telur að stafrænir leiðtogar geti nýst sem stuðningur við starfsfólk sviðanna. Hlutverk þeirra er hins vegar ekki skýrt. Þeir eru hér kynntir sem ábyrgðaraðilar fjölda verkefna inn á sviðum. Eru þeir farnir að stýra sviðunum? Hvert er eiginlega þeirra hlutverk? Segir í kynningu að þeir eigi að virkja skapandi hugsun og „ snúa öllu á hvolf“. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem hér sé verið að tala niður til starfsfólks sviðanna og verið að gefa í skyn að það skorti færni til að hugsa, vera skapandi, skorti þjónustumiðaða hugsun sem ÞON, stafrænir leiðtogar einir kunni skil á? Starfsfólk sviða hefur sinnt þjónustu við borgarbúa um árabil svo því sé haldið til haga. Allt þetta Gróðurhúsadæmi bar með sér einmitt þennan keim. Það er eins og stafrænir leiðtogar og ÞON eigi að hafa „vit“ fyrir starfsfólki sviðanna, leiða það í gegnum eitthvað hugsunar-breytandi ferli sem ekkert er síðan vitað hvort eða hvað kemur út úr. Þetta er alla vega upplifun fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þekking og reynsla starfsfólks sviðanna sé það sem aðrir geti lært af en ekki öfugt. Hópur af stafrænum leiðtogum getur varla kennt þaulreyndu starfsfólki að hugsa upp á nýtt? 

    Áslaug Eva Björnsdóttir, Ásta Þöll Gylfadóttir, Jón Hafsteinn Jóhannsson, Lára Aðalsteinsdóttir, Stefán Viðar Grétarsson, Styrmir Erlingsson, Þröstur Sigurðsson, Velina Apostolova og Stefán Viðar Grétarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 29. nóvember 2021, um erindisbréf starfshóps um kynjaða- starfs og fjárhagsáætlun á þjónustu- og nýsköpunarsviði. ÞON22010012

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun (KFS) er ætlað að vera tæki sem notað er til þess að stuðla að auknu jafnrétti og betri nýtingu fjármuna. Þar kemur fram að íbúar eru hornsteinar í öllu starfi Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands nefnir í því samhengi sem dæmi að innflytjendur starfa oft í láglaunastörfum, sem getur gert það að verkum að konur af erlendum uppruna eiga í hættu á að búa við efnahagslegan skort. Þess vegna er mikilvægt að líta til fleiri þátta en kyns í kynjaðri starfs- og fjárhagsáætlun. 

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 30. nóvember 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um árshlutauppgjör, sbr. 15. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 9. september 2021. Tilv. R21090041. ÞON21100043 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins þakkar ítarleg svör við fyrirspurnir m.a. um hvaða upplýsingakerfi hafa verið keypt, hvað kostaði hvert kerfi og af hverjum voru þau keypt. Í svari kemur til dæmis fram að kaup á notendabúnaði fyrir starfsstaði borgarinnar hafi verið 330,98 mkr. Og þar af 53,7 mkr. vegna verkefnastýringar. Er ekki einmitt þarna vísbending um mikinn kostnaðarauka sem orðinn er vegna uppsagna á starfsfólki sviðsins og útvistunar upplýsingatækniþjónustunnar? Fulltrúi Flokks fólksins er að bíða svara við annarri fyrirspurn varðandi hversu mikið Þjónustu- og nýsköpunarsvið (ÞON) hefur greitt verktökum árið 2021 fyrir þá vinnu sem fastráðnir starfsmenn inntu af hendi áður. Annað sem kemur fram í þessu svari er að þrátt fyrir að ÞON hafi ekki enn tekist að innleiða að fullu upplýsingastjórnkerfið Hlöðuna sem sviðið byrjaði að leigja árið 2019, hefur mikill kostnaður verið að hrannast upp en sérstaka viðbótarheimild þurfti til að flýta fyrir innleiðingu og kostaði það 68.16 mkr. og fyrir skipulags- og byggingarfulltrúa var kostnaður 25.82 mkr. Einnig má benda á að innleiðing nýrrar Skipulagshandbókar sviðsins vekur upp spurningar um hvernig stöðu öryggismála er háttað á sviðinu eftir að öryggisfulltrúa sviðsins var sagt upp ásamt hátt í tíu öðrum í miðju Covid árið 2020.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 20. janúar 2022, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks um 9. mánaða uppgjör þjónustu- og nýsköpunarsviðs, sbr. 18. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 9. desember 2021. MSS21120169 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks þakkar fyrir svör við fyrirspurn sinni um innkaup fyrir miðlæga starfsemi Reykjavíkurborgar að upphæð 767 milljónir króna með svokölluðu „beinu sambandi“. Engu að síður er ástæða til að árétta mikilvægi þess að huga að öðrum leiðum í innkaupum, hvort sem upphæðir eru innan marka innkaupareglna borgarinnar eða ekki. Eins og sést á tölunum þá er um verulegar háar upphæðir að ræða og vel hugsanlegt að hægt sé að ná fram sparnaði í innkaupum ef valdar væru aðrar leiðir en svokallað „beint samband“ í innkaupum.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins er sammála þeirri gagnrýni sem fólgin er í fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins um bein innkaup og því hvort ekki sé leitað hagstæðustu tilboða hverju sinni. Eitt dæmi um þetta er sú spurning af hverju Þjónustu- og nýsköpunarsvið (ÞON) hafi til dæmis ekki þegið boð Ríkiskaupa um samstarf í útboði vegna Microsoft leyfa. ÞON bar fyrir sig eitthvað í þá átt að ríki og borg væru það ólík hvað leyfi varðar að ekki hafi verið talið hagræði fólgið í því. Fulltrúi Flokks fólksins á mjög erfitt með að trúa þeim skýringum. Það er ansi hæpið að Ríkiskaup hafi verið að bjóða til þess samstarfs ef svo væri raunin. Í svari ÞON er að finna upplýsingar um innkaup og fleira. Þar koma enn og aftur upp ákveðnar vísbendingar um að ekki sé allt með felldu hvað varðar fullyrðingar sviðsins um meintan sparnað vegna uppsagna starfsfólks og útvistunar upplýsingatækniþjónustu, kerfisvöktunar og annarrar innri tækniþjónustu. Enn og aftur ítrekar fulltrúi Flokks fólksins að sú skylda liggur hjá embættismönnum hins opinbera að vel sé farið með almannafé og ekki séu teknar ákvarðanir sem byggja á tískustraumum eða ráðgjöf einkafyrirtækja erlendis sem vel kunna að vera á skjön við þá skyldu.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks óskar eftir upplýsingum varðandi fjölda heimsókna á vefsvæði Reykjavíkurborgar. Annars vegar heildarfjölda heimsókna (fjöldi notenda) pr. mánuð, að meðaltali síðastliðna 12 mánuði. Og hins vegar fjölda heimsókna (fjöldi notenda) pr. mánuð, að síðum á erlendu tungumáli, að meðaltali síðastliðna 12 mánuði. Upplýsinganna er óskað í framhaldi af kynningu á nýju og endurbættu vefsvæði borgarinnar. Mikilvægt er að vefsvæði borgarinnar sé eftirsóknarverður miðill í upplýsingaleit borgarbúa um fjölbreytta þjónustu Reykjavíkurborgar. Þakkað er fyrir góða kynningu á nýjum vef borgarinnar. MSS22010320

  12. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands óskar eftir upplýsingum um hversu mörgum störfum í borginni er útvistað eða í verktöku? Hvernig skiptist það eftir starfssviðum? MSS22010321

  13. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins:

    Á fundi mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs 27.1 eru tvær kynningar. Önnur þeirra, um Verkefni Stafrænna leiðtoga eru 43 glærur hverri annarri tæknilegri. Á nánast hverjum fundi ÞON eru sambærilegar kynningar um stafrænar lausnir. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um kostnað (tímafjölda/laun og annan kostnað) kynningar eins og Verkefni Stafrænna leiðtoga ÞON. Hvað hafa kynningar ÞON árið 2021 kostað? Kynning sem hér er tekin dæmi um fluttu 8 manns. Lýst var löngum lista af snjalllausnum sem þau eru að vinna með ákveðnum sviðum. Flestar lausnir eru samt ekki komnar í gagnið og hafa ekki skilgreindar tímasetningar. Fulltrúi Flokks fólksins telur að sá tími sem fer í að setja saman kynningu af þessu tagi sé betur varið í að vinna að því að koma einhverjum af þessu lausnum í virkni og þá lausnum sem eru nauðsynlegar. Fulltrúi Flokks fólksins finnst vanta hér fókus. Það er einhvern veginn allt út um allt. Enn er beðið eftir nauðsynlegum lausnum sem sjá má nánast alls staðar annars staðar. Er ekki tímabært að fara að setja þær lausnir sem munu einfalda og liðka fyrir þjónustu borgarbúa í forgang, lausnir sem munu spara tíma og fé borgarinnar? Annað má bíða. MSS22010322. 

  14. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins:

    Fyrirspurnir um hlutverk og ábyrgð stafrænna leiðtoga og hvað af þeim verkefnum, sem telja tugi, eru komin í virkni? Í kynningu á stafrænum leiðtogum er allsendis óljóst hvaða hlutverk þeir hafa að gegna, hverjar eru þeirra skyldur og ábyrgð? Talin eru upp tugir verkefna sem lang flest eru enn hugarsmíð, sögð á tilraunastigi, eða í einhverju undirbúningsferli innleiðingar. Fulltrúi Flokks fólksins viðurkennir nú að hafa misst algerlega sjónar á þessum endalausu kynningum hverri annarri háfleygari. Sumt af þessu virðist bara vera hrein og klár gæluverkefni, endalaust mælaborð og snjalllausnir til skemmtunar. Spurt er um nákvæmari útskýringar á þessum verkefnum, gildi þeirra, vægi, og hvar í ferlinu þau eru stödd. Hvað af þessum rafrænum/stafrænu lausnum eru komnar í fulla virkni og farnar að skila tímasparnaði og sýna fram á hagkvæmi? Hvaða lausnir eru enn á tilraunastigi eða í þróunarfasa? Hvaða af þessum lausnum eru rétt ókomnar? Og hvaða raf/stafrænar lausnir, ef einhverjar, sem áttu að vera tilbúnar núna eru ekki fyrirsjáanlegar að komist í virkni á þessu ári? MSS22010323

Fundi slitið klukkan 16:02

Dóra Björt Guðjónsdóttir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
54._fundargerd_mannrettinda-_nyskopunar-_og_lydraedisrad_27._januar_2022.pdf