Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð - Fundur nr. 53

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð

Ár 2022, fimmtudaginn 13. janúar var haldinn 53. fundur, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð og hófst kl. 13:02. Fundinn sat Dóra Björt Guðjónsdóttir.  Eftirtaldir fulltrúar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Diljá Ámundadóttir, Ellen J. Calmon, Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, Anna Wojtynska, Kolbrún Baldursdóttir og Örn Þórðarson. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir og Óskar Jörgen Sandholt sat fundinn með fjarfundarbúnaði.

Guðrún Elsa Tryggvadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 22. desember 2021, um breytta samþykkt fyrir mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð. MSS21120197

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af 3. greininni en þar segir að mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð hafi umsjón með stafrænni umbreytingu. Auk þess skal mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð stuðla að nýsköpun, snjallvæðingu og skilvirkri nýtingu tækni í þágu stefnumörkunar borgarinnar. Ástæða áhyggna fulltrúa Flokks fólksins er sú gegndarlausa sóun á fjármagni í tilraunir og þróun ónauðsynlegra stafrænna verkefna nú þegar hart hefur verið í ári af ýmsum sökum. Margt af þeim lausnum sem eytt hefur verið fé í að gera tilraunir með eru til annars staðar í einhverri mynd sem hefði kannski mátt kaupa fyrir mun minna fé. Dæmi um verkefni sem hefðu mátt bíða eru alls kyns mælaborð, viðburðadagatal, kosningakort og sorphirðudagatal sem reyndar var til í einhverri mynd. Skort hefur á gagnrýna hugsun meirihlutans í Ráðinu þegar kemur að þjónustu- og nýsköpunarsviði. Ríkt hefur hóplyndi og meðvirkni í meirihlutanum. Hluti 10 milljarða til þjónustu- og nýsköpunarsviðs hefur verið eytt nánast án eftirlits og ekki hafa verið spurðar gagnrýnar spurningar um skilgreiningu, markmið og tilgang margra þessara verkefna. Allt sem kemur frá Þjónustu- og nýsköpunarsvið er samþykkt gagnrýnislaust af  meirihlutanum í Ráðinu og í borgarstjórn eins og hún leggur sig.

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fullyrðingar fulltrúa Flokks fólksins í þessari bókun eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Það er rangt að verið sé að gera svokallaðar tilraunir með lausnir sem séu til annars staðar í nothæfri mynd og sé hægt að kaupa. Það hefur ekki verið gert. Það er rangt að fjármagni því sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur til ráðstöfunar sé eytt nánast án eftirlits. Sviðið starfar eftir sömu reglum og önnur svið borgarinnar og er undir sama eftirliti og aðhaldi og þau. Það er einnig rangt að allt sem komi frá sviðinu sé samþykkt gagnrýnislaust af meirihluta borgarstjórnar. Verkefni sviðsins fara í sömu rýni og önnur verkefni hjá borginni. Að lokum er það þannig að þau verkefni sem talin eru upp í bókuninni og sagt að hefðu mátt bíða hafa verið framkvæmd vegna þess að eftirspurn hefur verið eftir þeim frá notendum þjónustu borgarinnar eða sviðum hennar.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins vildi óska að það væri rétt, að þetta ætti sér ekki stoð í raunveruleikanum. Fljótlega í upphafi þessa kjörtímabils kom í ljós að staða stafrænna mála í borginni væri í miklum ólestri. Settar voru í kjölfarið stórar upphæðir í verkefnin og tilraunir á hinum ýmsu hófst, hið fræga Gróðurhús og allt það sem ekki þarf að rekja hér. Hverju hefur þetta svo skilað? Örfá verkefni eru orðin virk en jafnvel ekki fullvirk. Allt of miklu fjármagni hefur verið eytt í verkefni sem engin þarfnast nauðsynlega nú. Fulltrúi Flokks fólksins hefur aldrei séð neitt eftirlit í gangi með þessum málum. Öllu er jánkað og getur sviðið (ÞON) látið sér detta hvað eina í hug að gera og við því er bara klappað. Gagnrýni frá Flokki fólksins hefur verið illa tekið og hefur fulltrúinn hlotið bágt fyrir. Vel kann að vera að farið sé að horfa með smá gagnrýni á þessi mál nú. En þenslan segir sitt, afurðir eru fáar og einhvern veginn er allt í einhvers konar fasa. Nú er öðrum sviðum kennt um að vera að biðja um einhvern óþarfa. Hvar er forgangsröðun meirihlutans í þessum málum? Hér er verið að sýsla með fé borgarbúa. Það er alveg eins og það gleymist þegar kemur að þessum málaflokki.

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á verkefninu Nýsköpunarvika 2022. MSS21120156 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð þakkar góða kynningu á Nýsköpunarvikunni og telur hana spennandi vettvang til að ná utan um þau fjölmörgu nýsköpunarverkefni sem eiga sér stað í borginni og tækifæri til að miðla þeim til íbúa, atvinnulífsins, fjárfesta og frumkvöðla hér á landi sem erlendis. Nýsköpunarvikan styður við sýnileika nýsköpunar þvert á fyrirtæki og atvinnugreinar og styrkir borgina sem atvinnusvæði þar sem fjölbreyttar lausnir og hugmyndir fá að blómstra okkur öllum í hag.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins er hlynntur svona viðburði og telur hann af því góða svo því sé haldið til haga. En Reykjavík á ekki að vera að setja almannafé í nýsköpun eða viðburði henni tengdri, einkafyrirtæki eiga að leiða þann vagn.

    Guðný María Jóhannsdóttir og Melkorka Sigríður Magnúsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 8. desember 2021, um tillögu fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um að stytta afgreiðslutíma þeirra tillagna sem ungmenni leggja fram á árlegum borgarstjórnarfundi og að upplýsingar um úrvinnsluferlið verði aðgengilegar. R21060145

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar tillögu fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um að stytta afgreiðslutíma tillagna þeirra sem ungmenni leggja fram á árlegum fundi borgarstjórnar og að upplýsingar og úrvinnsluferlið verði aðgengilegar. Tafir á afgreiðslu mála og ógegnsæi í úrvinnsluferli borgarinnar er stórt vandamál nánast hvert sem litið er innan borgarkerfisins. Þó er þetta einmitt eitt af því sem þessi meirihluti lofaði að laga svo um munaði. Þvert á móti tekur það heila eilífð fyrir svið/nefndir  Reykjavíkurborgar að afgreiða og vinna tillögur þ.m.t. tillögur minnihlutafulltrúa borgarstjórnar. Dæmi eru um að meira en eitt ár og jafnvel eitt og hálft ár hafi liðið frá því að tillaga er lögð fram og þar til hún kemur til afgreiðslu á fundi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur skilning á að þetta taki einhvern tíma enda mikið af málum en heilt ár og meira er of mikið. Þá hafa mál oft misst marks. Vonandi mun afgreiðslutími almennt séð styttast, hvaðan svo sem þær eru að koma, frá ungmennaráðum, borgarbúum eða kjörnum fulltrúum minnihlutans.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram tillaga og greinargerð stýrihóps um innleiðingu íbúaráða dags. desember 2021 . R19100342 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tilraunaverkefni um nýtt fyrirkomulag íbúaráða hefur verið starfrækt síðan 2. maí 2019 þegar endurskoðað fyrirkomulag um íbúaráð var samþykkt í borgarstjórn þar sem íbúaráðin tóku við af hverfisráðunum með umfangsmiklum breytingum sem unnar voru eftir kosningar 2018 og meðal annars mun betri tengingu við grasrót íbúa í hverfum, slembivöldum fulltrúum og fulltrúum grasrótarsamtaka í stað þess að skipa alla fulltrúa í gegnum pólitíska flokka eins og áður var. Hlutverk stýrihóps um innleiðingu nýrra íbúaráða var að fylgja eftir innleiðingu ráðanna og gera tillögur að næstu skrefum til framtíðar. Samráðsferillinn fól í sér, auk opinna funda í öllum hverfum borgarinnar við vinnslu núverandi fyrirkomulags, tvær umferðir af fundum fulltrúa stýrihópsins með öllum íbúaráðum Reykjavíkur auk fleiri funda með einstökum ráðum um sértæk umfjöllunarefni, fundi með starfsfólki Reykjavíkurborgar frá öllum sviðum sem best þekkir til auk opins umsagnarferils og umsagnarferils innan fagráða og nefnda Reykjavíkurborgar. Markmiðið með þessum breytingum er meðal annars að gefa íbúum hverfanna meiri aðkomu að ákvarðanatöku er varðar hverfin og teljum við að með þessum breytingum séum við á réttri leið. Stýrihópnum er þakkað fyrir mjög flotta vinnu við þetta framtíðarfyrirkomulag sem lagt er til þar sem búið er að sníða af annmarka sem uppgötvuðust í tilraunaverkefninu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Margar breytingar sem lagðar eru til eru góðar en ná kannski ekki nógu langt. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bókað um mikilvægi þess að öll íbúaráðin séu framhandleggur íbúa hverfisins inn í „kerfið“ og borgarstjórn og gæti þess ávallt að rödd fólksins heyrist. Þetta hefur reyndar ekki verið upplifun af íbúaráðum sem eru jú reyndar afar misjöfn. Stundum hefur þurft að berjast fyrir að koma máli sem brennur á íbúum á dagskrá íbúaráðs. Þetta mátti sjá með mál eins og 3ja áfanga Arnarnesvegar. Ítrekað var óskað eftir að íbúaráð Breiðholts fjallaði um málið. Þar leit svo út sem formaðurinn reyndi  hreinlega að hindra að málið kæmist á dagskrá. Sjá mátti í færslu formannsins að málið væri komið góðan farveg. Lagning Arnarnesvegar sem kljúfa mun Vatnsendahvarf, aðgerð sem byggð er á 18 ára umhverfismati hefur verið mótmælt harðlega af mörg hundruð manns, af þeim sem vilja standa vörð um náttúru og dýralíf og vilja ekki mengandi hraðbraut ofan í Vetrargarðinn, leiksvæði barna. Fulltrúi Flokks fólksins hefur stundum lýst íbúaráðum eins og smærri útgáfu af borgarstjórn þar sem meirihlutinn ræður umræðunni og afgreiðslu mála. Á þessum vettvangi á að ræða mál í þaula og  forðast allt hóplyndi og meðvirkni. Íbúðaráðin eru ekki saumaklúbbar.

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning Strætó b.s um verklag vegna öryggisbrests á netkerfi. MSS22010125 

    Jóhannes Svavar Rúnarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  6. Fram fer kynning á niðurstöðum kosninga í verkefninu Hverfið mitt 2021. R20050238 

    Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lýðræðisverkefnið Hverfið mitt hefur gengið í endurnýjun lífdaga á vettvangi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs á kjörtímabilinu og jákvæðar breytingar á verkefninu virðast vera að skila árangri og auknum áhuga. Kosningaþátttakan var haustið 2021 16,37% og tók stökk frá 12,55% frá síðustu kosningum árið 2019 sem er hækkun um rúmlega 30% sem getur talist umtalsverð. Þátttakan hefur verið að aukast síðustu ár en aldrei jafn mikið og að þessu sinni þar sem aukningin er nærri tvöföld frá mestu hækkun sem áður hefur átt sér stað. Kosningaþátttakan jókst í öllum hverfum, er jöfn eftir aldri sem er ánægjulegt. Þakkar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð fyrir gott og öflugt utanumhald og metnað starfsfólks í þágu verkefnisins sem og fyrir jákvæðar viðtökur íbúa.

    Eiríkur Búi Halldórsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

  7. Lögð fram drög að umsögn mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs dags. 10. janúar 2022, um atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar til 2030. R20120043
    Samþykkt.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tekið er undir allar stoðir í drögunum. Stefna sem þessi þarf að rúma alla, alla flóru fólks án tillits til aldurs, menntunar, reynslu, fötlunar o.s.frv. Við erum fjölmenningarsamfélag. Tæknibylting er boðin velkomin en tækni kemur aldrei í staðinn fyrir mannlega hugsun og tilfinningar. Tækni er aðeins hjálpartæki í þjónustu mannsins. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á að halda öllum samskiptarásum opnum og stíga af skynsemi til jarðar í þessu sem öðru. Þjónusta Reykjavíkurborgar á að vera fyrir alla, ekki aðeins þá sem velja tæknileiðin til að nálgast þjónustuna. Það er dágóður hópur sem finnst  ógegnsæi ríkja í þjónustu við fólk og upplýsingaflæði slakt. Það eru ekki allir tæknivæddir í Reykjavík þótt flestir séu komnir með farsíma. Fulltrúi Flokks fólksins telur að í umsögninni þurfi einnig að ávarpa ákveðna tortryggni og vantraust sem ríkir milli atvinnulífs og borgar. Horfa þarf á þetta með lausnir í huga.  Það eru einnig frekar fáar atvinnustoðir í borginni og óljós ímynd borgarinnar þegar kemur að atvinnu. Aðrir þættir sem huga þarf að eru kolefnisspor og ójöfnuður sem fer vaxandi.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar dags. 11. janúar 2022, um drög að hollustuháttarreglugerð nr. 2/2022. MSS22010132
    Samþykkt að fela formanni Dóru Björt Guðjónsdóttur að gera umsögn fyrir hönd mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, í samráði við fulltrúa ráðsins.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Umsögnin er góð, hún snýst að mestu um eitt málefni, kynrænt sjálfræði. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir mikilvægi þess að tekið sé mið af veruleika trans og intersex fólks sem og nýlegra laga við endurskoðun reglugerða og skipulags samfélagsins og sannarlega er hægt að gera betur. Umsögnin hefði mátt dekka fleiri málefni, af nógu er að taka og hefur mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð kjörið tækifæri í umsögn sem þessari að ávarpa fleiri mál og láta til sín taka í málum sem þarf að bæta og sem lúta að mannréttinda- og lýðræðismálum.

    -    Kl. 15.35 víkur Óskar Jörgen Sandholt af fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  9. Lagðar fram greinagerðir vegna styrkja mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. MSS22010113

    a) IWW - Hidden people
    b) Indíana Rós Ægisdóttir – Kynfræðsla fyrir foreldra af erlendum uppruna
    c) Grásteinshólmi - Hinsegin Reykjavík 

  10.     Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 15. desember 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fjárfestingarverkefni þjónustu- og nýsköpunarsviðs, sbr, 13. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 14. október 2021 – tilv. R21030087. FAS21120132

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sveitarfélögin eru annar hluti íslenskrar stjórnsýslu. Sökum þess gilda sértækar reglur um reikningsskil sveitarfélaga. Þær koma m.a. fram í ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 (VII kafli) og reglugerð 1212/2015. Ástæða þess að settar eru sérstakar reglur um reikningsskil sveitarfélaga og framkvæmd þeirra er m.a. sú krafa ríkisins að reikningsskil þeirra séu samanburðarhæf bæði milli ára og milli sveitarfélaga. Það er bæði forsenda þess að hægt sé að greina fjármál einstakra sveitarfélaga og hvernig þau þróast í heildina tekið. Það er í samræmi við samsvarandi reglur í öðrum norrænum ríkjum. Því er grundvallaratriði að einstök sveitarfélög fari eftir gildandi reglum um reikningsskil sveitarfélaga. Í reglugerð 1212/2015 kemur fram í 8. gr. að „Eignasjóður hefur með höndum umsýslu varanlegra rekstrarfjármuna..“ Varanlegir rekstrarfjármunir eru skilgreindir sem fasteignir, land, gatnakerfi, áhöld og tæki. Ekkert kemur fram í reglugerð 1212/2015 um að færa megi óefnislegar eignir eða kostnað vegna þeirra í eignasjóð. Því er ekki hægt annað en að álykta að það sé óheimilt. Engu máli skiptir í þessu sambandi hvaða reglur gilda hjá ríkinu í þessum efnum. Með hliðsjón af framansögðu mótmælir Fulltrúi Flokks fólksins því að þróunarkostnaður þjónustu- og nýsköpunarsviðs sé eignfærður hjá eignasjóði Reykjavíkurborgar á þeim forsendum að það stangast á við gildandi reikningsskilareglur sveitarfélaga.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins:

    Fyrirspurnir í framhaldi af svari sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hvernig stendur á því að 10 milljarðarnir eru eignfærsluverkefni sem ekki kemur fram í rekstri fyrr en byrjað er að afskrifa? 1.  Eftir hvaða reglum á að færa óefnislegar eignir í eignasjóð þegar ný aðferðafræði, sem hefur í för með sér sparnað miðað við eldri aðferðafræði, leysir aðra eldri af hólmi? 2. Eftir hvaða reglum á að færa óefnislegar eignir í eignasjóð þegar verið er að taka upp nýja þjónustu / ný verkefni? 3. Hvaða reglur eiga að gilda í þessum efnum varðandi kostnað við rannsóknir og þróunarvinnu? 4. Hvað má afskriftartími óefnislegra eigna vera að hámarki? 5. Getur afskriftatíminn verið mismunandi milli einstakra flokka óefnislegra eigna? 6. Þarf mismunandi reglur varðandi óefnislegar eignir sem hafa verið þróaðar innan viðkomandi rekstrareiningar og þeirra sem fengnar eru frá utanaðkomandi aðilum? 7. Hvaða reglur eiga að gilda í þessu sambandi um eignir sem geta verið byggðar upp af bæði varanlegum eignum og óefnislegum eignum? tilv. R21030087. FAS21120132

  12. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins:

    Fulltrúi  Flokks fólksins vill vísa í orð borgarstjóra í Kastljósþætti 8. desember sl. en þar segir hann að eitt af viðbrögðum Reykjavíkurborgar í miðjum COVID faraldri árið 2020, hafi verið að standa vörð um störf borgarstarfsmanna. Þetta er ekki rétt. Hér má minna á að hátt í tíu starfsmönnum Þjónustu- og nýsköpunarsviðs var sagt upp í miðjum COVID faraldri árið 2020. Um var að ræða fastráðna starfsmenn sem margir hverjir höfðu langan starfsaldur. Fulltrúi Flokks fólksins finnst það hvorki rétt né siðlegt af borgarstjóra að koma fram sem einhverskonar verndari starfa borgarstarfsmanna á einum mestu atvinnuleysistímum síðari ára í ljósi ofangreindra uppsagna svo stórs hóps. Það er alveg ljóst að það er hann ekki. Þess vegna óskar borgarfulltrúi Flokks fólksins eftir svörum frá Mannauðsstjóra Reykjavíkurborgar og mannauðsfulltrúum sviða borgarinnar hvað mörgum starfsmönnum Reykjavíkurborgar hefur verið sagt upp undanfarin 3 ár, á hverri skrifstofu og sviði borgarinnar hvert ár fyrir sig og af hvaða ástæðum. MSS22010163

        • Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins:

          Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að vita hver sé heildarkostnaður borgarinn við Nýsköpunarvikuna? Fulltrúi Flokks fólksins er annars hlynntur svona viðburði og telur hann af því góða svo því sé haldið til haga. En Reykjavík á ekki að vera að setja almannafé í nýsköpun eða viðburði henni tengdri, einkafyrirtæki eiga að leiða þann vagn. Þess vegna er fulltrúi Flokks fólksins forvitinn að vita um allan kostnað. MSS21120156

        • Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins:

          Fulltrúi Flokks fólksins telur opið bókhald Reykjavíkur mikilvægt. Ýmsir annmarkar eru samt á framsetningunni í núverandi mynd. Aðeins er hægt að skoða heildartölur viðskipta en ekki afrit af reikningunum sjálfum. Þetta er slæmt því það skiptir máli hvað er verið að kaupa fyrir almannafé. Ríkið birtir á vefnum opnir reikningar.is skýringar við hvern og einn reikning ásamt heildarfjárhæð en Reykjavík birtir aðeins heildarfjárhæð viðskipta við hvert og eitt fyrirtæki. Flokkur fólksins hefur ítrekað gagnrýnt þau miklu ráðgjafarkaup sem Þjónustu- og nýsköpunarsvið (ÞON) hefur verið að kaupa í næstum áratug. Þarna eru að finna allskyns ráðgjafarfyrirtæki innlend sem erlend og miklir peningar greiddir til Gartner Group á Írlandi sem dæmi. Sú þróun hefur verið að ÞON segi upp reyndum starfsmönnum og ráði annaðhvort inn yngra fólk eða útvisti verkefnum til einkaaðila. Því vill fulltrúi Flokks fólksins fá að vita hversu mikið af útgjöldum ÞON árið 2021 fóru til einkafyrirtækja vegna útvistunar verkefna sem áður voru unnin af starfsmönnum ÞON? Óskað er eftir að fá nákvæmar skýringar á viðskiptum ÞON við félagið I Ráðgjöf slf., í ljósi þess að félagið virðist nátengt sviðsstjóra ÞON. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá aðgang að reikningum sem Reykjavík hefur greitt félaginu frá árinu 2018; hvað var keypt og fyrir hvað mikið? MSS22010164

        Fundi slitið klukkan 16:05

        Dóra Björt Guðjónsdóttir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

        PDF útgáfa fundargerðar
        53._fundargerd_mannrettinda-_nyskopunar-_og_lydraedisrad_13._januar_2022.pdf