Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð - Fundur nr. 45

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð

Ár 2021, fimmtudaginn 9. september var haldinn 45. fundur, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í fjarfundi í Ráðhúsi og hófst kl. 13.00. Fundinn sátu: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aron Leví Beck, Diljá Ámundadóttir, Daníel Örn Arnarsson og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Ellen J. Calmon og Örn Þórðarson. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir og Karen María Jónsdóttir sat fundinn með fjarfundarbúnaði.

Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á kynjajafnrétti í íþrótta- og tómstundastarfi og hlutverki Reykjavíkurborgar. R21090045 

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúum íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) er þakkað fyrir áhugaverða kynningu á þeirri góðu vinnu sem miðar að auknu jafnrétti í íþróttum í Reykjavík þar sem markmiðið er einnig að sporna gegn hverslags ofbeldi. Kolbrúnu Hrund frá Jafnréttiskóla Reykjavíkurborgar og Halldóru Dýrleifar Gunnarsdóttur jafnréttissérfræðingi á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu er einnig þakkað fyrri gagnlegar umræður. Í samningi íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur, ÍBR og íþróttafélaga er lögð áhersla á að ÍBR og íþróttafélögin skuli sjá til þess að öll njóti jafnra tækifæra til að stunda og starfa við íþróttir og að öryggi og velferð iðkenda og starfsfólks séu tryggð. Það er því okkar hlutverk sem kjörnir fulltrúar að fylgja því eftir að slíkar áætlanir og stefnur séu virkar, hagnýtar og gagnlegar fyrir alla þá sem þurfa á því að halda. Íþróttahreyfingin hefur lengi státað sig af því að ástund hvers konar íþrótta sé besta forvörnin gegn áhættuhegðun barna og ungmenna. Það er því mikilvægt að öll taki höndum saman og vinni gegn misrétti og hverskonar ofbeldi í íþróttasamfélaginu öllu en við teljum það í raun samfélagslegt verkefni sem ætti að vera byggt á ríkulegu samstarfi og samtali íþróttafélaga, sveitarfélaga og ríkis auk annarra hagaðila. Það er okkar von að jafnrétti og ofbeldisleysi verði leiðin að sigri.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks þakkar góða kynningu á starfi íþróttabandalags Reykjavíkur varðandi jafnréttis- og mannréttindamál í íþrótta- og tómstundastarfi í borginni. Greinilegt er að þessi mál eru tekin alvarlega og föstum tökum hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, vandaðar úttektir ásamt öflugri fræðslu og upplýsingagjöf í málaflokkunum bera vitni um það og eru til fyrirmyndar og eftirbreytni í öllu íþrótta- og tómstundastarfi í borginni.

    -    Kl. 13.51 tekur Óskar J. Sandholt sæti á fundinum og Karen María Jónsdóttir aftengist fjarfundarbúnaði. 

    Frímann Ari Ferdinandsson, Birta Björnsdóttir og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. Jafnframt tekur Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram minnisblað mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 2. september 2021, um skýrslu rússneska utanríkisráðuneytisins um stöðu mannréttinda í heiminum, dags. 9. júlí 2021. R21090043 

    Guðrún Elsa Tryggvadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram greinargerð ódags. vegna styrk frá mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði fyrir verkefnið Skrölt III. R21010126

  4. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 3. september 2021, um skýrslu Nordic Smart City Roadmap dags. 21. september 2021. R21090040

    Halla Helgadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. ágúst 2021, um ársskýrslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2020, dags. ágúst 2021. R21090039 

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihluta í ráðinu telja ársskýrslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs gefa góða mynd af rekstri ársins sem hefur einkennst af skjótum viðbrögðum meðal annars vegna kröfu samfélagsins, og Reykjavíkurborgar sem vinnustaðar, um hröðun í rafrænum ferlum og vinnubrögðum sökum C19. Nýlega fékk ráðið kynningu á því hvernig verkefnum er forgangsraðað á sviðinu og er það gert með Fylkinu. Fylkið er ferli þar sem verkefni fá mat og stigagjöf út frá ákveðnum markmiðum þannig að tryggt sé að brýnustu verkefnin fái framgang sem fyrst. Þá er ljóst að það hafa verið ófyrirséðar og óumflýjanlegar breytingar á ýmsum verkefnum og störfum á árinu vegna heimsfaraldursins og brugðist hefur verið við þeim utanaðkomandi aðstæðum á skilvirkan og faglegan máta í annars fordæmalausum aðstæðum.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Gríðarlegu fjármagni eða 10 milljörðum á þremur árum er sett í stafræna umbreytingu. Þær lausnir sem þjónustu- og nýsköpunarsvið kynnir eru nú margar þegar til. Það sem er áberandi við lestur skýrslunnar er að erfitt er að fá yfirsýn yfir þær áherslur og þá forgangsröðun verkefna sem unnið er eftir á sviðinu. Svo virðist að unnið sé að endurskipan á fjölmörgum þáttum sem varða gagnavörslu, meðferð gagna og úrvinnslu gagna í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar án þess að ljóst sé hver sé forgangsröðun verkefna, hvaða verkefni séu mikilvægust og hvert sé eðlilegt og nauðsynlegt vinnulag svo sett markmið náist. Það er ekki óeðlilegt að kvikni á viðvörunarljósum þegar það er gefið út að verkefni Þróunar- og nýsköpunarsviðs séu einstök á heimsvísu. Hvaðan koma upplýsingar um slíkt? Þegar verkefni skipulagseiningar vaxa hratt á skömmum tíma þá er hætta á ferðum. Reynslan hefur sannað það. Líkur eru á að yfirsýn yfir verkefnastöðu minnki, mistök eigi sér stað og meðferð fjármuna verði ábótavant. Því er mikilvægt að staða verkefna skrifstofunnar séu tekin út. Tekin sé ákvörðun um hverjum eigi að ljúka áður en hafist er handa við önnur. Eftirlit sé haft með framgangi verkefna og kjörnum fulltrúum gerð grein fyrir framgangi þeirra eftir ákveðnu skipulagi. 

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 3. september 2021, um árshlutauppgjör - sex mánaða uppgjör þjónustu- og nýsköpunarsviðs. R21090041

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í reikningsyfirliti því sem lagt hefur verið fram fyrir rekstur Þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborgar fyrstu sex mánuði ársins 2021 kemur fram að laun fara um 18% fram úr áætlun og annar rekstrarkostnaður hefur farið 7,3% fram úr áætlun. Samtals fór rekstur skrifstofunnar 211 m.kr. fram úr áætlun eða um 11,5%. Mikilvægt er að gerð sé glögg grein fyrir hver er ástæða fyrir þessari framúrkeyrslu. Voru samþykktir viðaukar vegna hennar. Ekki er hægt að kenna Covid 19 um þessa framúrkeyrslu þar sem allar forsendur vegna hennar lágu fyrir við gerð fjárhagsáætlunar, þar á meðal að það þyrfti að leggja í aukakostnað við þrif. Þar sem tekjur stofunnar  byggja að mestu leyti á þjónustu við aðrar rekstrareiningar borgarinnar þá er ekki um að ræða tekjur sem skila sér inn í borgarkerfið, heldur er um að ræða millifærslur milli einstakra rekstrareininga hjá borginni. Eins og áður hefur komið fram þá er mikilvægt að yfirsýn sé til staðar um rekstur skrifstofunnar þar sem mikil hætta er á að yfirsýn skorti þegar starfsemi hennar vex mikið á skömmum tíma.

    Þorgeir Hafsteinn Jónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 19. maí 2021, um högun stafrænnar vegferðar þjónustu- og nýsköpunarsviðs. R20080125 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Nú hafa flestir borgarfulltrúar og starfsmenn þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON) verið á ráðstefnunni Tengjum ríkið þar sem fram kom skýrt að sveitarfélög þurfa ekki að vera að vasast í að finna upp það sem nú þegar er komið í fulla virkni annars staðar. Reykjavíkurborg hefði getað sparað háar upphæðir með því að leita eftir samstarfi við Stafræna Ísland, island.is sem heldur úti um 240 Mínar síður fyrir hin og þessi fyrirtækin og stofnanir. Reykjavíkurborg hefur valið að eyða frekar milljörðum í að byrja á byrjuninni, fara í tilraunafasa til þess eins að geta sagt “við gerðum þetta sjálf”. Ekki er hægt að segja að verið sé að hugsa í hagkvæmum lausnum, hvaðan peningarnir koma og hvar þeir væru betur nýttir. Eins og fram kemur í kynningu hefur ÞON farið í “að endurhugsa ferli frá upphafi til enda. Af hverju þarf að endurhugsa eitthvað sem búið er að hugsa og þróa af fjölmörgum. Staðreyndin er sú að notendur í Reykjavíkurborg eru ekkert öðruvísi en allir aðrir notendur þjónustu hins opinbera hvar sem er í heiminum nánast. Þess vegna þarf ekki að reyna að finna upp eitthvað sérstakt notendaþjónustu hjól á skrifstofum Þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

    Kristín Berg Bergvinsdóttir og Arna Ýr Sævarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, um að tekin verði á dagskrá málefni barna, eldri fólks og öryrkja, sbr. 10. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 12. ágúst 2021. R21080072
    Samþykkt að vísa tillögunni frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata, gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. 
    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að tekin verði markvisst og oftar á dagskrá í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði málefni barna, eldra fólks og öryrkja en málefni þessara hópa eru sjaldan til umræðu í ráðinu. Tillögunni er vísað frá á þeim rökum að „það er ekki hægt að samþykkja hana þótt vilji sé til“ Fulltrúi Flokks fólksins hefur átt sæti í ráðinu á þessu kjörtímabili og þykir þau mál sem þar hafa verið til umræðu oft ansi einsleit. Mannréttindi varða okkur öll og huga þarf að mannréttindum og lýðræði í öllum hópum. Huga má meira að fátæku fólki í tengslum við mannréttindi en fátækir er stækkandi hópur. Nefna má öryrkja sem þola mega miklar skerðingar og ná þeir iðulega ekki endum saman. Sveitarfélagi er sem dæmi ekki skylt að fylgja almannatryggingarlögum þegar kemur að skerðingum og getur því gert mikið til að bæta kjör þeirra með því að taka sjálfstæða ákvörðun í þeim efnum. Skoða þarf mannréttindaþáttinn hjá börnum sem glíma við röskun eða fötlun af einhverju tagi og dæmi eru um að sumum er gert að stunda nám þar sem þau eru ekki meðal jafningja vegna skorts á sértæku skólaúrræði. Svona mætti lengi telja.

    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar ráðsins bera ábyrgð á að setja fyrir tillögur, ráðið hefur ekki vilja óháð því sem annað hvort þjónustu- og nýsköpunarsvið eða mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa leggja til eða sem fulltrúar ráðsins leggja til. Ráðið þannig hefur ekki sameiginlegan vilja sem hægt er að móta með slíkum tillögum. Ber þó að nefna að mál þessara hópa hafa verið tekin fyrir í ráðinu.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks tekur undir með tillögu Flokks fólksins varðandi það að taka oftar og með markvissari hætti málefni barna, eldra fólks og öryrkja á fundum ráðsins. Þessi mál og umræða um þau þurfa að hafa meira vægi sem dagskrárliðir í mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráði en kynningar á innra starfi borgarinnar. Þessu má breyta og á að breyta og því styð ég tillöguna.  

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 6. ágúst 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um mannauðsmál, sbr. 9. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 8. apríl 2021. R21040036

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 2. september 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um þróun á hönnunarkerfi Reykjavíkurborgar og heildarkostnað, sbr. 73. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. júní 2021. R21050301

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður haft orð á því  hvort þau stafrænu kerfi sem borgin þarf að nota sé ekki hægt að finna annars staðar sem uppfylla kröfur Reykjavíkurborgar. Ekki hefur komið fram í svörum hvort þetta hafi verið skoðað áður og borið saman við að gera þetta allt frá grunni með öllu tilheyrandi þegar fara á út í að þróa  þróa eða smíða nýtt kerfi. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þjónustu- og nýsköpunarsvið eigi að nýta sér það sem nú þegar er til í stafrænum lausnum. Ekki þarf að leita langt yfir skammt heldur eins og fram kom á ráðstefnunni Tengjum Ríkið að Stafræna Ísland er einmitt að þjónusta sveitarfélög frá a- ö í þessum efnum og væri með því hægt að spara háar fjárhæðir. Áður hefur því verið velt upp af Flokki fólksins hvort það hefði verið skynsamlegra og hentugra fyrir borgina að kaupa tilbúið hönnunarkerfi í stað þess að eyða miklum tíma og fjármagni í uppfinningu, þróun og vinnu við að smíða sitt eigið kerfi. Nú hefur komið fram í gögnum að sviðsstjórinn vill vera fremstur, mestur og betur á þessu sviði og er engu til sparað svo hann geti fengið þá ósk sína uppfyllta.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 21. júní 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um verkefnið Gróðurhús, sbr. 10. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 8. apríl 2021. R21040037

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
        
    Borgarfulltrúi Flokks fólksins ítrekar að útsvarsgreiðendur í Reykjavík eiga rétt á að fá að vita á hvaða leið þetta Gróðurhús Þjónustu- og nýsköpunarsviðs er og hver verður endapunktur þessarar hugmyndavinnustofu sem gengið hefur nú þegar í nokkur ár. Segir í gögnum að Gróðurhúsið eigi að vera vinnustofa í þjónustuhönnun og er ætlað að vera miðstöð frjórra hugmynda. Því er eðlilegt að kallað er eftir upplýsingum um þarfagreiningu og markmiðssetningu fyrir verkefnið.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð í samvinnu við velferðarráð, skóla- og frístundaráð framkvæmi úttekt á fátækt í Reykjavík. Vegna efnahagslegra áhrifa Covid má leiða líkur að því að fátækt hafi aukist meðal borgarbúa. Í ljósi þess þarf að kortleggja fjölda fólks sem lifir undir fátæktarmörkum og greina þarfir þessa hóps og hvort sú þjónusta sem borgin veitir sé að mæta þörfum þessa hóps og hvort þörf er á úrbótum.

    Greinagerð fylgir tillögunni. R21090078
    Frestað.

    Fylgigögn

  13.  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins spyr um Gróðurhúsið þar sem enn hefur ekki borist skýr svör: Hvernig var þarfagreining og markmiðasetning sett upp fyrir verkefnið? Hver hefur ávinningur þess orðið í raunverulegum verkefnum eða breytingum á verkferlum? Hversu langt inn í framtíðina á að halda þessum tilraunum áfram? Hversu miklum fjármunum hefur sviðið áætlað að setja í þetta verkefni? R21040037

  14.  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um kostnað á prentaðri útgáfu Ársskýrslu Þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2020. Hvað var skýrslan prentuð í mörgum eintökum? Óskað er eftir sundurliðun á kostnaði. Tekið er eftir að pappír skýrslunnar er hágæða pappír. Var það nauðsynlegt. Fram kemur hjá sviðsstjóra að hann hafi ekki skrifað þessa skýrslu nema formálann. Hann er engu að síður skráður ábyrgur fyrir skýrslunni. Fulltrúi Flokks fólksins er sakaður um að festa sig í smáatriðum og vera með ómaklega gagnrýni á ársskýrsluna, upplýsingar sem fram koma í ársskýrslu sem kalla fram enn frekari spurningar og vangaveltur og sviðsstjórann. Fulltrúi Flokks fólksins er kjörinn til ábyrgðar og finnst að í mörgu tilliti er ekki verið að fara vel með fjármuni borgarbúa, né virðist gætt að sparnaði  eða nauðsynlegt aðhald viðhaft á sama tíma og  svið eru ekki að geta veitt lögbundna nauðsynlega þjónustu m.a. til barna. R21090039  

  15. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fram kemur í gögnum um árshlutauppgjör og í ársskýrslu að heildarfjárfesting sviðsins var 1.251 m.kr. eða 1.2 milljarðar. Umræddar fjárfestingar skiptast u.þ.b. til helminga milli nýrra upplýsingakerfa og fjárfestinga í upplýsingatækni. Í því sambandi vill fulltrúi Flokks fólksins spyrja: Hvaða upplýsingakerfi voru keypt? Hvað kostaði hvert upplýsingakerfi? Af hverjum var hvert upplýsingakerfi keypt? Var viðhaft útboð á fyrrgreindum upplýsingakerfum? Voru fleiri valkostir fyrir hendi í hverju tilviki? Hafa öll fyrrgreind upplýsingakerfi verið tekin í notkun? Í hverju var fjárfest í upplýsingatækni? Sundurliðun á kostnaði við hvert kerfi? Af hverjum voru fyrrgreind kerfi keypt? Hefur sú upplýsingatækni sem fjárfest var í verið tekin í notkun? R21090041

    -    Kl. 15.40 víkja Diljá Ámundadóttir, Aron Leví Beck og Daníel Örn Arnarsson af fundinum. 

Fundi slitið klukkan 15:41

Dóra Björt Guðjónsdóttir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
mnl_0909.pdf