Fundur nr. 5527 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 5527

Fundur nr. 5527

Borgarráð

Ár 2018, fimmtudaginn 6. desember, var haldinn 5527. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9:03. Viðstödd voru auk borgarstjóra, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Ólöf Örvarsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Óli Jón Hertervig, Pétur Ólafsson og Linda Sif Sigurðardóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

 1. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 17. og 23. október og 7. nóvember 2018. R18010031 

  Kl. 9:06 tekur Dóra Björt Guðjónsdóttir sæti á fundinum.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir fundargerðinni frá 17. október:

  Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við fundargerðir endurskoðunarnefndar Reykjavíkur. Margar athugasemdir eru gerðar sem þarfnast ítarlegrar skoðunar borgarráðs. Fram kemur að lagt er til að Deloitte hætti að vera innri endurskoðandi Strætó bs. og skýra þarf hvers vegna umsögn frá 11. febrúar 2015 hafi ekki verið fylgt eftir. Fyrst núna er lagt til að fulltrúar endurskoðunarnefndar fari á fund Strætó og geri grein fyrir niðurstöðum nefndarinnar. Athugasemdir eru gerðar við samskipti endurskoðunarnefndarinnar og Sorpu bs. sem lýsa má sem svo að þau samskipti hafi ekki verið með besta móti. Alvarlegar athugasemdir eru gerðar við úrbætur sem á hefur skort sem fyrirhugaðar voru hjá Félagsbústöðum. Svo virðist að málið sé alvarlegt því stjórnarformaður og starfandi forstjóri Félagsbústaða á að boða á fund endurskoðunarnefndar. Einnig er gerð athugasemd við framkvæmdakostnað í tengslum við úttekt á Nauthólsvegi 100 (bragginn) og úttekt um útboð og innkaup vegna fjögurra verkefna innan borgarinnar. Upplýsa verður hvaða fjögur verkefni er um að ræða. Öllum þessum spurningum verður að svara og óskað er að endurskoðunarnefnd Reykjavíkur komi á næsta fund borgarráðs.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Því er hafnað að fundargerðir endurskoðunarnefndar kalli á athugasemdir. Þvert á móti lýsa þær hefðbundnum verkefnum endurskoðunarnefndar í samræmi við hlutverk hennar. Mikilvægt er að það valdi ekki ruglingi að endurskoðunarnefnd er jafnframt endurskoðunarnefnd stjórna fyrirtækja í B-hluta. Það heyrir því ekki til sérstakra tíðinda að nefndin sé í samskiptum við stjórnir þeirra fyrirtækja og ástæðulaust að gera það tortryggilegt. Gert hefur verið ráð fyrir að fulltrúar endurskoðunarnefndar muni koma á fund borgarráðs 20. desember nk.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir fundargerðinni frá 7. nóvember:

  Á fundi endurskoðunarnefndar sem fór fram hinn 7. nóvember fór fram umræða um gangvirðismat við eignfærslu fastafjármuna í reikningsskilum B-hluta félaga Reykjavíkurborgar. Var lagt fram sérákvæði/bókun frá einum nefndarmanna þar sem sú afdráttalausa skoðun er viðruð að gangvirði í reikningsskilum félaga í eigu sveitarfélags þurfi að styðjast við sannfærandi og gild rök. Lögð er áhersla á að „betri bókfærð afkoma telst ekki gild rök.“ Vísað er til skýrslu E6Y og alþjóðlega staðla þar sem sérstaklega er tekið fram að ekki megi líta á fasteignir í eigu sveitarfélaga sem eru ætlaðar lágtekjufólki sem fjárfestingareignir. Minnihlutinn í borgarstjórn hefur margoft bent á þessar staðreyndir og telur brýnt að eignir Félagsbústaða séu færðar með réttum hætti í bókhald borgarinnar. Einnig kemur fram gagnrýni á OR og að skoða þufi sérstaklega af hverju það félag í eigu sveitarfélaga telur við hæfi að meta eignir við gangvirði. Þeirri spurningu er velt upp hvort þetta mat styðjist við venju í reikningsskilum sambærilegra orkufyrirtækja, hérlendis eða erlendis. Þeirri spurningu verður að svara og þess er óskað að endurskoðunarnefnd Reykjavíkur komi á næsta fund borgarráðs. Einnig er það gagnrýnt að þessar upplýsingar hafi ekki verið komnar fram áður en fjárhagsáætlun Reykjavíkur var samþykkt því færa má fyrir því rök að fjárhagsáætlunin liti öðruvísi út.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Ytri endurskoðendur Reykjavíkurborgar, PricewaterhouseCoopers og KPMG, hafa á undanförnum árum báðir staðfest aðferðafræði við gangvirðisuppgjör Orkuveitu Reykjavíkur og Félagsbústaða og fjármálaskrifstofa fór á sínum tíma ítarlega yfir þessi mál með endurskoðendum og fráfarandi endurskoðunarnefnd í tengslum við ársuppgjör samstæðu borgarinnar. Þau sjónarmið sem fram komu í bókun eins endurskoðunarnefndarmanna hafa áður verið rædd og niðurstaðan var engu að síður skýr hjá ofangreindum aðilum enda er um að ræða fyrirtæki og ekki verðmat á eignum borgarsjóðs. Ekkert er óeðlilegt við það að þetta mál sé rætt á vettvangi nýrrar endurskoðunarnefndar sem ber að hafa eftirlit með að reikningsskilareglum sé fylgt.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins telur mikilvægt að endurskoðunarnefnd komi reglulega til samtals við borgarráð enda ljóst að það sem fjallað er um í nefndinni varðar borgarráð sem hefur eftirlitsskyldu. Á fundum endurskoðunarnefndar er fjallað um atriði sem nefndin telur að þarfnist skoðunar og þær athugasemdir sem gerðar eru eiga vissulega að koma inn á borð borgarráðs með reglulegum hætti. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að endurskoðunarnefnd þurfi að vera í nánum tengslum við borgarráð og upplýsa það um þær athugasemdir og áhyggjur sem nefndin hefur hverju sinni.

  Fylgigögn

 2. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 5. desember 2018. R18060192

  B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Umræða var um rammasamninga og innkaup borgarinnar sem undir skipulags- og samgönguráð heyra. Gagnrýnt er að enginn rammasamningur er í gildi hjá borginni hvað varðar arkitekta-,verkfræði- og hönnunarþjónustu síðan 2014. Við skoðun á rekstri borgarinnar þá hefur komið í ljós að ótrúlegar háar upphæðir fara í þessa verkþætti í nánast öllum verkefnum sem hafa farið gríðarlega framúr fjárhagsáætlunum. Þegar þessar staðreyndir eru skoðaðar saman þá gefur það tilefni til frekari skoðunar af hálfu borgarráðs og innri endurskoðanda. Gera verður tafarlaust rammasamning af hálfu borgarinnar vegna þessara verkþátta til að ná fram sparnaði, gegnsæi við innkaup og ekki síst til að forðast spillingu og vinavæðingu.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Órökstuddum dylgjum um spillingu og vinavæðingu er vísað til föðurhúsa. Eins og upplýst hefur verið stendur yfir undirbúningur á nýjum rammasamningum.

  Fylgigögn

 3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur sem borist hafa borgarráði, alls 3 mál. R18110261

  Fylgigögn

 4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssvið, dags. 30. nóvember 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna uppbyggingar á aðalvelli knattspyrnufélagsins Víkings, sbr. samkomulag félagsins og Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í borgarráði þann 23. apríl 2018, ásamt fylgiskjölum.  R18040069

  Samþykkt.

  Kl. 9:28 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 18. október 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki afnotasamning um 222 fermetra borgarland við Rangársel, ásamt fylgiskjölum.  R18100309

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 6. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 27. nóvember 2018, þar sem lagt er fram til staðfestingar borgarráðs erindisbréf stýrihóps um innleiðingu þjónustustefnu Reykjavíkurborgar. R18040190

  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

  Hér er verið að stofna enn einn stýrihópinn. Ekki liggur fyrir hvenær honum er ætlað að ljúka störfum eins og fram kemur í erindisbréfinu: „Fyrstu tillögum að útfærslu skal skila fyrir 20. desember 2018. Stýrihópurinn starfar á meðan á innleiðingarfasa þjónustustefnu stendur.“ Ekki kemur fram hvenær ætlað er að „innleiðingarfasa“ ljúki.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Þjónustustefna er afar mikilvægt tæki til þess að veita betri þjónustu. Starfshópar eru um leið afar mikilvægt vinnutæki til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir byggðar á réttum gögnum. Það er dapurlegt að minnihlutinn kjósi að gera lítið úr nútímalegri aðferðafræði við stjórnun borgarinnar.

  Fylgigögn

 7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. desember 2018, ásamt fylgiskjölum:

  Eigendafundur Orkuveitu Reykjavíkur var haldinn þann 30. nóvember sl. Á fundinum voru meðal annars lagðar fram ábendingar innri endurskoðunar sem snúa að eigendum ásamt skýrslu um framfylgd eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur 2018. Lagt er til að borgarráð samþykki að gera þær breytingar á grein 7.3 í sameignasamningi um Orkuveitu Reykjavíkur sem gerð er tillaga um að breyta í ábendingu innri endurskoðunar, sbr. meðfylgjandi erindi um samþykkt stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 28. nóvember 2018.  R18110262

  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

  Stór og mikilvæg verkefni Reykjavíkurborgar eru í höndum dótturfélaga. Kjörnir fulltrúar hafa litla aðkomu að mörgum þessara verkefna. Má hér nefna það verklag að hafa stærstu verkefni Orkuveitu Reykjavíkur í dótturfélögum. Þá er Reykjavíkurborg með aðeins 1 fulltrúa í Strætó. Þá vekur furðu að seta kjörinna fulltrúa í stjórn Orkuveitunnar sé gerð tortryggileg, en kjörnir fulltrúar sitja í stjórn Félagsbústaða, Faxaflóahafna og Strætó. Þessi athugasemd virðist því beinast að einum fulltrúa og vera í ósamræmi við venju í skipan stjórna félaga í eigu borgarinnar.

  Fylgigögn

 8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. desember 2018, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að samþykkt verði tillaga að útgáfulýsingu á grænum skuldabréfaflokki Reykjavíkurborgar. Ennfremur er lagt til að samþykkt verði tillaga fjárstýringarhóps um útgáfuskilmála og samþykkt tilboða í græn skuldabréf að fjárhæð 4.100 m.kr. Þá er lagt til að borgarráð veiti fjármálastjóra Reykjavíkurborgar heimild til að undirrita, f.h. borgarráðs, útgáfulýsingu RVKG 48 1 og öll nauðsynleg skjöl vegna skráningar og sölu skuldabréfanna. Einnig er lagt til að borgarráð skipi eftirtalin í valnefnd vegna grænna skuldabréfa Reykjavíkurborgar: Birgi Björn Sigurjónsson frá fjármálaskrifstofu, Hrein Ólafsson frá umhverfis- og skipulagssviði og Guðlaugu S. Sigurðardóttur frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar en Kristinn Karel Jóhannsson, sérfræðingur á fjárstýringadeild, starfar með nefndinni. Varamenn verði Helga Benediktsdóttir frá fjármálaskrifstofu, Hrönn Hrafnsdóttir frá umhverfis- og skipulagssviði og Óli Jón Hertervig frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. R18100369

  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðiflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna betri vaxtakjörum sem fást með þessari útgáfu. Engu að síður ber að fara varlega í lántökur sem fara vaxandi samanber nýsamþykkta fjárhagsáætlun til fimm ára.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar meirihlutans í borgarráði þakka fyrir mikilvæga vinnu fjármálaskrifstofu og umhverfis- og skipulagssviðs við undirbúning á útgáfu grænna skuldabréfa. Þá er Reykjavíkurborg fyrst allra til að hefja útgáfu grænna skuldabréfa í íslensku kauphöllinni. Grænu skuldabréfin kallast á við þau metnaðarfullu markmið sem borgin hefur sett sér í loftslagsmálum á borð við borgarlínu, hleðslustöðvanet, skógrækt, göngu- og hjólastíga og umhverfisvænar snjalllausnir.

 9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. desember 2018, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt samkomulag milli Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands/Vísindagarðs, Háskólans í Reykjavík og Landspítala um áframhaldandi samstarf um bættar samgöngur í Vatnsmýrinni.  R18060168

  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Landspítalinn og Reykjavíkurborg hafa stefnt að samkomulagi um samstarf um bættar samgöngur. Það er mikilvægt að samgöngur til og frá þessum stærstu vinnustöðum landsins séu hagkvæmar, skilvirkar og vistvænar. Framkomnar tillögur verða áfram til vinnslu og fagnar meirihlutinn sérstaklega áframhaldandi samstarfi þessara stóru vinnustaða í Vatnsmýri.

  Fylgigögn

 10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. desember 2018:  

  Lagt er til að borgarstjóri fái heimild til að undirrita, ásamt mennta- og menningarmálaráðherra, samkomulag og viljayfirlýsingu við European Film Academy um að 33. verðlaunahátíð evrópsku kvikmyndaverðlaunanna verði haldin í Reykjavík í desember árið 2020. Þrjár borgir keppast nú um að vera vettvangur evrópsku kvikmyndaverðlaunanna árið 2020. Í samkomulaginu, ef Reykjavík verður fyrir valinu, felst að Reykjavíkurborg og ríkisstjórn skuldbinda sig til að framkvæma verkefnið hér á landi og bera sameiginlega ábyrgð á fjármögnun. Reykjavíkurborg og ríkið ábyrgjast samkvæmt þessu fjármögnun verkefnisins með að hámarki 135 m.kr. framlagi hvor aðili um sig. Kostnaðargreining á kröfulýsingu European Film Academy hefur verið unnin í samvinnu við aðildarfélög Meet in Reykjavík og KPMG og hljóðar upp á u.þ.b. 270 m.kr. með vsk. Að undirbúningi málsins hafa komið fulltrúar menntamálaráðuneytisins, Kvikmyndamiðstöðvar, Íslandsstofu og RÚV, auk Meet in Reykjavík og Reykjavíkurborgar. Mat hópsins er að hægt verði að ná kostnaði mjög niður með því að leita hagkvæmustu leiða við framkvæmd viðburðarins, leita kostunar og kostnaðarþátttöku stuðningsaðila. Er lagt til að menningar- og ferðamálasvið leiði undirbúning af hálfu borgarinnar og beri kostnað af þeim undirbúningi innan fjárhagsramma sviðsins árið 2019, en geri tillögu til borgarráðs vegna viðburðarins í góðum tíma fyrir samþykkt fjárhagsáætlunar árið 2020, að teknu tilliti til kostunar og kostnaðarþátttöku stuðningsaðila verkefnisis.

  Greinargerð fylgir tillögunni. R18110177

  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Gríðarleg tækifæri geta falist í því að fá evrópsku kvikmyndaverðlaunin til Reykjavíkur. Það er mikilvægt að borg og ríki starfi nú saman að því að landa verkefninu en ekki síður ná niður kostnaði miðað við núverandi kostnaðaráætlun.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Málið er áhugavert, en talsvert vantar upp á útfærslu varðandi kostnað sem nú er talinn verða 270 milljónir króna en gert er ráð fyrir að borgin standi straum af helmingi kostnaðar.

  Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Ef Reykjavík verður fyrir valinu sem vettvangur evrópsku kvikmyndaverðlaunanna árið 2020, felur það vissulega í sér mikla auglýsingu fyrir borgina og líklegt er að það skili miklum fjármunum í vasa ýmissa aðila hér á landi. Í greinargerð borgarstjóra um tillöguna stendur m.a. að „Ávinningurinn felst einna helst í öflugri kynningu og markaðssetningu á Íslandi og Reykjavík sem ákjósanlegum áfangastað fyrir ferðamenn og því líklegt að hátíðin styrki starfsskilyrði ferðaþjónustuaðila, svo sem veitingahúsa, hótela og menningar- og afþreyingaraðila, auk þess sem margvísleg tækifæri gefast til að vekja athygli á íslenskri list, hönnun og vörum.“ Það er jákvætt fyrir þá aðila og vekur athygli annarra á Reykjavíkurborg og Íslandi. Ef Reykjavík verður fyrir valinu, mun borgin og ríkisstjórn bera sameiginlega ábyrgð á fjármögnun, með að hámarki 135 m.kr. framlagi hvor aðili um sig en samkvæmt mati aðila væri hægt að ná kostnaðinum mjög niður með ýmsum leiðum. Í greinargerðinni kemur fram að til standi að vera með hliðarviðburði á hátíðinni, opna almenningi, og það er jákvætt að heyra. Áheyrnarfulltrúi sósíalista vill leggja áherslu á að fjármunum verði sem best varið til að tryggja aðgengi allra áhugasamra borgarbúa að menningarlegum viðburðum og þá sérstaklega þeirra sem eru verst settir fjárhagslega.

  Arna Schram tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Kl. 10:35 víkur Hildur Björnsdóttir af fundi.

  Fylgigögn

 11. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Lagt er til að reglum um afslátt af fasteignagjöldum verði breytt. Breytingin varðar skilyrði lækkunar og er lagt til að skilyrðið „að viðkomandi þurfi að eiga rétt á vaxtabótum samkvæmt B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekju- og eignaskatt“ verði tekið út.

  Greinargerð fylgir tillögunni. R18120040

  Frestað.

Fundi slitið klukkan 10:40

Undir fundargerð rita: 
Líf Magneudóttir
Pawel Bartoszek
Dóra Björt Guðjónsdóttir
Skúli Helgason
Eyþór Laxdal Arnalds
Marta Guðjónsdóttir

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

2 + 17 =