Fundur nr. 5519 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 5519

Fundur nr. 5519

Borgarráð

Ár 2018, fimmtudaginn 25. október, var haldinn 5519. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9:08. Viðstödd voru: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Birgir Björn Sigurjónsson, Óli Jón Hertervig, Ólöf Örvarsdóttir, Ebba Schram og Bjarni Þóroddsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

 1. Lögð fram fundargerð ferlinefndar fatlaðs fólks frá 4. október 2018.

  Fylgigögn

 2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 18. október 2018.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins gera alvarlegar athugasemdir við yfirlit skrifstofu eigna og atvinnuþróunar um innkaup yfir einni milljón króna án útboðs. Eins og áður hefur komið fram er um umtalsverðar fjárhæðir að ræða eða yfir 570 milljónir án útboðs. Þetta er alvarlegt í ljósi þess að hér er teflt með óábyrgum hætti með skattfé borgarbúa. Ljóst er á yfirlitinu að fara þarf í gagngera endurskoðun á innkaupum borgarinnar en í áliti borgarlögmanns í lið 2 kemur fram að aðeins í einu tilviki eru til gögn frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem sýna fram á samanburðartilboð eða verðfyrirspurn. Þannig eru ekki til staðar gögn sem sýna fram á að leitað hefði verið hagkvæmustu tilboða eins og segir orðrétt í áliti borgarlögmanns sem er algjörlega á skjön við orð borgarstjóra á fundi borgarstjórnar 2. október 2018. Þar lætur borgarstjóri hafa eftir sér eftirfarandi orð: „Forseti ágæta borgarstjórn. Ég ítreka það að það sem kom fram að það hafi verið farið í verðfyrirspurnir en ekki útboð, það er það sem hefur komið fram í umfjöllun um málið.“

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar,  Pírata og Vinstri grænna ítreka nauðsyn þess að í öllum framkvæmdum sé mikilvægt að leitast eftir samstarfi við innkaupadeild frá upphafi til að nýta þekkingu og ráðgjöf sem þar er að finna. Eins sé þannig betur tryggt að farið sé eftir lögum og reglum er varða opinber innkaup. Leggja fulltrúarnir mikla áherslu á að allt verklag við innkaup og greiðslu reikninga sé gegnsætt og til fyrirmyndar. Fulltrúar benda á að 574 milljónir sem skrifstofa eigna og atvinnuþróunar leggur fram á yfirliti sínu yfir innkaup yfir 1 milljón eru margar mismunandi greiðslur til mismunandi aðila vegna mismunandi verkefna og skýringar á því að ekki hafi verið ráðist í útboð eru margar og mismunandi, enda kaupin eðlisólík. Þennan tíma hefur skrifstofa eigna og atvinnuþróunar haldið því fram við borgarstjóra og aðra kjörna fulltrúa að notast hafi verið við verðfyrirspurnir í verkefninu við Nauthólsveg 100 og erfitt fyrir kjörna fulltrúa að ganga út frá öðru en að slíkt sé rétt. Að auki taka fulltrúarnir undir að samræmi í innkaupum sé mikilvægt og leggja til að kannað verði hvort ráðast ætti í rammasamninga um verk af þessum toga. Skoða þurfi hvernig hægt sé að nýta betur þá reynslu og þekkingu sem finna má í innkaupadeild til aðstoðar á öðrum sviðum.   

  Fylgigögn

 3. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 24. október 2018.
  B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 12. október 2018.
  Frestað. 

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 33 mál.

  Fylgigögn

 6. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013.

  Fylgigögn

 7. Lagt fram erindi Íslenskrar fjárfestingar ehf., dags. 20. ágúst 2018, þar sem óskað er eftir því að borgarráð endurskoði neikvæða afgreiðslu skipulags- og samgönguráðs á fyrirspurn um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 11-13 við Skipholt, ásamt fylgiskjölum. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar dags. 18. október 2018.
  Erindinu er vísað frá með vísan til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna vísa málinu frá þar sem það hefur þegar verið fullnaðarafgreitt. Eins og fram kemur í umsögn skrifstofu borgarstjórnar er um að ræða afgreiðslu skipulagsfulltrúa og skipulags- og samgönguráðs á fyrirspurn sem ekki uppfyllir skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku máls í borgarráði.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Samkvæmt aðalskipulagi er Skipholt skilgreint sem aðalgata og  í næsta nágrenni er starfrækt gististarfsemi. Í stefnu um gististaði í aðalskipulaginu kemur fram að innan íbúðabyggðar eru skilgreind afmörkuð svæði, aðalgötur og kjarnar, sem hafa víðari heimildir en gilda almennt í íbúðabyggð. Í ljósi staðsetningar og þess sem segir í stefnu aðalskipulags um gististaði er óeðlilegt að beiðni um endurskoðun um breytingu á deiliskipulagi, sem heimilar rekstur gistiheimilis í Skipholt 11-13, sé hafnað af skipulagsfulltrúa og skipulagsráði.

  Fylgigögn

 8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. október 2018, með leiðréttri bókun á samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. október 2018 vegna samþykktar á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda sem lögð var fram á fundi ráðsins þann 10. október 2018.
  Samþykkt. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Fylgigögn

 9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. október 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. október 2018 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi námsmannagarða við Klausturstíg 1-11 og Kapellustíg 1-13.
  Samþykkt. 

  Fylgigögn

 10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. október 2018, með leiðréttri bókun á samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. október 2018 vegna samþykktar á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suður-Mjóddar sem lögð var fram á fundi ráðsins þann 10. október 2018.
  Samþykkt. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Fylgigögn

 11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. október 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili byggingarnefnd um uppbyggingu íþróttamannvirkja ÍR í Suður-Mjódd að halda áfram undirbúningi og framkvæmdum. Einnig er lagt fram minnisblað nefndarinnar, dags. 19. október 2018.
  Frestað. 

  -    Kl. 9:50 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum.

  Fylgigögn

 12. Lögð fram umsögn borgarlögmanns til innkauparáðs, dags. 17. október 2018, um fylgni við innkaupareglur í samningum við framkvæmdir við Nauthólsveg 100, sbr. 2. liður fundargerðar innkauparáðs 18. október sl. 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Innkaupadeild býr yfir sérþekkingu á innkaupamálum og veitir ráðgjöf sem er afar mikilvæg. Því er mikilvægt að tryggja aðkomu hennar og innkauparáðs frá upphafi í öllum málum sem varðar verksvið deildarinnar. Þannig er betur tryggt að farið sé að lögum og reglum um opinber innkaup. Leggja borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna mikla áherslu á að allt verklag við innkaup og greiðslu reikninga sé gegnsætt og til fyrirmyndar. Þá verður að benda á að 574 milljónir sem skrifstofa eigna og atvinnuþróunar leggur fram í yfirliti sínu yfir innkaup yfir eina milljón eru margar mismunandi greiðslur til mismunandi aðila vegna mismunandi verkefna og skýringar á því að ekki hafi verið ráðist í útboð eru margar og mismunandi enda kaupin eðlisólík. Hefur skrifstofa eigna og atvinnuþróunar haldið því fram við borgarstjóra og aðra kjörna fulltrúa að notast hafi verið við verðfyrirspurnir í verkefninu við Nauthólsveg 100 og hefur ekki verið tilefni til þess að rengja það. Að lokum verður að ítreka að fyllsta samræmis sé gætt í innkaupum og kannaðir verði kostir þess að gera rammasamninga út af verkum eins og þessu. Þá verður að rýna það hvernig reynsla og þekking innkaupadeildar getur nýst öðrum sviðum og deildum borgarinnar.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Að áliti borgarlögmanns vegna framkvæmda við braggann voru innkaupareglur Reykjavíkurborgar þverbrotnar, engir skriflegir verksamningar lágu til grundvallar framkvæmdinni og engin framkvæmd fór í útboð. Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar brást seint og illa við umbeðnum svörum borgarlögmanns sem er áfellisdómur yfir upplýsingagjöf skrifstofunnar, sem heyrir undir skrifstofu borgarstjóra. Í fyrsta lagi er ljóst að innkaupareglur Reykjavíkurborgar voru þverbrotnar og undanþáguheimilda innkauparáðs var ekki aflað eins og skylt er að gera skv. 13. gr. innkaupareglna Reykjavíkurborgar. Þar segir að skylt sé að afla fyrirfram samþykkis innkauparáðs fyrir beitingu undanþáguheimilda. Þetta ákvæði á m.a. við ef ætlunin er að viðhafa bein þjónustukaup án þess að notast sé við formlegt innkaupaferli. Í annan stað voru aðeins í einu tilviki til gögn frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem sýndu samanburðartilboð. Fullyrðingar um að verðfyrirspurnir hafi verið viðhafðar eru því sannarlega rangar. Ekki var leitað hagstæðasta verðs og ekki var fenginn afsláttur. Þvert á móti virðist hafa verið greitt umfram verðlista. Þá voru ekki til staðar gögn sem sýndu fram á að leitað hefði verið hagkvæmustu tilboða eins og segir orðrétt í áliti borgarlögmanns. Í þriðja lagi kemur fram að engir skriflegir samningar lágu til grundvallar framkvæmdinni. Borgarlögmaður benti á í áliti sínu að samkvæmt innkaupareglum Reykjavíkurborgar sé óheimilt að skipta upp samningum í því skyni að komast hjá útboðsskyldu, sbr. 3. mgr. 9. gr. innkaupareglnanna. Að ofangreindu er ljóst að ekkert bendir til annars en að framkvæmdirnar hafi verið útboðsskyldar skv. innkaupreglum borgarinnar.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Mjög skýrt er í gildandi og brottföllnum lögum um opinber innkaup að lögin taki til allra opinberra aðila, ríkis, sveitarfélaga og stofnana þeirra. Þar segir jafnframt að aðili telst opinber ef hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefur verið stofnað til hans í því skyni að þjóna almannahagsmunum og að starfsemi hans er að mestu leyti rekin á kostnað ríkis eða sveitarfélaga. Í áliti borgarlögmanns er vísað til brottfallinna laga um opinber innkaup þar sem innkaupafjárhæðir innanlands voru að öll innkaup á vörum yfir 11.500.000 kr. og kaup á þjónustu yfir 14.900.000 kr. og verkum yfir 28.000.000 kr. skyldi bjóða út. Í áliti þessu eru þessar staðreyndir algjörlega hundsaðar og álitið byggt á því að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið lög á þeim grunni að ekki hefði þurft að bjóða verkið út á EES-svæðinu, en þar segir að ekki þurfi að bjóða verk út ef viðmiðunarfjárhæð er undir 834.842.176 kr. Það er með ólíkindum að borgarlögmaður sem skal vera hlutlaus í störfum sínum skuli velja þessa leið til að verja braggaskandalinn. Það er ævintýralegt að embættið skuli svo mikið sem viðra það að bjóða hefði braggann út á EES-svæðinu en ekki samkvæmt lögum um opinber innkaup.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Það er langt því frá að staðreyndir séu hundsaðar í umræddu áliti borgarlögmanns. Þvert á móti er staðreyndum gerð skýr skil og tekið á þeim þáttum sem óskað var eftir álit á. Skýrt kemur fram í álitinu að verkefnið hafi ekki verið útboðsskylt skv. 2. mgr. 19. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007 en þar kemur fram að lögin gildi ekki um innkaup sveitarfélaga undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins. Efnislega sama regla er enn í gildi til 31. maí 2019, sbr. 4. mgr. 123. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016. Hjá borgarlögmannsembættinu starfar einn færasti sérfræðingur landsins í opinberum innkaupum og eru kjörnir fulltrúar beðnir um að sýna embættinu tilhlýðilega virðingu. Skrifstofunni er þakkað þetta afar vandaða álit.

  Eyþóra Kristín Geirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 13. Fram fer kynning á verkáætlun innri endurskoðunar vegna úttektar á framkvæmdum við Nauthólsveg 100.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Innri endurskoðun (IE) skilaði af sér rekstrarúttekt á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (SEA) í maí 2015. Í skýrslunni koma fram 30 ábendingar. Ekki hefur komið fram neitt um hvernig þeim hefur verið sinnt, en myndaður var starfshópur til að fara yfir ábendingarnar og úrlausn þeirra. Niðurstaða starfshópsins hefur enn ekki borist til borgarráðs eða hún verið birt almenningi. Þessi vinnubrögð eru ámælisverð enda þrjú og hálft ár liðið frá því úttekt IE var birt. Framkvæmd braggans var á borði SEA sem heyrir undir skrifstofu borgarstjóra og er því mjög óheppilegt að ekki hafi verið brugðist við ábendingum IE frá 2015 með formlegum hætti. Sjá: https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/s...

  Hallur Símonarson, Sigrún Lilja Sigmarsdóttir og Kristjana Baldursdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  -    Kl. 11:40 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum og Pawel Bartoszek tekur sæti. Líf Magneudóttir tekur við stjórn fundarins.

 14. Lagt fram erindi Félagsbústaða hf., dags. 10. október 2018, þar sem óskað er eftir því að borgarstjórn veiti Lánasjóði sveitarfélaga veð í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar til tryggingar á ábyrgð á lántöku. Einnig er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 18. október 2018.
  Vísað til borgarstjórnar. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Félagsbústaðir annast rekstur félagslegra leiguíbúða fyrir Reykjavíkurborg sem á allt hlutafé í Félagsbústöðum og hefur sett félaginu það markmið að kaupa 500 íbúðir á árunum 2018-2022. Lán þetta mun fjármagna hluta af þeim kaupum.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Í júní 2012 skilaði innri endurskoðun Reykjavíkur skýrslu um úttekt á rekstri, stjórnarháttum og hlutverki Félagsbústaða hf. Þar kom fram að stjórn Félagsbústaða hafi bókað 12. júní 2009: „Stjórnin samþykkti að framvegis yrðu stærri framkvæmdir auglýstar með opnu útboði“. Enn fremur lá fyrir svar framkvæmdastjóra Félagsbústaða til skrifstofu borgarstjóra 20. maí 2010 þar sem fram kom að: „Félagsbústaðir myndu framvegis leitast við að samræma verklag við útboð á vegum félagsins gildandi reglum borgarinnar með því að hafa slík útboð opin.“ Jafnframt kom fram að á stjórnendum Félagsbústaða mátti skilja að þeir litu svo á að þeir hefðu samþykkt að fara að innkaupareglum borgarinnar hvað varðar reglur um útboð. Niðurstaða innri endurskoðunar var að þessi orð yrðu ekki túlkuð á annan hátt en „að framvegis verði leitast við að útboð Félagsbústaða verði almennt opin en ekki lokuð“. Síðan segir í skýrslunni að misferlisáhætta virtist vera fyrir hendi. Þá liti þetta þannig út að þar sem ekki væri auglýst eftir verktökum, að skipt væri  að mestu við fámennan hóp verktaka og að verktakar væru á tímakaupi samkvæmt munnlegum samningum væru málin í óásættanlegum farvegi. Á meðan málefni Félagsbústaða eru í slíkum ólestri eins og birst hefur undanfarna daga er ófært að gefa félaginu heimildir til frekari lántöku.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Taka þarf á vanda Félagsbústaða heildstætt. Ekki þýðir að vera sífellt með einhverja plástra. Fyrirtækið er í þrot hvað varðar fleiri hluti. Það á langt í land með að bæta ímynd sína í augum borgarbúa og leigjenda. Leigan hefur verið hækkuð og er að sliga marga leigjendur, fólk sem er fátækt og nær ekki endum saman. Aftur vill Flokkur fólksins benda á að vel má skoða að færa fyrirtækið aftur undir A-hluta borgarinnar undir skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og reyna með því að ná utan um reksturinn sem og annað sem laga þarf. Sú tillaga að veita Félagsbústöðum ábyrgð borgarsjóðs á lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga er svo sem skiljanleg í ljósi þess öngstrætis sem fyrirtækið er í núna en er varla framtíðarlausn heldur frekar tímabundin redding.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Stjórnun Félagsbústaða hefur verið ábótavant. Framkvæmdastjórinn hefur látið af störfum og verkefni hafa farið langt fram úr kostnaðaráætlun. Hér er lagt til að Félagsbústaðir fái veð hjá Reykjavíkurborg upp á einn milljarð  kr. þar sem tekið er veð í sjálfum útsvarstekjum borgarinnar. Slíkt fyrirkomulag er í raun og veru til þess fallið að fela eiginlega skuldsetningu borgarsjóðs þar sem útsvarstekjurnar eru grunntekjustofn borgarinnar. Félagsbústaðir skulda um 35 milljarða króna og fer skuldsetning vaxandi. Ljóst er að félagið á erfitt með að fjármagna sig á skuldabréfamarkaði og því er leitað í útsvarsveð. Félagið hefur bókað 44 milljarða á „matshækkun fjárfestingaeigna“ en er nú engu að síður fjárþurfi. Þá vekur athygli að stjórnarsamþykkt Félagsbústaða er til Auðuns Freys Ingvarssonar, umboð til þess að undirrita lánasamning en hann hefur látið af störfum.

 15. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 23. október 2018, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2018 vegna samnings um lífeyrisauka aðildarfélaga ASÍ og greiðslu sérstakra húsaleigubóta.
  Vísað til borgarstjórnar.

  Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Borgarráð felur fjármálastjóra að gera upp við hlutaðeigandi sem nú eiga að fá sérstakar húsaleigubætur í samræmi við rýningu velferðarsviðs í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands alls 402 m.kr. að viðbættum dráttarvöxtum 66 m.kr., sbr. samþykkt borgarráðs 3. maí 2018.

  Fylgigögn

 16. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 23. október 2018, að viðauka við fjárfestingaáætlun vegna fjárfestinga og tekna af sölu byggingarréttar, ásamt fylgiskjölum.
  Vísað til borgarstjórnar.

 17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 23. október 2018, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að tilnefna Oddnýju Sturludóttur og Þráin Árna Baldvinsson í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sbr. hjálagt bréf frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Fylgigögn

 18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. október 2018:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að styrkja Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík, RIFF, um 2 m.kr. vegna 15 ára afmælis hátíðarinnar. Lagt er til að kostnaðurinn verði greiddur af kostnaðarstað 07160, Atvinnuþróunarátak/ sóknaráætlun.

  Samþykkt. 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF er afar mikilvægur þáttur í menningarlífi Reykjavíkur og vekur jafnan mikla athygli út fyrir landsteinana. Nú síðast var danski stórleikarinn Mads Mikkelsen sæmdur heiðursverðlaunum RIFF. Hátíðin er ein af borgarhátíðum Reykjavíkur og hefur sem slík þegar fengið 10 milljónir á ári. RIFF fagnaði 15 ára afmæli á dögunum og því er lagt til að borgarráð styrki hátíðina um 2 milljónir til viðbótar.

  Fylgigögn

 19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 23. október:

  Lagt er til að sett verði í gang vinna undir stjórn formanns borgarráðs við endurskoðun á skipulagi stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Endurskoðunin miði að því að einfalda skipulag og skipurit Reykjavíkurborgar en einnig að því að draga fram þau áhersluatriði sem mikilvægt er að horfa til við stjórnun og rekstur Reykjavíkurborgar. Þau atriði sem þar eru einkum undir eru á sviði fjármálastjórnunar, innkaupa, eftirlits og áhættustjórnunar, þjónustu og nýsköpunar, á sviði mannauðsmála og heilsueflingar, og síðast en ekki síst á sviði stjórnsýslu, þar á meðal á sviði stefnumótunar, gagnamála og upplýsingamiðlunar. Lagt er til að leitað verði til utanaðkomandi ráðgjafa sem sérfróðir eru á þessu sviði og að þessi vinna verði unnin í samráði við stjórnendur og starfsmenn eftir því sem við á. Afurð framangreindrar vinnu skal leggja fyrir borgarráð fyrir lok þessa árs í formi nýs skipurits, og því fylgi skilgreiningar á verkefnum einstakra eininga og þar með yfirlit yfir verkaskiptingu og umboð innan stjórnsýslunnar og hvernig samspili og samvinnu fagsviða og stoðsviða verði háttað. Jafnframt fylgi tillögur að innleiðingaráætlun nýs skipulags, litið er til þess að hægt sé að innleiða breytingar í nokkrum skrefum. Formaður borgarráðs stýrir verkefninu með aðstoð borgarritara.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

  Hér staðfestir meirihluti borgarstjórnar að stokka þarf upp stjórnsýslu borgarinnar með róttækum hætti. Það er fagnaðarefni. Mikilvægt er að stjórnsýslan sé bæði skilvirkari og vandaðri. Hér er hins lagt upp með það að formaður borgarráðs vinni þetta með borgarritara án nokkurar aðkomu þeirra fjóra flokka sem sitja í minnihluta. Þá er óljóst hverjir aðrir verða til ráðgjafar, skerpa þyrfti á markmiðum breytinganna og hagræðingu. Mýmargir starfshópar hafa verið skipaðir án þess að hafa skilað niðurstöðu sem hefur verið framfylgt. Þá hefur talsvert skort á að farið sé eftir niðurstöðum frá aðilum á borð við innri endurskoðanda, umboðsmann Alþingis og annara varðandi það sem betur mætti fara í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Hér er lögð fram tillaga um endurskoðun á skipulagi stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Því er fagnað og endurskoðunin löngu orðin tímabær en slík skoðun þarf að fara fram utan Ráðhússins. Hér er minnt á tillögu borgarfulltrúa Miðflokksins frá borgarstjórnarfundi hinn 4. september sl. sem hlaut ekki brautargengi. „Fenginn verður óháður/utanaðkomandi aðili til að gera úttekt á starfsemi æðstu stjórnar Reykjavíkur. Farið verður yfir allan kostnað, verkaskiptingu og skilvirkni í ört vaxandi kostnaði, tíðra mistaka, dóma, kvartana og annarra athugasemda sem komið hafa upp undanfarna mánuði gegn borginni.“

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Endurskoðunin sem um ræðir miðar að því að einfalda skipulag og skipurit Reykjavíkurborgar en líka að því að draga fram þau áhersluatriði sem mikilvægt er að horfa til við stjórnun og rekstur Reykjavíkurborgar. Þau atriði sem þar eru einkum undir eru á sviði fjármálastjórnunar, innkaupa, eftirlits og áhættustjórnunar, þjónustu og nýsköpunar, á sviði mannauðsmála og heilsueflingar, og síðast en ekki síst á sviði stjórnsýslu, þar á meðal á sviði stefnumótunar, gagnamála og upplýsingamiðlunar. Gert er ráð fyrir að tillaga verði lögð fram fyrir árslok 2018.

  Fylgigögn

 20. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 23. október 2018, þar sem tilkynnt er um ferð staðgengils borgarstjóra á heimsþing borgarstjóra sem haldið var í Bristol á Bretlandi dagana 21. til 23. október 2018, ásamt fylgiskjölum.

  Fylgigögn

 21. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 11. október 2018, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 9. október 2018 á tillögu að breytingum á reglum um leikskólaþjónustu, ásamt fylgiskjölum.
  Frestað.

  Fylgigögn

 22. Lagt fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum, 25. mál.

  Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum leggur fram svohljóðandi umsögn: 

  Með frumvarpinu eru gerðar mikilvægar tillögur að því að tryggja þau sjálfsögðu mannréttindi barna til að njóta jafnrar þátttöku beggja forsjárforeldra í daglegu lífi. Reykjavíkurborg tekur undir það sjónarmið að það sé nauðsynlegt að löggjafinn tryggi það að forsjárforeldrum skuli vera gert kleift að taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barnið sé sátt og samþykki þar um. Það er ástæða til að bæta réttarstöðu foreldra sem deila forsjá barna sinna. Breytingin hefur áhrif á ýmsa þjónustu sem sveitarfélagið veitir um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu og reglubundið tómstundastarf sem nauðsynlegt er að hafa samráð við sveitarfélögin um. Reykjavíkurborg minnir jafnframt á í því sambandi að nauðsynlegt er að greina áhrif breytingarinnar á sveitarfélögin og lýsir sig tilbúna til að taka þátt í vinnu við slíka greiningu og kostnaðarmat.

  -    Kl. 13:50 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum og Egill Þór Jónsson tekur sæti. 

  Fylgigögn

 23. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 21. október 2018, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir tvíbýlishús að Gefjunarbrunni 6.
  Samþykkt.

  Fylgigögn

 24. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 21. október 2018, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir einbýlishús að Gerðarbrunni 3.
  Samþykkt.

  Fylgigögn

 25. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. október 2018, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til þess að ganga til samninga um sölu á fasteign að Grandagarði 2 og tengdum byggingarrétti.
  Samþykkt.

  Fylgigögn

 26. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. október 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning um skrifstofuhúsnæði að Síðumúla 23 fyrir Frístundamiðstöðina Kringlumýri.
  Samþykkt. 

  Fylgigögn

 27. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 19. október 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning um húsnæði fyrir starfsemi Hins hússins að Rafstöðvarvegi 7 og 9.
  Frestað.

  Fylgigögn

 28. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. október 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Snorrabraut 60.
  Samþykkt. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðiflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Fylgigögn

 29. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 21. október 2018, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir einbýlishús að Urðarbrunni 16.
  Samþykkt.

  Fylgigögn

 30. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 21. október 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð hafni tilboðum í einbýlishúsalóðir við Friggjarbrunn 21 og Urðarbrunn 3.
  Samþykkt að hafna framangreindum tilboðum.

  Fylgigögn

 31. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 3. október 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki breytingu á samningsramma í viðræðum við lóðarhafa í hluta Vogabyggðar 3.
  Samþykkt. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Fylgigögn

 32. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 10. október 2018, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hreyfingu á íbúðum hjá Félagsbústöðum, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. október 2018.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Þau svör sem gefin hafa verið við fyrirspurn borgarfulltrúa Flokks fólksins um hreyfingu á íbúðum hjá Félagsbústöðum eins og það er orðað eru ófullnægjandi að mati borgarfulltrúa. Í ágúst voru 90 íbúðir lausar hjá fyrirtækinu vegna standsetningar. Sama hvernig á þetta er litið er hér um mikinn fjölda íbúða að ræða sem eru lausar á sama tíma og þær allar sagðar vera í „standsetningu“. Á meðan bíða 1000 einstaklingar og fjölskyldur eftir húsnæði og fjölmargir þessara búa við óviðunandi aðstæður. Segir í svari að um 250 til 350 íbúðum sé að jafnaði skilað til félagsins frá leigutökum á hverju ári og fara í standsetningarferli. Ef þetta er vitað fyrirfram ætti að vera hægt að gera ráðstafanir þannig að á sama tíma séu ekki tugir íbúða lausar vegna standsetningar sem eru e.t.v. í einhverjum tilvikum hreinsun og málun.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Félagsbústaðir standsetja á ári hverju um 300-400 íbúðir, annarsvegar í hvert sinn sem leigutaki skilar íbúð til félagsins og hins vegar þegar standsetja þarf íbúðir sem keyptar eru. Það er mikilvægt að vel sé að verki staðið og að standsetningu sé hraðað um leið og hagkvæmni- og gæðasjónarmiða er gætt.

  Fylgigögn

 33. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 21. október 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað við móttökur, sbr. 38 lið fundargerðar borgarráðs frá 6. september 2018.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Á síðasta ári var 20 milljónum króna varið í alls kyns viðburði, veislur og móttökur. Sundurliðun er þannig að tæpum 9 milljónum var varið í veitingar og 2,5 milljónum í vínföng. Önnur aðkeypt þjónusta eru rúmar 4 milljónir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins sér sannarlega mikilvægi í ýmsum viðburðum og hátíðum og þykir sjálfsagt að verja fé í hátíðir eins og Barnamenningarhátíð, hátíðir og viðburðir ætlaðir borgarbúum og hinum almenna starfsmanni borgarinnar. Hins vegar er ljóst að hér er um mikla peninga að ræða sem að hluta til er að fara í móttökur ætlaðar þröngum hópi, einhverjum útvöldum. Á fáum mánuðum hefur sem dæmi verið boðið til á annan tug móttaka sem ætlaðar eru skilgreindum, stundum þröngum, jafnvel elítuhópum. Allt er þetta greitt af almannafé. Minna skal á að það býr fólk í borginni sem á ekki til hnífs og skeiðar. Í borginni eru um 500 börn sem samkvæmt skilgreiningu eru fátæk. Þessum hópi sem oft er ekki háværasti  hópurinn í borginni er ekki boðið í fínar móttökur á vegum borgarstjóra sem greiddar eru af almannafé. Þegar kemur að kostnaði sem þessum hlýtur það að vera skylda borgarmeirihlutans að velta við hverjum steini til að spara.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Hér er um 20.000.000 kr. að ræða í móttökur á vegum borgarinnar sem verður að teljast ansi mikill kostnaður fyrir borgina. Ljóst er að fara þarf í saumana á þessum kostnaði og draga úr honum eins og unnt er enda er þessi kostnaður tekinn úr vösum skattgreiðenda. 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Við ákvörðun um opinbera móttöku er horft til þess að tilefnið þjóni hagsmunum Reykjavíkurborgar og Reykvíkinga og/eða sé í samræmi við höfuðborgarhlutverk borgarinnar. Útgjöld vegna móttaka á vegum borgarinnar hafa lækkað afar mikið undanfarinn áratug eins og fram kemur í minnisblaði skrifstofustjórans. Hvað varðar stórar hátíðir á vegum borgarinnar er leitast við að skipuleggja slíka viðburði á þannig að þeir séu fjölbreyttir og höfði til fjölbreytts hóps fólks enda eru gestir á Vetrarhátíð, Barnamenningarhátíð, 17. júní, Menningarnótt, tendrun Friðarsúlu og aðventuhátíðar árlega um 206.000 manns.

  Fylgigögn

 34. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 15. október 2018, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Vináttuverkefni Barnaheilla, sbr. 62. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. október 2018.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Það er sárt til þess að vita að borgarmeirihlutinn hefur ekki tímt að standa straum af kostnaði Vináttuverkefnis Barnaheilla í þeim leikskólum sem þess hafa óskað. Skýrt hefur komið fram að skóla- og frístundaráð tekur ekki þátt í kostnaði að neinu leyti við vináttuverkefni Barnaheilla. Fyrrverandi og núverandi borgarmeirihluti metur þetta verkefni greinilega nægjanlega mikið til að greiða fyrir það hjá þeim skólum sem óska eftir að nota það. Kostn¬aður við að inn¬leiða verk-efnið er á bil¬inu 100-150 þ.kr. fyrir hvern skóla. Það hlýtur að telj¬ast lítið ef sá árangur sem það skilar til barna, for¬eldra og starfs¬fólks skóla er skoð¬að¬ur. Þessi tregi borgarmeirihlutans að veita fé til þessa verkefnis er óskiljanlegur. Leikskólar borgarinnar sem óskað hafa eftir að fá verk¬efnið í sína leik¬skóla hafa þurft að sækja fjár¬magn í náms¬gagna¬sjóði leik¬skól¬anna. Flokkur fólks¬ins hefur staðið í þeirri meiningu að borgarmeirihlutinn vilji berjast af afli gegn ein¬elti og gera allt sem í sínu valdi stendur til að hjálpa börnum að þróa með sér góða samskiptahætti. Með þátt¬töku sem flestra leik- og grunn¬skóla í Vin¬áttu eru lögð lóð á þær vog¬ar-skál¬ar.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Vináttuverkefni Barnaheilla hefur verið kynnt skólum borgarinnar og hafa nú þegar 17 leikskólar hafið þátttöku. Þátttaka er hverjum skóla í sjálfsvald sett.

  Fylgigögn

 35. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 10. október 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna sérkennslu í leik- og grunnskólum, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Sérkennslu skal veita börnum þegar greining á sérkennsluþörf liggur fyrir.  Samkvæmt svari sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn er kostnaður vegna sérkennslu á leikskólastigi kr. 1.436.708 þús. árið 2017, (+kostn. skv. lið 1 í svari). Í svari er gefinn upp kostnaður beggja skólastiga, leik- og grunnskóla, vegna sérkennslu 2017 samtals kr. 3.616.349 þús. Kostnaður vegna grunnskóla 2018 er kr. 2.370.485 þús., en þá er ekki talinn með kostnaður vegna kennslu á sjúkrahúsum og í sérdeildum. Ætla má því kostnað vegna sérkennslu beggja skólastiga alls um 4,5 milljarða árið 2018. Ekki er ljóst hvort það liggi ávallt fyrir greiningar á sérkennsluþörf og hvort vel grundaðar kennsluáætlanir liggi fyrir áður en barn fer í sérkennslu. Ekki er heldur vitað nægjanlega um árangur, hvernig þetta er að nýtast börnunum. Samkvæmt tölum Hagstofunnar er um 30% nemenda í öllum 10 bekkjum grunnskólanna í sérkennslu. Menntamálaráðuneytið hefur gefið út að um 30% drengja og um 12% stúlkna geti ekki lesið sér sér að gagni við lok grunnskóla. Væri ekki hægt að nýta þessa miklu fjármuni betur í þágu nemenda? 

  Fylgigögn

 36. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 18. september 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um þjónustu við börn með tal- og málþroskavanda, sbr. 54. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018.

  Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Um 70 börn bíða eftir þjónustu talmeinafræðinga í leik- og grunnskóla og mörg hafa beðið lengi. Dæmi eru um 5 ára börn sem eru með málþroskaröskun og hafa beðið eftir þjónustu í 2 ár. Enn er margra mánaða bið eftir þessari þjónustu enda þótt þessi mál standa til einhverra bóta. Í allt of mörg ár hafa þessi mál verið í ólestri og vel kann að vera að einhver þessara barna hafi borið skaða af hvað varðar sjálfstraust og sjálfsöryggi. Það hafa ekki allir foreldrar haft efni á að kaupa sér þjónustu hjá sjálfstætt starfandi talmeinafræðingum út í bæ. Börn hafa því ekki setið við sama borð þegar kemur að þessu frekar en mörgu öðru þar sem þjónusta við börn er ófullnægjandi.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Taka má undir að nauðsynlegt er að tryggja börnum nauðsynlega talmeinaþjónustu. Þótt biðin sé, samkvæmt svari, oftast á bilinu 0-4 mánuðir, má alltaf gera betur, en hluti vandans liggur í fjölda menntaðra talmeinafræðinga.

  Fylgigögn

 37. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. október, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um kostnað vegna skrifstofuhúsnæðis borgarinnar, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. september 2018, ásamt fylgiskjölum.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Árið 2007 var ákveðið að selja allt skrifstofuhúsnæði Reykjavíkurborgar og færa reksturinn í leiguhúsnæði. 
  Seldar eignir á árinu 2008: 
  Borgartún 1, Borgartún 3, Skúlagata 2, Hverfisgata 14 og 14a, kaupandi Höfðatorg ehf., kaupverð 1.200.000 kr. Fríkirkjuvegur 11, kaupandi Novator F11 ehf., kaupverð 650 milljónir. Skipholt 50b, kaupandi Mark ehf., söluverð 110 milljónir.
  2011: 60% í Fríkirkjuvegi 1, kaupandi ríkissjóður Íslands, söluverð 360 milljónir 
  2012: Suðurlandsbraut 32, kaupandi Mynni ehf. söluverð 80,5 milljón 
  2017: Vonarstræti 4, kaupandi Íslandshótel, kaupverð 340 milljónir
  Samtals söluverð rúmir 2,7 milljarðar (ath. upphæðir eru ekki núvirðisreiknaðar). Reykjavíkurborg greiðir tæpar 70 milljónir í leigu á mánuði undir skrifstofur sínar. Það gerir tæpar 840 milljónir á ársgrundvelli. Greiddar eru tæpar 600 milljónir á ári fyrir skrifstofuhúsnæði í Borgartúni 10-12 sem er í eigu Höfðatorgs ehf. sem var stærsti einstaki kaupandinn af seldu skrifstofuhúsnæði Reykjavíkur 2008. Upphaf leigutímans var 1. október 2007 og lýkur honum án uppsagnar þann 30. september 2032. Á þessum upplýsingum má sjá að stórkostleg óafturkræf mistök hafa verið gerð í rekstri borgarinnar. Leigusamningurinn hleypur á tugum milljarða þegar hann rennur út. Mun hentugra hefði verið að kaupa/byggja hentugt húsnæði fyrir skrifstofur borgarinnar. Fara verður tafarlaust í hagræðingu hjá borgarsjóði og framleigja eitthvað af Borgartúni 10-12.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Samningurinn sem um ræðir var gerður árið 2007 og er óuppsegjanlegur til 1. september árið 2032. Óháð skoðun meirihlutans á þeim samningi, og hve hagfelldur hann er borginni, stendur borgin við gerða samninga.

  Fylgigögn

 38. Lagt fram trúnaðarmerkt svar borgarritara, dags. 23. október 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um ráðningu skrifstofustjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. september 2018.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Enn á ný er æðsta stjórn borgarinnar að bera fyrir sig trúnaði þegar kemur að ráðningarmálum Ráðhússins. Óskað var eftir að öllum skriflegum samskiptum milli aðila yrði skilað til borgarráðs. Við því var ekki orðið þrátt fyrir að málinu var vísað í trúnaðarbók. Lýst er yfir þungum áhyggjum af þeim kostnaði sem fallið hafa á borgina vegna starfsmannamála innan Ráðhússins.

  Óli Jón Hertervig víkur af fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 39. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um að málefni skrifstofustjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar verði tekin fyrir á næsta borgarráðsfundi, sbr. 57. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. október 2018.
  Samþykkt.

  Fylgigögn

 40. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. október 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um verkefni sem vistuð eru á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, sbr. 56. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. október 2018.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Óskað er eftir svari sem er tæmandi talið eins og fyrirspurnin gefur tilefni til. Gefið er upp í svarinu að verkefnin eru fjölmörg og að haldið sé utan um þau í hópvinnukerfi skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem jafnframt er skjalavistunarkerfi borgarinnar. Því er ítrekað að ítarlegt svar berist við fyrirspurninni.

  Fylgigögn

 41. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um viðskipti við stærstu birgja, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. september 2018.
  Frestað.

  Fylgigögn

 42. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. október 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um innkaupaferli vegna borða í borgarstjórnarsalinn, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. október 2018.

  Fylgigögn

 43. Lagt fram svar mannauðsdeildar, fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um viðbrögð við útgjöldum vegna langtímaveikinda, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september 2018. 
  Frestað. 

  Fylgigögn

 44. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 10. október 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um áhrif fasteignaverðs og fasteignagjalda á leiguverð Félagsbústaða, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. september 2018, ásamt fylgiskjölum.

  Fylgigögn

 45. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. október 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um heildarkostnað við Mathöllina á Hlemmi, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. október 2018.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Ljóst er að leiguverð stendur engan veginn undir kostnaði borgarinnar, þrátt fyrir að lóðin væri metin á kr. núll. 14 milljónir á ári upp í 300 milljóna kr. framkvæmd auk þess sem viðhald og fasteignagjöld lenda ekki á leigutaka heldur eiganda (Reykjavíkurborg). Þá kemur skýrt fram í svari SEA að Reykjavíkurborg hafi engan ávinning af raunverulegu leiguverði til þriðja aðila. Þar með er staðfest að borgin ber áhættuna og leigutakinn allan ávinninginn. Þetta ráðslag vekur spurningar um að hér sé um ólögmæta niðurgreiðslu af hálfu borgarinnar að ræða.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Leiguverð á Hlemmi var ákveðið í kjölfar faglegs mat óháðs fasteignasala. Hlemmur Mathöll hefur glætt þetta sögufræga hús lífi, hitað upp allan ofanverðan Laugaveg og nærumhverfi. Framundan er vinna við deiliskipulag á svæðinu þar sem horft verður til bestu tillagnanna úr skipulagssamkeppni sem fram fór á árinu. Líklegt má telja að mat fasteignasalana hafi verið nálægt markaðsleigu á sínum tíma en í kjölfar velgengninnar sem Hlemmur hefur notið hefur leiga í þessum borgarhluta hækkað.

  Fylgigögn

 46. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. október 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kaup og viðgerðir á Grensásvegi 12, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. október 2018.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Ljóst er að þessar íbúðir voru ekki til þegar samningur borgarinnar var gerður um þær. Áfangatengdar greiðslur sem miðast við framgang verksins benda ekki til hefðbundinna fasteignaviðskipta heldur verkkaupa. Þá vekur athygli að bókun innkaupráðs frá árinu 2016 um að riftunarheimild verði í verkkaupum borgarinnar hefur ekki verið framfylgt í samningum. Með þessu háttalagi hefur borgin veikt stöðu sína gagnvart verksala sem hefur verið uppvís að alvarlegum brotum gagnvart starfsmönnum. Meðal annars með því að greiða þeim undir lágmarkslaunum, láta þá hreinsa asbest án hlífðarfatnaðar og hafa aðstöðu með þeim hætti að Vinnueftirlit ríkisins þurfti að loka starfseminni. Þá hafa íbúðirnar ekki verið afhentar þrátt fyrir að hálft ár sé liðið síðan afhending átti að fara fram. Íbúðirnar eru ekki ódýrar og hafa í engu nýst umbjóðendum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna brýnnar þarfar borgarinnar. Þá vaknar spurning hvort ekki hefði verið skynsamlegra fyrir borgina að kaupa fullbúnar íbúðir í stað þess að standa að þessum framkvæmdum sem hafa farið mjög illa eins og raun ber vitni.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Reykjavíkurborg festi kaup á 24 fullgerðum íbúðum að Grensásvegi 12, vegna brýnnar húsnæðisþarfar velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fyrir fólk í húsnæðisvanda. Þar sem þarna er um að ræða fasteignakaup tekur kaupandi ekki þátt í framkvæmdum seljanda eða ber ábyrgð á þeim. Vegna fyrirliggjandi og fyrirsjáanlegs enn frekari dráttar á afhendingu eignarinnar er verið að skoða beitingu vanefndaúrræða gagnvart seljanda.

  Fylgigögn

 47. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. október 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við Aðalstræti 10, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. október 2018.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Heildarkostnaður í áætlun er upp á 450 milljónir kr. eða meira en eina milljón á hvern fermetra. Framkvæmdir eru ekki hafnar og því ekki ljóst hvort kostnaðaráætlun muni standast. Engu að síður stendur eftir að hér er verið að setja hálfan milljarð enn á ný í verkefni sem ekki er lögbundið eða grunnþjónusta. Á sama tíma er húsnæði í leik- og grunnskólum ásamt frístundaheimilum víða í ólestri svo skömm er að.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Það er gleðilegt að Reykvíkingar eigi nú elsta hús borgarinnar á föstu landi og að þar sé sýning þar sem sögu og þróun Reykjavíkurborgar eru gerð góð skil.

  Fylgigögn

 48. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. október 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Perluna, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. október 2018.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Upphafleg kostnaðaráætlun við byggingu Perlunnar sem opnuð var 1991 var að núvirði 3,3 milljarða en kostaði að lokum 6,4 milljarða. Starfsemi Perlunnar fólst einkum í veitingarekstri á efstu hæð og ísbúð á 4. hæð auk tímabundinna bóka- og geisladiskamarkaða. Leigutekjur á ári voru um 30 m.kr. þegar Reykjavíkurborg keypti Perluna af OR á 950 m.kr. 2013. Auglýst var eftir samstarfsaðilum til að auka notkun hússins og frá og með næstu áramótum verða árlegar leigutekjur 164 m.kr. á ári eða 3,3 milljarðar næstu 20 árin án verðbóta. Þá er gleðiefni fyrir Reykvíkinga að nú er fróðleg náttúrusýning opnuð og munu fleiri áfangar opna á næstunni sem gera náttúru Íslands góð skil.

  Fylgigögn

 49. Lögð fram að nýju fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samskipti óhagnaðardrifinna leigufélaga og borgarstjóra og formanns borgarráðs, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018 og 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. september 2018.
  Frestað. 

  Fylgigögn

 50. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. október 2018, við fyrirspurnum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 53. og 54. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. október 2018 og 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. október 2018, fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. október 2018 og fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. október 2018 um framkvæmdir við Nauthólsveg 100.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Óeðlilegt er að fyrirspurnunum sé ekki svarað í ljósi þess að innri endurskoðun hefur málið til rannsóknar. Á sama tíma hafa starfsmenn borgarinnar og fyrrverandi starfsmenn tjáð sig um verkefnið í fjölmiðlum en kjörnum fulltrúum er ekki svarað. 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Reykjavíkurborg hefur verið afar útbær á allar upplýsingar um Nauthólsveg. Borgarráðsfulltrúar hafa allir fengið þann aðgang að gögnum sem þau hafa óskað eftir. Þá hafa þær upplýsingar sem óskað hefur verið eftir verið sendar til fjölmiðla. Rannsókn málsins er þó, eins og margoft hefur komið fram – enn á borði innri endurskoðanda. Þegar þeirri skoðun er lokið munu öll svör liggja fyrir.

  Fylgigögn

 51. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um frekari þjónustu skrifstofu borgarstjórnar við kjörna fulltrúa sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. október 2018. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 22. október 2018.
  Samþykkt að vísa tillögunni frá. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá afgreiðslu málsins.

  Fylgigögn

 52. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um könnun meðal íbúa úthverfa, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. september. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 21. október 2018.
  Frestað. 

  Fylgigögn

 53. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kosningu vegna borgarlínu sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. október 2018.
  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

  Áheyrnarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Borginni ber skylda til að taka upp beint og milliliðalaust lýðræði sérstaklega þegar verið er að taka ákvörðun um að fara í fjárfrekar aðgerðir sem borgarlínan verður. Áætlað er að verkefnið komi til með að kosta tugi milljarða króna sem enginn getur bent á hvert á að sækja. Í Reykjavík skortir mjög á lýðræðið þegar ákvarða á stórframkvæmdir til framtíðar. Að hafna því að fram fari íbúakosning meðal Reykvíkinga um borgarlínu er hrein hræðsla við lýðræðið. Nú er ljóst að samráð, gegnsæi, lýðræði og opin ferli eru orðin tóm. Ekkert er að marka það sem borgarfulltrúar Pírata, Vinstri grænna, Samfylkingar og Viðreisnar sögðu fyrir kosningar. Það voru greinilega orðin tóm.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja mikla áherslu á íbúalýðræði og jafnframt ábyrga stjórnsýslu. En íbúalýðræði er ekki bara að setja hluti í beina kosningu í hvert skipti sem einhverjum dettur í hug að kalla eftir því. Borgarlína er afrakstur margra ára vinnu sérfræðinga, með aðkomu íbúafunda og kjörinna fulltrúa. Mikil skipulagsvinna og áætlanir liggja fyrir henni og myndi sú vinna glatast ef hætt væri við á þessum punkti, sem og sú samstaða sem náðst hefur milli sveitarfélaga og ríkisins um þessa leið. Auk þess má benda á að borgarlínan nýtur mikils stuðnings í skoðanakönnunum og var mikið í umræðunni fyrir kosningar, en þeir flokkar sem mynda núverandi meirihluta gáfu allir skýr loforð um að úr henni myndi verða. Raunverulegt, beint íbúalýðræði fæst með reglulegri og góðri upplýsingagjöf, samráði, virkri þátttöku íbúa á öllum stigum ferlisins og möguleikum á inngripum eftir lýðræðislega skilgreindum leiðum í kjölfar upplýstrar umræðu um málefnið, en ekki með tækifærissinnuðum beinum kosningum eftir hentisemi kjörinna fulltrúa í leit að vopni á sinni pólitísku vegferð.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja ríka áherslu á upplýsandi umræðu, íbúalýðræði og íbúasamráð. Eðlilegt er að borgarbúar fái að taka afstöðu til stórra ákvarðana sem varða framtíðarskipulag borgarinnar og framkvæmda sem auðveldlega geta kostað borgarbúa fjárhæðir sem samsvara öllum skatttekjum borgarsjóðs á ársgrundvelli.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Beint lýðræði er heilsteypt hugmyndafræði sem byggir á miklum fræðilegum grunni og hefur mikið starf í þágu beins lýðræðis verið unnið hjá borginni. Í beinu lýðræði felst ekki að sjálfkrafa sé sagt já við öllum hugmyndum um atkvæðagreiðslur, um öll mál stór og smá. Þeir flokkar sem vinna saman í meirihluta lofuðu allir borgarlínu fyrir kosningar, en ekki er endilega hægt að lesa skýrt loforð um íbúakosningu um málið úr stefnu þeirra, né heldur er slíkri atkvæðagreiðslu lofað í samstarfssáttmálanum. Fulltrúar flokkanna í borgarráði hafna því að þessi afgreiðsla sé í andstöðu við stefnu þeirra og fyrirheit fyrir kosningar.

  Fylgigögn

 54. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um þjónustu mötuneyta, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. september 2018. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 19. október 2018.
  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Flokkur fólksins fagnar því að borginni þykir það verðugt markmið að skilgreina gæði og þjónustumarkmið mötuneyta með það fyrir augun að auka gæðin. Ekki er betur séð en að í þessu svari sé jákvæður tónn. Það rekstrarform sem kemur best út fyrir alla aðila hlýtur að vera það heppilegasta fyrir öll mötuneyti borgarinnar og mætti innleiða alls staðar ef því er að skipta. Það er mikilvægt að borgin leiti allra leiða til að hagræða í rekstri mötuneyta og auka gæði á sama tíma. Sterkar vísbendingar eru um að það að bjóða þessi verkefni út sé hagstæðara en það fyrirkomulag sem nú ríkir víðast í mötuneytum í Reykjavík. Ef borgin vill auka hagkvæmni er varðar mötuneyti þarf að skoða matarsóun og hafa skýra stefnu til að sporna við henni. Flokkur fólksins vill minna á fyrirspurnir í tengslum við mötuneyti og matarsóun sem eru ósvaraðar t.d. um hversu margir af þeim sem greiða fyrir mat nýta sér að jafnaði þjónustuna á hverjum degi. Matarsóun er kostnaðarsöm og meðal fyrirspurna Flokks fólksins var hversu miklum mat er hent í mötuneytum borgarinnar og hvort til sé stefna hjá borginni eða leiðir til að nýta matarafganga.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Nýsamþykkt matarstefna Reykjavíkurborgar er metnaðarfull og fyrir liggur að hana þarf að innleiða í mötuneytum borgarinnar. Meginmarkmið með mótun matarstefnu var að stuðla að betri heilsu Reykvíkinga, styrkja máltíðaþjónustu og stuðla að því að borgin nái markmiðum sínum hvað varðar öryggi, sjálfbærni, lýðheilsu og hagkvæmni. Ekki var tekin afstaða til rekstrarforms mötuneyta þar sem mismunandi rekstrarform geta hentað eftir aðstæðum hverju sinni. Skrifstofa þjónustu og reksturs rekur mötuneyti stjórnsýsluhúsa og hafa þau bæði verið rekin á þann veg að starfsmenn skrifstofunnar sáu um reksturinn og svo nú í seinni tíð af verktaka að undangengnu innkaupaferli. Segja má að bæði sé góð og síður góð reynsla að hvoru rekstrarforminu fyrir sig. Fyrir því eru ýmsar ástæður, þ.e. atvinnuástand, fjárframlög til rekstursins og fjöldi aðila á markaði er höfðu burði til að bjóða í þjónustuna svo eitthvað sé nefnt.

  Fylgigögn

 55. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um afnám þóknunar fyrir nefndarsetu starfsmanna borgarinnar fyrir fundi á vinnutíma, sbr. 47. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 19. júní 2018. Einnig eru lagðar fram umsagnir skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 16. október 2018 og skrifstofu borgarstjórnar, dags. 20. september 2018.
  Tillagan er felld. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Kjörnir fulltrúar sem sitja fyrir hönd Reykjavíkurborgar í stjórnum og nefndum fá greitt í samræmi við þær reglur sem í gildi eru hverju sinni á þeim vettvangi. Það er í höndum þeirra stjórna að ákveða greiðslur fyrir stjórnarstörf en ekki borgarstjórnar. Erfitt getur líka talist að skilgreina hvað sé skilgreint sem fundir utan vinnutíma þegar vinnutími borgarfulltrúa er eins langur og fljótandi og raun ber vitni. Borgarfulltrúar fá greidd laun í samræmi við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar, þar er kveðið á um grunnvinnu sem þarf að inna af hendi til að fá grunnlaun og svo eru ákvæði um álagsgreiðslur sem er sett fram til að jafna álag kjörinna fulltrúa og hvetja til jafns vinnuframlags þeirra á milli. Sé vilji til að breyta upphæðum þeirra álagsgreiðsla þá er það önnur umræða.

  Fylgigögn

 56. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Lagt er til að upplýsingastjóri borgarinnar sendir frá sér fréttatilkynningar um afgreiðslu tillagna í borgarstjórn og ráðum og nefndum borgarinnar á hlutlausan hátt.

  Frestað.

  Fylgigögn

 57. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að tillaga um að ekki verði mokað yfir steinbryggju við Tryggvagötu verði tekin til afgreiðslu í borgarráði, sbr. 61. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. október 2018, 19. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 3. október 2018 og 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018.
  Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Tillögunni er vísað frá í ljósi þess að umhverfis- og skipulagssvið hóf vinnu við að skoða hvernig mætti gera steinbryggjuna sýnilega um leið og í ljós kom að möguleiki væri á því. Þegar umhverfis- og skipulagssvið hefur lokið þeirri vinnu verður hún að sjálfsögðu kynnt borgarráðsfulltrúum.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Það verður teljast óeðlilegt að vísa frá tillögu kjörinna fulltrúa um að skoðað verði að gera steinbryggjuna sýnilega. Á sama tíma er hafin vinna á umhverfis- og skipulagssviði án þess að nokkur samþykkt liggi fyrir, hvorki í borgarráði né í öðrum ráðum borgarinnar þar sem slíkar ákvarðanir eru teknar.

  Fylgigögn

 58. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um viðbrögð borgarráðs við dómi í máli E-3132/2017, sbr. 58. lið fundargerðar borgarráðs frá 4 október 2018. 
  Samþykkt. 

  Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins: 

  Sá embættismaður sem dæmdur var fyrir ólöglega áminningu á hendur fjármálastjóra Ráðhússins og setti af stað eineltisrannsókn í samvinnu við borgarritara, heldur starfi sínu eins og ekkert hafi í skorist. Hún er enn yfirmaður hans og hefur skipunarvald yfir honum en hann hafði fullan sigur í dómsmálinu og eineltisrannsóknin hefur nú verið felld niður af hálfu borgarinnar. Hér er ekki hægt að láta staðar numið og stjórnarandstaðan í borgarstjórn krefst þess að þessi málalok af hálfu borgarinnar eigi að hafa afleiðingar fyrir hina dæmdu. Það er meiriháttar ámælisvert að borgarstjóri og borgarritari sem samkvæmt skipuriti borgarinnar bera ábyrgð á hinni dæmdu láti eins og ekkert hafi í skorist. Tillaga Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins leggur til eftirfarandi málalok til lúkningar málinu: Að skrifstofustjórinn verði flutt í starf sem ekki felur í sér mannaforráð.
      
  Tillagan er felld með fjórum með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Viðbrögð við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur um að áminning skrifstofustjóra hafi verið felld úr gildi kalla ekki á sérstök viðbrögð borgarráðs auk þess sem áminningin hefur verið dregin tilbaka. Það er sérkennilegt að fylgjast með framgöngu kjörinna fulltrúa í viðkvæmu starfsmannamáli enda er viðkomandi starfsmaður ekki ráðinn af borgarráði og er það ekki hlutverk ráðsins að veita honum lausn eða færa hann til í starfi.

  Áheyrnarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins ásamt borgarráðsfulltrúum Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Þetta mál hefði aldrei þurft að ganga svona langt. Óhætt er að segja að það hafi verið sérlega illa tekið á málum eða alls ekki. Vel hefði mátt grípa strax inn í, hlusta á þann sem áminntur var og reyna allt til að ná sáttum svo ekki þyrfti að koma til dómsmáls. Þetta er áfellisdómur fyrir þann hluta stjórnsýslu borgarinnar sem annast þessi mál sem kostað hefur gríðarlega vanlíðan og tjón auk þess margra milljóna kostnaður er lagður á borgarbúa. Þrátt fyrir afgerandi dómsuppkvaðningu er síðan látið sem ekkert sé. Ekki hefur verið rætt við fjármálastjórann eitt orð um iðrun eða afsökunarbeiðni. Það hlýtur að vera ljóst að þegar svo alvarlegur dómur fellur þurfa að vera einhverjar afleiðingar og er það þess vegna sem þrír flokkar stjórnarandstöðunnar leggja til að skrifstofustjórinn verði færður til í starfi þar sem hann hefur engin mannaforráð til að tryggja að svona endurtaki sig ekki.

  Fylgigögn

 59. Lagt fram að nýju svar velferðarsviðs, dags. 3. október 2018, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. október 2018 við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um biðtíma eftir sálfræðiþjónustu í leik- og grunnskólum, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. september 2018.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Biðlistinn eftir sálfræðiþjónustu skóla er óheyrilega langur bæði í forgang 2 og 3 allt frá 3 til 9 mánuðum aðeins misjafnt eftir hverfum. Margir foreldrar eru afar ósáttir með slakt aðgengi að skólasálfræðingi fyrir barn sitt. Börnin líða fyrir biðina. Jafnvel þegar búið er að ákveða að nánari greiningar er þörf þá þarf barn að bíða í allt að ár. Vissulega er einhver íhlutun í gangi en það dugar ekki til í öllum tilfellum þegar ekki er nákvæmlega vitað hverjar orsakir eru fyrir vanda og vanlíðan barns sem um ræðir. Færst hefur í vöxt að foreldrar hafa neyðst til að leita á stofu út í bæ með barn sitt sem stundum er komið í 8. og 9. bekk. Þá fyrst hefur komið í ljós að barnið á í sumum tilfellum við vitsmunaþroskafrávik að stríða t.d. í vinnsluminni. Þegar hér er komið sögu er barnið oft búið að tapa sjálfstrausti og sjálfsöryggi sínu. Það er skoðun borgarfulltrúa F, D og M að þjónustumiðstöðvar séu óþarfa millistykki í þessu tilliti og hamli enn frekar aðgengi barnanna að sálfræðingunum. Sálfræðingar með aðsetur í skólum að öllu leyti geta vel haldið áfram að vera í þverfaglegu starfi með þjónustumiðstöðvum.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Unnið er eftir hugmyndafræði um snemmtæka íhlutun þar sem þjónusta er veitt á vettvangi þegar beiðni berst og forathugun er grundvöllur forgangsröðunar mála. Bráðamál fara strax í vinnslu og reynt er að því að lágmarka bið eftir annarri þjónustu.

  Fylgigögn

 60. Lagt fram að nýju svar Minjaverndar, ódags., sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. október 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um heildarkostnað við endurbætur á steinbæ við Holtsgötu, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. september 2018.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Ljóst er að Reykjavíkurborg er að afsala sér húseign á verðmætum stað í Reykjavík. Þá kemur fram að kostnaðaráætlun sé 75 milljónir en inn í hana vanti „lóðarlögun og svokallað miðbæjarálag sem Minjavernd notar iðulega í verkum sínum og tekur til kostnaðar vegna þrengsla við framkvæmdir. Jafnframt var það svo að farið var fram á fornleifagröft undir og í kringum húsið sem tók töluvert til sín. Af hálfu Minjaverndar hefur því verið gengið út frá auknum kostnaði við verkefnið umfram áætlun.“ Rétt er að geta þess að Minjavernd er að stórum hluta í eigu Reykjavíkurborgar. 

  Fylgigögn

 61. Lagt fram að nýju svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. október 2018, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. október 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um mörk útivistarsvæðisins vestan megin við Vesturbæjarlaug, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. maí 2018.

  Fylgigögn

 62. Lagt fram að nýju svar borgarstjóra, dags. 25. september 2018, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. október 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins um starfshópa, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. júlí 2018, ásamt fylgiskjölum.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Stefnumótun í Reykjavík hefur breyst afar mikið á undanförnum árum. Nú eru settir af stað starfs- og stýrihópar um stór mál og smá. Sumir starfa um langan tíma, aðrir til skemmri tíma, allt eftir umfangi verkefnisins. Hóparnir skila niðurstöðum og úr verða tillögur, úrbætur, stefnur eða sviðsmyndir sem að lokum koma til framkvæmda innan borgarkerfisins. Það eru þannig vinnubrögð sem skila árangri frekar en fálmkennd ákvarðanataka byggt á einhverju öðru en bestu upplýsingum hverju sinni.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Á síðasta kjörtímabili voru að störfum 351 starfshópur sem verður að teljast óeðlilegur fjöldi. Margar þær skýrslur og stefnur sem komið hafa frá þessum starfshópum hafa ekki komið til framkvæmda og dagað uppi í rykfylltum skúffum borgarinnar. Svona vinnubrögð eru ekki til að einfalda stjórnsýsluna heldur flækja hana og gera hana óskilvirka.

  Fylgigögn

 63. Lagt fram að nýju svar Strætó bs., dags. 5. september 2018, móttekið 2. október 2018, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. október 2018, við fyrirspurnum áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um hvenær ákveðið var að hætta að selja auglýsingar á strætisvagna, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018, um heildartekjur vegna sölu auglýsinga á strætisvögnum, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018, um kostnað við merkingar strætisvagna, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018, um hversvegna ákveðið var að hætta að selja auglýsingar á strætisvagna, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018, um kostnað við að heilmerkja strætisvagna, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018, um kostnað við slagorðamerkingu strætisvagna, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018 og um hugmyndasmið að slagorðaherferð, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst 2018.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Strætó hefur notað auglýsingafletina sem eru á vögnunum sjálfum, til að auglýsa fyrirtækið Strætó og hvetja fólk til að taka strætó. Þótt Reykjavíkurborg sé meirihlutaeigandi í Strætó þá eru slíkar rekstrarákvarðanir ekki á borði borgarráðs. Líklegt má telja að slíkar ákvarðanir séu í sífelldri endurskoðun enda geta auglýsingaplássin utan á strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu verið afar verðmætir fletir. Einkum með tilliti til þess að sífellt fleiri nota strætó enda hefur farþegum fjölgað um 25-30% á tímabilinu 2012-2018. Þá eru um 30% allra þeirra sem nota Miklubrautina á annatíma, farþegar í strætó.

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Einfaldri fyrirspurn er svarað í illa uppsettu skjali þar sem framsetning er villandi. Í fyrsta lagi veitir Strætó bs. ekki af hverri krónu enda er alveg ljóst að auglýsingasala gæti verið ábatasöm fyrir fyrirtækið. Útvistunarsamningur Strætó vegna auglýsingasölu hefur augljóslega verið illa ígrundaður á sínum tíma þannig að Strætó bs. hámarkaði ekki tekjur sínar af auglýsingasölunni. Augljóst er að Strætó bs. hefur ekki nýtt þau tækifæri sem til staðar eru með auglýsingum inn í vögnunum sjálfum. Þannig hefði t.d. verið hægt að selja auglýsingar fyrir aftan hvert sæti líkt og gert er í flugvélum, rútum og lestum víðast hvar í heiminum. Hér er um vannýtt tækifæri til tekjuöflunar að ræða.

  Fylgigögn

 64. Lagt fram að nýju svar Félagsbústaða hf., dags. 4. október 2018, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. október 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um lögfræðikostnað Félagsbústaða, sbr. 61. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Í svari fyrrverandi framkvæmdastjóra Félagsbústaða má sjá að hann hefur misskilið fyrirspurnina en spurt var um lögfræðikostnað Félagsbústaða síðastliðin fimm ár sem fyrirtækið hefur greitt lögfræðingum í málum eins og viðhaldsmálum og öðrum kvörtunar- eða dómsmálum sem hafa að gera með myglu eða aðra galla í eigum Félagsbústaða. Fram kemur í svari að um eitt mál sé að ræða er varðar myglu eða grun um myglu. Ekki er sagt frá öðrum kostnaði hvað varðar önnur mál og kostnaði við lögfræðiráðgjöf í hinum ýmsu málum.

  Fylgigögn

 65. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

  Óskað er eftir sundurliðuðum reikningum vegna allra efniskaupa vegna Nauthólsvegar 100.

 66. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

  Í júní 2012 skilaði innri endurskoðun Reykjavíkur skýrslu um úttekt á rekstri, stjórnarháttum og hlutverki Félagsbústaða hf. Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur þetta fram:
  Niðurstaða 1. „Að stjórn setji sér starfsreglur þar sem kveðið er á um framkvæmd starfa hennar, eins og segir í 20. gr. samþykktar fyrir Félagsbústaði hf. og í lögum um hlutafélög.“ Hefur þessi ábending komist í framkvæmd?
  Niðurstaða 2. „Mælt er með því að stjórn Félagsbústaða setji starfsemi fyrirtækisins siðareglur, þar sem hlutverk þeirra er að draga fram megingildi starfseminnar. Þá er um leið auðveldara að bregðast við siðferðislegum álitamálum á vinnustað.“ Hefur þessi ábending komist í framkvæmd?
  Niðurstaða 3. „Skerpa þarf á stöðu og hlutverki Félagsbústaða gagnvart snertiflötum við hlutverk velferðarsviðs þar sem í samþykkt félagsins er annars vegar vísað í að fylgja eftir ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994 en hins vegar að taka mið af skyldum sem á sveitarfélagi hvíla samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/199198.“ Hefur þessi ábending komist í framkvæmd?
  Niðurstaða 4. „Framsetning á framtíðarsýn og meginmarkmiðum þarf að vera skrifleg og aðgengileg starfsmönnum og í framhaldi af því séu skilgreindir lykilárangursmælikvarðar. Marka þarf almenna innkaupastefnu, þar sem m.a. er mótuð stefna um samskipti við verktaka og birgja. Þannig má enn frekar byggja upp traust og gagnsæi í viðskiptaháttum.“ Hefur þessi ábending komist í framkvæmd?
  Niðurstaða 5. „Mikilvægt er að eftirlit stjórnar og stjórnenda einskorðist ekki eingöngu við fjárhagslegt eftirlit og jafnframt sé litið til árangurs með tilliti til annarra markmiða. Mikilvægt er að framkvæmdaáætlun sé útfærð enn frekar, t.d. með tímaáætlun, brotin upp og taki tillit til fleiri lykilþátta í rekstri.“ Hefur þessi ábending komist í framkvæmd?
  Niðurstaða 6. „Til að bæta starfsemina enn frekar gæti fyrirtækið þróað kerfisbundið áhættumat. Helstu áhættuþættir sem ógna markmiðum fyrirtækisins yrðu greindir og viðbrögð skilgreind, þ.e. viðunandi innri eftirlitsþættir innleiddir til að bregðast rétt og tímanlega við. Hjá Félagsbústöðum felst viss áhætta í því hve mikið fyrirtækið er háð þarfagreiningu Velferðarsviðs í allri sinni áætlunargerð. Endurskoða þarf uppbyggingu biðlista til þess að hann sýni brýna þörf á félagslegu húsnæði. Huga þarf að formlegri áhættugreiningu í tengslum við fjárstýringu félagsins.“ Hafa þessar ábendingar komist í framkvæmd?
  Niðurstaða 7. „Nauðsynlegt er að stjórn og stjórnendur Félagsbústaða vinni úr athugasemdum ytri endurskoðenda þar sem m.a. er bent á að: 1. Stjórn Félagsbústaða þurfi að setja sér upplýsingaöryggisstefnu og öryggishandbók. Nauðsynlegt er að allar verklagsreglur, ferlar og lýsingar séu skilgreindar og skjalfestar. 2. Skilgreina þarf ábyrgðarskiptingu milli framkvæmdastjóra og kerfisstjóra, varðandi rekstrar- og aðgangsöryggi upplýsingakerfa og áreiðanleika gagna. Slík vinna myndi skila félaginu haldgóðri upplýsingahandbók um upplýsingatæknimál og upplýsingaöryggismál.“ Hafa þessar ábendingar komist í framkvæmd?

 67. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

  Í tillögu borgarstjóra sem lögð var fram á fundi borgarráðs 25. október sl. um styrk til Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík er lagt til að kostnaðurinn verði greiddur af kostnaðarstað 07160, Atvinnuþróunarátak/sóknaráætlun. Hvaða önnur verkefni hafa fallið undir þann lið á þessu og síðasta ári? Hver er lýsinging á þessum lið og/eða verkefnum sem falla undir þennan lið?

 68. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

  Í ljósi þess kostnaðar sem borgin hefur eytt í alls kyns móttökur og viðburði suma ætluðum lokuðum hópum leggur borgarfulltrúi Flokks fólksins til að farið verði ítarlega ofan í saumana á þessum kostnaði með það fyrir augum að draga úr honum.  Athuga skal hvort hægt er að draga úr kostnaði við veitingar, framreiðslu, gjafir og  skreytingar. Skoða þarf hversu mikið er að fara í tilstand sem þetta sem tengist einungis skrifstofu borgarstjóra og einhverjum útvöldum einstaklingum/hópum og hversu mikið er ætlað borgarbúum sjálfum eða er í þágu barna. Efst í forgangi þegar litið er til þessara mála eiga að vera borgarbúar sjálfir og hinn almenni starfsmaður borgarinnar. Það sem er í  þágu barna þegar kemur að viðburðum og hátíðum er fé sem er vel varið. Það sem annars sparast við að velta við hverjum steini í þessu sambandi er fé sem mætti nota til að lækka skólamáltíðir, fjölga sálfræðingum til að draga úr biðlista, bjóða fátækum börnum upp á gjaldfrjáls frístundaheimili svo fátt eitt sé nefnt. 

  Vísað til meðferðar forsætisnefndar.

 69. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Flokkur fólks¬ins leggur til að borgin fjármagni að fullu Vináttuverkefni Barnaheilla fyrir þá leik- og grunn¬skól¬a sem þess óska. Rökin með þessari tillögu hafa verið reifuð oft áður og skemmst er að nefna að góð reynsla er af verkefninu sem sem hjálpar börnum að fyrirbyggja og leysa úr ýmsum til¬finn¬inga¬legum og félagslegum vanda.

  Greinargerð fylgir tillögunni.  
  Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. 

 70. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Sérkennslu skal veita börnum þegar greining á sérkennsluþörf liggur fyrir. Samkvæmt svari sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn er kostnaður vegna sérkennslu á leikskólastigi kr. 1.436.708 þús. árið 2017, (+ kostn. skv. lið 1 í svari). Í svari er gefinn upp kostnaður beggja skólastiga, leik- og grunnskóla, vegna sérkennslu 2017 samtals kr. 3.616.349 þús. Kostnaður vegna grunnskóla 2018 er kr. 2.370.485 þús., en þá er ekki talinn með kostnaður vegna kennslu á sjúkrahúsum og í sérdeildum. Ætla má því kostnað vegna sérkennslu beggja skólastiga alls um 4,5 milljarða árið 2018. Hafa skal í huga að um 30% nemenda grunnskólans eru að jafnaði í sérkennslu. Er það ásættanlegur árangur að 30% drengja og 12% stúlkna geti ekki lesið sér að gagni við lok grunnskólans? (Skv. tölum frá ráðuneyti). Spurningin er hvort sú sérkennsla eins og hún er sett upp í dag sé að nýtast börnum með fullnægjandi hætti? Spurt er: Liggja ávallt fyrir greiningar á sérkennsluþörf og vel grundaðar kennsluáætlanir áður en barn fer í sérkennslu?

 71. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn vegna 41. lið fundargerðarinnar um verkefni sem vistuð eru á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, sbr. 56. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. október 2018:

  Óskað er eftir svari sem er tæmandi talið eins og fyrirspurnin gefur tilefni til. Gefið er upp í svarinu að verkefnin eru fjölmörg og að haldið sé utan um þau í hópvinnukerfi skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem jafnframt er skjalavistunarkerfi borgarinnar. Því er ítrekað að ítarlegt svar berist við fyrirspurninni. 
   

 72. Lögð fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins vegna svars um kostnað við móttökur:

  Flokkur fólksins óskar eftir því að fá að vita  hvaða fyrirtæki þetta eru sem þjónustan er keypt af, veitingar, framreiðsla, skreytingar o.s.frv. Einnig hvernig Reykjavíkurborg skilgreinir „móttöku“ í svarinu. Óskað er eftir að vita um hvaða móttökur eru að ræða, hvenær þær fóru fram, og hvar og í tilefni hvers árið 2017 og það sem af er 2018.

 73. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

  Óskað er eftir öllum reikningum sem greiddir hafa verið út vegna vitans við Sundabraut.

 74. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

  1. Hvenær er ráðgert að opna Hólaberg 86 sem hýsir skammtímavistun fyrir fatlaða? 2. Hvenær var áætlað að opna skammtímavistunina?  
  3. Hvað tafði opnunina?

 75. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

  Hvað lagði Reykjavíkurborg háa upphæð af mörkum, tæmandi talið, vegna Landsmóts hestamanna sem haldið var í Reykjavík sl. sumar?

 76. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

  Keypti borgin aðgangsmiða á tónleika sem haldnir voru í Hörpu þann 12. október sl.? Ef svo er hvað voru margir miðar keyptir? Kom borgin á einhvern fjárhagslegan hátt að tónleikahaldinu með t.d. styrkjum eða í gegnum eignarhald sitt í Hörpu með niðurfellingu/afsláttar á salarleigu?

 77. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: 

  Í ljósi svars fyrrverandi framkvæmdastjóra Félagsbústaða þar sem fram kemur að orðalag fyrri fyrirspurnar Flokks fólksins um lögfræðikostnað hafi verið leiðandi ber Flokkur fólksins fram aðra og vonandi minna leiðandi fyrirspurn. Óskað er eftir að fá upplýsingar um allan mögulegan lögfræðikostnað Félagsbústaða síðastliðin 5 ár.

 78. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

  Borgarráð samþykkir að beina því til stjórnar Strætó bs. að nýta betur tækifæri í strætisvögnunum til auglýsinga og þar með auka tekjur fyrirtækisins. Lagt er til að auglýsingar séu seldar inn í vögnunum sjálfum, þ.e. fyrir aftan hvert sætisbak eins og gert er í flugvélum, rútum og lestum víðast hvar í heiminum. Þá er lagt til að samið verði við fyrirtæki sem kemur til með að sjá um auglýsingarnar um ákveðna prósentuþóknun af seldum auglýsingum en ekki fast verð.

  Frestað.

 79. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

  Hver er kostnaður Reykjavíkurborgar við endurbætur á Gröndalshúsi og í hverju fólust framkvæmdirnar? Óskað er eftir sundurliðun kostnaðarliða.

  -    Kl. 16:50 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum. 

 80. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

  Hver er ástæðan fyrir breyttu póstnúmeri á Kjalarnesi úr 116 í 162 sem er dreifbýlispóstnúmer?

 81. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

  Hver er kostnaðarþátttaka íbúa á Kjalarnesi vegna lagningar ljósleiðara?

 82. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

  Hafa allir lóðarhafar, einstaklingar og/eða lögaðilar,  uppfyllt  úthlutunarskilyrði annars vegar og skilyrði um byggingaráform (s.s. tímamörk) hins vegar sem Reykjavíkurborg setur lóðarhöfum í Úlfarsárdal?

 83. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

  Borgarráð samþykkir breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur þess efnis að blokkarbyggð í Laugardal  verði ekki heimiluð í þeirri viðleitni að vernda Laugardalinn.

  Frestað.

 84. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Óskað er eftir yfirliti yfir fjölda og staðsetningu þeirra sem hafa verið að reka Airbnb íbúðir til útleigu.

 85. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Óskað er eftir að fá afrit af lista sem umhverfis- og skipulagssvið styðst við þegar borgin kaupir þjónusta frá arkitektastofum.

 86. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Hefur Reykjavíkurborg tekið niður teinagrindur sem eru á milli akreina á ýmsum götum borgarinnar samsvarandi þeim sem Vegagerðin hefur tekið niður vegna slysahættu?

 87. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins óska eftir því að fulltrúi frá velferðarsviði og skólaþjónustu komi á fund borgarráðs og fari yfir þjónustu við börn með tal- og málþroskavanda.

Fundi slitið klukkan 17:15

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

14 + 0 =