Fundur nr. 5509 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 5509

Fundur nr. 5509

Borgarráð

Ár 2018, fimmtudaginn 19. júlí, var haldinn 5509. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9:00. Viðstödd voru: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Óli Jón Hertervig, Örn Sigurðson, Ágústa Sveinbjörnsdóttir, Halldóra Káradóttir, Anna Margrét Jóhannsdóttur, Þórhildur Lilja Ólafsdóttir og Linda Sif Sigurðardóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

 1. Fram fer umræða um fundarsköp. R18060129

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokk fólksins:

  Stjórnarandstaðan telur það óásættanlegt að borgarstjóri skuli vera fjarverandi vegna sumarleyfis á síðasta reglulega fundi borgarráðs fyrir sumarfrí ráðsins. Það er sérstaklega ámælisvert í ljósi þeirra alvarlegu mála sem upp hafa komið síðustu daga, sem brýnt er að fjallað sé um áður en borgarráð fer í sumarfrí. Þannig er ekki ásættanlegt að borgarstjóri sendi staðgengil fyrir sig á fundinn. Þessi mál sem um ræðir eru eftirfarandi: álit umboðsmanns Alþingis um viðvarandi og vaxandi vanda heimilislausra, dómur Héraðsdóms Reykjavíkur sem dæmt hefur Reykjavíkurborg til að greiða starfsmanni Ráðhúss Reykjavíkur skaðabætur vegna slæmrar framkomu skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og úrskurður kærunefndar jafnréttismála vegna brots Reykjavíkurborgar gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu borgarlögmanns í ágúst árið 2017.

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

  Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur og úrskurður kærunefndar jafnréttismála hafa verið til umræðu á fundum borgarráðs fyrr í vor þar sem borgarstjóri var viðstaddur. Á þessum fundum voru ekki allir oddvitar minnihlutans viðstaddir, enda koma eðlilega upp ýmsar aðstæður sem geta komið í veg fyrir viðveru einstaka borgarfulltrúa. Borgarstjóri er í sumarleyfi og sendi því staðgengil í sinn stað.

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokk fólksins:

  Athygli vekur að fjórði maður á lista V sitji fundinn en samkvæmt samþykktum borgarinnar eiga eingöngu kjörnir fulltrúar seturétt í nefndum og ráðum. Eins og kunnugt er V listi eingöngu með einn borgarfulltrúa í Borgarstjórn Reykjavíkur. Stjórnarandstaðan hefur bent á að slíkt sé erfitt í framkvæmd. Nú er vísað til sveitastjórnalaga um að lögboðin forföll geti veitt ókjörnum fulltrúum seturétt í borgarráði. Rétt er í þessu samhengi að breyta reglum borgarinnar svo þessi framkvæmd sé hafin yfir allan vafa hvað sé heimilt og hvað óheimilt.

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

  Borgarfulltrúi og varaborgarfulltrúi Vinstri grænna boðuðu forföll með lögmætum hætti á fund borgarráðs í dag og tilkynntu jafnframt með formlegum hætti að Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm sem skipaði 4. sæti á framboðslista Vinstri grænna myndi taka sæti á fundinum. Það er rétt að aðalmenn í borgarstjórn eru einir kjörgengir sem aðalmenn og varamenn í borgarráð, sbr. og 36. gr. sveitarstjórnarlaga, og er borgarfulltrúi VG kjörinn aðalmaður í borgarráði í samræmi við þau ákvæði. Í 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar kemur aftur á móti fram að í þeim tilfellum sem aðalmaður og varamaður í nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar eru báðir forfallaðir á sami framboðsaðili rétt á að tilnefna fulltrúa af framboðslista sínum til setu á þeim fundi. Það var gert fyrir fund borgarráðs í dag, varaborgarfulltrúinn var strax tilkynntur inn til regluvarðar og fjármálaskrifstofu og hefur stöðu tímabundins innherja í dag.

 2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 5. júlí 2018. R18010016

  Fylgigögn

 3. Lögð fram fundargerð mannréttinda- og lýðræðisráðs frá 5. júlí 2018. R18070103

  Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Var ráðsmönnum í mannréttinda- og lýðræðisráði gerð grein fyrir því að tillaga um kynhlutlaus salerni og úttekt á klefa- og salernisaðstæðum í húsnæði í eigu Reykjavíkurborgar samræmist ekki reglum um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995? Það er lágmarkskrafa þegar mál eru komin til afgreiðslu í ráðum borgarinnar að búið sé að kanna lagalegan grundvöll þeirra.

  Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Stjórnarandstaðan óskar eftir að fá fylgigögn og kynningu sem lögð voru fram undir 5. og 6. lið fundargerðarinnar.

  Lagt fram svohljóðandi svar borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

  Umbeðinna gagna var aflað inni á fundinum og eru nú aðgengileg borgarráðsmönnum á vef borgarráðs.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram fundargerð Sorpu bs. frá 4. júlí 2018. R18010024

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Reykjavíkurborg er fjölskipað stjórnvald og því er óeðlilegt að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sem hafa meirihluta atkvæða á bak við sig skuli ekki hafa neinn fulltrúa í stjórn Sorpu bs.

  Fylgigögn

 5. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 4. júlí 2018. R18070104

  Fylgigögn

 6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál. R18070021

  Fylgigögn

 7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. júlí 2018 á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna Stekkjarbakka, stofnbraut milli Reykjanesbrautar og Höfðabakka, ásamt fylgiskjölum. R11060102

  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Fylgigögn

 8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. júlí 2018 á tillögu að breytingu á aðalaskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sem felst í að fella út Kópavogsgöng, ásamt fylgiskjölum. R11060102

  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Fylgigögn

 9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. júlí 2018 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi í Úlfarsárdal, ásamt fylgiskjölum. R18070094

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. júlí 2018 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi námsmannagarða við Klausturstíg 1-11 og Kapellustíg 1-13, ásamt fylgiskjölum. R18070092

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. júlí 2018 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna lóðarinnar nr. 73 við Hverfisgötu, ásamt fylgiskjölum. R18070093

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. júlí 2018 á breytingu á deiliskipulagi reits 1.181.4, Lokastígsreits 4, vegna lóðarinnar nr. 36 við Skólavörðustíg, ásamt fylgiskjölum. R17110150

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. júlí 2018, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki breytingu á deiliskipulagi að Rangárseli 15, Seljakoti. Í breytingunni felst að koma fyrir færanlegum kennslustofum, aukið byggingarmagn og stækkun lóðar, skv. meðfylgjandi uppdrætti, dags. 2. júlí 2018. R18070108

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2018, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 4. júlí 2018 á trúnaðarmerktum tillögum, að fegrunarviðurkenningum Reykjavíkurborgar fyrir 2018. R18070090

  Samþykkt.

  Trúnaður er um efni tillagnanna fram að afhendingu viðurkenninganna sem fara fram þann 18. ágúst nk.

 15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2018, sbr. samþykkt umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 4. júlí 2018 á tillögu að viðbótargjaldaliðum fyrir djúpgáma í gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. R18070091

  Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins.

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Umræða um djúpgáma er vanreifuð og ekki tímabært að ákvarða gjaldskrá á þeim grunni. Um stefnubreytingu er að ræða um meðhöndlun úrgangs og óljóst hvernig kostnaður af verkefninu fellur. Hætta er á að hér sé einungis byrjunin á íþyngjandi gjaldtöku fyrir heimilin.

  Fylgigögn

 16. Fram fer kynning á stöðu leyfamála vegna tónleikum Guns N‘Roses sem haldnir verða á Laugardalsvelli þann 24. júlí nk. R18070023

   

  - Kl. 10:55 víkja Örn Sigurðsson og Ágústa Sveinbjörnsdóttir af fundinum.

 17. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um afnám áhrifa byggingarréttargjalds á byggingarkostnað félagslegra íbúða og íbúða sem byggðar eru af óhagnaðardrifnum leigufélögum, sbr. 50. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 19. júní 2018. Jafnframt er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 16. júlí 2018. R18060139

  Frestað.

  Fylgigögn

 18. Fram fer kynning á mánaðarlegu rekstraruppgjöri A-hluta borgarsjóðs fyrir tímabilið janúar-maí 2018.

  Sigurrós Ásta Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R18010076

 19. Lögð fram tillaga staðgengils borgarstjóra að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2018, dags 17. júlí sl., m.a. vegna kjarasamningsbundinna launahækkana og rekstrarútgjalda vegna íbúðakaupa fyrir skjólstæðinga Félagsbústaða. R17100024

  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Fylgigögn

 20. Lagt fram minnisblað fjármálaskrifstofu, dags. 16. júlí 2018, um þróun launakostnaðar samkvæmt árshlutauppgjöri 2018. R18010076

 21. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu, dags. 11. júlí 2018, varðandi forsendur fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 og forsendur fimm ára áætlunar 2019-2023. R18010348

  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  - Kl. 11:40 víkur Halldóra Káradóttir af fundinum.

  Fylgigögn

 22. Lagt fram bréf umboðsmanns Alþingis, dags. 6. júlí 2018, ásamt áliti umboðsmanns í tilefni af Frumkvæðisathugun vegna húsnæðisvanda utangarðsfólks. Einnig er lögð fram beiðni borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins, dags. 18. júlí sl., um að málið verði tekið á dagskrá borgarráðs. R18070088

  Dís Sigurgeirsdóttir, Helga Jóna Benediktsdóttir, Jóna Guðný Eyjólfsdóttir og Kristjana Gunnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Reykjavíkurborg hefur rannsakað fjölda og hagi fólks sem er utangarðs og/eða heimilislaust síðasta áratuginn og unnið að því að mæta þörfum fólks í þeim aðstæðum. Síðastliðið ár hefur húsnæðisúrræðum fjölgað meðal annars með “húsnæði fyrst” og aukin áhersla verið lögð á skaðaminnkun, ráðgjafa- og vettvangsþjónustu og þjónustu við fólk af erlendum uppruna. Stefna Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks 2014-2018 hefur legið til grundvallar en tímabært er að móta nýja stefnu og á þemafundi velferðarráðs 10. ágúst næstkomandi verður settur saman stýrihópur sem mun vinna nýja stefnu fyrir árslok. Samhliða verður unnin áætlun um breytt skipulag og framkvæmd þjónustu við utangarðsfólk. Samvinna ríkis og sveitarfélaga er mikilvæg til að farsæl lausn finnist til framtíðar og að því viljum við vinna.

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Reykjavíkurborg hefur ekki sinnt skyldum sínum skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga 40/1991, eins og þau eru túlkuð í ljósi 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og fjölþjóðlegra mannréttindarreglna varðandi utangarðsfólk. Þannig er niðurstaða umboðsmanns Alþingis áfellisdómur yfir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Í frumkvæðisathugun er dregin upp grafalvarleg mynd af almennum og viðvarandi vanda í tengslum við húsnæðismál utangarðsfólks. Hér með er tekið undir tilmæli umboðsmanns Alþingis og undirstrikað að óásættanlegt sé að verulegar tafir séu á því að hópur einstaklinga með fjölþættan vanda fái viðeigandi aðstoð, biðtími eftir húsnæði sé mörg ár og að almennur málsmeðferðartími sé ekki í samræmi við sjónarmið um málshraðareglur. Við viljum vekja athygli á þeirri mismunun og forræðishyggju sem á sér stað þegar einstaklingar með fíknivanda eru samþykktir inn á biðlista eftir almennri félagslegri íbúð en koma síðan ekki til greina við úthlutun. Tekið er undir álit umboðsmanns Alþingis að rétt væri að hvert tilvik fyrir sig væri metið og skoðað við úthlutun. Þá er jafnframt rétt að vekja athygli á því að Reykjavíkurborg hefur ekki enn farið eftir áliti umboðsmanns Alþingis nr. 5544/2008 er varðar Félagsbústaði. Það verður að teljast óásættanlegt að Reykjavíkurborg sem stjórnvald skuli hafi hunsað álit umboðsmanns Alþingis.

  Fylgigögn

 23. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

  Lagt er til að Reykjavíkurborg taki til leigu eða festi kaup á íbúðarhæfum rýmum tafarlaust fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem eru án heimilis. Slíkt neyðarhúsnæði skal hugsað sem tímabundið meðan unnið er að varanlegri lausn á málefnum einstaklinga sem þar dvelja.

  Greinargerð fylgir tillögunni. R18070112

  Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs.

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Núverandi kerfi hjá Reykjavíkurborg er ekki til þess fallið að hjálpa fólki að standa á eigin fótum. Umboðsmaður Alþingis hefur sent frá sér álit þar sem fram kemur að Reykjavíkurborg hafi brugðist í þessum málum. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg móti sér skýra stefnu til að koma þeim sem lenda í erfiðleikum aftur út í samfélagið. Í dag er mikil hætta á því að þessir einstaklingar festist í fáktæktargildru vegna skerðinga og neikvæðra hvata.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Í meirihlutasáttmálanum er lögð áhersla á að stuðningur við jaðarsetta og viðkvæma hópa byggist á hugmyndafræðinni um skaðaminnkun og valdeflingu. Að styðja skuli við og styrkja verkefni á borð við “húsnæði fyrst”, Frú Ragnheiði og setja á fót búsetuúrræði fyrir konur með geð- og fíknivanda ásamt því að vinna áfram að því að koma upp neyslurými í samstarfi við ríkið. Reykjavíkurborg hefur rannsakað fjölda og hagi fólks sem er utangarðs og/eða heimilislaust síðasta áratuginn og unnið að því að mæta þörfum fólks í þeim aðstæðum. Síðastliðið ár hefur húsnæðisúrræðum fjölgað og aukin áhersla verið lögð á skaðaminnkun, ráðgjafa- og vettvangsþjónustu. Á þemafundi velferðarráðs 10. ágúst næstkomandi verður settur saman stýrihópur sem mun vinna nýja stefnu í málefnum utangarðsfólks fyrir árslok. Samhliða verður unnin áætlun um breytt skipulag og framkvæmd þjónustu við utangarðsfólk.

  Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Lýsi ég yfir miklum vonbrigðum varðandi það að tillaga áheyrnafulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að borgin komi tafarlaust á fót neyðarhúsnæðisúrræðum fyrir heimilislausa og/eða utangarðs einstaklinga sem eru án heimilis, hafi verið vísað í annað ráð vegna meirihlutaatkvæða frá svokölluðum meirihluta. Neyðin er núna og tafarlaust þarf að bregðast við aðstæðum en slíkt getur ekki farið fram þegar tillögunni er vísað áfram í annað ráð. Tillagan skýrði frá því að vegna bráðvanda í húsnæðismálum yrði að koma þessu neyðarúrræði tafarlaust á. Þar sem tillagan var í raun felld inn í dagskrárlið ásamt tveimur öðrum málum, var hún að ákveðnu leyti falin og gafst því ekki tækifæri til að kynna tillöguna almennilega, sem mér þykir sérkennilegt. Velti ég því fyrir mér hví sum gögn í dagskrá fái sérstaka umfjöllun en önnur ekki. Þó tillagan hafi verið útsend fyrir fund, í fundargögnum sem borgarráðsmeðlimir skoða fyrir fund borgarráðs, er þó engin leið til að ganga úr skugga um að allir sem hafi kosið um að vísa tillögunni inn í annað ráð, hafi kynnt sér tillöguna nægilega vel áður en afstaða til hennar var tekin.

  Borgarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Borgarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna taka verkefnið afar alvarlega og mun velferðarráð finna því góðan farveg. Borgarráðsfulltrúar hafa fullan rétt til að taka til máls undir hverjum fundarlið, hvort sem það eru mál sem þeir hafa sjálfir lagt fram eða ekki.

  Dís Sigurgeirsdóttir, Helga Jóna Benediktsdóttir, Jóna Guðný Eyjólfsdóttir og Kristjana Gunnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 24. Fram fer umræða um viðvarandi og vaxandi vanda heimilislausra að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins. R18070102

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Stjórnarandstaðan vill að það sé bókað að fundur velferðarráðs 10. ágúst er að beiðni stjórnarandstöðunnar til að skoða ítarlega málefni og stöðu heimilislausra. Ósk um sérstakan fund um málefni heimilislausra var send ráðinu í júní en vegna m.a. sumarleyfa var ákveðið að halda fundinn hið fyrsta í ágúst. Nú hefur verið ákveðið að hann verið 10. ágúst. Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins óska eftir að Kærleikssamtökin komi á fundinn og kynni sín málefni sín, stöðuna og hvað þau hafa verið að gera. Eins teljum við að bjóða ætti öðrum samtökum og fulltrúum heimilislausra að koma og gera slíkt það sama. Markmiðið með þessum fundi er að við kynnum okkur stöðu heimilislausra í samfélaginu og nýta upplýsingarnar til að vinna áfram stefnumótandi vinnu.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

  Velferðarráð hefur flýtt fundi sem áætlaður var um málefni utangarðsfólks í kjölfar úrskurðar Umboðsmanns Alþingis og beiðni fulltrúa í ráðinu þar um. Til fundarins verða boðaðir allir þeir aðilar sem teljast hagsmunaaðilar og eru Kærleikssamtökin þar á meðal.

  Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Heimilislausir hafa verið afgangsstærð borgarinnar árum saman. Heimilislausir eru fjölbreyttur hópur af öllum kynjum, á ólíkum aldri, einstaklingar, öryrkjar, barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og eldri borgarar. Að vera heimilislaus merkir að hafa ekki aðgang að húsnæði að staðaldri á sama stað þar sem viðkomandi getur kallað sitt heimili. Jafnframt þurfa að vera til úrræði fyrir utangarðsfólk s.s. fjölgun smáhýsa og þeir sem óska eftir að búa í húsbílum sínum þurfa framtíðarsvæði nálægt grunnþjónustu. Óhætt er að fullyrða að það ríki ófremdarástand í þessum málum í borginni, sérstaklega þegar kemur að húsnæði fyrir efnaminna og fátækt fólk. Það er verið að byggja í borginni, fasteignir sem í flestum tilfellum verða seldar fyrir upphæðir sem þessum hópum er fyrirmunað að ráða við að greiða. Félagslega íbúðakerfið er í molum í Reykjavík. Á biðlista bíða hundruð fjölskyldna eftir félagslegu húsnæði og mörg dæmi eru um að húsnæði á vegum Félagsbústaða sé ekki viðhaldið sem skyldi. Það er mat Flokks fólksins að hægt er að fara ólíkar leiðir í að auka framboð húsnæðis til að gera húsnæðismarkaðinn heilbrigðari. Má sem dæmi nefna að í viðtali við verkefnastjóra Kalkþörungaversmiðjunnar á Bíldudal á RÚV greindi hann frá innfluttum 50 fermetra timburhúsum frá Eistlandi, sem fullbúin kosta 16 milljónir.

  Dís Sigurgeirsdóttir, Helga Jóna Benediktsdóttir, Jóna Guðný Eyjólfsdóttir og Kristjana Gunnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið

 25. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stýrihóp í eineltismálum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að stofna stýrihóp um endurskoðun á gildandi stefnumótun Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi sem samþykkt var í borgarráði 22. desember 2016. Stýrihópurinn verður skipaður fulltrúum allra flokka í borgarstjórn og formaður hans verður borgarfulltrúi Flokks fólksins. Með hópnum starfar starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar og er skrifstofu borgarstjóra og borgarritara falið að vinna erindisbréf stýrihópsins þar sem skilgreind eru helstu verkefni og starfinu sett tímamörk í samræmi við 3. gr. reglna um starfs- og stýrihópa. Erindisbréfið skal leggja fram á næsta fundi borgarráðs. R18060221

  Greinargerð fylgir tillögunni

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 26. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands um að útsend dagskrá ráða og nefnda verði aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar fyrir fundi, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. júlí 2018. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar dags. 17. júlí 2018.

  Borgarráð samþykkir að hér eftir verði útsend dagskrá í ráðum og nefndum á vegum borgarinnar aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar fyrir fundi. Hingað til hefur dagskráin einungis verið send á ráðsmenn og starfsmenn ráða og nefnda en ekki verið aðgengileg almenningi. Sú tilhögun að birta dagskrána á vef borgarinnar eykur gagnsæi og er í anda góðrar og vandaðrar stjórnsýslu. R18070039

  Samþykkt.

  Lögð fram svohljóðandi viðaukatillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að birta, auk dagskrár fundarins, öll þau fundargögn sem liggja fyrir við boðun fundarins og eru ekki trúnaðarmerkt. Reykjavíkurborg hefur markvisst unnið að því að auka almennt aðgengi almennings að stjórnkerfi borgarinnar m.a. með því að birta flest fundargögn á opnum vef Reykjavíkurborgar að fundi loknum. Nú er tími til að taka frekari skref í átt að opinni stjórnsýslu og birta þessi gögn strax og fundur er boðaður.

  Samþykkt.

  Borgaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins, Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fögnum því að tillaga stjórnarandstöðunnar hafi fengið brautargangi enda mikilvægur liður í því að bæta og auka aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum hjá Reykjavíkurborg. Rétt er að skýrt sé að dagskráin sé birt með fundargögnum.

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

  Borgarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja mikla áherslu á gagnsæi í stjórnsýslunni til að auka traust og styrkja möguleika almennings til aðhalds og fagna því tillögu minnihlutans en velja að ganga enn lengra og lögðu því fram tillögu um að birta einnig, ásamt dagskrá, fylgigögn funda.

  Fylgigögn

 27. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 12. júlí 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. nóvember 2017 um stöðu tillögu um endurbætur á gamla Gufunesveginum, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. maí 2017. R17050020

  Fylgigögn

 28. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. júlí 2018, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hversu mörgum atvinnulóðum hefur verið úthlutað á kjörtímabilinu, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. mars sl. R18030065

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Það verður að teljast undarlegt að fyrirspurn sem lögð er fram í byrjun marsmánuðar skuli ekki vera svarað fyrr en í lok júlí. Augljóst er að meirihlutinn hefur ekki treyst sér til að svara fyrirspurninni fyrr en eftir kosningar enda upplýsingarnar sem fram koma í svarinu lýsandi fyrir metnaðarleysi meirihlutans í skipulagsmálum. Það vekur athygli í svarinu að einungis er ein atvinnuhúsalóð til sölu á vef Reykjavíkurborgar og er það til vitnis um metnaðarleysi meirihlutans gagnvart uppbyggingu öflugs atvinnulífs í borginni.

  Fylgigögn

 29. Lagður fram úrskurður kærunefndar jafnréttismála í málinu 2/2018: Ástráður Haraldsson gegn Reykjavíkurborg, dags. 2. júlí 2018. Einnig er lögð fram beiðni borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins dags. 18. júlí sl. um að málið verði tekið á dagskrá borgarráðs. R18020115

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Reykjavíkurborg braut gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu borgarlögmanns í ágúst árið 2017. Staðan var auglýst í Fréttablaðinu og á vef Reykjavíkurborgar þann 17. júní sama ár. Ráðningarferlið var allt mjög sérstakt og sérstök ráðningarnefnd/innanhússnefnd lagði mat á þær tvær umsóknir sem bárust en í henni sátu borgarstjóri, borgarritari og starfsmannastjóri Reykjavíkur. Kærandi fullyrðir að sá aðili sem hlaut starfið hafi notið hvatningar fyrrverandi borgarlögmanns og borgarstjóra til að sækja um starfið. Því hefur verið mótmælt af hálfu borgarinnar í andmælum. Fyrrverandi borgarlögmaður var einn af umsagnaraðilum viðkomandi sem tengir umsækjandann enn frekar við innanhússráðningahópinn. Miklar efasemdir vakna hvort borgarstjóri og borgarritari hafi verið hæfir til að sitja í ráðningarnefndinni því annar umsækjandinn var samstarfsmaður þeirra og borgarlögmaður er einn af þremur staðgenglum borgarstjóra. Það sem gerir málið enn alvarlega er að borgarlögmaður á að vera í fyrirsvari vegna bótakrafna sem beint er að borginni. Nú er sú staða komin upp að borgarlögmaður er vanhæfur fyrir hönd borgarinnar í sínu eigin máli. Stjórnsýsla Reykjavíkurborgar er í molum og fullri ábyrgð af eftirmálum þessa máls lýst á hendur borgarstjóra.

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

  Mikilvægt er að vanda vel til verka þegar ráðið er í æðstu stöður innan borgarkerfisins og þurfa slíkar ráðningar að vera hafnar yfir allan vafa. Fara þarf rækilega yfir niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála og jafnframt þau ferli ráðninga í miðlægri stjórnsýslu til að tryggja að ráðningamál njóti trausts og einkennist af bæði gagnsæi og fagmennsku. Rétt er að taka fram að í gögnum málsins kemur fram að borgarstjóri hvatti ekki málsaðila til að sækja um starf borgarlögmanns.

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Tekið er undir góð markmið í breyttum vinnubrögðum í ráðningaferlum Reykjavíkurborgar og að fara þurfi rækilega yfir niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála. Til að taka af allan vafa þá kemur fram í gögnum málsins að kærandi heldur því fram að borgarstjóri hafi hvatt málsaðila um að sækja um starf borgarlögmanns. Hér er því orð á móti orði og verður ekki leyst hvað rétt er í því efni nema fyrir dómstólum undir eiðsvörnum vitnaleiðslum.

  Lögð fram svohljóðandi bókun Mörtu Guðjónsdóttur, borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Ljóst er þegar úrskurður kærunefndar jafnréttismála liggur fyrir um ráðningu í embætti borgarlögmanns að tillögur og athugasemdir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarráði 10. ágúst í fyrra, þegar ráðið var í stöðuna, áttu fullan rétt á sér. Tillögu okkar um að staðan yrði auglýst aftur í ljósi þess að ekkert hefði komið fram um efni auglýsingarinnar eða umsóknarfrest í borgarráði þegar rætt var um að auglýsa stöðu borgarlögmanns var vísað frá af hálfu meirihlutaflokkanna. Þá lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks fram aðra tillögu þess efnis að ráðningunni yrði frestað þar sem fulltrúar í borgarráði hefðu ekki fengið tækifæri til að kynna sér gögn málsins með fullnægjandi hætti. Þessi tillaga var sömuleiðis felld af hálfu meirihlutaflokkanna. Rétt er að öllum staðreyndum sé haldið til haga við umræðu þessa máls.

  Fylgigögn

 30. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-3132/17 gegn Reykjavíkurborg. Einnig er lögð fram beiðni borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins, dags. 18. júlí sl., um að málið verði tekið á dagskrá borgarráðs. R17100046

  Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

  Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E3132-2017 kallar á sterk viðbrögð af hálfu borgarinnar. Stjórnarandstaðan lítur það grafalvarlegum augum að slík framkoma og hegðun eins og lýst er í dómnum fái þrifist innan Ráðhúss Reykjavíkur. Ljóst er að allir sem komið hafa að málinu með einhverjum hætti eru vanhæfir til að taka frekari ákvarðanir í framhaldi dómsins. Rétt er því að allar ákvarðanir um framhald málsins verða teknar á vettvangi borgarráðs þ. á m. framtíð gerandans í starfi sem einn æðsti stjórnandi í Ráðhúsi Reykjavíkur.

  Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins:

  Stjórnarandstöðuflokkarnir Sósíalistaflokkur Íslands og Flokkur fólksins telja að sterkar vísbendingar séu um að í Ráðhúsinu ríki eineltismenning sem jafnvel hefur ríkt lengi. Eins og kunnugt er lét Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi, bóka að hafa verið hrakyrtur og svívirtur af þáverandi formanni borgarráðs. Fjallað var um málið í fjölmiðlum 14. október 2016. Nú hefur dómur fallið þar sem felld er úr gildi skrifleg áminning sem skrifstofustjóri borgarinnar veitti þáverandi fjármálastjóra og skal borgin greiða alls um eina og hálfa milljón í skaðabætur og málskostnað. Það er sjaldgæft að sjá dómara fara svo hörðum orðum um athæfi en í dómnum segir orðrétt „Um þá skilyrðislausu hlýðni sem skrifstofustjórinn virðist ætla af stefnanda verður sagt það eitt að þrátt fyrir stjórnunarrétt annars og hlýðniskyldu hins eru undirmenn ekki dýr í hringleikahúsi yfirmanna sinna.“ Teljum við slíkt undirstrika alvarleika málsins. Á fyrsta borgarstjórnarfundi 19. júní var margt í framkomu borgarfulltrúa sem fór yfir almenn kurteisismörk að mati stjórnarandstöðunnar. Í kjölfarið lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um samskiptareglur. Sú tillaga var felld í atkvæðagreiðslu á síðasta borgarráðsfundi en mun verða lögð að nýju fyrir á fundi forsætisnefndar 20. júlí í þeirri von að þar verði hún samþykkt enda gagnleg öllum.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna líta svo á að siðareglur borgarfulltrúa haldi utan um það hvernig ætlast er til að borgarfulltrúar hegði sér í samstarfi sín á milli. Siðareglur verða í haust uppfærðar í samvinnu allra borgarfulltrúa. Fyrr á fundinum var ákveðið að skipa stýrihóp um endurskoðun gildandi stefnumótunar gegn einelti og áreitni á starfsstöðum Reykjavíkurborgar og gefst þar tækifæri til að fara yfir stefnu Reykjavíkurborgar í þeim málum.

  Fylgigögn

 31. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um rekstrarúttekt á Félagsbústöðum, sbr. 42. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 19. júní 2018. Jafnframt er lögð fram umsögn innri endurskoðunar, dags. 16. júlí 2018, og umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 17. júlí 2018. R18060131

  Frestað.

  Fylgigögn

 32. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokk fólksins:

  Lagt er til að Reykjavíkurborg verði með tvo fulltrúa í stjórn Sorpu bs. til að auka gagnsæi í stjórnsýslunni. R18070134

  Frestað.

 33. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Lagt er til að unnið verði að því að Elliðaárdalurinn verði friðlýstur vegna sérstaks náttúrufars og dýralífs.

  Greinargerð fylgir tillögunni. R18070131

  Frestað.

 34. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Rafhleðslustöðvar í miðbænum hafa verið til mikilla bóta. Æskilegt er að þeim verði fjölgað víðar í borginni svo allir borgarbúar, óháð búsetu og búsetukostum, hafi aðgang að slíkum hleðslustöðvum. Það er mikilvægt að skapa jákvæða hvata og auðvelda aðgengi að umhverfisvænum orkugjöfum. Við ákvörðun um staðsetningu hleðslustöðva skal tekið tillit til þess hvernig þær falla inn í borgarmyndina. Því er lagt til að rætt verði við Orkuveitu Reykjavíkur og umhverfis- og skipulagssvið um að mótuð verði stefna um fjölgun rafhleðslustöðva og nánari staðsetningu þeirra. R18070146

  Frestað.

 35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Hvað er hæft í því að einstaklingur verði að vera með tryggt búsetuúrræði til að eiga kost á að nýta meðferðarúrræði heilbrigðiskerfisins? R18070088

 36. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Lagt er til að farið verði að öllu leyti að ábendingum umboðsmanns Alþingis en hann beinir m.a. þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að reglur þurfi að vera almennar, aðgengilegar og skýrar um inntak þeirrar aðstoðar sem einstaklingur á rétt á og birta borgurum með fullnægjandi hætti. Enda eiga slíkar reglur að vera í samræmi við almenn réttarríkis- og réttaröryggissjónarmið. R18070088

  Frestað.

 37. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Lagt er til að borgin skoði fyrir alvöru að flytja inn timburhús frá Eistlandi sambærileg þeim sem flutt voru inn á Bíldudal með að það markmiði að gefa þeim einstaklingum og fjölskyldum sem búið hafa við viðvarandi óstöðugleika í húsnæðismálum tækifæri til að eignast heimili. R18070088

  Frestað.

 38. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:

  Hefur borgin skoðað að koma upp svæði þar sem boðið væri upp á rafmagn og hreinlætisaðstöðu fyrir heimilislausa sem kjósa að búa í tjöldum, fellihýsum, hjólhýsum og húsbílum? 2. Hvers vegna er ekki búið að koma upp fleiri úrræðum fyrir heimilslausa í gámabyggð? 3. Enginn veit hvað heimilslausir sem eru óstaðsettir í hús eru margir, þó vettvangsteymi sé á ferðinni þá nær það ekki að snerta alla. Hvaða úrræði eru hjá borginni til að finna þá sem enginn veit um? 4. Hvað ætlar borgin að gera varðandi konur í neyslu sem eru húsnæðislausar? Stendur til að koma upp svipuðu úrræði og rekið er fyrir karla á Vin? 5. Hvers vegna sagði Reykjavíkurborg samningum við Samhjálp upp og á hvaða forsendum? 6. Það kom fram á fundi borgarráðs að 76 væru á biðlista í búsetuúrræði fyrir utangarðsfólk, hvar dvelur þetta fólk á meðan það bíður? 7. SÁÁ hefur boðið lausnir vegna heimilislausra í neyslu og boðist til að byggja húsnæði í landi Víkur á Kjalarnesi. Slíku samstarfi var hafnað af borginni, hvers vegna? 8. Hver hefur verið þróun á fjölda rúma/gistinátta í gistiskýlum Reykjavíkur verið síðustu 4 ár? 9. Hvernig sinnir Reykjavíkurborg heimilislausum m.t.t. heilbrigðiseftirlits og heilsu, sérstaklega með mjög veika einstaklinga? R18070088

  Vísað til umsagnar velferðarsviðs.

 39. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Reykjavíkurborg braut gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu borgarlögmanns í ágúst árið 2017. 1. Hvernig var staðan auglýst? 2. Hverjir komu að ráðningaferlinu og hvernig var ráðningarinnanhússnefndin skipuð? 3. Óskað er svara við því hvort kannað hafi verið hvort borgarstjóri og borgarritari hafi verið vanhæfir til að sitja viðtöl vegna ráðningar borgarlögmanns þar sem þeir eru nánir samstarfsmenn borgarlögmanns 4. Stenst það jafnræðisreglu stjórnarskráinnar að borgarstjóri og borgarritari hafi verið í ráðningarnefndinni og einungis tveir aðilar sóttu um starfið og annar þeirra innanhússmanneskja? 5. Er eðlilegt að munnlegt viðtal við umsækjendur hafi snúist um einungis tvö viðfangsefni sem snéru bæði að málefnum og rekstri Reykjavíkur? 6. Kærandi fullyrti í greinargerð sinni að sú, sem hafi hlotið starfið, hafi notið hvatningar fyrrverandi borgarlögmanns og borgarstjóra til að sækja um starfið. Fyrrverandi borgarlögmaður hafi verið einn af umsagnaraðilum hennar, enda yfirmaður hennar undanfarin ár. Hvað er rétt í þessum fullyrðingum? R17080023

 40. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  1. Hvaða dag vissu borgarstjóri og borgarritari eða aðrir úr yfirstjórn borgarinnar af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 5. júní sl.? 2. Hvar er starfstöð þolandans í málinu annars vegar og starfstöð gerandans hins vegar eftir að dómurinn féll? 3. Til hvaða úrræða hefur Reykjavíkurborg nú þegar gripið til, eftir birtingu dómsins? R17100046

 41. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Óskað er eftir kynningu á niðurstöðu úr viðhorfskönnun/starfsánægjukönnun starfsmanna fyrirtækja borgarinnar, þar sem slík könnun hefur verið gerð, á næsta reglulega fundi borgarráðs. Um er ræða fyrirtæki á borð við Félagsbústaði, Faxaflóahafnir, Malbikunarstöðina Höfða, Orkuveitu Reykjavíkur, Sorpu bs. og Strætó bs. R18070145

 42. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Með hvaða hætti hefur Reykjavíkurborg uppfyllt ný persónuverndarlög og hver er kostnaðurinn við það? R18070144

 43. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Óskað er eftir ítarlegum upplýsingum um hvaða reglur gildi um Torg í biðstöðu, forgangsröðun þeirra og kostnað við þessi verkefni. Jafnframt er þess óskað að fram fari kynning á þeim verkefnum, á næsta fundi borgarráðs, sem í gangi eru í sumar á verkefninu „Torg í biðstöðu“. R18070143

 44. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

  Stjórnarandstaðan óskar eftir sundurliðuðum heildarlista yfir stöður og stöðuheiti, flokkuð eftir sviðum, sem heyra undir Ráðhús Reykjavíkur og Höfðatorg. R18070142

Fundi slitið klukkan 16:26

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir
Heiða Björg Hilmisdóttir
Hreindís Ylva Garðarsdóttir Hólm
Eyþór Laxdal Arnalds
Hildur Björnsdóttir
Marta Guðjónsdóttir

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 7 =