Fundur nr. 5461 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 5461

Fundur nr. 5461

Borgarráð

Ár 2017, fimmtudaginn 10. ágúst, var haldinn 5461. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Sigurður Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Halldóra Káradóttir, Óli Jón Hertervig, Kristbjörg Stephensen, Hallur Símonarson, Ólöf Örvarsdóttir og Bjarni Þóroddsson.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

 1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál. R17080004

  Fylgigögn

 2. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 75/2013. R17080003

  Fylgigögn

 3. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R17010042

  Samþykkt að hafna öllum styrkumsóknum.

  Fylgigögn

 4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. maí 2017, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. maí 2017 á breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 34-36 við Borgartún. R17030119

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 25. júlí 2017, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna þátttöku Reykjavíkurborgar í borgarhátíðinni La Mercé sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. júní 2017. R17060228

  Fylgigögn

 6. Lagt fram svar fjármálastjóra, dags. 2. ágúst 2017, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um heildaryfirlit yfir styrki og þjónustusamninga Reykjavíkurborgar frá upphafi kjörtímabils, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. júlí 2017. R17070101

  Fylgigögn

 7. Lögð fram tillaga borgarstjóra að viðauka við fjárhagsáætlun 2017, dags. 2. ágúst 2017, vegna kostnaðaráhrifa kjarasamnings FÍH vegna einkarekinna tónlistarskóla. Greinargerð fylgir tillögunni. R17020176

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 8. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 3. ágúst 2017, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Borgartún 34-36. R17030119

  Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Fylgigögn

   

  Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

  Ljóst er að ekki stendur steinn fyrir steini í áætlunum og yfirlýsingum meirihlutans í húsnæðismálum. Samningsmarkmið Reykjavíkurborgar um 5% kauprétt til Félagsbústaða þegar miðað er við áætlaðan íbúðafjölda.  Félagsbústaðir eiga hér aðeins kauprétt að 2 íbúðum og kvöð er um 6 leiguíbúðir í eigu sama lögaðila.  Við samþykkjum ekki samning sem er svo langt frá samningsmarkmiðum borgarinnar sem voru samþykkt 2014.

 9. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 3. ágúst 2017, þar sem óskað er eftir samþykki borgarráðs fyrir breytingum á leigusamningi að Grandagarði 2, ásamt leigusamningi og drögum að viðauka. R17070079

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 10. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 26. júlí 2017, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við leigusamning um Vatnagarða 28, ásamt fylgigögnum. R17070129

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 11. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 24. júlí 2017, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning vegna geymsluherbergis á Hverfisgötu 115. R17070118

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 12. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 2. ágúst 2017, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina vegna íbúðakjarna í Rangárseli, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. júní 2017. R15050131

  Regína Ásvaldsdóttir og Aðalbjörg Traustadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Þegar samþykkt var í borgarráði að auglýsa stöðu borgarlögmanns var ekkert sem fram kom um efni auglýsingarinnar eða umsóknarfrest.  Á fundi borgarráðs 20.  júlí var í trúnaði rætt um umsækjendur, en þá höfðu fulltrúar minnihlutans ekki vitneskju um það að sautján dagar væru liðnir frá lokum auglýsts umsóknarfrests og gátu því á engan hátt brugðist við eða komið með tillögur um bætt verklag í því efni. Í ljósi óvandaðrar málsmeðferðar vegna fyrirhugaðrar ráðningar borgarlögmanns er lagt til að ferlið verði endurskoðað og staðan þar með auglýst að nýju. Enn fremur er lagt til að betur verði staðið að auglýsingu stöðunnar en gert var í júní sl.  R17080023

  Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

   

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Í tillögunni felst fullyrðing um að málsmeðferð við ráðningu borgarlögmanns hafi verið óvönduð – og það óvönduð að lagt er til að allt ferlið verði tekið upp að nýju. Ekki er hægt að fallast á að málefnaleg sjónarmið fyrir endurupptöku alls ferilsins séu til staðar. Jafnvel má leiða að því rök að endurupptaka á þessu stigi ferilsins, þegar umsóknarfrestur er liðinn og rætt hefur verið við umsækjendur, myndi ganga í bága við góða stjórnsýsluhætti. Markmiðið með því að auglýsa starf er að fá hæfa umsækjendur og hefur þetta ferli skilað tveimur hæfum umsækjendum. Tillagan er því ekki tæk til afgreiðslu.

 14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Lagt er til að ráðningu borgarlögmanns verði frestað þar sem fulltrúar í borgarráði hafa ekki fengið tækifæri til að kynna sér gögn málsins með fullnægjandi hætti. R17080023

  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

 15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. ágúst 2017:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að ráða Ebbu Schram hrl. í starf borgarlögmanns.

  Greinargerð fylgir tillögunni. R17080023

  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Fylgigögn

   

   

  Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

  Við greiðum Ebbu Schram atkvæði okkar  í embætti borgarlögmanns og óskum henni velfarnaðar í starfi.  Við teljum þó að betur hefði mátt standa að auglýsingu á stöðunni og rétt hefði verið af hálfu æðstu stjórnenda borgarinnar að framlengja umsóknarfrestinn í ljósi þess að aðeins tveir aðilar hefðu sótt um stöðuna.  Eftir fund borgarráðs 20. júlí 2017 sendi borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina  tölvupóst til borgarstjóra og borgarritara til að vekja athygli á vandmeðfarinni stöðu að velja á milli tveggja hæfra umsækjenda í svo veigamikið embætti og því væri það fullkomlega eðlilegur rökstuðningur að framlengja umsóknarfrestinn. Í ljós hefur síðan komið að auglýsingin var aðeins birt einu sinni í Fréttablaðinu 17. júní og að umsóknarfresturinn var til 3. júlí.  Borgarráðsfulltrúar fengu ekki upplýsingar um umsækjendur fyrr en 17 dögum síðar og er það ekki til eftirbreytni. 

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlega athugasemd við óvönduð vinnubrögð vegna ráðningar borgarlögmanns. Athygli vekur að einungis tveir einstaklingar sóttu um embættið, sem er eitt hið mikilvægasta og best launaða innan borgarkerfisins. Staðan var aðeins auglýst einu sinni í einu dagblaði og kann það að vera skýringin á því að ekki sóttu fleiri um stöðuna. Mörg fordæmi eru fyrir því hjá Reykjavíkurborg að umsóknarfrestur sé framlengdur eða stöður auglýstar að nýju þegar um fáa umsækjendur er að ræða eða ef málsmeðferð stenst ekki gagnrýni eins og um er að ræða í þessu tilviki. Þrátt fyrir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi ítrekað óskað eftir því að fá öll gögn málsins afhent var ekki orðið við því fyrr en í lok þessa fundar þegar málið var tekið á dagskrá. Sum gögn málsins voru að vísu send öðrum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins kl. 19.38 í gærkvöldi en þar var hvorki að finna lágmarks grunngögn í ráðningarmálum, þ.e. umsóknir, þótt umsækjendur séu einungis tveir, né staðlaða samantektartöflu í ráðningarmálum þar sem helstu upplýsingar koma fram um umsækjendur, þ.e. nafn, aldur, menntun, fyrri störf og núverandi staða. Er slæmt til þess að vita að borgarstjórnarmeirihluti, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna, skuli með þessum vinnubrögðum halda áfram í þeim leiðangri sínum að draga úr gagnsæi í tengslum við ráðningar í mikilvægustu stöður í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar með því að takmarka upplýsingagjöf til borgarráðsmanna í tengslum við þær.

  Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Ebbu Schram er óskað velfarnaðar í starfi.

   

 16. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Perlan var byggð fyrir almannafé, upphaflega fyrir borgarbúa til að njóta og þess mikla útsýnis sem er frá húsinu. Allt frá því að húsið var byggt hefur aðgengi almennings að húsinu verið tryggt og hefur það notið mikilla vinsælda bæði hjá borgarbúum og gestum borgarinnar. Nú stendur hins vegar til að breyting verði á með gjaldtöku á útsýnispallinn sem mun skerða aðgengi almennings að húsinu. Eðlilegra hefði verið að borgin hefði tryggt að almenningur hefði áfram aðgengi að almenningsrýmum hússins eins og t.d. að útsýnispallinum. Perlan stendur við eitt stærsta útivistarsvæði borgarinnar og hefur verið í hugum borgarbúa sameign þeirra sem þeir vilja geta notið án skerðingar á aðgengi. Óskað er ítarlegra upplýsinga um gerð þess leigusamnings sem gerður var við Perlu Norðursins um afnot af húsnæði Perlunnar. Þá er óskað svara við því hvort í upphaflegum hugmyndum hafi staðið til að gjaldtaka væri fyrirhuguð á útsýnispalli og hvernig aðgengi almennings að húsinu  yrði háttað. Jafnframt er óskað upplýsinga um hvort leiguverðið endurspegli tekjur af aðgangi á útsýnispallinn og hvort fermetrar svalanna séu teknir með í fermetrum í leigusamningi. R17080024

Fundi slitið klukkan 11.50

S. Björn Blöndal
Heiða Björg Hilmisdóttir
Líf Magneudóttir
Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir
Sveinbjörg B Sveinbjörnsdóttir
Halldór Auðar Svansson

 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

16 + 4 =