Fundur nr. 147 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 147

Fundur nr. 147

Skóla- og frístundaráð

Ár 2018, 13. nóvember, var haldinn 147. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.35. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Alexandra Briem (P), Katrín Atladóttir (D), Líf Magneudóttir (V), Pawel Bartoszek (C), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva, Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðmundur G. Guðbjörnsson, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir og Jóhanna H. Marteinsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

 1. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 19. október 2018, þar sem upplýst er að Vilborg Guðrún Sigurðardóttir taki sæti sem varamaður í skóla- og frístundaráði í stað Gunnlaugs Braga Björnssonar. SFS2018060287

  Fylgigögn

 2. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 6. nóvember 2018, um menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030 ásamt fylgiskjölum. SFS2017010019

  -    Kl. 12.40 taka Magnús Þór Jónsson, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir sæti á fundinum.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks myndu vilja sjá eitthvað minnst á forritun og tölvunarfræði í nýrri menntastefnu Reykjavíkurborgar. Tölvur og vélmenni eru orðin hluti af daglegu lífi allra og munu verða enn veigameiri þáttur þegar árin líða fram. Forritunarkunnátta er í raun samskiptamáti við tölvur og því mikilvægur hluti af læsi 21. aldarinnar. Tölvunarfræði er kennd á grunnskólastigi í flestum þeim löndum sem við kjósum að bera okkur saman við, í Finnlandi meðal annars frá fyrsta bekk. Tölvunarfræði- og forritunarkennsla er lykilatriði í að börnin okkar verði ekki bara neytendur á tækni heldur skapendur og með henni búum við börnum grunn sem nýtist þeim til framtíðar.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Menntastefna Reykjavíkurborgar til 2030 endurspeglar mikinn metnað og framsýni skólasamfélagsins í Reykjavík fyrir hönd barna og ungmenna í borginni. Kjarni menntastefnunnar er valdefling barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfinu með áherslu á að efla tiltekna hæfniþætti sem skólasamfélagið hefur sett í forgang. Þeir lúta að félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði og undirstrika þá áherslu á heildstæða menntun og þroska barna sem einkennir stefnuna í anda Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og er í góðu samræmi við aðalnámskrár leik- og grunnskóla og frístundastefnu borgarinnar. Þá fylgja stefnunni almennar aðgerðir sem snerta á mörgum mikilvægustu viðfangsefnum menntamála á komandi árum, s.s. aukinni áherslu á náttúruvísindi og stærðfræði; eflingu list- og verknáms, einföldun og eflingu stoðþjónustu við börn með sérstakar þarfir, aukið faglegt samstarf og starfsþróun starfsmanna og umbætur er lúta að endurbótum á húsnæði og öðru vinnuumhverfi starfsfólks. Stefnan er afrakstur víðtæks samstarfs nemenda, foreldra, kennara, skólastjórnenda, almenns starfsfólks, kjörinna fulltrúa, innlendra og erlendra ráðgjafa á undanförnum tveimur árum þar sem þúsundir einstaklinga hafa lagt hönd á plóginn. Menntastefnan gengur nú til endanlegrar afgreiðslu í borgarstjórn og er gert ráð fyrir fjármagni til að hefja innleiðingu stefnunnar á næsta ári.

  Fylgigögn

 3. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 8. mars 2017, um tillögu Reykjavíkurráðs ungmenna um niðurgreiðslu á strætókortum fyrir börn. Jafnframt lögð fram minnisblöð sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. desember 2017 og 8. nóvember 2018, varðandi tillöguna. SFS2017030077

  Lögð fram svohljóðandi tillaga Sindra Smárasonar frá ungmennaráði Árbæjar og Holta:

  Lagt er til að borgarstjórn samþykki að nýta hluta af fjárveitingum Reykjavíkurborgar til Strætó bs. til að niðurgreiða strætókort fyrir börn og bjóði upp á þann valmöguleika fyrir árið 2018.

  Greinargerð fylgir. 

  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

  Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs þann 10. janúar 2018:

  Lagt er til að eftirfarandi tillaga Sindra Smárasonar, fulltrúa ungmennaráðs Árbæjar og Holta verði lögð fram til formlegrar afgreiðslu undir þessum lið. ,,Lagt er til að borgarstjórn samþykki að nýta hluta af fjárveitingum Reykjavíkurborgar til Strætó bs. til að niðurgreiða strætókort fyrir börn og bjóði upp á þann valmöguleika fyrir árið 2018.“

  Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gera alvarlegar athugasemdir við þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við tillögu Sindra Smárasyni, fulltrúa ungmennaráðs, sem hann flutti 28. febrúar 2017. Sá dráttur sem orðið hefur á svari við tillögu Sindra er fullkomlega óásættanlegur. Mikilvægt er að taka vel á móti tillögum frá ungmennaráði og vanda þarf afgreiðslu á málum sem koma frá ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref í lýðræðisþátttöku innan borgarkerfisins. Draga verður lærdóm af þeirri málsmeðferð sem tillaga Sindra hefur fengið fyrir ráðinu og koma í veg fyrir að svona óhóflegur dráttur verði á málum úr þessum ranni. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fagna ber því frumkvæði sem felst í þessari tillögu, en hins vegar leiddi athugun í ljós að þeir fjármunir sem skóla- og frístundasvið hefur til greiðslu á strætófargjöldum myndu ekki nægja til að hafa umtalsverð áhrif á fargjöld grunnskólanemenda ef þeir væru nýttir til almennrar niðurgreiðslu á fargjöldum. Því teljum við okkur ekki annað stætt að en að fella tillöguna eins og hún er sett fram, en fögnum á sama tíma áhuganum og frumkvæðinu sem hún lýsir og vonumst til að þær hugmyndir sem fæddust í þessari vinnu verði unnar áfram. Í sáttmála núverandi meirihluta eru tilteknar hugmyndir um leiðir til að auka áhuga barna og ungmenna á almenningssamgöngum en þar er kveðið á um að börn 12 ára og yngri fái frítt í strætó í fylgd með fullorðnum og að tíðni á helstu stofnleiðum verði aukin um 7,5 mínútur á háannatímum í samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

  Skóla- og frístundaráð felur Upplýsingatæknideild að skoða og verðmeta kostnað við að bæta þeirri virkni við kerfið að hægt sé að fylgjast með meðalaldri barna við innritun á leikskóla. 

  Samþykkt. SFS2018110045

  Fylgigögn

 5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. október 2018, um niðurstöður lesskimunar í 2. bekk vorið 2018 og skýrslan Lesskimum 2018: Niðurstöður úr Lesskimun í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur vorið 2018. SFS2018040007/ADG

  -    Kl. 13.27 tekur Kristján Gunnarsson sæti á fundinum og Guðmundur G. Guðbjörnsson víkur af fundinum.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna fagna þeirri jákvæðu þróun sem sjá má úr lesskimun samanborið við síðasta ár. Í ljósi breyttrar aðferðafræði sem tekin verður upp á næstu árum lýsa fulltrúarnir þó áhyggjum af því óhagræði og mögulegum kostnaðarauka sem hlotist gæti af því, verði skóla- og frístundasviði ekki veittur aðgangur að ópersónugreindum matsgögnum sem safnað er af Menntamálastofnun sem hluta af Lesferli til frekari greiningar á námsárangri innan borgarinnar.  Töluverður tvíverknaður er að leggja lesskimun fyrir til viðbótar við Lesferilinn en til að þær niðurstöður geti nýst innan borgarinnar þarf skóla- og frístundasvið að hafa aðgang að þeim gögnum.

  Ásgeir Björgvinsson, Guðrún Edda Bentsdóttir, Dröfn Rafnsdóttir, Sigrún Jónína Baldursdóttir og Guðrún Mjöll Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram skýrsla starfshóps um markvisst verklag við útfærslu tillagna fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings barna í skóla- og frístundastarfi í Reykjavík. SFS2018110057

  Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðs:

  Lagt er til að sviðsstjóra verði falið að móta áætlun um innleiðingu þeirra tillagna sem koma fram í skýrslu starfshóps um markvisst verklag við útfærslu tillagna fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings barna í skóla- og frístundastarfi í Reykjavík. Í áætluninni komi fram forgangsröðun og kostnaðarmat. Innleiðingaráætlun verði lögð fram eigi síðar en 11. desember næstkomandi.

  Samþykkt.

  -    Kl. 14.45 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Eitt mikilvægasta verkefni menntamála í borginni er að bæta stöðu nemenda í lestri og tryggja að þeir geti lesið sér til gagns. Miðja máls og læsis var sett á laggirnar gagngert til að styðja starfsstöðvar við að bæta stöðu barna í leikskólum varðandi málþroska og grunnskólanemenda í lestrarfærni. Miðjan hefur leitt vinnu starfshóps um aðgerðaáætlun varðandi læsi sem felur í sér endurskoðun, útfærslu og markvissa innleiðingu á tillögum fagráðsins, þar sem m.a. eru mótuð skýr markmið um framfarir nemendahópsins varðandi lestrarfærni,kveðið á um formgert samstarf leikskóla, grunnskóla og frístundar í læsismálum, samhæfingu varðandi mat á stöðu og framförum barna í lestri og síðast en ekki síst að komið verði á markvissum vinnubrögðum samkvæmt hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar og stigskiptrar kennslu, þar sem mjög nákvæmlega eru metin áhrif úrræða og því fylgt fast eftir að úrræði skili framförum hjá börnunum. Sviðsstjóra verður nú falið að vinna áætlun um innleiðingu á tillögum starfshópsins með kostnaðarmati og forgangsröðun, sem liggja mun fyrir í næsta mánuði.

  Dröfn Rafnsdóttir, Sigrún Jónína Baldursdóttir, Guðrún Mjöll Sigurðardóttir og Ásgeir Björgvinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. nóvember 2018, um staðfestingu starfsáætlana leikskóla 2018-2019. Jafnframt lagðar fram starfsáætlanir leikskólanna Austurborgar, Álftaborgar, Árborgar, Bakkaborgar, Björtuhlíðar, Blásala, Borgar, Brákarborgar, Brekkuborgar, Engjaborgar, Fífuborgar, Furuskógar, Garðaborgar, Geislabaugs, Grandaborgar, Grænuborgar, Gullborgar, Hálsaskógs, Heiðarborgar, Holts, Hofs, Hólaborgar, Hulduheima, Jöklaborgar, Jörfa, Klettaborgar, Kvistaborgar, Laufskála, Laugasólar, Lyngheima, Maríuborgar, Ness, Nóaborgar, Rauðuborgar, Rauðhóls, Reynisholts, Rofaborgar, Seljaborgar, Seljakots, Stakkaborgar, Steinahlíðar, Sunnuáss, Sæborgar, Tjarnar, Vesturborgar, Vinagerðis, Ægisborgar og Aspar. Enn fremur lagðar fram starfsáætlanir sameinuðu leik- og grunnskólanna Dalskóla, Ártúnsskóla og Klébergsskóla og leikskólans Bergs og starfsáætlanir sjálfstætt reknu leikskólanna Öskju, Ársólar, Barnaheimilisins Óss, Fossakots/Korpukots, Laufásborgar, Lundar, Regnbogans, Skerjagarðs, Sælukots, Vinaminnis, Waldorfleikskólans Sólstafa og Waldorfsleikskólans Sólstafa Marargötu. SFS2018070011 
  Samþykkt.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Starfsáætlanir leikskóla eru mikilvæg stjórntæki sem auðvelda foreldrum að fylgjast með því góða starfi sem fram fer innan veggja skólanna. Þegar hafa 60 skólar skilað inn starfsáætlunum ásamt umsögnum foreldraráða. Enn vantar þó eitthvað upp á að starfsáætlanir hafi borist frá öllum skólum og í einhverjum tilfellum vantar umsagnir foreldraráða. Fulltrúar meirihluta í skóla- og frístundaráði hvetja þá skóla sem enn eiga eftir að ganga frá sínum áætlunum að ljúka þeirri vinnu sem fyrst. Jafnframt er nauðsynlegt að viðurkenna að starfsáætlunargerð tekur tíma og nauðsynlegt er að endurskoða það vinnulag reglulega til að vinnan nýtist sem best.

  Lilja Eyþórsdóttir og Ásdís Olga Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 8. Lögð fram innleiðingaráætlun vegna tillagna starfshóps um móttöku og aðlögun barna innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Jafnframt lögð fram skýrslan Velkomin: Skýrsla starfshóps um móttöku og aðlögun barna innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd í skóla- og frístundastarf og minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. nóvember 2018, um málefni barna með annað móðurmál en íslensku í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar. SFS2018010152

  Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðs:

  Áætlun um innleiðingu tillagna starfshóps um móttöku og aðlögun barna innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd er samþykkt og vísað til fjárhagsáætlunargerðar skóla- og frístundasviðs 2019.

  Samþykkt.

  Fríða Bjarney Jónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 9. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. október 2018 um framlengingu þróunarverkefnis vegna reksturs alþjóðlegrar deildar við Landakotsskóla, tölvubréf Landakotsskóla, dags. 15. september 2018, um framlengingu þróunarverkefnis við Landakotsskóla og bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 14. september 2018 um framlengingu þróunarverkefnis við Landakotsskóla fram til loka skólaársins 2018-2019:

  Með vísan til bréfs mennta- og menningarmálaráðuneytis, dags. 14. september 2018 samþykkir skóla- og frístundaráð að framlengja þróunarverkefni vegna reksturs alþjóðadeildar innan Landakotsskóla fram til loka skólaársins 2018 – 2019. Fyrri samþykkt frá 7. júní 2017 varðandi viðmið um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna verði óbreytt. Sviðsstjóra er falið að ganga frá samningi við Landakotsskóla um greiðslu framlags. 

  Samþykkt og vísað til borgarráðs. SFS2015040095

  Fylgigögn

 10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. nóvember 2018, um viðmið skrifstofu skóla- og frístundasviðs sem eru höfð til grundvallar varðandi mögulegar skipulagsbreytingar á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs. SFS2018080061

  Fylgigögn

 11. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. nóvember 2018, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði 9. nóvember 2018. SFS2018080035

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði þakka starfsfólki fyrir góða vinnu við að ráða í lausar stöður í leikskólum, skólum og frístundaheimilum en betur má ef duga skal. Ótækt er að enn séu börn á biðlista í frístund og á leikskóla. Fulltrúarnir leggja áherslu á að þung vinna verði áfram lögð í að klára ráðningar svo biðlistum verði eytt. Það er ljóst að þegar svona langt er liðið á árið að þessi langa bið eftir plássi hefur mikil áhrif á börn og foreldra og skapar álag.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Verulegur árangur hefur náðst í að tryggja þeim börnum leikskóla- og frístundaþjónustu sem hafa verið á biðlistum í haust. Nú eru einungis 8 börn þar sem óvissa er um dagsetningar inntöku en fjöldinn var 38 börn í síðustu mælingu. Á biðlista eftir frístundaþjónustu eru nú 77 börn en þau verða einungis 23 í lok vikunnar. Staðan er mun betri en í fyrra þegar rúmlega 100 börn voru á biðlista á sama tíma og sömu sögu er að segja af stöðu ráðninga í leikskólum og frístund þar sem fjöldi ómannaðra stöðugilda er að jafnaði tæplega helmingi færri en á sama tíma í fyrra. Búið er að ráða í 91-98% af stöðugildum á skóla- og frístundasviði.

  Fylgigögn

 12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. nóvember 2018, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, frá 145. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi skýrslu um húsnæðismál frístundaheimila og félagsmiðstöðva. SFS2018100120

  Fylgigögn

 13. Lagt fram yfirlit yfir fundi skóla- og frístundaráðs, janúar-júní 2019, með fyrirvara um breytingar. SFS2017050059 

  -    Kl. 15.56 víkja Helgi Grímsson, Guðrún Kaldal, Anna Metta Norðdahl og Soffía Pálsdóttir af fundinum
  -    Kl. 16.00 víkja Sigríður Björk Einarsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir og Jóhanna H. Marteinsdóttir af fundinum.

  Fylgigögn

 14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir upplýsingum um það hvers vegna ekki hefur verið gegnið frá lóð leikskólans Hamra við Hamravík í Grafarvogi. Færanlegur skúr var á lóð leikskólans og var hann fjarlægður 15. júlí 2018. Ekkert hefur gerst á lóðinni síðan þá og stendur hún ófrágengin. Fulltrúarnir vekja athygli á því að ótækt er að lóðir þar sem börn eru að leik séu ófrágengnar í marga mánuði enda er þar verið að bjóða hættunni heim. Eins þá óska fulltrúar Sjálfstæðisflokks eftir upplýsingum um það hversu margar lóðir leik og grunnskóla séu ófrágengnar. SFS2018110076

 15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir upplýsingum um stærð hjartarýmis hvers frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar. Þá er einnig óskað eftir upplýsingum um fjölda barna sem skráður er í hvert frístundaheimili og hverja félagsmiðstöð. SFS2018110077

Fundi slitið klukkan 16:10

Undir fundargerð rita: 
Skúli Helgason
Alexandra Briem
Pawel Bartoszek
Líf Magneudóttir
Katrín Atladóttir
Valgerður Sigurðardóttir
Örn Þórðarson

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

9 + 9 =