Fundur nr. 145 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 145

Fundur nr. 145

Skóla- og frístundaráð

Ár 2018, 9. október, var haldinn 145. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.34. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Alexandra Briem (P), Katrín Atladóttir (D), Líf Magneudóttir (V), Pawel Bartoszek (C), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Sigrún Sveinbjörnsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

 1. Lögð fram drög að starfs- og fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs árið 2018, trúnaðarmál. SFS2018020112
  Samþykkt.

  -    Kl. 13.13 víkur Sigrún Sveinbjörnsdóttir af fundinum og Soffía Pálsdóttir tekur þar sæti.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.

  Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum leggur fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.

  Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.

 2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. október 2018, um tillögu að breytingum á reglum um leikskólaþjónustu. Jafnframt lögð fram drög að reglum um leikskólaþjónustu með merktum breytingum og núgildandi reglur um leikskólaþjónustu. SFS2018100029
  Breytingar á reglum um leikskólaþjónustu samþykktar og vísað til borgarráðs.

  Skóla- og frístundaráðs leggur fram svohljóðandi bókun:

  Með þessum breytingum á reglum um leikskólaþjónustu er komið til móts við foreldra með ýmsum hætti. Lögð er til breyting sem ætti að styrkja systkinatillit og auka líkur á að systkini komist að jafnaði á sama leikskóla. Nýtt ákvæði kemur inn í reglurnar um lokun leikskóla á aðfangadag og gamlársdag og heimildarákvæði um að foreldrar geti fengið endurgreiðslu á leikskólagjöldum ef þeir nýta ekki þjónustu leikskóla fyrir börn sín milli jóla og nýárs. Síðast en ekki síst er staðfest sú breyting að miðað er við að börn, sem orðin eru 18 mánaða 1. september ár hvert, fái boð um leikskóladvöl það sama haust. Áður var miðað við að börn gætu hafið leikskóladvöl á því ári sem þau verða tveggja ára.

  Fylgigögn

 3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. október 2018, um tillögu að breytingum á reglum skóla- og frístundasviðs um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum. Jafnframt lögð fram drög að reglum um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum með merktum breytingum og núgildandi reglur um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum. SFS2018100030

  Breytingar á reglum um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum samþykktar og vísað til borgarráðs. 

  Svanhvít Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  -    Kl. 13.45 tekur Sigríður Björk Einarsdóttir sæti á fundinum.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. október 2018, um innleiðingu tillagna úr skýrslu starfshóps um endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu í Reykjavík og skýrslan Endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu Reykjavíkurborgar, dags. í maí 2018: 

  Skóla og frístundaráð leggur til að ráðist verði í eftirtaldar aðgerðir til að efla dagforeldraþjónustu í Reykjavíkurborg. 1. Borgin leggi dagforeldrum til húsnæði til að starfa tveir og tveir saman. Í fyrsta áfanga verði lögð fram þrjú hús á þremur stöðum. Aðgerðin miðist við að einn starfandi dagforeldri og einn nýr starfi saman. 2. Niðurgreiðslur til dagforeldra hækki um 15%. 3. Veittur verði stofnstyrkur kr. 300.000 til nýrra dagforeldra. Skilyrði verði að dagforeldri starfi í a.m.k. 1 ár, annars komi til endurgreiðsla. 4. Námsstyrkir og aukinn faglegur stuðningur við dagforeldra. Reykjavíkurborg hækki framlög sín til dagforeldra vegna grunnnámskeiða fyrir verðandi dagforeldra og greiði að fullu endurnýjun á slysavarnar- og eldvarnarnámskeiðum sem viðurkenndir fagaðilar halda. 5. Ytra mat á daggæslu verði innleitt með vísan í gæðaviðmið sem þróuð hafa verið í samvinnu við félög dagforeldra. Borgin útvegi þeim dagforeldrum sem starfa einir öryggishnapp. Þjónustan verði boðin út til að tryggja hagstæðustu verð sem völ er á. 6. Ríkari upplýsingagjöf um þjónustu dagforeldra. Gerð verði krafa til dagforeldra um ríkari upplýsingagjöf til foreldra um þjónustuna. 7. Námsefni fyrir verðandi dagforeldra af erlendum uppruna. Reykjavíkurborg í samvinnu við velferðarráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga, hafi forgöngu um að námsefni á grunnnámskeiði vegna daggæslu verði þýtt á ensku og pólsku. 8. Ráðgjöf og eftirlitsheimsóknir. Lagt er til að við endurskoðun á reglugerð um daggæslu verði eftirlit og þjónusta með dagforeldrum aukið. Heilbrigðiseftirlitið veiti starfsleyfi til daggæslu hvort sem um er að ræða að dagforeldri starfi eitt eða að tveir dagforeldrar starfi saman. Daggæsluráðgjafar á þjónustumiðstöðum fari að lágmarki í tvær heimsóknir á ári til dagforeldra, leiðbeini og veiti ráðgjöf. 9. Fyrirvaralaus uppsögn. Reykjavíkurborg leiti leiða til að verja foreldra fyrir fyrirvaralausri uppsögn dagforeldra. Aðgerðirnar taki gildi 1. janúar 2019. Heildarkostnaður vegna þessara aðgerða er áætlaður 60 m. kr., að undanskilinni aðgerð nr. 1, þar sem kostnaðarmat liggur ekki fyrir. 

  Samþykkt og vísað til borgarráðs með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2018010109

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Með þeim aðgerðum sem samþykktar voru í dag er skotið sterkari stoðum undir dagforeldraþjónustuna í Reykjavík. Tilgangurinn er þríþættur, í fyrsta lagi að bæta rekstrarskilyrði starfandi dagforeldra, í öðru lagi að fjölga dagforeldrum og síðast en ekki síst að auka gæði og öryggi þjónustunnar. Niðurgreiðslur til dagforeldra hækka um 15% sem er meiri hækkun en dæmi eru um á liðnum árum. Tekinn er upp stofnstyrkur til nýrra dagforeldra, námsstyrkir eru hækkaðir og aukinn faglegur stuðningur við dagforeldra. Þá er gripið til ýmissa aðgerða til að auka öryggi, faglegt mat og eftirlit með þjónustunni auk þess að efla upplýsingagjöf til foreldra um þjónustu dagforeldra. Með aðgerðunum er lagður grunnur að því að þjónusta dagforeldra verði öruggari valkostur fyrir foreldra ungra barna samhliða þeirri kröftugu uppbyggingu á leikskólaþjónustu sem framundan er.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði fagna því að dagforeldrar og þeirra þjónusta verði efld í Reykjavík. Biðlistar eru langir og kvíðavaldandi fyrir foreldra og ekki síður verðandi foreldra. Þjónusta dagforeldra er almennt vel metin meðal þeirra sem nota þjónustuna. Mikilvægt er að taka tillit til þeirra úrlausna sem bent var á í skýrslu starfshóps um endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu Reykjavíkurborgar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks myndu þó vilja sjá hærri niðurgreiðslur, líkt og tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks gekk út á, svo foreldrar sitji allir við sama borð og einu gildi hvort barnið þeirra dvelji hjá dagforeldri eða í leikskóla.

  Svanhvít Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 12. september 2018, þar sem svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs:

  Lagt er til að borgarstjórn samþykki að niðurgreiðslur til dagforeldra hækki í áföngum þannig að kostnaður foreldra sem vista börn sín hjá dagforeldrum færist nær þeim kostnaði sem foreldrar greiða í leikskólum borgarinnar. Í fyrsta áfanga hækki niðurgreiðslurnar um 25% eða um 13.768 kr. á mánuði. Næsti áfangi verði til skoðunar eigi síðar en í ágúst 2019. Samhliða verði skoðaður möguleiki á þjónustusamningi milli dagforeldra og Reykjavíkurborgar, í samráði við félög dagforeldra.

  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2018090096

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Ráðdeild í rekstri borgarinnar er einn af hornsteinum meirihlutasamstarfs Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Með þeim tillögum sem samþykktar voru fyrr á fundinum var forgangsraðað í þágu þeirra aðgerða sem renna sterkari stoðum undir starfsemi þeirra dagforeldra sem þegar starfa, auka nýliðun í starfsstéttinni og tryggja öryggi barnanna. Þótt alltaf megi gera betur er það engu að síður von okkar að sátt geti náðst um þessa forgangsröðun í umræðu um fjárhagsáætlun næsta árs.

  Svanhvít Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
   

  Fylgigögn

 6. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 12. september 2018, þar sem svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs:

  Lagt er til að borgarstjórn samþykki að við 18 mánaða aldur hækki niðurgreiðslur til dagforeldra svo kostnaður foreldra verði til samræmis við þau gjöld sem foreldrar greiða í leikskólum borgarinnar. Þetta á við um þau börn sem dvelja hjá dagforeldrum og eru orðin 18 mánaða gömul hið minnsta.
   
  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2018090093

  Svanhvít Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 7. Lögð fram skýrslan Viðhorf foreldra barna hjá dagforeldrum 2017-2018, dags. í júní 2018. SFS2018090026

  Guðrún Mjöll Sigurðardóttir og Svanhvít Guðjónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 8. Lögð fram skýrslan Viðhorf dagforeldra 2017-2018, dags. í júní 2018. SFS2018090027

  Guðrún Mjöll Sigurðardóttir og Svanhvít Guðjónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 9. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. október 2018, um stöðu ráðninga í skóla- og frístundastarfi, 5. október 2018. SFS2018080035 

  -    Kl. 14:50 víkur Líf Magneudóttir af fundinum.

  Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

  Enn á eftir að ráða í margar stöður í frístundamiðstöðvum í Reykjavík. Á síðasta starfsári fór fram mjög góð vinna í víðtæku samráði varðandi að skoða hvað hægt væri að gera til að bæta starfsumhverfi starfsmanna í frístundastarfi. Þær tillögur koma fram í greinargóðri úttekt. Framkvæmdastjórar benda á að mikilvægt er að taka þær tillögur alvarlega og setja niður innleiðingaráætlun til þess að bregðast við ástandinu. Mikilvægt er að styrkja móttöku nýliða, auka fræðslu og námskeið fyrir starfsmenn, fækka börnum á hvern starfsmann og hafa aðbúnað eins góðan og kostur er á. Það er ósk okkar að nýtt ráð kynni sér vel útgefna skýrslu og taki tillit til aðgerða í henni í komandi fjárhagsáætlunarvinnu. 
  https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/b...

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Nýjar tölur um stöðu ráðninga sýna að mikill árangur hefur náðst í ráðningum í frístund sem fækkar verulega í hópi barna á biðlista eftir þjónustunni. Þar eru nú 293 börn borið saman við rúmlega 1000 börn fyrir mánuði. Á sama hátt eru mun færri börn í hópi þeirra sem ekki hafa fengið dagsetningu á inntöku í leikskóla, 39 börn í stað 93 fyrir mánuði. Enn þarf þó að gera betur og er mikilvægt að nýjasta úrræðið, Afleysingastofa borgarinnar er komið á fullan skrið, búið að taka á móti á annað hundrað umsóknum, 40 atvinnuviðtöl kláruð, fyrstu ráðningar frágengnar og viðkomandi starfsmenn teknir til starfa á viðkomandi leikskólum. Þessi viðbót er mikilvæg til að minnka álag á leikskólana sem um ræðir.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka góða kynningu á stöðu mála. Nokkuð hefur áunnist í mönnun og er það vel, en betur má ef duga skal. Tekið er undir ábendingar og varnaðarorð stjórnenda í grunnskólum og frístundamiðstöðum, sem fram komu á fundinum og í bókunum þeirra varðandi mönnun á starfsstöðvum.

  Fylgigögn

 10. Lögð fram skýrslan Ytra mat á frístundastarfi: Frístundaheimilið Laugarsel, dags. í maí 2018. Jafnframt lögð fram Viðmið og vísbendingar fyrir innra og ytra mat á gæðum frístundastarfs, dags. í september 2015. SFS2015060052

  Sigrún Harpa Magnúsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 11. Lögð fram skýrslan Ytra mat: Háaleitisskóli, dags. í febrúar 2018. Jafnframt lögð fram Viðmið og vísbendingar um gæði í skólastarfi fyrir ytra mat á grunnskólum, dags. í maí 2014. SFS2015060052

  Sigrún Harpa Magnúsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  -    Kl. 15:07 tekur Elín Oddný Sigurðardóttir sæti á fundinum.

  Fylgigögn

 12. Fram fer kynning á náms- og kynnisferð leikskólastjóra til Finnlands í maí 2018. SFS2018100014

 13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. október 2018, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 137. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi skiptingu fjármagns til tónlistarskóla og skólahljómsveita eftir hverfum. SFS2018040142

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Ljóst er að töluverður munur er á tækifærum til náms í tónskólum og skólahljómsveitum eftir búsetu. Þennan mun verður að jafna og ekki er forsvaranlegt að búseta ráði tækifærum barna til náms í tónskólum og skólahljómsveitum. Mikilvægt er að kennslukvóti verði aukinn vegna tónskóla á viðkvæmum svæðum. Tryggja verður börnum í Reykjavík jafnari tækifæri til náms í tónskólum og skólahljómsveitum, í það verkefni verður að ráðast sem fyrst.

  Fylgigögn

 14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. október 2018, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 144. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi ráðningu í stöðu ráðgjafa foreldra og skóla. SFS2018090146

  Skúli Helgason víkur af fundinum undir þessum lið.

  -    Kl. 15:50 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum.

  Fylgigögn

 15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir því að fá upplýsingar um það hversu mörg börn eru á biðlista eftir leikskólavist og hafa ekki fengið boð um vistun. SFS2018100117

 16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir upplýsingum um það hversu mörg frístundaheimili eru á biðlista eftir stærra eða hentugra húsnæði. SFS2018100118

 17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir upplýsingum um það hversu mörg frístundaheimili hafa fengið athugasemdir/frávik/ábendingar frá Heilbrigðiseftirlitinu sem ekki hefur verið brugðist við. SFS2018100119

 18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir því að skýrsla sem átti að skila í nóvember 2017 um húsnæðismál tengd reglum um félagsmiðstöðvar og frístundaheimili verði kláruð og niðurstöður kynntar ráðinu. Mikilvægt er þó að ráðsmönnum sé strax á næsta fundi kynnt hvar verkefnið er statt. SFS2018100120

 19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir því að gerð verði úttekt á húsnæði frístundaheimila, frístundamiðstöðva og félagsmiðstöðva, líkt og gert hefur verið í skólum og leikskólum. Ef slíkar úttektir hafa verið gerðar þá verði niðurstöður þeirra kynntar ráðsmönnum. SFS2018100121

 20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir upplýsingum um bruna sem varð í Laugalækjarskóla. Hefur skóla- og frístundasvið upplýsingar um það hvort að brennanleg efni sé að finna í byggingum í eigu Reykjavíkurborgar. Er gerð úttekt á því þegar byggingum er skilað hvort að farið hafi verið eftir efnisvali samkvæmt reglugerðum og útboðslýsingu. Í Laugalækjarskóla átti samkvæmt útboðslýsingu að nota tregbrennanleg efni í klæðningu í stað þeirra voru krossviðarrenningar og pappi nýttur á húsið. SFS2018100122

Fundi slitið klukkan 16:00

Undir fundargerð rita: 
Skúli Helgason
Alexandra Briem
Elín Oddný Sigurðardóttir
Katrín Atladóttir
Pawel Bartoszek
Valgerður Sigurðardóttir
Örn Þórðarson

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

8 + 2 =