Fundur nr. 142 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 142

Fundur nr. 142

Skóla- og frístundaráð

Ár 2018, 21. ágúst, var haldinn 142. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.32. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Alexandra Briem (P), Katrín Atladóttir (D), Líf Magneudóttir (V), Pawel Bartoszek (C), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

 1. Lagðar fram skýrslurnar Viðmið og vísbendingar fyrir innra og ytra mat á gæðum leikskólastarfs, Ytra mat, leikskólinn Klettaborg Reykjavík, ódags., Klambrar – mat á leikskólastarfi, dags. í janúar 2018, Hraunborg – mat á leikskólastarfi, dags. í mars 2018, Vinagarður – mat á leikskólastarfi, dags. í apríl 2018 og Stakkaborg – mat á leikskólastarfi, dags. í maí 2018. SFS2015060052

   

  Kl. 13.10 tekur Soffía Vagnsdóttir sæti á fundinum.

   

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

   

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka fyrir góða kynningu á ytra mati leikskóla. Vísbendingar eru um að greina megi ákveðið mynstur úr gæðum skólastarfsins útfrá nokkrum lykilþáttum í starfsemi þeirra. Því er óskað eftir því að sviðstjóra verði falið að taka saman greinargerð sem gæfi yfirlit yfir þá þætti sem helst hafa áhrif á gæði skólastarfsins. Niðurstöðurnar þyrfti síðan að nýta til að bæta enn frekar gæði skólastarfs í leikskólum borgarinnar.

   

  Auður Ævarsdóttir og Sigrún Harpa Magnúsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 2. Útboð á námsgögnum fyrir nemendur í grunnskólum Reykjavíkur til notkunar á skólatíma. SFS2017080043

  -    Kl. 13.25 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum. 

 3. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

  Skóla- og frístundaráð samþykkir í framhaldi af jákvæðum niðurstöðum útboðs á námsgögnum í grunnskólum borgarinnar að ráðast í átak til að auka hagkvæmni í innkaupum skóla- og frístundasviðs með áherslu á útboð og magninnkaup á helstu rekstrarvörum starfsstöðva sviðsins. Sviðsstjóra og fjármálastjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að leggja fram greiningu á helstu sóknarfærum á þessu sviði og hvernig megi nýta þau í samstarfi við innkaupadeild og eftir atvikum önnur fagsvið borgarinnar. Tillögur verði lagðar fram eigi síðar en 9. október 2018.

  Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2018080052
  Samþykkt.
  Vísað til borgarráðs.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Meirihluti skóla- og frístundaráðs fagnar niðurstöðum útboðs á námsgögnum í grunnskólum borgarinnar sem skila barnafjölskyldum í borginni verulegri búbót þar sem foreldrar grunnskólanema þurfa ekki lengur að ráðast í ritfangakaup fyrir börn sín með tilheyrandi umstangi og kostnaði sem gat hlaupið á tugum þúsunda króna þegar mest var. Útboðið undirstrikar að með sameiginlegum innkaupum má lækka verulega útgjöld á ýmsum rekstrarvörum sem nú eru fjármögnuð úr borgarsjóði. Meirihlutinn vill nýta þetta tilefni til að kortleggja markvisst þau sóknarfæri sem eru í málaflokknum varðandi hagkvæm innkaup og felur sviðsstjóra að taka saman slíkt yfirlit sem hægt verði að nýta til að ákveða næstu skref á komandi hausti. Ljóst er að hér eru verulegir hagsmunir í húfi en heildarumfang vöru- og þjónustukaupa sem gætu komið til greina í þessu sambandi nemur um 2,6 milljörðum króna á ári.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs:

  Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að gerðar verði breytingar á rekstrarformi leikskólans Sunnufoldar með það að markmiði að minnka stjórnunarumfang leikskólans. Settur verði á stofn starfshópur með þátttöku stjórnenda leikskólans, starfsfólks og foreldra þar sem lagt verði mat á mismunandi leiðir, þ.m.t. um að færa starfsemina í tvær starfsstöðvar, mögulega stækkun starfseininga og aðrar skipulagsbreytingar sem til greina koma. Skrifstofa skóla- og frístundasviðs kalli eftir viðhorfum hagsmunaaðila til framsettra kosta og leggi fram tillögur ásamt kostnaðarmati eigi síðar en 15. október 2018. 

  Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2018080043
  Samþykkt.

  Fylgigögn

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

  Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra að taka saman yfirlit um helstu tækifæri til skipulagsbreytinga á sviðinu sem stuðlað geta að betri nýtingu mannauðs og fjármagns með gæði þjónustu að leiðarljósi. Nýttar verði þær tillögur og ábendingar sem komið hafa fram í greiningum sviðsins á undanförnum árum og tryggt að leitað verði sjónarmiða stjórnenda á vettvangi. Mótaðar verði tillögur um hvaða viðmið skuli liggja til grundvallar þegar skipulagsbreytingar á einstökum starfsstöðum skóla- og frístundasviðs eru teknar til skoðunar. Tillögur verði lagðar fram fyrir 1. nóvember 2018.

  Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2018080061
  Samþykkt.

  Fylgigögn

 6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um stöðu ráðninga í skóla- og frístundastarfi í ágúst 2018, dags. 21. ágúst 2018, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um yfirlit aðgerða sem ætlað er að tryggja næga mönnun á leikskólum borgarinnar haustið 2018. SFS2018080035

  -    Kl. 14.22 víkur Anna Metta Norðdahl af fundinum.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Staða mönnunarmála í leikskólum er umtalsvert betri en á sama tíma í fyrra og er búið að ráða í 94% af öllum stöðugildum. Eftir er að ráða í 62 stöður í grunnmönnun, sem eru tæplega helmingi færri stöðugildi en á sama tíma í fyrra. Þá á eftir að ráða í 24 afleysingastöður en þá er rétt að halda til haga að 20 stöður hafa bæst við í leikskóla borgarinnar vegna fjölgunar undirbúningstíma. 31 leikskóli er fullmannaður og í 17 til viðbótar vantar 0,75-1,5 stöðugildi. 77% leikskóla í borginni eru því fullmannaðir eða vantar mest í eitt og hálft stöðugildi. Þá eru tölur um fjölda barna á biðlista þriðjungi lægri en á sama tíma í fyrra og laus pláss sem úthlutað verður í haust á leikskólum borgarinnar eru næstum tvöfalt fleiri. Sömuleiðis er mönnunarstaðan í grunnskólum umtalsvert betri en sl. haust, nú vantar að ráða í 33 stöðugildi í stað 58 fyrir ári. Í frístundinni hefur líka þokast í rétta átt frá því í fyrra, nú á eftir að ráða í 103 stöðugildi borið saman við 114 á sama tíma í fyrra. Þessar niðurstöður sýna að mikið og þétt samstarf stjórnenda, mannauðsdeildar sviðsins og skóla- og frístundaráðs er að skila árangri eins og kynnt var í ítarlegri samantekt á fundinum. Þar má nefna kynningarherferð um mikilvægasta starf í heimi, víðtæka markhópavinnu gagnvart háskólafólki og ungu fólki, bætt starfskjör o.m.fl.

  Auður Björgvinsdóttir og Jóhanna H. Marteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 7. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. ágúst 2018, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um ráðningarmál í skóla- og frístundastarfi. SFS2018080035

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka kynningu og samantekt á gögnum á stöðu mála í ráðningum og biðlistum á skóla- og frístundasviði. Það er ánægjulegt að heyra að staðan sé betri en í fyrra en áhyggjuefni er að enn séu mörg börn á biðlistum vegna manneklu. Fulltrúarnir lýsa yfir ánægju með þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í til að reyna að laða að starfsfólk.

  Fylgigögn

 8. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

  Skóla- og frístundaráð leggur til að haldin verði Barnabókamessa í samstarfi Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO og Félags íslenskra bókaútgefenda þar sem kynntar verði nýjar íslenskar barna- og unglingabækur. Fulltrúum grunnskóla og leikskóla í borginni verði gefinn kostur á því að kynna sér bækurnar, ræða við höfunda og útgefendur og þeim verði tryggt sérstakt fjármagn til að kaupa titla að eigin vali fyrir bókasöfn starfsstöðvanna á sérstöku kynningarverði. Barnabókamessan verði haldin dagana 12.-13. nóvember og verði nánari tímasetningar og staðsetning send út við fyrsta tækifæri. Skóla- og frístundasvið leggi fram alls 9 milljóna kr. viðbótarfjárveitingu til grunnskóla og leikskóla sem þau geti varið til bókakaupa á messunni.

  Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2018080034
  Samþykkt.

  Fylgigögn

 9. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 25. apríl 2018 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasvið, dags. 15. ágúst 2018, um tillöguna: 

  Skóla- og frístundasvið býður starfsmönnum borgarrekinna grunnskóla og leikskóla sundkort, sem gildir í sundlaugar borgarinnar. Lagt er til að slík sundkort verði einnig boðin starfsmönnum sjálfstætt rekinna grunnskóla og leikskóla í Reykjavík.

  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2018040143

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt að stutt sé við starf sjálfstætt starfandi skóla til jafns við borgarrekna skóla, enda snýr starf skólanna að reykvískum börnum og reykvískum foreldrum með sama hætti og borgarreknu skólanna. Starfsemi sjálfstætt starfandi skóla er mikilvæg til að auka fjölbreytni í skólastarfi og valkostum fyrir foreldra og börn.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Í sjálfstæði skóla felst almennt ákveðið svigrúm til að taka ákvarðanir um faglega stefnu skólastarfs sem og það að skólarnir hafa ákveðinn sveigjanleika til að semja við starfsfólk sitt um starfskjör og fríðindi tengd starfi. Fulltrúar meirihluta í skóla- og frístundaráði telja ekki eðlilegt að borgin stígi inn í það ferli með því að bjóða starfsfólki á almennum markaði starfstengd fríðindi.

  Fylgigögn

 10. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 27. júní 2018 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. ágúst 2018, um tillöguna:

  Lagt er til að öll börn fái fríar skólamáltíðir. Eins og vitað er búa mörg börn við mismunandi aðstæður hvað varðar efnahag foreldra. Sum búa við sára fátækt og eru því svöng í skólanum. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að þau fái fríar skólamáltíðir. 

  Tillagan er felld. SFS2018060304

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Það hefur verið stefna borgarinnar um árabil að halda gjaldtöku varðandi skóla- og frístundastarf innan hóflegra marka til að styðja við bakið á barnafjölskyldum í borginni. Nýr meirihluti Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ávarpar fæðisgjöld í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi í stjórnarsáttmála sínum þar sem segir að frá og með áramótum 2021 skulu barnafjölskyldur mest greiða fæðisgjöld fyrir tvö börn, þvert á skólastig. Varðandi tillögu um ókeypis skólamáltíðir þarf hins vegar að halda til haga að sú aðgerð myndi lækka tekjur skóla- og frístundasviðs um nærri 2 milljarða króna á ári, sem er um helmingur af öllum tekjum sviðsins. Slík aðgerð myndi því hafa veruleg áhrif á starfsemina og þar með kalla á umfangsmiklar sparnaðaraðgerðir eða verulega uppstokkun á fjárreiðum borgarinnar.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

  Gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru hluti af stefnu Vinstri grænna um að menntun barna skuli vera endurgjaldslaus. Ekki náðist sátt um að afnema gjaldtöku við skólamáltíðir í meirihlutasáttmálanum, þó vissulega hafi náðst sátt um að stíga ákveðin skref til að létta barnmörgum fjölskyldum lífið með margs konar aðgerðum. Aukinn afsláttur í skólakerfinu þvert á skólastig er ein af þeim. Vinstri græn hafa hvergi hvikað frá stefnu sinni um að afnema eigi gjaldtöku í leik- og grunnskólum og frístund og halda ótrauð áfram að forgangsraða fjármunum í þágu barna og afla þeirri stefnu fylgis og fjármagns í þverpólitískri sátt í borgarstjórn

  Fylgigögn

 11. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. júlí 2018, um aukið rekstrarleyfi leikskólans Mánagarðs ásamt drögum að rekstrarleyfi fyrir leikskólann Mánagarð. SFS2015030161
  Rekstrarleyfi fyrir Félagsstofnun stúdenta vegna Mánagarðs samþykkt með fyrirvara um endanlega úttekt og samþykki heilbrigðis-, vinnu- og eldvarnareftirlits um að húsnæði og lóð séu í samræmi við lög um leikskóla og reglugerð um starfsumhverfi leikskóla.

  Fylgigögn

 12. Lagt fram fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 2. júlí 2018, þar sem upplýst er um að Gunnlaugur Bragi Björnsson taki sæti sem varamaður í skóla- og frístundaráði í stað Diljár Ámundadóttur. SFS2018060287 

  Fylgigögn

 13. Lagt fram yfirlit yfir erindisbréf starfshópa skóla- og frístundasviðs frá febrúar – ágúst 2018. SFS2017010020

  Fylgigögn

 14. Lagt fram yfirlit yfir erindisbréf starfshópa skóla- og frístundasviðs frá febrúar – ágúst 2018. SFS2017010020

  Fylgigögn

 15. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. júní 2018, um ráðningu í stöðu leikskólastjóra Geislabaugs. SFS2018070004

  Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum leikskólastjóra Geislabaugs Þóru Jónu Jónatansdóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi leikskólastjóra Ingibjörgu Eyfells fyrir vel unnin störf.

  Fylgigögn

 16. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. júlí 2018, um ráðningu í stöðu leikskólastjóra Drafnarsteins. SFS2018080036

  Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum leikskólastjóra Drafnarsteins Halldóru Guðmundsdóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi leikskólastjóra Elínu Mjöll Jónasdóttur fyrir vel unnin störf.

  Fylgigögn

 17. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. ágúst 2018, um ráðningu í stöðu skólastjóra Breiðholtsskóla. SFS2018070122

  Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum skólastjóra Breiðholtsskóla Ástu Bjarneyju Elíasdóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi skólastjóra Jónínu Ágústsdóttur fyrir vel unnin störf.

  Fylgigögn

 18. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. ágúst 2018, um ráðningu í stöðu skólastjóra Ölduselsskóla. SFS2018070123

  Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum skólastjóra Ölduselsskóla Birnu Sif Bjarnadóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi skólastjóra Berki Vígþórssyni fyrir vel unnin störf.

  -    Kl. 15.50 víkur Guðrún Kaldal af fundinum.

  Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 16:02

Undir fundargerð rita: 
Skúli Helgason
Alexandra Briem
Katrín Atladóttir
Líf Magneudóttir
Pawel Bartoszek
Valgerður Sigurðardóttir
Örn Þórðarson

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

4 + 13 =