Borgarstjórn - Borgarstjórn 3. maí 2022

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N 

Ár 2022, þriðjudaginn 3. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Björn Gíslason, Diljá Ámundadóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hjálmar Sveinsson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Nína Margrét Grímsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rannveig Ernudóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Þorkell Heiðarsson og Örn Þórðarson.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagður fram til síðari umræðu ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2021, dags. 22. apríl 2022. Einnig er lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 22. apríl 2022, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta dags. 22. apríl 2022, greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 7. apríl 2022, verkstöðuskýrsla nýframkvæmda, ódags., ábyrgða- og skuldbindingayfirlit, ódags., endurskoðunarskýrsla Grant Thornton vegna endurskoðunar ársreiknings Reykjavíkurborgar 2021, dags. 22. apríl 2022, endurskoðunarskýrsla Grant Thornton varðandi meðferð grænna fjármuna, dags. 19. apríl 2022, bréf endurskoðunarnefndar, dags. 21. apríl 2021, varðandi samþykkt nefndarinnar á að formaður gangi frá umsögn til borgarráðs og umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar um ársreikning Reykjavíkurborgar 2021, dags. 20. apríl 2022, sbr. 26. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 26. apríl 2022. FAS22040002

-    Kl. 12.13 tekur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum.

Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2021 er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjalfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins árita ársreikninginn með fyrirvara. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ársreikningur Reykjavíkur skilar gríðarlega sterkri niðurstöðu við krefjandi aðstæður. Niðurstaðan er mun sterkari en áætlanir gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir mikinn aukakostnað vegna COVID, sérstaklega í skólum og velferðarþjónustunni. Þar sýndu starfsfólk og stjórnendur ótrúlega útsjónarsemi og seiglu og er öllu því fólki þakkað sérstaklega. Borgin brást einnig við COVID með því að auka fjárfestingar. Þar erum við að fjárfesta í innviðum hverfanna okkar og lífsgæðum fyrir borgarbúa, með grænum áherslum í samræmi við græna planið. Þessi ársreikningur staðfestir því ábyrga fjármálastjórn, öflug og rétt viðbrögð við erfiðum aðstæðum, góða frammistöðu starfsfólks og stjórnenda og sterka stöðu borgarsjóðs og samstæðunnar í heild. Það er gott veganesti inn í framtíðina.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 sýnir gríðarlega skuldasöfnun, en skuldir samstæðu voru komnar í 407 milljarða um síðustu áramót. Samkvæmt þessu hækkuðu skuldirnar um 24 milljarða á síðasta ári. Tvo milljarða á mánuði. Þetta gerist þrátt fyrir að tekjur hafi hækkað um 8% á árinu. Áfram er tap á rekstri A-hluta og ef ekki væri bókfærður „hagnaður“ af félagslegu húsnæði og álafleiðum væri tap á samstæðunni allri í heild. Samkvæmt samanteknum reikningsskilum borgarinnar eru Félagsbústaðir að skila gríðarlegum hagnaði sem byggist á endurmati á félagslegu húsnæði upp á meira en 20 milljarða. Rétt er að geta þess að leigutekjur Félagsbústaða voru innan við 5 milljarðar króna. Skuldir vaxa um nærri fimm milljarða hjá Félagsbústöðum einum. Þessi framsetning skekkir niðurstöðuna umtalsvert enda er hún verulega umdeild meðal annars innan endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar sjálfrar. Rétt er að geta þess að eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga (EFS) og eftirlitsstofnun ESA hafa gert athugasemdir við þessa framsetningu borgarinnar. Þar er spurningum enn ósvarað. Skuldahlutfall samstæðu borgarinnar er komið í 201%. Þetta hlutfall segir sína sögu og er ljóst að skuldasöfnun og útgjöld borgarinnar eru langt umfram afkomu þrátt fyrir mettekjur af sköttum og gjöldum.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Húsnæðisuppbygging er mikilvægur liður til að tryggja velferð borgarbúa. Húsnæðiskreppan í dag hefur hræðilegar afleiðingar fyrir líf borgarbúa. Mikilvægt er að Félagsbústaðir nýti stöðu sína til uppbyggingar fyrir þau sem eru í þörf fyrir húsnæði. Sjá má að eigið fé Félagsbústaða var 67,3 milljarðar króna um síðustu áramót. Það er meira en 53% af eignum félagsins, 29,4 milljörðum meira en nauðsynlegt má telja. Fasteignafélög á markaði, Reitir, Reginn og Eik, eru með um 30% eiginfjárhlutfall. Eigið fé Félagsbústaða umfram þessi mörk gæti því staðið undir byggingum íbúða fyrir hátt í 100 milljarða króna. Með því afli væri hægt að byggja 3.000 íbúðir án nokkurs erfiðis. Sósíalistar leggja til að það verði gert. Mikilvægt er að ráðast í öfluga uppbyggingu félagslegs húsnæðis í borginni og að útvíkka þá skilgreiningu sem er of þröng nú, þar sem fáir komast inn í það kerfi. Öruggt húsnæði er grundvöllur velferðar.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Ég tel vera verulega skekkju í niðurstöðum samstæðureiknings Reykjavíkurborgar. Ofmatið er vegna eigna Félagsbústaða og Orkuveitu Reykjavíkur. Skekkjan hefur veruleg áhrif við mat á niðurstöðu samstæðureiknings borgarinnar og gefur hann því ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu borgarinnar. Hlutfall eigna og skulda er þannig verulega skekkt. Nauðsynlegt er að ársreikningurinn gefi lánadrottnum ekki ranga mynd af fjárhagsstöðu bogarinnar. Ekki er komin niðurstaða í máli ESA og innviðaráðuneytisins hvort uppgjörsaðferðir samstæðunnar standist lög. Ég undirrita ársreikninginn því með fyrirvara.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn leggur sig í líma við að slá ryki í augu borgarbúa og sannfæra þá um að fjárhagsstaða borgarinnar sé sterk. En ekki er allt sem sýnist. Stór hluti er vegna hækkunar á verðmæti félagsíbúða sem er ekki söluvara eða fjárhagsleg innistæða. Matsvirði þeirra er þáttur sem villir sýn. Grundvallaratriði í reikningsskilum er að gefin sé sönn mynd af borgarsjóði. Ástæða er til að hafa áhyggjur af fjármálastjórnun og rekstrarstöðu A-hluta borgarsjóðs. Veltufé frá rekstri til greiðslu afborgana og til nýfjárfestinga er einungis rúmlega 300 milljónir króna en þyrfti að vera milli 12 og 13 milljarðar króna. Afborganir lána og leiguskulda hafa hækkað um 35% milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar hafa hækkað um 17% milli ára. Taka þarf lán fyrir öllu sem þrengir fjárhagsstöðu borgarinnar þegar sívaxandi fjármunir fari í að greiða afborganir af lánum og leiguskuldbindingu. Fyrir liggur gríðarlegt viðhald á lykilmannvirkjum s.s. skóla fyrir utan aðrar fjárfestingar. Hvernig verða áætlaðar fjárfestingar í borgarlínu fjármagnaðar? Mun þessi staða þýða að það verði að draga saman í útgjöldum til félagslegra þátta? Flokkur fólksins vill að staldrað sé við hér og forgangsraðað með öðru hætti í rekstri borgarinnar. Á meðan öllu þessu fram vindur er þrengt að fólki á ýmsum sviðum. Biðlistar lengjast og fátækt fer vaxandi með tilheyrandi vanlíðan.

2.    Lögð fram tillaga að almennri eigendastefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. apríl, ásamt fylgiskjölum. MSS22040201

Samþykkt.

Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinsri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Hér er verið að samþykkja eigandastefnu Reykjavíkurborgar, sem unnin var í þverpólitískri sátt og tekur mið af leiðbeiningum OECD um stjórnarhætti fyrirtækja í opinberri eigu. Eigendastefnan tryggir gagnsæja, faglega og skilvirka stjórnun B-hluta fyrirtækja borgarinnar þannig að þar ríki almennt traust á stjórn og starfsemi þeirra. Hlutverk, umboð og ábyrgð eigandafyrirsvars er skilgreint, þar á meðal valdheimildir og mörk þeirra og upplýsingagjöf. Stefnan kveður einnig á um þær kröfur sem gerðar eru til skipulags og stjórnarhátta þeirra fyrirtækja sem eigendastefnan nær til og hlutfall óháðra stjórnarmanna sem skipa skuli stjórnir fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Hér er um mikla framþróun að ræða og þessu skrefi fagnað sérstaklega.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Mikilvægt er að hægt sé að endurskoða stefnuna ef þörf þykir. Almennt telur fulltrúi sósíalista mikilvægt að tryggja fjölbreyttar raddir þeirra með reynslu af þeim stjórnum, ráðum eða nefndum sem um er að ræða og að stefnur geti fjallað um slíkt.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tími var sannarlega kominn til að skilgreina eigendastefnu borgarinnar. Ekki er verra að viðhafa virka, gegnsæja og góða stjórnarhætti og gæta að áhrif minnihluta séu virt með lýðræðislegu jafnræði þannig að ekki sé unnt að ganga á rétt þeirra sem kunna að vera í minnihluta í borgarráði og borgarstjórn en hlutfall óháðra stjórnarmanna má vera hátt. Ein megináherslan á að vera á upplýsingagjöf og að hún nái til kjörinna fulltrúa og þá einnig þeirra fulltrúa sem skipa minnihlutann. Allt of oft hafa fulltrúar ekki verið upplýstir sérstaklega um B-hlutann. Fundargerðir eru þess utan afar rýrar og segja sjaldnast til um hvaða ákvarðanir eru teknar á fundum. Hér er tekið skref í rétta átt en vakta þarf þessi mál vel áfram.

3.    Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna að forgangsröðun viðbygginga fyrir skóla- og frístundastarf sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. apríl. MSS22040058

-    Kl. 14.20 taka Líf Magneudóttir og Pawel Bartoszek sæti á fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir og Diljá Ámundadóttir víkja af fundi.

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Forgangsröðun þessi er afrakstur faglegrar vinnu þar sem þörf fyrir viðbyggingar og meiriháttar viðhalds við starfstöðvar grunnskóla var metin út frá fjölmörgum félagslegum og fjárhagslegum mælikvörðum. Niðurstaðan er röðun verkefna í tvo forgangsflokka sem verður notuð við gerð fjárfestingaáætlunar og frekari sviðsmyndagreiningu. Við fögnum þessari vinnu.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Hér er um mikilvæga uppbyggingu að ræða sem fulltrúi sósíalista styður heilshugar. Mikilvægt er að hægt sé að bæta við framkvæmdum vegna bygginga og endurbóta á verkefnalista borgarinnar, ef þörf er á til að mæta þeirri þörf sem upp kemur og að forgangsröðun leiði aldrei til þess að önnur mikilvæg uppbygging sitja á hakanum. Ljóst er að borgarsjóður hefur úr ákveðnu fjármagni að moða og mikilvægt að tekjustofnar borgarinnar verði efldir ef þeir ná ekki að standa undir allri þeirri uppbyggingu sem er nauðsynleg.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fyrir liggur skýrsla um forgangsröðun skóla sem þarfnast ýmist viðgerða eða viðbyggingar. Af þeim sex skólum sem eru nefndir í forgangi eru fjórir úr Laugarneshverfi og Háaleitis- og Bústaðahverfi. Í Laugardal er mikil uppsöfnuð þörf samkvæmt skýrslunni. Réttarholtsskóli er einnig mjög ofarlega í forgangsröðun skóla sem skipt er í fyrsta og annan forgang. Breiðagerðisskóli er skóli sem tekinn er með í forgangsröðunarlíkanið. Mikill vandi er einnig til staðar í Réttarholtsskóla og Langholtsskóla. Hér er um að ræða hverfi þar sem til stendur að þétta byggð svo um munar sem mun sprengja innviði hverfisins. Sumar þessar skólabyggingar eru þess utan illa farna vegna áralangs viðhaldsleysis. Viðhaldsskuld Reykjavíkurborgar er orðin stór. Staða íþróttaaðstöðu er óljós og telur Flokkur fólksins að bregðast verði við bráðavanda vegna skorts á íþróttaaðstöðu t.d. í Laugarnes- og Laugalækjarskóla og íþróttafélaganna í hverfinu. Þann veruleika sem hér hefur verið dreginn upp má finna í fleiri hverfum. Nemendum fjölgar hratt og óttast Flokkur fólksins að áætlaður fjöldi nemenda til framtíðar sé vanmetin. Líkur eru á að komið verði að þolmörkum árið 2030. Í skýrslunni er ekki fjallað um mismunandi aðstöðu til kennslu í íþróttum eða verklegum greinum og getur það haft áhrif í þessum samanburði.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að Reykjavíkurborg bjóði íbúum yfir 65 ára að taka þátt í markvissri heilsueflingu. Velferðarsvið í samráði við öldungaráð Reykjavíkurborgar fái það hlutverk að kanna hvort framkvæmdin skuli vera í samstarfi við íþróttafélögin í borginni eða sjálfstætt starfandi fagaðila.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22050020

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs og menningar-, íþrótta-, og tómstundaráðs. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Heilsuefling eldri íbúa er tímanna tákn. Heilsuefling 65 ára og eldri snýst ekki aðeins um styrktaræfingarnar sjálfar heldur einnig að fræða og efla einstaklingana í því að vera meðvitaðir um eigin heilsu og vita hverju þeir eigi að fylgjast með. Hvetja til umræðu. Heilsuefling eykur lífsgæði þessa hóps, er þáttur í að gera fólki kleyft að búa sem lengst heima hjá sér og fyrirbyggjandi gegn ýmsum lífstílstengdum sjúkdómum. Bætt heilsa eldri íbúa skiptir ekki einungis gríðarlega miklu máli fyrir einstaklingana sjálfa og aðstandendur þeirra heldur er hún líka vegna forvarnargildis síns þjóðhagslega hagkvæm. Samkvæmt mannspjöldaspá Hagstofunnar er fyrirsjáanlegt að hlutfall eldri íbúa í Reykjavík mun fara vaxandi á næstu árum. Gangi spáin um breytingar á aldurssamsetningu mannfjöldans eftir mun hlutfall íbúa yfir 65 ára verða yfir 20% árið 2037 og yfir 25% árið 2064. Hlutfallið er nú um 14%. Þá mun meðalævilengd karla og kvenna (við fæðingu) fara hækkandi. Niðurstaða starfshóps heilbrigðisráðuneytisins frá janúar 2021 um heilsueflingu eldri borgara er að leggja þurfi aukin kraft í heilsueflingu aldraðra og er framtíðarsýnin sú að ríki og sveitarfélög sjái til þess að unnið sé markvisst að heilsueflingu aldraðra.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að fara í tilraunaverkefni um að hafa gjaldfrjálst í strætó. Verkefnið skal hefjast 1. september 2022 og standa til 31. ágúst 2023. Greiðslur Reykjavíkurborgar vegna tilraunaverkefnisins til reksturs Strætó bs. miði við eigendahlutfall borgarinnar í samlaginu, sem er 60,3%.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22050021

Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillaga mín um að fara í tilraunaverkefni um að hafa gjaldfrjálst í Strætó í eitt ár var felld. Borgarstjóri og meirihlutinn treysta sér ekki að fara í þetta nauðsynlega verkefni af hræðslu við að farþegum fjölgi ekki. Farþegafjöldinn var 4% árið 2012 af heildarnotkun af öllum umferðarmátum. Farþegafjöldinn er 4% árið 2022 s.s. engin aukning. Nú hefur strætósamningurinn við ríkið verið framlengdur til ársins 2035. Heildarkostnaður ríkisins er þá orðinn 23 milljarðar miðað við daginn í dag. Meirihlutinn vill ekki fara í tilraunaverkefnið vegna þess að þau vita að farþegum kemur ekki til með að fjölga í strætó. Bylting hefur orðið í gangandi og hjólandi umferð með stóraukningu á hjóla- og göngustígum um borgina. Það hljóta allir að sjá að fleiri tugir milljarða og síðar nokkur hundruð milljarðar í það sem er kallað borgarlína er algjört peningalegt feigðarflan þegar viðskiptavinina vantar. Enginn vilji er til þess að finna út hver hámarks raunnotkun yrði í strætó/almenningssamgöngum með því að hafa þjónustuna ókeypis í eitt ár. Í annað eins er nú eytt.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu þess efnis að setja á laggirnar tilraunaverkefni um gjaldfrjálsan strætó. Tilraunaverkefni sem þetta í stuttan tíma gæti veitt okkur mikilvægar upplýsingar. Strætó er í miklum fjárhagsvandræðum sem stendur m.a. vegna afleiðinga COVID en einnig hefur bs. fyrirtækið Strætó sem er í meirihlutaeigu Reykjavíkur ráðist á sama tíma í að endurnýja flotann, keypt rafmagnsvagna í stað þess að fjárfesta í metanvögnum þar sem nóg er til af metani. Flokkur fólksins vill efla almenningssamgöngur enda eina leiðin til að ferðast fyrir þá sem nota ekki bíl eða hjól. Borgarlína er ekki í nánustu framtíð. Auka þarf fjárframlög frá eigendum til fyrirtækisins ef strætó á að virka fyrir fleiri. Nú hefur verið dregið úr þjónustu og nýja greiðslukerfið Klapp hefur valdið því að færri treysta sér í strætó. Fulltrúi Flokks fólksins berst fyrir því að frítt verði í strætó fyrir 67 ára og eldri og öryrkja. Helst ætti að vera frítt fyrir alla og er það markmið sem stefna ætti að. Öryrkjar og aldraðir eru minni hluti notanda strætó ef þessi hlutföll eru sett í samhengi við fjölda sem nota strætó. Eldra fólk fær nú helmingsafslátt ef keypt er árskort sem nýlega var hækkað um 60%.

6.    Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

Sósíalistaflokkur Íslands leggur til að Félagsbústaðir byggi þrjú þúsund nýjar íbúðir sem allra fyrst. Eigið fé Félagsbústaða var 67,3 milljarðar króna um síðustu áramót. Það er meira en 53% af eignum félagsins, 29,4 milljörðum meira en nauðsynlegt má telja. Fasteignafélög á markaði, Reitir, Reginn og Eik, eru með um 30% eiginfjárhlutfall. Eigið fé Félagsbústaða umfram þessi mörk gæti því staðið undir byggingum íbúða fyrir hátt í 100 milljarða króna. Með því afli væri hægt að byggja 3.000 íbúðir án nokkurs erfiðis. Skuldabréfaútboð Félagsbústaða hafa gengið vel, enda nýtur félagið ábyrgðar borgarsjóðs og er auk þess með frábær veð. Það eru ekki til betri veð en íbúðir lágtekjufólks. Ýmsar aðrar fjármögnunarleiðir eru Félagsbústöðum opnar. Reykjavíkurborg ætti að beita sér fyrir því að lán vegna almennra íbúða megi vera til lengri tíma en 50 ára, en núgildandi lög hafa slíka takmörkun. Með lánum til lengri tíma má lækka húsaleigu hjá Félagsbústöðum umtalsvert. Reykjavíkurborg á lóðir og Félagsbústaði sem hafa fjárhagslegt bolmagn til húsbygginga. Borgin þarf því ekki að bíða eftir því að verktakar byggi íbúðir til að geta keypt þær með ríkulegri álagningu. Reykjavíkurborg getur byggt íbúðirnar sjálf, sett á legg Byggingarfélag Reykjavíkur, eins og Sósíalistar hafa lagt til.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22050022

Tillagan er felld með tuttugu og einu atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 

7.    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að Reykjavíkurborg eigi frumkvæði að samræðu um stöðuna á húsnæðismarkaði á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við gildandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins sem gildir til ársins 2040. Höfuðborgarsvæðið 2040 er sameiginleg stefna sveitarfélaganna Garðabæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kjósarhrepps, Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar um náið samstarf, skipulagsmál og hagkvæman vöxt svæðisins næstu 25 árin. Höfuðborgarsvæðið er eitt búsetusvæði, einn atvinnu- og húsnæðismarkaður með sameiginleg grunnkerfi, útivistarsvæði, auðlindir og náttúru. Þetta er réttur vettvangur til að ræða þá alvarlegu stöðu sem nú er á húsnæðismarkaði. Nú þegar við blasir húsnæðisskortur er við hæfi að fulltrúar Reykjavíkurborgar setjist niður með nágrannasveitarfélögunum og ræði húsnæðisvandann, uppbyggingaráætlun og framtíð húsnæðismála í hinu stóra samhengi. Hraða þarf samráðsferli til að byggja megi hratt. Í viðræðum við nágrannasveitarfélög um hvernig staðið verði að uppbyggingu íbúða næstu árin er mikilvægt að ræða einnig um hvernig sveitarfélögin hyggjast deila ábyrgðinni á uppbyggingu félagslegs húsnæðis og hagkvæms húsnæðis fyrir fyrstu kaupendur, námsfólk og efnalítið fólk. Fram til þessa hefur Reykjavík borið hitann og þungann af uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis meðan önnur nágrannasveitarfélög sitja hjá.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22030024

-    Kl. 17.00 víkur Sabine Leskopf af fundinum og Berglind Eyjólfsdóttir tekur sæti.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarstjóra með tuttugu og tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Flokks fólksins, Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til að Reykjavíkurborg ætti frumkvæði að samtali um stöðuna á húsnæðismarkaði á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við gildandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040. Tillögunni er vísað til meðferðar borgarstjóra. Vonandi verður þessi tillaga til þess að þetta samtal verði og skili tilætluðum árangri. Borgarstjóri hefur kvartað yfir því í sal borgarstjórnar að nágrannasveitarfélögin axli ekki ábyrgð þegar kemur að því að bjóða þeim verst settu félagslegt leiguhúsnæði. Öllu sé vísað til Reykjavíkur. Sérstakur pirringur hefur verið sýndur gagnvart tillögum minnihlutans um að fjölga úrræðum svo mörg hundruð manns sem eru á biðlistum fái félagslegt leiguhúsnæði. Í þessari tillögu er lagt til að borgarstjóri eigi frumkvæði að samræðum við nágrannasveitarfélögin og ræði þessi mál tæpitungulaust við viðkomandi bæjarstjóra. Höfuðborgarsvæðið er eitt búsetusvæði og er Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu réttur vettvangur til að ræða þá alvarlegu stöðu sem nú er á húsnæðismarkaði. Hraða þarf samráðsferli til að byggja megi hratt og kalla þarf eftir sameiginlegri ábyrgð á vaxandi fátækt fólks sem margt hvert á ekki höfði sínu að halla á nema tímabundið hjá vinum og ættingjum vegna þess að það á ekkert heimili.

8.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 28. apríl. MSS22010003

9. liður fundargerðarinnar; viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2022 er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS22010035

12. liður fundargerðar borgarráðs frá 28. apríl, tillaga að eignarnámi á hluta jarðarinnar Hofs á Kjalarnesi vegna Brautarholtsstígs er samþykktur.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22040194

29. liður fundargerðarinnar, tillaga að aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar til 2030 er samþykktur. MSS22010199

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 29. lið fundargerðarinnar:

Það er sérstök ástæða til þess að fagna því að aðgengisstefna Reykjavíkur hafi nú loks verið staðfest. Aðgengismál eru mál okkar allra og stefna í málaflokknum löngu tímabær. Mikilvægt er að unnið verði markvisst í framhaldinu að þeim aðgengisbótum sem lagðar eru til í stefnunni og áhersla verði þar lögð á áframhaldandi samráð við hagsmunasamtök eins og raunin var við vinnslu stefnunnar.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 37. og 38. lið fundargerðarinnar:

Bensínstöðvardíllinn. Innri endurskoðandi og borgarlögmaður leggja blessun sína yfir bensínstöðvardíl borgarstjóra. Hér er um algjöran hvítþvott að ræða. Innri endurskoðandi á að hafa eftirlit með meirihlutanum og borgarlögmanni og ætlar ekki að leggja mat á lögmæti bensínstöðvardílsins. Reykjavíkurborg undir stjórn Dags B. Eggertssonar gaf olíufélögunum og fleiri aðilum lóðir og þar með byggingarétt á besta stað í borginni. Þar með er hann þátttakandi í að umbreyta félögunum í fjárfestingar- og fasteignafélög. Það eitt og sér er forkastanlegt og hefur birst landsmönnum í stórkostlegum hækkunum félaganna eftir dílinn sem sumir vissu af en aðrir ekki, sem sagt var um innherjaupplýsingar að ræða. Reykjavíkurborg hefur gefið frá sér skipulagsvaldið til þriðja aðila á flestum bestu uppbyggingarreitum í borginni. Það er ekki heimilt samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Eins og fyrr hefur verið reifað í bókunum er hér um að ræða samninga sem þegar eru komnir til framkæmda upp á 20 milljarða auk framtíðarsamninga lóða sem bensínstöðvar eru á og liggja í vegstæði hinnar svokölluðu borgarlínu. Ómögulegt er nú að leggja mat á verðmæti þeirra samninga. Minnt er á að borgarsjóður rambar á barmi gjaldþrots og hefði ekki veitt af þessum tekjum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 29. lið fundargerðarinnar:

Aðgengisstefnan er ágæt eins langt og hún nær. Samgöngumálin eru þó ansi fyrirferðarlítil í stefnunni. Fjölga þarf P-merktum bílastæðum í borgarlandinu en ekki fækka eins og gert hefur verið að undanförnu. Skýra þarf einnig og skilgreina betur hlutverk aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkurborgar og tryggja það, að eðlilegt og reglulegt samráð sé haft við nefndina um málefni fatlaðra. Alveg gleymist að skoða og ræða um fjárhagslegt aðgengi en fram hefur komið að það var ekki hluti af erindisbréfinu. Til dæmis er verðskrá og þjónustan ekki sambærileg hjá Strætó og hjá akstursþjónustunni sem er hugsuð sem ígildi strætó fyrir þau sem geta sjaldan eða aldrei notað hann. Ferð með akstursþjónustunni er dýrari. Fötluðu fólki á ekki að refsa fyrir fötlun sína með því að láta það borga meira fyrir sérhæfða þjónustu sem það þarf nauðsynlega. Þessi hópur er auk þess sá verst setti í samfélaginu og er skemmst að vitna í skýrslu um fátækt og bága stöðu öryrkja sem kom út 2021. Þar kom fram að 80 prósent fatlaðs fólks á erfitt með að ná endum saman og jafnhátt hlutfall þeirra þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Skipa þyrfti yfiraðgengisfulltrúa hið fyrsta og í kjölfarið ráða fleiri aðgengisfulltrúa.

9.    Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 29. apríl, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 25. apríl, skipulags- og samgönguráðs frá 27. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 26. apríl og velferðarráðs frá 6. apríl. MSS22010217

Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar, dags. 27. apríl 2022:

Forsætisnefnd leggur til að borgarstjórn samþykki að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar sem halda skal þann 17. maí 2022 með vísan til heimildar í 2. mgr. 14. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 139/2011 í samræmi við fundadagatal borgarstjórnar fyrir starfsárið 2022. Þess í stað verður boðað til aukafundar borgarstjórnar þriðjudaginn 24. maí 2022. MSS22010060

Samþykkt. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs og 9. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:

Hér er lagt til að gera breytingu á deiliskipulagi sem myndi veita heimild til þess að bæta við fjórðu hæð ofan á helming þakflatar þriggja hæða fjölbýlishúss sem nú er í byggingu. Upphaflegum teikningum var mótmælt og nú á enn að bæta við byggingarmagni. Þessu hefur verið harðlega mótmælt og vill fulltrúi Flokks fólksins að hlustað sé á íbúa Athugasemdir lúta m.a. að skorti á samráði. Áhyggjur eru af skuggavarpi og bílastæðamálum. Fyrir liggur skýrsla um forgangsröðun skóla sem þarfnast ýmist viðgerða eða viðbyggingar. Flokkur fólksins telur að upplýsingagjöf til foreldra í tengslum við framtíðarskipulag skólamála og viðhaldsmál hafi verið ófullnægjandi og úr því þarf að bæta. Lítið er að frétta af kostnaðargreiningu vegna hugmynda sem kynntar voru í skýrslu starfshópsins um skóla- og frístundastarf í Laugarnes- og Langholtshverfi. Tímalína fyrir lausnir er ekki til. Hægagangur er mikill og stundum fá skólastjórnendur engan fyrirvara þegar skyndibreytingar standa fyrir dyrum. Skólastjórnendur eru undir miklu álagi og þurfa oft frá einum degi til annars að púsla saman hvar börnin eiga að stunda nám hverju sinni. Bæta þarf tengsl og samskipti borgaryfirvalda við yfirstjórnendur. Í skólunum í hverfinu er gegnumgangandi þrengsl, mörg börn í litlu rými sem er ólíðandi.

Fundi slitið kl. 17:55

Alexandra Briem

Rannveig Ernudóttir    Kolbrún Baldursdóttir

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 3.5.2022 - Prentvæn útgáfa