Fundur nr. 93 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 93

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
 
Ár 2016, 10. febrúar, var haldinn 93. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi á Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 9:30. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Jóna Björg Sætran (B), Kjartan Magnússon (D), Líf Magneudóttir (V) Sabine Leskopf (S) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Arnaldur Sigurðarson (Þ); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjórar í Reykjavík; Rósa Ingvarsdóttir kennarar í grunnskólum og Sindri Smárason, Reykjavíkurráð ungmenna. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Elín Norðmann, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Kristján Gunnarsson, Soffía Pálsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
 
Þetta gerðist:
 
1. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 22. janúar 2016, um drög að nýrri mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Jafnframt lögð fram drög að mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar dags. 19. janúar 2016 og umsögn skóla- og frístundasviðs um drög að nýrri mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, dags. 3. febrúar 2016. Líf Magneudóttir, formaður starfshópsins og Halldóra Gunnarsdóttir, jafnréttisráðgjafi mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar kynna og svara fyrirspurnum. SFS2016010131
 
- Kl. 09:45 tekur Sveinn Sigurður Kjartansson sæti á fundinum. 
 
Umsögn skóla- og frístundasviðs samþykkt með 4 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá. 
 
Guðrún Hjartardóttir tekur sæti á fundinn undir þessum lið.
 
- Kl. 10:15 víkur Elín Norðmann af fundinum. 
 
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 
 
Áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna fagnar drögum að nýrri mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og að meiri áhersla sé nú á réttindi barna en áður. Áheyrnarfulltrúi vill nota þetta tækifæri og leggja áherslu á að fræðsluyfirvöld komi á sameiginlegum fræðslu- og umræðuvettvangi um þessi mál meðal starfsmanna skóla og frístundar á hverri starfsstöð eða í hverju hverfi. SFS gæti leitað til Umboðsmanns barna sem gæti kynnt barnasáttmálann fyrir starfsfólki og fulltrúi sviðsins gæti sagt frá því hvernig sáttmálinn endurspeglast í bæði nýjum grunnskólalögum og nýrri aðalnámskrá grunnskóla. En ein af athugasemdum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, sem hefur eftirlit með framkvæmd sáttmálans, til Íslands árið 2011 var að þörf væri á eflingu „á fullnægjandi og skipulegri þjálfun allra faghópa sem starfa í þágu og með börnum, einkum löggæslustarfsmanna, kennara, heilbrigðisstarfsfólks, félagsráðgjafa og starfsfólks í hvers kyns umsjá utan fjölskyldu.“
 
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. febrúar 2016:
 
Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til við skóla- og frístundaráð að stofnaðir verði tveir starfshópar sem hafa það verkefni að móta framtíðarskipulag leikskólans Bakkabergs með tilliti til samþættingar og samstarfs við aðrar starfsstöðvar, annarsvegar á Kjalarnesi og hinsvegar í Grafarvogi. Markmið vinnunnar er að tryggja sterkar faglegar og rekstrarlegar skólaeiningar. Starfshóparnir skulu starfa á þjónustusvæði Bakkabergs, annars vegar á Kjalarnesi og hins vegar í Staðarhverfi í Grafarvogi. Starfshóparnir skulu skipaðir fjórum sérfræðingum á skóla- og frístundasviði auk tveimur fulltrúum skólastjórnenda leik- og grunnskóla, tveimur fulltrúum starfsfólks og tveimur fulltrúum foreldra, fulltrúa hverfisráða og fulltrúa íbúasamtaka. Starfshóparnir skulu leggja fram ígrundaðar rökstuddar og útreiknaðar tillögur fyrir skóla- og frístundaráð eigi seinna en á fyrri fundi ráðsins í apríl.
 
Greinargerð fylgir. 
 
Jafnframt lögð fram drög að erindisbréfum sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um mótun framtíðar skipulags leikskólans Bakkabergs á Kjalarnesi og skólastarfs á Kjalarnesi og mótun framtíðarskipulags leikskólans Bakkabergs í Grafarvogi og skólastarfs í Grafarvogi. Enn fremur lögð fram skýrslan Mat á sameiningu leikskólanna Bakka og Bergs, Fellaborgar og Völvuborgar og Tjarnarborgar og Öldukots 2010 til 2011, dags. í mars 2012. SFS2016010132
 
Samþykkt. 
 
3. Lögð fram hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík, dags. 30. júní 2015, um að færa frístundaheimilið Glaðheima nær Langholtsskóla. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. febrúar 2016, um hugmyndina. SFS2015060268 
 
Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frísundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata:
 
Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra skóla– og frístundasviðs að hefja viðræður við skrifstofu eigna og atvinnuþróunar um að leita að varanlegu húsnæði fyrir frístundaheimilið Glaðheima og félagsmiðstöðina Þróttheima, í nágrenni Langholtsskóla.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
 
Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra skóla – og frístundasviðs að hefja viðræður við skrifstofu eigna og atvinnuþróunar um að leita að varanlegu húsnæði fyrir frístundaheimilið Glaðheima og félagsmiðstöðina Þróttheima, í Langholtsskóla eða í nágrenni við hann.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu: 
 
Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra skóla– og frístundasviðs að hefja viðræður við skrifstofu eigna og atvinnuþróunar um að leita að leita að varanlegu húsnæði fyrir frístundaheimilið Glaðheima og félagsmiðstöðina Þróttheima í tengslum við Langholtsskóla. 
 
Samþykkt. 
 
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs þann 27. janúar 2016:
 
Áheyrnarfulltrúi foreldra leggur til að skóla- og frístundasvið og skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar taki forustu og óski eftir frestun á gildistöku nýs námsmats við lok grunnskóla sem á að taka gildi vorið 2016. Þann 9. september og 25. nóvember á síðasta ári lagði áheyrnarfulltrúi foreldra fram fyrirspurn varðandi innleiðingu nýs námsmats í grunnskólum, hvort skóla- og frístundasviði væri kunnugt hver staðan væri varðandi innleiðingu í einstökum hverfum eða skólum borgarinnar. Ekki hafa borist svör við þeirri fyrirspurn, nú þegar skólaárið er hálfnað. Í mörgum grunnskólum í Reykjavík hefur nemendum og foreldrum lítt eða ekki verið kynnt hvaða viðmið verða notuð til að mæla árangur þeirra í vor við lok grunnskólans. Það er óásættanlegt gagnvart nemendum og foreldrum, alveg óháð þeirri miklu vinnu sem starfsmenn margra skóla hafa lagt á sig. Sumir kennarar hafa einmitt bent á það sem rök fyrir því að halda ótrauð áfram. En það verður hins vegar að gera þá kröfu að kerfið hafi hagsmuni allra nemenda að leiðarljósi, ekki bara þeirra nemenda sem eru svo heppnir að vera í skólum þar sem vel hefur verið að þessu staðið. Það er afar ósanngjarnt fyrir útskriftarárganginn að haldið sé áfram meðan staðan er með þessum hætti. Það verður hreinlega að gera kröfu um það að það liggi skýrt fyrir í byrjun skólaárs hvernig úrfærslu námsmats verður háttað.
 
Greinargerð fylgir. 
 
Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. febrúar 2016, varðandi tillögu áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum um að óskað verði eftir að frestað verði gildistöku námsmats. SFS2015110177
 
Tillögunni vísað frá með 5 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina gegn 2 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
 
- Kl. 11:00 víkur Soffía Pálsdóttir af fundinum.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina og áheyrnarfulltrúi Pírata taka undir þau sjónarmið sem komið hafa fram um að undirbúningi af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis varðandi innleiðingu nýs námsmats við lok grunnskóla hafi verið mjög ábótavant.  Það liggur hins vegar fyrir að margir skólar eru komnir vel á veg með að útfæra innleiðingu námsmatsins og hafa unnið afar gott starf með sínu starfsfólki og tillagan er því of seint fram komin að okkar mati. Af þeim sökum teljum við að það væri ekki heppilegt að fresta innleiðingunni enn á ný og teljum því rétt að vísa tillögunni frá.
 
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 
 
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum lýsir yfir miklum vonbrigðum með að skóla- og frístundasvið og skóla- og frístundaráð meti það svo að frestun á gildistöku nýs námsmats við lok grunnskóla vorið 2016 hafi í för með sér afturhvarf til fyrri starfshátta eða að þróunarferlið sé stöðvað. SAMFOK telur þvert á móti að með því að staldra við mætti koma í veg fyrir að skólar sem eru komnir skemur á veg eyði tíma í yfirfærslu og „reddingar korter í próf“ og freistist til að breyta tölum í bókstafi í stað þess að halda áfram vinnu við allt það góða sem ný námskrá boðar, þ.e. breytingar á kennsluháttum og vel skilgreint hæfnimiðað námsmat. Skólastarf snýst um nemendur, velferð þeirra og árangur í námi. Ekki stofnanir eða kerfi. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum telur að þetta hafi gleymst við innleiðingu nýs námsmats við lok grunnskóla sem á að taka gildi í vor og ítrekar að það er óásættanlegt að nemendum og foreldrum þeirra hafi ekki verið ljóst í upphafi skólaárs hvaða viðmið yrðu notuð til að meta námsárangur nemenda við lok grunnskólagöngu þeirra. Við fögnum því að SFS hafi sent spurningar til skólastjórnenda, þó svo við teljum það vera ári of seint. Það þarf að setja fjármuni og tíma núna strax í að klára innleiðinguna því fram hefur komið að menntamálaráðuneytið væntir þess að grunnskólarnir nýti tímann til vorsins 2017 til að innleiða nýja námsmatskvarða í bókstöfum fyrir öll námsvið fyrir alla nemendur. Það er því mikilvægt er að allir taki höndum saman svo það megi takast, og ítreka að til að tryggja vellíðan og góðan námsárangur verður nemendum og foreldrum þeirra að vera ljóst hvernig nám verður metið. Meðfylgjandi er ályktun SAMFOK vegna afgreiðslu ráðsins og sviðsins.
 
Greinargerð fylgir. 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Ljóst er að vinnu vegna innleiðingar nýs námsmats í grunnskólum Reykjavíkur hefur að miklu leyti verið ábótavant. Meðal annars hefur komið fram að markviss vinna vegna umræddrar innleiðingar hafi ekki hafist af hálfu yfirstjórnar skóla- og frístundasviðs fyrr en á síðastliðnu hausti. Hinn 9. september og 25. nóvember sl. lagði áheyrnarfulltrúi foreldra í ráðinu fram fyrirspurn varðandi stöðu umræddrar innleiðingar en ekki hafa enn borist svör við henni þrátt fyrir að skólaárið sé nú meira en hálfnað. Í fyrirliggjandi tillögu kemur fram að í mörgum grunnskólum í Reykjavík hafi nemendum og foreldrum lítt eða ekki verið kynnt hvaða viðmið verði notuð til að mæla árangur nemendanna á komandi vori í lok grunnskólagöngu þeirra. Slíkt er óviðunandi og mikill ábyrgðarhluti að keyra slíkar breytingar í gegn þrátt fyrir að það liggi ljóst fyrir að mörg boðorð farsællar breytingastjórnunar hafi verið brotin í umræddu ferli. Við teljum að eðlilegt hefði verið að taka tillögu áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum til efnislegrar meðferðar á fundinum í stað þess að vísa henni frá eins og meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata kýs að gera. 
 
5. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. febrúar 2016, varðandi viðauka við fjárhagsáætlun 2016 vegna hagræðingaraðgerða. Jafnframt lagður fram viðauki við fjárhagsáætlun 2016 vegna hagræðingaraðgerða, dags. 27. janúar 2016. Kristján Gunnarsson, fjármálastjóri skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2015060210
 
- Kl. 11:18 víkur Rósa Ingvarsdóttir af fundinum. 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlegar athugasemdir við skort á upplýsingagjöf til fulltrúa í skóla- og frístundaráði vegna yfirvofandi niðurskurðar á fjárframlögum til leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila í Reykjavík. Ljóst er að í ferlinu kaus meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna að halda mikilvægum upplýsingum frá fulltrúum minnihlutans og áheyrnarfulltrúum í skóla- og frístundaráði á sama tíma og svonefndur oddvitahópur fékk slíkar upplýsingar afhentar í trúnaði. Er harmað að borgarstjórnarmeirihlutinn skuli láta leyndarhyggju og skort á gagnsæi ráða för í svo mikilvægu máli. 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata árétta að mikil áhersla hefur verið lögð á að veita greinargóðar upplýsingar um fyrirhugaðar hagræðingaraðgerðir allar götur frá því í nóvember á síðastliðnu ári. Aðgerðirnar byggja sömuleiðis á vinnu starfshóps um fjárhag sviðsins sem hafa verið í umræðunni í ráðinu frá því í ágústmánuði 2015.
 
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 
 
Félag foreldra leikskólabarna í Reykjavík lýsir yfir þungum áhyggjum sínum yfir niðurskurði á skóla- og frístundasviði sem bitnar á gæðum þeirrar þjónustu sem boðið er uppá. Má þar nefna niðurskurð í sérkennslu og stuðningi við nemendur sem þurfa á slíkri þjónustu að halda. Eins má nefna frestun á lækkun leikskólagjalda en margar fjölskyldur eiga erfitt með að láta enda ná saman, sérstaklega barnafjölskyldur. Félagið hefur einnig áhyggjur af því að niðurskurðurinn hafi enn frekari og neikvæð áhrif á þá staðreynd að mikill skortur er á faglærðu fólki í leikskólum borgarinnar. Víðtækur niðurskurður af þessu tagi bitnar að því er virðist á þeim sem síst skyldi, börnum og barnafjölskyldum. Síðast en ekki síst er hætta á að niðurskurðurinn bitni einnig á viðhaldi húsakosts og leikskólaumhverfisins almennt sem er í tilvikum ábótavant.
 
Áheyrnarfulltrúi foreldrar barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 
 
Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum ítrekar þungar áhyggjur foreldra vegna þessa mikla niðurskurðar sem á að koma til strax á þessu ári og því næsta og vill koma svohljóðandi ályktun frá öllum foreldrafélögum grunnskóla í Breiðholti til skóla- og frístundaráðs: “Stjórnir foreldrafélaga grunnskóla í Breiðholti skora á skóla- og frístundaráð að beita sér fyrir því að hagræðingakrafa sem borgaryfirvöld hafa sett á skóla- og frístundasvið verði dregin til baka þannig að tryggt sé að skólarnir geti sinnt sínum lögboðnu skyldum. Niðurskurður fjármagns til skólastarfs hefur nú þegar verið umtalsverður síðustu misseri og er svo komið að grunnþjónusta á mjög undir högg að sækja. Sérkennsla hefur dregist saman og allur stuðningur til barna með hverskonar sérþarfir sömuleiðis. Ef boðaður niðurskurður nær fram að ganga er fyrirséður enn frekari samdráttur sérkennslu og stuðnings og þar með stærri vandi barna seinna meir. Félögin minna á nýlegar og alvarlegar niðurstöður kannana um líðan og félagslega stöðu barna á Íslandi. Skólar eru hornsteinn samfélagsins og gríðarlega mikilvægt að vel sé búið að þeim.
 
Lagðar fram bókanir sem settar voru í trúnaðarbók skóla- og frístundaráðs.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram svohljóðandi trúnaðarbókun á fundi skóla- og frístundaráðs 27. janúar 2016 þegar fjallað var um drög að hagræðingartillögum skóla- og frístundasviðs 2016.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja áherslu á að leiðarljós við útfærslu hagræðingar á skóla- og frístundasviði hefur verið að verja eftir föngum lögbundna grunnþjónustu en draga úr miðlægum útgjöldum, þar með talið stjórnunarkostnaði. Þá er ekki um flatan niðurskurð að ræða heldur sparað á tilteknum kostnaðarliðum. Lögð er áhersla á að draga úr húsnæðiskostnaði m.a. með auknu samstarfi grunnskóla og frístundar, kostnaði vegna fjarvista starfsfólks og lækka rekstrarkostnað mötuneyta, einkum með víðtækari útboðum til að tryggja hagstæðara innkaupsverð. Breytt verður starfsaðferðum varðandi sérkennslu og stuðning í leikskólum hjá börnum með vægari raskanir en á móti kemur nýtt fyrirkomulag stuðnings með áherslu á markvissa ráðgjöf og handleiðslu á vettvangi, s.s. varðandi málörvun, hegðunarráðgjöf og fleira. 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram svohljóðandi trúnaðarbókun á fundi skóla- og frístundaráðs 27. janúar 2016 þegar fjallað var um drög að hagræðingartillögum skóla- og frístundasviðs 2016.
 
Á undanförnum árum hefur fjárhagslegur sparnaður, hagræðing og niðurskurður hert svo mjög að starfsemi og grunnþjónustu leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva í Reykjavík að erfitt er að sjá að lengra verði gengið í skerðingum á brýnni grunnþjónustu skólastarfsins. Niðurskurðar er því miður vissulega þörf og hagræðingaleiðir sem hafa verið valdar eftir umfangsmikla og vandaða vinnu nokkurra starfshópa ná til ótal margra þátta. Framsókn og flugvallarvinir vilja hvetja til aukinnar rýni á brýnni en erfiðri forgangsröðun sparnaðar innan ákveðinna þátta innan þeirra hagræðingaleiða sem nú hafa verið kynntar og að rýnin verði unnin í góðu samstarfi við skólastjórnendur og fulltrúa kennara. Án efa munu sparnaðurinn og hagræðingin kalla á aukið álag á vissum sviðum skólastarfsins því erfið vandamál og flókin verkefni sem ekki er veitt fjármagn til munu ekki hverfa heldur má búast við að þau geti íþyngt öðru skólastarfi. Stórar blandaðar bekkjardeildir, skortur eða löng bið eftir sértækum stuðningi og margvíslegar þrengingar í skólastarfinu samhliða auknu álagi á kennurum og skólastjórnendum í tengslum við innleiðingu nýrrar aðalnámskrár kalla frekar á aukinn stuðning en aukið fjársvelti. 
 
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum lögðu fram svohljóðandi trúnaðarbókun á fundi skóla- og frístundaráðs 27. janúar 2016 þegar fjallað var um drög að hagræðingartillögum skóla- og frístundasviðs 2016.
 
Áheyrnarfulltrúar kennara og skólastjóra í skóla- og frístundaráði lýsa yfir áhyggjum af fjárhag grunnskólanna í borginni. Nú stendur fyrir dyrum 670 milljóna króna niðurskurður fyrir árið 2016 og 955 milljóna niðurskurður fyrir árið 2017. Eftir hrun var mikill niðurskurður í grunnskólunum og hefur sá niðurskurður ekki verið bættur. Hagræðingartillögur þær sem nú liggja á borðinu eru með þeim hætti að reynt er að verja grunnþjónustu við nemendur sem mest og er það vel. Stærsta áhyggjuefnið er ef þær hugmyndir sem nú eru á borðinu ná ekki fram að ganga og niðurskurðurinn verði þá tekinn annars staðar frá. Varað er við flötum niðurskurði á skólana sem þegar búa við alltof þröngan kost. Einnig þarf að vinna með starfsmönnum að liðnum samnýting húsnæðis grunn og frí og passa upp á að vinnuaðstæður kennara verði ekki lakari en nú er.
 
Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í leikskólum lagði fram svohljóðandi trúnaðarbókun á fundi skóla- og frístundaráðs 27. janúar 2016 þegar fjallað var um drög að hagræðingartillögum skóla- og frístundasviðs 2016.
 
Stjórnendur í leikskólum Reykjavíkurborgar eru uggandi yfir þeirri ákvörðun Reykjavíkurborgar að skera niður fjármagn næstu tvö árin til skóla- og frístundasviðs. Nú þegar er boðuð hagræðingarkrafa sviðsins fyrir skólaárið 2016 um 670.000.000.- Í kjölfar bankahrunsins 2008 var velt við hverjum steini í leikskólunum til að ná fram sparnaði. Það fjármagn hefur ekki nema að litlu leyti verið fært aftur til leikskólanna. Á síðastliðnu ári tóku leikskólar á sig auknar byrðar í rekstri, má þar nefna hluta af kostnaði sem fylgir sérkennslu og um leið niðurskurð á launalið. Ákvörðun borgarráðs að leikskólar taki með sér halla frá árinu 2015 yfir á árið 2016 kom stjórnendum í opna skjöldu á sama tíma og niðurskurður er boðaður. Við teljum að nú sé komið inn að beini í skerðingu á fjármagni til leikskóla og ekki hægt að mæta honum nema með beinni skerðingu á þjónustu við börn og fjölskyldur og með minni gæðum í leikskólastarfinu. 
 
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum lagði fram svohljóðandi trúnaðarbókun á fundi skóla- og frístundaráðs 27. janúar 2016 þegar fjallað var um drög að hagræðingartillögum skóla- og frístundasviðs 2016.
 
Áheyrnarfulltrúi grunnskólaforeldra lýsir þungum áhyggjum vegna þessarar miklu niðurskurðarkröfu sem skóla- og frístundasviði er ætlað að framkvæma næstu misseri í grunnskólum borgarinnar. Sérstaklega er hvatt til þess að stigið sé varlega til jarðar og vandað til verks þegar ákvarðanir um aðgerðir eru teknar og má í því samhengi minnast sameininga grunnskóla og leikskóla en í óháðri úttekt kom fram að þar var ráðist í viðamikið verkefni sem hafði ekki fyrirfram augljósan og óumdeilanlegan ávinning og kostnaður við verkefnið var vanáætlaður. Fulltrúi foreldra vill beina því til stjórnenda að þessar miklu hagræðingartillögur verði kynntar vel og ræddar í hverju skólasamfélagi t.d. í skólaráði þar sem fulltrúar allra aðila sitja. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa nýverið sammælst um að gera menntamál að sameiginlegu forgangsverkefni sínu til ársins 2020. Ráðstöfun fjármagns, stefnumörkun og aðgerðir taka mið af því. Það eru gríðarleg vonbrigði að staða borgarinnar sé með þeim hætti að ekki sé hægt að hlífa grunnskólum við frekari niðurskurði eftir mikinn niðurskurð allt frá árinu 2009.
 
6. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 4. febrúar 2016, varðandi tíma- og verkáætlun vegna fjárhagsáætlunar 2017-2021. Jafnframt lögð fram tíma- og verkáætlun vegna fjárhagsáætlunar 2017-2021. SFS2016020033
 
- Kl. 11:50 víkja Helgi Grímsson og Sindri Smárason af fundinum. 
 
7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. febrúar 2016, um fyrirhugaðar ráðningar nýrra skólastjóra í grunnskólum Reykjavíkurborgar. SFS2016020038
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að í tengslum við fyrirhugaða ráðningar skólastjóra við Háteigsskóla, Laugalækjarskóla og Melaskóla verði foreldrafélögum þessara skóla gefinn kostur á samráði um málið. Áður en gengið verði frá ráðningum verði félögin upplýst um umsækjendur og þeim gert kleift að koma umsögnum á framfæri við skóla- og frístundasvið vegna hennar. 
 
8. Lagt fram yfirlit yfir starfshópa skóla- og frístundasviðs, dags. 8. febrúar 2016. SFS2016020039
 
9. Lagt fram yfirlit yfir erindisbréf starfshópa skóla- og frístundasviðs, dags. 8. febrúar 2016. Jafnframt lögð fram erindisbréf starfshóps um endurskoðun úthlutunarlíkans frístundamiðstöðva, starfshóps um endurskoðun úthlutunarlíkans leikskóla, starfshóps um UTD-þjónustu SFS, starfshóps um hagræðingu vegna orkusparnaðar á starfsstöðvum SFS, starfshóps um aukið lýðræði barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi SFS, starfshóps um skoðun á skráningum upplýsinga um nemendur í grunnskóla í rafrænt upplýsingakerfi í tengslum við álit Persónuverndar um Mentor, starfshóps um breytingar á mötuneytisþjónustu, starfshóps um húsnæðismál og húsnæðiskostnað og starfshóps um aukinn sveigjanleika milli grunn- og framhaldsskóla. SFS2015100017
 
10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. febrúar 2016, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina varðandi styrk til að taka upp upplýsingakerfi sem styður við innleiðingu námskrár og nýs námsmats. Jafnframt lagt fram bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 25. nóvember 2014, um styrk vegna námsupplýsingakerfis, kröfulýsing mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. í nóvember 2014, um námsupplýsingakerfi sem styður við innleiðingu aðalnámskrár grunnskóla og upplýsingar frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um styrkupphæð hvers skóla í Reykjavík. SFS2016010074
 
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi tillögu: 
 
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur til að SFS fari í viðræður við Mentor um að gera einfaldar endurbætur á aðstandendaspjaldi nemenda og foreldra, í samráði við SAMFOK og Móðurmál. Það er einkum tvennt sem við teljum brýnt að bæta. Annars vegar að útbúið verði sérstakt hak á aðstandendaspjöldum, þannig að t.d. skólaritari geti í upphafi árs hakað við hverjir sitja í skólaráði, eru í stjórn annars vegar foreldrafélags eða nemendafélags, hverjir eru bekkjar- eða árgangafulltrúar. Þetta litla praktíska mál, myndi auðvelda svo verkin að halda utan um þetta.  Hins vegar að það verði mögulegt að haka við móðurmál nemenda (hægt að skrá 2-3), tungumál töluð á heimili og hvernig það hentar foreldrum best að taka á móti upplýsingum frá skóla (tölvupóstur, SMS, o.s.fr.v.) 
 
Frestað. 
SFS2016020093
 
11. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. febrúar 2016, um embættisafgreiðslu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, fjögur mál. SFS2015010035
 
12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 
 
Skóla- og frístundaráð beinir því til borgarráðs að starfsemi Skólasels við Keilufell verði færð til skóla- og frístundasviðs. Jafnframt óskar ráðið eftir því að starfsmönnum selsins verði fjölgað úr þremur í fjóra í því skyni að styrkja starfsemina og stytta biðlista eftir þjónustu þess. Þá óskar ráðið eftir því að hugað verði að fjölgun bílastæða við húsið og reist þar skýli fyrir reiðhjól. 
 
Frestað.
SFS2016020094 
 
13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu: 
 
Framsókn og flugvallarvinir vilja leggja áherslu á að brýnt er að vinna með sértækan vanda barna í grunnskólum borgarinnar. Víða er unnið gríðarlega mikið starf á þessu sviði sem þó eru settar miklar skorður sem rekja má til bæði fjárskorts og einnig þess hvernig slíkt starf getur skarast á milli sviða stjórnsýslunnar t.d. á milli skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs. Á Skólaseli að Keilufelli 5 í Breiðholti er unnið með bráðan, fjölbreyttan og sértækan vanda barna frá tólf skólum í austurhluta Reykjavíkur. Þar er í dag aðeins unnt að vinna með þrjá nemendur í senn á þriggja til fimm vikna tímabilum en í dag eru ellefu nemendur á biðlista sem metið er mjög brýnt að nái að fá umbeðna þjónustu áður en skóla lýkur í vor. Þrátt fyrir að þarna er ekki síður unnið með nám barnanna en andlegan og félagslegan vanda þeirra er starfsemin á borði velferðarsviðs en ekki skóla- og frístundasviðs og starfsfólk Skólasels nýtur að eigin mati í dag ekki mikilvægra tengsla og stuðnings við ráðamenn skóla- og frístundasviðs. Framsókn og flugvallarvinir leggja til að skóla- og frístundasvið kanni hvort unnt sé að koma á eða auka samstarf við Skólaselið þrátt fyrir að starfsemin sé staðsett á skipuriti undir velferðarsviði. Einnig vilja Framsókn og flugvallarvinir leggja til að í anda hagræðingar sé skoðað hvernig verði hægt að koma til móts við starfsmannaeklu Skólasels þó ekki sé nema tímabundið fram til vors eða þangað til að aðstæður leyfa að fjölga þar starfsfólki til framtíðar.
 
Frestað.
SFS2016020095
 
14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
 
Framsókn og flugvallarvinir óska eftir upplýsingum um hvort í gildi séu samræmdar reglur í grunnskólum borgarinnar varðandi ástundun, þ.e. tímasókn, nemenda í 1. – 10. bekk. Gilda samræmdar reglur varðandi fjölda veikindadaga og aðrar fjarvistir nemenda, tilkynningarform forfalla og áhrif forfalla á mætingareinkunnir? Gilda samræmdar reglur varðandi hvenær og með hvaða hætti kennarar og skólastjórnendur kanni ástæður ítrekaðra veikinda nemenda og annarra fjarvista?
 
SFS2016020096
 
- Kl. 12:06 víkja Atli Steinn Árnason og Hildur Skarphéðinsdóttir af fundinum. 
 
Fundi slitið kl. 12:18
 
Skúli Helgason
Eva Einarsdóttir Jóna Björg Sætran
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Sabine Leskopf Örn Þórðarson
 
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

10 + 2 =