Fundur nr. 92 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 92

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
 
Ár 2016, 27. janúar, var haldinn 92. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi á Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 11:05. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Jóna Björg Sætran (B), Kjartan Magnússon (D), Líf Magneudóttir (V), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Arnaldur Sigurðarson (Þ); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjórar í Reykjavík; Steindór Gestur Guðmundarson Waage, Reykjavíkurráð ungmenna og Sveinn Sigurður Kjartansson, foreldrar barna í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Kristján Gunnarsson, Soffía Pálsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
 
 
Þetta gerðist:
 
1. Niðurstöður Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á skoðun starfseininga skóla- og frístundasviðs á árinu 2015. Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri umhverfiseftirlits, Kolbrún Georgsdóttir, Gunnar Kristinsson og Ásgeir Björnsson, heilbrigðisfulltrúar Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, kynna og svara fyrirspurnum. SFS2016010161
 
- Kl. 11:25 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum. 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 
 
Óskað er eftir upplýsingum um hversu víða asbest er til staðar í skólum og frístundaheimilum Reykjavíkurborgar og faglegu mati á því hvort hætta geti stafað af því.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata þakka fulltrúum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur fyrir greinargott yfirlit um skoðun starfsstöðva skóla- og frístundasviðs. Niðurstaðan leiðir í ljós að almennt ástand húsnæðis í leik – og grunnskólum sé yfirleitt mjög gott og á síðasta ári hafi aldrei verið talin ástæða til að grípa til harkalegra þvingunaraðgerða. Að ýmsu er þó að huga s.s. varðandi viðhald leikskólalóða, innra eftirlit í mötuneytum leikskóla, öryggismál á frístundaheimilum o.s.frv. Mikilvægt er að stjórnendur starfsstöðva kynni skýrslur Heilbrigðiseftirlitsins vel fyrir skólaráðum og foreldraráðum, svo foreldrar séu á hverjum tíma vel upplýstir um athugasemdir og ábendingar Heilbrigðiseftirlitsins.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
 
Kynning á niðurstöðum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á skoðun starfseininga skóla- og frístundasviðs á árinu 2015 kallar á enn frekari upplýsingar. Framsókn og flugvallarvinir óska eftir að fá upplýsingarnar sem koma fram í kynningunni greinanlegar eftir starfseiningum. Framsókn og flugvallarvinir telja einnig brýnt að enn frekar sé hugað að mælingum á hávaðamengun á starfseiningum m.a. í mötuneytum nemenda og kennara. Einnig er hvatt til þess að stjórnendur starfseininga birti niðurstöður Heilbrigðiseftirlitsins á vefsíðum starfseininganna til upplýsingar fyrir foreldra barnanna þar sem slík upplýsingagjöf getur aukið metnað starfseininganna til að standa sig vel á þessu sviði og til að bregðast fljótt og vel við hugsanlegum athugasemdum Heilbrigðiseftirlitsins.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Kynning á eftirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sýnir að húsnæði og lóðum skóla- og frístundasviðs er í mörgum tilvikum ábótavant og í sumum tilvikum mjög ábótavant. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja því enn og aftur til að framkvæmdum hjá Reykjavíkurborg verði forgangsraðað í þágu viðhalds og endurbóta leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila í borginni. 
 
- Kl. 12.25 víkur Soffía Pálsdóttir af fundinum. 
 
Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna leggur fram svohljóðandi bókun: 
 
Í einhverjum af elstu leikskólum Reykjavíkurborgar er ennþá asbest t.a.m. í innri klæðningum eins og í Drafnarborg í Vesturbænum.  Félagið sendi Umhverfissviði Reykjavíkurborgar fyrirspurn um eftirlit og umsjón með slíkum efnum og umgengni við þau í leikskólum fyrir þó nokkru síðan en hefur ekki enn fengið svar. Félagið lýsir yfir áhyggjum sínum yfir því að í Drafnarborg hafi t.a.m. átt að bora upp ný húsgögn í asbest klæðningu skólans án eftirlits eða umsjónar Heilbrigðiseftirlitsins. Þekking starfsmanna skólans á hættum tengdum efninu virðist vera einhver en er þó takmörkuð og býður það hættunni heim. Eiturefni geta leynst víða t.a.m. í gömlum leikföngum eða leikföngum sem uppfylla ekki gildandi reglugerðir. Þar má t.a.m. nefna þalöt sem gjarnan eru notuð til að mýkja plast en það hefur áhrif á hormónabúskap og þroska barna, blý, benzen o.fl. Samkvæmt svari fulltrúa Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa félagsins á þessum fundi skóla- og frístundaráðs fellur þessi málaflokkur ekki undir skyldur Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur heldur neytendamál er varða innflutning á leikföngum. Félagið telur það ófullnægjandi og óskar eftir því að könnun verði gerð á því hvort leikföng með ólöglegum eiturefnum séu mögulega til staðar í leikskólum borgarinnar.
 
2. Starfs- og fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2016. Lögð fram drög að hagræðingartillögum skóla- og frístundasviðs, dags. í janúar 2016, trúnaðarmál. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2015060210
 
- Kl. 12:45 tekur Dagný Edda Þórisdóttir sæti á fundinum. 
 
- Kl. 13:00 víkur Valgerður Janusdóttir af fundinum. 
 
- Kl. 13:25 víkur Guðlaug Erla Gunnarsdóttir af fundinum. 
 
- Kl. 13:38 Tekur Örn Halldórsson sæti á fundinum. 
 
Samþykkt með 4 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna að vísa drögum að hagræðingartillögum skóla- og frístundasviðs til borgarráðs. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá. 
 
- Kl. 13:48 tekur Valgerður Janusdóttir sæti á fundinum. 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók. 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.
 
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum leggja fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.
 
Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í leikskólum leggur fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók. 
 
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.
 
3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. janúar 2016, um úthlutun almennra styrkja skóla- og frístundaráðs 2016 og yfirlit um styrkumsóknir almennra styrkja skóla- og frístundaráðs 2016. Einnig lagðar fram reglur um úthlutun almennra styrkja skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2015110194 
 
Tillaga úthlutunarnefndar um almenna styrki skóla- og frístundaráðs um að eftirtaldir aðilar hljóti styrki ráðsins 2016: 
 
1) Umsækjandi: Berent K. Hafsteinsson. Heiti verkefnis: Umferðarforvarnarfræðsla. Kr. 300.000.
2) Umsækjandi: Dariusz T. Górskí. Heiti verkefnis: Acadamy of Young Discoverers. Kr. 200.000.
3) Umsækjandi: Gerður K. Guðjónsdóttir. Heiti verkefnis: Skáldatími. Kr. 200.000.
4) Umsækjandi: Ingibjörg E. Jónsdóttir. Heiti verkefnis: Nýtum tæknina og blómstrum saman. Kr. 500.000.
5) Umsækjandi: Íþróttafélagið Fylkir. Heiti verkefnis: Aðstoðarmaður í frístundavagn. Kr. 250.000.
6) Umsækjandi: Laufey Jónsdóttir. Heiti verkefnis: Klippt og skorið. Kr. 150.000.
7) Umsækjandi: Móðurmál, félag um móðurmálskennslu. Heiti verkefnis: Verkefnastjórn samtakanna Móðurmál. Kr. 300.000.
8) Umsækjandi: SAMFOK – samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík. Heiti verkefnis: Vó, hvað er í gangi? Áhugi, ábyrgð og áhrif. Kr. 200.000.
9) Umsækjandi: Sólveig Guðmundsdóttir. Heiti verkefnis: Kynfræðsla Pörupilta. Kr. 300.000.
10) Umsækjandi: Team Spark, nemendafélag. Heiti verkefnis: Team Spark – Hver er tilgangur raungreina? Kr. 250.000.
11) Umsækjandi: Sesselja G. Magnúsdóttir. Heiti verkefnis: Dansandi frásögn, ævintýrasmiðja á hreyfingu. Kr. 250.000.
12) Umsækjandi: Ingibjörg E. Jónsdóttir. Heiti verkefnis: Leikur og nám – Ferilmappa leikskólaáranna. Kr. 100.000.
 
Samþykkt með 4 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá. 
 
4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. janúar 2016, um úthlutun þróunarstyrkja skóla- og frístundaráðs 2016 og yfirlit um styrkumsóknir þróunarstyrkja skóla- og frístundaráðs 2016. Einnig lagðar fram reglur um úthlutun þróunarstyrkja skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. SFS2015090232 
 
Tillaga úthlutunarnefndar um þróunarstyrki skóla- og frístundaráðs um að eftirtaldir aðilar hljóti styrki ráðsins árið 2016:
 
1) Umsækjandi: Frostaskjól / félagsmiðstöðin Frosti. Heiti verkefnis: Skötuveisla 2016. Kr. 300.000.
2) Umsækjandi: Frostaskjól / félagsmiðstöðin Frosti. Heiti verkefnis: Stúdíó Tíu 12. Kr. 400.000.
3) Umsækjandi: Frostaskjól / frístundaheimilið Selið. Heiti verkefnis: Hljómlistarsklúbbur Selsins. Kr. 300.000.
4) Umsækjandi: Frostaskjól / frístundaheimilið Skýjaborgir. Heiti verkefnis: Orðasafn ævintýranna Kr. 350.000
5) Umsækjandi: Frostaskjól / frístundaheimilið Undraland. Heiti verkefnis: Tónlistarstöðvar. Kr. 250.000.
6) Umsækjandi: Frostaskjól / frístundaheimilið Undraland. Heiti verkefnis: Frístundaheimilið mitt – Ljósmyndasýning. Kr. 250.000.
7) Umsækjandi: Gufunesbær / félagsmiðstöðin Höllin. Heiti verkefnis: Félagsmiðstöð fyrir alla – framhald. Kr. 300.000.
8) Umsækjandi: Gufunesbær / félagsmiðstöðin Höllin. Heiti verkefnis: Hjólagarpar. Kr. 400.000.
9) Umsækjandi: Gufunesbær og Miðgarður. Heiti verkefnis: "Útivistarhópur“ - framhald. Kr. 300.000.
10) Umsækjandi: Kampur. Heiti verkefnis: Hver er ég? Kr. 350.000.
11) Umsækjandi: Kampur / félagsmiðstöðin 105. Heiti verkefnis: Femínistafélag 105 – Breiðum út boðskapinn. Kr. 150.000.
12) Umsækjandi: Kampur / frístundaheimilið Eldflaugin. Heiti verkefnis: Klárir krakkar. Kr. 450.000.
13) Umsækjandi: Kári Sigurðsson / Miðberg. Heiti verkefnis: Jafningjafræðsla Ungmennaráðs Breiðholts. Kr. 400.000.
14) Umsækjandi: Kringlumýri / félagsmiðstöðin Askja. Heiti verkefnis: Heilsa og hreyfing. Kr. 350.000.
15) Umsækjandi: Kringlumýri / félagsmiðstöðin Askja. Heiti verkefnis: Sjálfbærni og lýðræði. Kr. 250.000.
16) Umsækjandi: Austurbæjarskóli. Heiti verkefnis: Orð á borði. Kr. 300.000.
17) Umsækjandi: Árbæjarskóli. Heiti verkefnis: Gulli geit – fræðari, græðari og gleðigjafi í skólastarfi Árbæjarskóla. Kr. 250.000.
18) Umsækjandi: Árbæjarskóli. Heiti verkefnis: Tónlist og tilfinningalæsi. Kr. 300.000.
19) Umsækjandi: Árbæjarskóli. Heiti verkefnis: Tölvubrellur í skólastarfi. Kr. 300.000.
20) Umsækjandi: Háteigsskóli. Heiti verkefnis: Bókabrall – Lestrar-hvetjandi verkefni fyrir nemendur í 4.-6. bekk. Kr. 500.000.
21) Umsækjandi: Hlíðaskóli. Heiti verkefnis: Yoga-núvitund-djúpslökun-hugleiðsla. Kr. 300.000.
22) Umsækjandi: Ingunnarskóli. Heiti verkefnis: Þróun kennsluhátta í takt við áherslur á 21. öldinni. Kr. 1.250.000.
23) Umsækjandi: Klettaskóli. Heiti verkefnis: Málkennsla, málhljóð, læsi og lestur. Kr. 350.000.
24) Umsækjandi: Réttarholtsskóli. Heiti verkefnis: Námsmat í sjónlistum við lok 10. bekkjar. Kr. 300.000.
25) Umsækjandi: Seljaskóli f.h. grunnskólanna i Breiðholti. Heiti verkefnis: Allir í öndvegi - Samstarfsverkefni grunnskólanna í Breiðholti. Kr. 1.500.000.
26) Umsækjandi: Vesturbæjarskóli. Heiti verkefnis: Verum snjöll í Vesturbæjarskóla-Innleiðing spjaldtölvunotkunar. Kr. 350.000.
27) Umsækjandi: Vesturbæjarskóli. Heiti verkefnis: Vakandi veröld. Kr. 250.000.
28) Umsækjandi: Leikskólinn Brákarborg. Heiti verkefnis: Lífsgildi í leikskólastarfi. Kr. 600.000
29) Umsækjandi: Leikskólinn Hof. Heiti verkefnis: Hvert líf er einstakt. Kr. 750.000.
30) Umsækjandi: Leikskólinn Laufskálar. Heiti verkefnis: Ég get/sjáðu mig. Kr. 900.000.
31) Umsækjandi: Leikskólinn Seljaborg. Heiti verkefnis: Náttúra, vísindi og sjálfbærni. Kr. 450.000
32) Umsækjandi: Ársel/Árbæjarskóli. Heiti verkefnis: Kvikmyndakrakkarnir – smiðjur í stutt-myndagerð fyrir 3.-4. bekk. Kr. 250.000.
33) Umsækjandi: Fellaskóli, Ösp, Holt, Þjónustumiðstöð Breiðholts og Háskóli Íslands. Heiti verkefnis: Okkar mál Kr. 900.000
34) Umsækjandi: Frostaskjól / Skýjaborgir og Vesturbæjarskóli. Heiti verkefnis: Vinir í raun Kr. 350.000.
35) Umsækjandi: Frostaskjól, Hagaskóli, Vesturgarður og Háskólinn í Árósum. Heiti verkefnis: Strákaakademían. Kr. 750.000
36) Umsækjandi: Frostaskjól, SAMFOK og skrifstofa SFS. Heiti verkefnis: Hafðu skoðun, taktu þátt - unglingalýðræði. Kr. 500.000
37) Umsækjandi: Gufunesbær og grunnskólarnir í Grafarvogi. Heiti verkefnis: Rathlaup í skólum. Kr. 400.000
38) Umsækjandi: Sæmundarskóli, Ingunnarskóli, Dalskóli, Maríuborg, Reynisholt, Geislabaugur, Stjörnuland, Fjósið og Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts. Heiti verkefnis: "Já það er gott að lesa". Kr. 2.400.000.
 
Samþykkt.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Óskað er eftir ýtarlegri upplýsingum varðandi úthlutun almennra styrkja og þróunarstyrkja ráðsins. Nauðsynlegt er að fyrir liggi úttekt á því hvernig styrkir skiptast eftir áhersluþáttum ráðsins, hverfum og skólum en þannig er betur hægt að tryggja að jafnræðis sé gætt við úthlutanir.
 
5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. janúar 2016, varðandi leikskólann Bakkaberg og framtíðarskipan. Jafnframt lögð fram skýrslan Skólahald á Kjalarnesi, tillögur starfshóps, dags. í september 2010. SFS2016010132
 
- Kl. 14:23 víkur Guðrún Gunnarsdóttir af fundinum.
 
Svohljóðandi málsmeðferðartillaga samþykkt: 
 
Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að leggja fram tillögu um hvernig verði staðið að vinnu við mótun á  framtíðarskipan leikskólans Bakkabergs sem tryggir sterkar faglegar og rekstrarlegrar skólaeiningar. Í tillögunni skal tryggð aðkoma starfsmanna, foreldra og annarra hagsmunaaðila.
 
6. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem frestað var á fundum 16. desember 2015 og 13. janúar 2016:
 
Skóla- og frístundaráð beinir því til umhverfis- og skipulagssviðs að ráðist verði í undirbúning vegna lagningar battavallar (sparkvallar með gervigrasi) á skólalóð Húsaskóla.
 
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. janúar 2016, varðandi lagningu battavallar á skólalóð Húsaskóla. SFS2015120080
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
 
Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að taka tillögu Sjálfstæðisflokksins um sparkvöll við Húsaskóla til meðferðar á samráðsvettvangi skóla- og frístundasviðs, umhverfis- og skipulagssviðs og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem leggi drög að tillögu um forgangsröðun viðhalds- og endurbótaverkefna á skólalóðum út frá faglegu mati, jafnræði og heildarsýn. 
 
Samþykkt með 5 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. 
 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokknum leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Undanfarin fjórtán ár hefur verið unnið að lagningu battavalla (upphitaðra sparkvalla með gervigrasi) á skólalóðir grunnskóla í Reykjavík. Sá árangur hefur nú náðst að battavellir eru við flesta grunnskóla en við teljum brýnt að sem fyrst verði lokið við lagningu slíkra valla á þær skólalóðir sem eftir eru, þ.á.m. við Húsaskóla. Með málsmeðferðartillögu Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna er í raun verið að vísa fyrirliggjandi tillögu frá því þar kemur ekki fram viljayfirlýsing um að battavöllur verði lagður við Húsaskóla í samræmi við óskir nemenda og foreldra þar um. Við styðjum því ekki málsmeðferðartillögu meirihlutans en leggjum sem fyrr áherslu á að fylgt verði þeirri stefnu, sem mörkuð var undir forystu Sjálfstæðisflokksins, að battavellir skuli lagðir við alla grunnskóla í Reykjavík.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
 
Meirihluti fulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata í skóla- og frístundaráði vill árétta að ekki er verið að vísa tillögunni frá eða slá hugmyndir um battavöll við Húsaskóla út af borðinu. Tillögunni er vísað til samráðs skóla- og frístundasviðs, umhverfis- og skipulagssviðs og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til forgangsröðunar því það er mikilvægt að leggja faglegt mat á það hvaða verkefni séu brýnust hverju sinni með heildarmyndina undir og jafnræði í huga.
 
7. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem frestað var á fundum 16. desember 2015 og 13. janúar 2016:
 
Skóla- og frístundasvið beinir því til umhverfis- og skipulagssviðs að ráðist verði í lagfæringar og endurbætur á skólalóð Selásskóla. Lagfæra þarf jarðveg og fegra illa farið svæði norðan og austan megin við skólann. Setja þarf upp leiktæki á skólalóðinni fyrir yngri sem eldri börn, t.d. rólur og vegasalt, sem og fótboltamörk og körfur. Brýnt er að lagfæra girðingu í kringum skólann og girðingu vantar á hluta lóðarinnar, sem snýr að götunni. Enn fremur þarf að hækka þá girðingu sem er á milli boltavalla og götu. Þá er hljóðvist í matsal skólans óviðunandi og brýnt að bæta hana sem fyrst.
 
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. janúar 2016, varðandi endurbætur á skólalóð Selásskóla og úrbætur á hljóðvist í matsal skólans. SFS2015120081
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
 
Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að taka tillögu Sjálfstæðisflokksins um endurbætur á skólalóð Selásskóla og úrbætur við hljóðvist í matsal skólans til meðferðar á samráðsvettvangi skóla- og frístundasviðs, umhverfis- og skipulagssviðs og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem leggi drög að tillögu um forgangsröðun viðhalds- og endurbótaverkefna á skólalóðum út frá faglegu mati, jafnræði og heildarsýn.
 
Samþykkt með 5 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokknum leggja fram svohljóðandi bókun:
 
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja ekki málsmeðferðartillögu Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna þar sem hún felur ekki í sér viljayfirlýsingu um að ráðist verði í nauðsynlegar endurbætur á skólalóð Selásskóla.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
 
Meirihluti fulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata í skóla- og frístundaráði vill árétta að ekki er verið að vísa tillögunni frá eða slá hugmyndir um endurbætur á skólalóð Selásskóla út af borðinu. Tillögunni er vísað til samráðs skóla- og frístundasviðs,  umhverfis- og skipulagssviðs og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til forgangsröðunar því það er mikilvægt að leggja faglegt mat á það hvaða verkefni séu brýnust hverju sinni með heildarmyndina undir og jafnræði í huga.  
 
- Kl. 15:00 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum. 
 
8. Lögð fram hugmynd af vefsvæðinu Betri Reykjavík, dags. 29. desember 2015, um að efla vitund nema um ráðandi miðla eins og internetið. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. janúar 2016, um hugmyndina. SFS2015120156
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
 
Skóla- og frístundaráð vísar tillögu um að efla vitund nema um ráðandi miðla eins og internetið til meðferðar starfshóps um ábyrga notkun upplýsinga- og samskiptatækni í skóla- og frístundastarfi.
 
Samþykkt.
 
9. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. janúar 2016, um staðfestingu starfsáætlana leikskóla í Reykjavík leikskólaárið 2015-2016. Jafnframt lagt fram minnisblað, dags. 23. nóvember 2015, sama efnis. SFS2015050017
 
Samþykkt.
 
10. Dagskrárliðum 10 og 11. í útsendri dagskrá, varðandi starfsemi dagforeldra í Reykjavík og leyfisveitingar árið 2015, frestað. 
 
11. Lögð fram dagskrá Öskudagsráðstefnu 2016, rödd nemandans – nemendamiðað skólastarf, sem haldin verður 10. febrúar 2016. SFS2016010099
 
- Kl. 15.15 víkja Dagný Edda Þórisdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir og Atli Steinn Árnason af fundi.
 
12. Fram fara umræður um málefni Melaskóla.
 
- Kl. 15.50 víkja Eva Einarsdóttir og Kristján Gunnarsson af fundi.
- Kl. 15.56 víkja Andrea Sigurjónsdóttir og Steindór Gestur Guðmundarson Waage af fundi.
 
13. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 
 
Á fundi skóla- og frístundaráðs í janúar 2011 voru samþykktar tilllögur starfshóps um samstarf foreldra og skóla. Hlutverk starfshópsins var m.a. að leggja grunn að stefnu menntasviðs og leikskólasviðs um samstarf foreldra og skóla. Tillögurnar fólust m.a. annars í því að á skólaárinu 2011 – 2012 yrði þess vænst að allir skólar borgarinnar gerðu samstarfsáætlun skóla og foreldra sem tæki gildi í ársbyrjun 2012 og eigi síðar en í upphafi skólaársins 2012 - 2013. Haldin voru endurmenntunarnámskeið fyrir skólastjórnendur þar sem megináhersla var á samstarf foreldra og skóla. Hversu margir grunnskólar í Reykjavík hafa gert slíka áætlun með þeim hætti sem lagt er til í tillögum starfshópsins? Hefur þessari vinnu verið fylgt eftir? Hafa áætlanirnar verið innkallaðar af sviðinu?
 
SFS2016010160
 
- Kl. 16:17 víkja Valgerður Janusdóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir og Helgi Grímsson af fundi. 
 
- Kl. 16:30 víkja Örn Halldórsson og Rósa Ingvarsdóttir af fundi. 
 
14. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi tillögu:
 
Áheyrnarfulltrúi foreldra leggur til að skóla- og frístundasvið og skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar taki forustu og óski eftir frestun á gildistöku nýs námsmats við lok grunnskóla sem á að taka gildi vorið 2016. Þann 9. september og 25. nóvember á síðasta ári lagði áheyrnarfulltrúi foreldra fram fyrirspurn varðandi innleiðingu nýs námsmats í grunnskólum, hvort skóla- og frístundasviði væri kunnugt hver staðan væri varðandi innleiðingu í einstökum hverfum eða skólum borgarinnar. Ekki hafa borist svör við þeirri fyrirspurn, nú þegar skólaárið er hálfnað. Í mörgum grunnskólum í Reykjavík hefur nemendum og foreldrum lítt eða ekki verið kynnt hvaða viðmið verða notuð til að mæla árangur þeirra í vor við lok grunnskólans. Það er óásættanlegt gagnvart nemendum og foreldrum, alveg óháð þeirri miklu vinnu sem starfsmenn margra skóla hafa lagt á sig. Sumir kennarar hafa einmitt bent á það sem rök fyrir því að halda ótrauð áfram. En það verður hins vegar að gera þá kröfu að kerfið hafi hagsmuni allra nemenda að leiðarljósi, ekki bara þeirra nemenda sem eru svo heppnir að vera í skólum þar sem vel hefur verið að þessu staðið.  Það er afar ósanngjarnt fyrir útskriftarárganginn að haldið sé áfram meðan staðan er með þessum hætti. Það verður hreinlega að gera kröfu um það að það liggi skýrt fyrir í byrjun skólaárs hvernig úrfærslu námsmats verður háttað. 
 
Greinargerð fylgir.
 
Frestað.
SFS2015110177 
 
15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 
 
Óskað er eftir greinargerð um viðhald og endurbætur á húsnæði og lóð Árbæjarskóla og Ársels sl. þrjú ár, sbr. þau atriði, sem tilgreind voru í tillögu Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði 17. apríl 2013. Hefur tekist að leysa vandamál vegna leka og rakamyndunar í þessum stofnunum með fullnægjandi hætti?
 
SFS2016010159
 
Fundi slitið kl. 16.35
 
Skúli Helgason
Jóna Björg Sætran Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf
 
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 2 =