Fundur nr. 90 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 90

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
 
Ár 2015, 16. desember, var haldinn 90. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hlöðunni við Gufunesbæ í Reykjavík og hófst kl. 10:12. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Jóna Björg Sætran (B), Líf Magneudóttir (V), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Atli Steinn Árnason framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjórar í Reykjavík; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík; Sveinn Sigurður Kjartansson, foreldrar barna í leikskólum og Sindri Smárason, Reykjavíkurráð ungmenna. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Kristján Gunnarsson og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
 
Þetta gerðist:
 
1. Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar, dags. 25. nóvember 2015, og bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 9. desember 2015, varðandi dekkjakurl á skólalóðum. SFS2015100035
 
- Kl. 10:25 tekur Soffía Pálsdóttir sæti á fundinum. 
 
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs þann 14. október 2015: 
 
Skóla- og frístundaráð fer þess á leit við borgarráð að samþykkt verði fjárveiting til endurbóta á þeim gervigrasvöllum á skólalóðum Reykjavíkurborgar, sem eru með dekkjakurl á yfirborði, og þess í stað sett viðurkennt gæðagras og gúmmí, sem stenst ýtrustu heilbrigðis- og umhverfiskröfur.
 
Vísað til borgarráðs.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina og áheyrnarfulltrúi Pírata telja rétt að gerð verði áætlun um endurbætur á gervigrasvöllum á skólalóðum borgarinnar, þar sem skipt verði út því sem eftir er af dekkjakurli eða skipt um grasið eftir aðstæðum á hverjum stað. Eðlilegt er að slík verkefni verði hluti af almennri forgangsröðun viðhalds- og endurbótaverkefna á skólalóðum á komandi árum.
 
- Kl. 10:30 tekur Sveinn Sigurður Kjartansson sæti á fundinum.
 
2. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs þann 25. nóvember 2015: 
 
Áheyrnarfulltrúi foreldra leggur til að skóla- og frístundasvið hafi frumkvæði að því að hefja viðræður við Móðurmál, félag tvítyngdra barna og félag fagfólks á skólasöfnum hvernig best fari á því að gera bókakost Móðurmáls, félags tvítyngdra barna sýnilegan og aðgengilegan fyrir börn af erlendum uppruna. Skoðað verði hvort ekki sé hægt að gera ráð fyrir því í fjárhagsáætlun borgarinnar að fé verði veitt til skráningar og hýsingar á þessum bókakosti í Gegni. Þetta myndi samræmast vel umbótaþáttum SFS málþroski, læsi og lesskilningur, fjölmenningu og áherslu á móðurmál, sjá meðfylgjandi greinargerð.
 
Greinargerð fylgir. 
 
Samþykkt. 
 
3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. desember 2015, um tillögu sviðsstjóra varðandi alþjóðlega deild innan Landakotsskóla sem þróunarskóla. Jafnframt lögð fram drög að viðauka, þjónustusamningur við Landakotsskóla, dags. 20. október 2015, bréf Landakotsskóla, dags. 9. desember 2015, 11. nóvember 2015 og 12. maí 2015 auk samþykktar mennta- og menningarmálaráðuneytis fyrir tilraunaskóla dags. 10. júlí 2015. SFS2015040095
 
- KL. 10:40 tekur Arnaldur Sigurðarson sæti á fundinum. 
 
- Kl. 10:45 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum. 
 
- Kl. 11:10 tekur Rósa Ingvarsdóttir sæti á fundinum. 
 
Svohljóðandi tillaga samþykkt með 6 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina   og vísað til borgarráðs, skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá: 
 
Með vísan til beiðni Landakotsskóla leggur sviðsstjóri til að samþykkt verði að fjölga nemendum í alþjóðlegri deild innan Landakotsskóla sem þróunarskóla úr 24 í 45. Jafnframt verði samþykkt að gerður verði viðauki við þjónustusamning aðila frá 20. október 2015 í stað sérstaks samnings vegna greiðslu framlags vegna reykvískra nemenda í alþjóðadeild, sbr. samþykkt borgarráðs frá 9. júlí 2015. Heimilað verði að greiða framlag vegna reykvískra nemenda skv. þjónustusamningi dags. 20. október 2015 og viðauka þann tíma sem hann gildir óháð því hvort reykvískur nemandi er í almenna hluta skólans eða í alþjóðadeildinni. Engu að síður verði skýrt í hvorum hluta skólans nemendur eru. Fjöldi reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna helst óbreyttur. Fyrirvari er gerður um samþykki mennta- og menningarmálaráðuneytisins til samræmis við 44. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008.
 
Greinargerð fylgir. 
 
4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. desember 2015, varðandi stöðu tónlistarmála. Tónlistarskólar: uppgjör, samningar og viðbótarframlög. Jafnframt lagður fram dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá 13. nóvember 2015, mál nr. E1033/2015: Tónlistarskólinn í Reykjavík gegn Reykjavíkurborg.
Sigfríður Björnsdóttir, deildarstjóri listfræðslu á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2015120028
 
5. Lagt fram svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 25. nóvember 2015 um fjölda nemenda á biðlista í skólahljómsveit. SFS2015110110 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 
 
Framsókn og flugvallarvinir fagna umræðu um mikilvægi tónlistarkennslu ungmenna í Reykjavík. Brýnt er að efla rekstrargrundvöll skólahljómsveita og einnig að fjölga þeim til að fleiri börn og ungmenni fái tækifæri til að stunda tónlistarnám.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Í svari fræðslustjóra við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins kemur fram að mikill munur er á lengd biðlista eftir skólahljómsveitum í Reykjavík. 126 börn eru á biðlista eftir að komast að í skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts, 74 börn eftir skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar og 56 börn eftir skólahljómsveit Austurbæjar. Ekki er biðlisti hjá skólahljómsveit Grafarvogs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því við fræðslustjóra að gripið verði til ráðstafana til að koma fleiri börnum að í skólahljómsveitum. Þá verði gripið til sérstakra ráðstafana til að stytta biðlista eftir skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts.
 
6. Starfs- og fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2016. Lagðar fram til kynningar breytingartillögur Samfylkingarinnar (S), Bjartrar framtíðar (Æ), Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (V) og Pírata (Þ) við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2016, dags. 27. nóvember 2015, bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 2. desember 2015 varðandi breytingartillögu á fjárheimildum fagsviða vegna hagræðingar, bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 2. desember 2015, varðandi breytingar á fjárheimildum fagsviða vegna þjónustutekna og bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 2. desember 2015, vegna breytinga á fjárheimildum fagsviðs vegna vísitölubundinna samninga. 
 
Kristján Gunnarsson, fjármálastjóri á skóla- og frístundasviði, kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2015020035
 
Lagðar fram bókanir sem settar voru í trúnaðarbók skóla- og frístundaráðs.
 
Áheyrnarfulltrúar kennara og skólastjórnenda í grunnskólum í skóla- og frístundaráði lögðu fram svohljóðandi trúnaðarbókun á fundi skóla- og frístundaráðs 24. júní 2015 þegar fjallað var um drög að áherslum og forgangsröðun í skóla- og frístundamálum 2016-2020:
 
Fulltrúar kennara og skólastjórnenda í grunnskólum í skóla- og frístundaráði gera alvarlegar athugasemdir við það að í starfs- og fjárhagsáætlun skóla- og frístundaráðs sé ekki gert ráð fyrir fjármagni til að sinna gæslu í grunnskólum borgarinnar. Nýgerður kjarasamningur við grunnskólakennara gerir ráð fyrir að mögulega geti einhverjir kennarar tekið að sér gæslu sem rúmast innan 1800 stunda ársframlags. Það er hins vegar vandséð að margir kennarar hafi tíma innan 1800 stundanna til að sinna þessu starfi og því mikilvægt að gert sé ráð fyrir fjármagni til að greiða fyrir þá aukavinnu til að tryggja öryggi og velferð nemenda.
 
Áheyrnarfulltrúar kennara og skólastjórnenda í grunnskólum í skóla- og frístundaráði lögðu fram svohljóðandi trúnaðarbókun á fundi skóla- og frístundaráðs 24. júní 2015 þegar fjallað var um drög að áherslum og forgangsröðun í skóla- og frístundamálum 2016-2020:
 
Vert er að benda á að laun grunnskólakennara hafa hækkað um 20 – 25% eftir síðustu kjarasamninga og mun sérúthlutun í sérkennslu ekki hækka í samræmi við þessa kjarasamningshækkun. Þetta mun koma niður á þjónustu við nemendur sem þurfa á sérkennslu að halda og má því búast við að þjónustan skerðist þá um 20 – 25% sem er mikið áhyggjuefni.
 
7. Lagt fram fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasvið fyrir janúar – september 2015. Kristján Gunnarsson, fjármálstjóri skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2015060210 
 
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra í leikskólum og grunnskólum í Reykjavík í skóla- og frístundaráði leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Áheyrnarfulltrúar skólastjórnenda í grunn- og leikskólum í skóla- og frístundaráði gera alvarlegar athugasemdir við að hagræðingarkrafa á leik- og grunnskóla júní 2015 hafi ekki verið kynnt stjórnendum um leið og borgarráðssamþykkt lá fyrir. Skóla- og frístundasvið hefði þurft að kynna stjórnendum þetta og taka upp samræður um með hvaða hætti þetta yrði útfært. Skólarnir hafa verið að endurskoða starf sitt frá vorinu 2009 með hagræðingu í huga og ljóst er að ef um frekari hagræðingu er að ræða er þörf á að endurskoða þá þjónustu sem leik- og grunnskólar í Reykjavíkurborg hafa fram að þessu veitt. 
 
8. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 mkr., júlí – september 2015. SFS2015060211
 
9. Námsmat við lok grunnskóla. Guðlaug Sturlaugsdóttir, skrifstofustjóri grunnskólamála á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum. 
 
Lögð fram svohljóðandi bókun skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina: 
 
Framsókn og flugvallavinir telja óásættanlegt að samkvæmt aðgengilegum upplýsingum í dag varðandi vinnu við námsmat fyrir 10. bekk virðist sem mögulega verði ekki fullt jafnræði með nemendum við lok 10. bekkjar vorið 2016.
 
10. Dagskrárlið 10 í útsendri dagskrá, varðandi skil á skólanáskrám leikskóla, frestað. 
 
11. Lagt fram svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 3. júní 2015 varðandi hlutfall leikskólakennara af starfsmönnum leikskóla í Reykjavík. 
 
12. Lagt fram yfirlit yfir fundi skóla- og frístundaráðs frá janúar til júní 2016. SFS2015110044
 
13. Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Gufunesbæ, kynnir og svarar fyrirspurnum varðandi starfsemi Gufunesbæjar. 
 
- Kl. 15:15 víkja Soffía Pálsdóttir og Rósa Ingvarsdóttir af fundinum. 
 
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata:  
 
Skóla- og frístundaráð samþykkir að fela sviðsstjóra að skipa starfshóp sem hefur það hlutverk að leggja fram heildstæða stefnumótun um markmið og hlutverk Gufunesbæjar sem miðstöðvar útivistar og útináms. Skilgreina á þjónustustig og þörf fyrir  uppbyggingu fjölnota útivistarsvæðis, húsnæðis og aðstöðu.  Sérstaklega skal hafa í huga hlutverk frístundamiðstöðvarinnar er varðar útinám og útivist og hvernig efla megi þessa þætti gagnvart leikskólum, grunnskólum og í frístundastarfi hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur í samstarfi við Náttúruskóla Reykjavíkur. Leiðarljós hópsins verði að styrkja stöðu Gufunesbæjar sem valkosts fyrir alla aldurshópa til að stunda fjölbreytta útivist og frístundaiðkun, árið um kring. Einnig á hópurinn að hafa að leiðarljósi hvernig styrkja megi útinám sem nýtist skóla- og frístundastarfi í öllum hverfum borgarinnar.
 
Greinargerð fylgir. 
Samþykkt. 
 
Bókun skóla- og frístundaráðs: 
 
Minnt er á samþykkt skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur frá 24. júní sl. þar sem óskað var eftir því við umhverfis- og skipulagssvið að komið yrði upp salernisaðstöðu við útileiksvæðið í Gufunesi. Með sívaxandi notkun svæðisins, m.a. vegna vinsælda álfahóls, brettagarðs, strandblakvalla og ævintýrakastala er æskilegt að salernisaðstaða sé fyrir hendi þegar frístundamiðstöðin er lokuð um kvöld og helgar.
 
14. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 18. nóvember 2015, varðandi útikennslu í Reykjavík, auk fylgiskjala um grenndarsvæði, kortlagningu útikennslustofa í Reykjavík, kort yfir svæði sem skólar hafa gert samninga um sem vettvang útináms og fréttabréfið Úti er inni, dags. 3. desember 2015. Helena Westhöfer Óladóttir, verkefnisstjóri sjálfbærni á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs og Ævar Aðalsteinsson, verkefnisstjóri útináms í frístundamiðstöðinni Gufunesbæ, kynna og svara fyrirspurnum. SFS2015120025
 
15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 
 
Óskað er upplýsinga um hvort tónmenntakennslu sé einhvers staðar ábótavant í grunnskólum borgarinnar. Ef svo er, er óskað skýringa á því. SFS2015120079
 
16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 
 
Skóla- og frístundaráð beinir því til umhverfis- og skipulagssviðs að ráðist verði í undirbúning vegna lagningar battavallar (sparkvallar með gervigrasi) á skólalóð Húsaskóla.
 
Frestað. SFS2015120080
 
- Kl. 15:25 víkur Sindri Smárason af fundi. 
 
17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 
 
Skóla- og frístundasvið beinir því til umhverfis og skipulagssviðs að ráðist verði í lagfæringar og endurbætur á skólalóð Selásskóla. Lagfæra þarf jarðveg og fegra illa farið svæði norðan og austan megin við skólann. Setja þarf upp leiktæki á skólalóðinni fyrir yngri sem eldri börn, t.d. rólur og vegasalt, sem og fótboltamörk og körfur. Brýnt er að lagfæra girðingu í kringum skólann og girðingu vantar á hluta lóðarinnar, sem snýr að götunni. Enn fremur þarf að hækka þá girðingu sem er á milli boltavalla og götu. Þá er hljóðvist í matsal skólans óviðunandi og brýnt að bæta hana sem fyrst. 
 
Frestað. SFS2015120081
 
18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun við dagskrárlið 1 varðandi endurbætur á gervigrasvöllum: 
 
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru ósammála fulltrúum borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina um það að úrbætur á úrgangsdekkjakurlsvöllum vegna hugsanlegrar skaðsemi þeirra eigi ekki að vera í forgangi heldur einungis ,,hluti af almennri forgangsröðun viðhalds- og endurbótaverkefna á skólalóðum á komandi árum,“ eins og segir orðrétt í bókun meirihlutans. Rétt er að vekja athygli á því að í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 25. nóvember sl. kemur fram mun eindregnari afstaða gegn því að svart úrgangsdekkjakurl verði notað sem fyllingarefni í gervigrasvelli í borginni en birtist í eldri umsögn Heilbrigðiseftirlitsins frá árinu 2010. Þá hafa ýmsir aðilar, t.d. Læknafélag Íslands, ítrekað varað við notkun úrgangsdekkjakurls og bent á að í því séu efni sem geti verið skaðleg heilsu manna, ekki síst barna og ungmenna.  Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar í borgarstjórn 1. desember sl. kusu borgarfulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um sérstaka fjárveitingu til endurbóta á úrgangsdekkjakurlsvöllum með umhverfis- og heilbrigðissjónarmið að leiðarljósi. Á sama tíma samþykkti meirihlutinn hins vegar fjárveitingar til margvíslegra framkvæmda, sem eru ekki aðkallandi. Málefni dekkjakurlsvalla hafa verið til skoðunar hjá borginni árum saman og því er einstaklega ótrúverðugt að borgarstjórnarmeirihlutinn skuli ítrekað tefja nauðsynlegar úrbætur á þeim með síendurteknum samþykktum um að skoða þurfi málið betur, fá álit frá fleiri aðilum og nú síðast að semja áætlun um málið. Ekki er þörf á frekari álits- eða áætlanagerð í málinu heldur tafarlausum úrbótum eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lagt til. SFS201510035
 
Fundi slitið kl. 15.32
 
Skúli Helgason
 
Eva Einarsdóttir Jóna Björg Sætran
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf
 
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

3 + 2 =