Fundur nr. 84 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 84

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
 
Ár 2015, 9. september, var haldinn 84. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi á Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 11:05. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Jóna Björg Sætran (B), Kjartan Magnússon(D), Líf Magneudóttir (V), Nichole Leigh Mosty (Æ), Sabine Leskopf (S) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Arnaldur Sigurðarson (Þ); Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum; Sara Þöll Finnbogadóttir, Reykjavíkurráð ungmenna og Sveinn Sigurður Kjartansson, foreldrar barna í leikskólum.
Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Elísabet Helga Pálmadóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, Helgi Grímsson, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
 
 
Þetta gerðist:
 
 
1. Lögð fram skýrslan Lýðheilsa og heilsuefling barna og unglinga í leik- og grunnskólum og frístundastarfi, dags. í júní 2015. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður heilsueflingarhóps og Helga Sigurðardóttir, gæðastjóri mötuneytisþjónustu skóla- og frístundasviðs, kynna og svara fyrirspurnum. SFS2014110060
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 
 
Áfangaskýrslan um lýðheilsu og heilsueflingu barna og unglinga í leik-, grunn og frístundastarfi er gott dæmi um verkefni sem fer af stað fyrir tilstilli borgarstjóra og tekur síðan talsverðum breytingum vegna áhrifa, ábendinga og óska frá kennurum og öðrum starfsmönnum skóla og ánægjulegt þegar slík samvinna leiðir af sér að gera gott og brýnt verkefni bæði betra og raunhæfara. Slíkt samstarf er ánægjulegt. Margt af því sem fjallað er um í áfangaskýrslunni er nú þegar unnið með í a.m.k. grunnskólunum. Aukin áhersla á  aukna hreyfingu, betri næringu t.d. tengda mötuneytismat skólanna, bætta persónulega líðan og lífsstíl getur vafalítið haft mikil og góð heildstæð áhrif á vellíðan, velferð og námsgleði barnanna og er af hinu góða. Slíku er fagnað af hálfu Framsóknar og flugvallarvina. Verkefnið þarf mikla kynningu gagnvart kennurum og spurning hvernig og hvort um viðbótar vinnu er að ræða eða breyttar áherslur. Ef verkefnið sem er jú valfrjálst á að ná að skjóta traustum rótum í leik-  og grunnskólum og í frístundastarfi kallar það á aukna samvinnu við þjónustumiðstöðvar hverfanna og vafalítið kallar sá stuðningur á ráðningu sérfróðra aðila, e.t.v. fjölgun stöðugilda eða breyttar áherslur og þarf því að skoða hvernig hægt verður að standa að þeim viðbótarkostnaði.
 
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 
 
Fulltrúi foreldra fagnar þessu tímabæra verkefni enda er heilbrigði og velferð einn af grunnþáttum menntunar skv. aðalnámskrá. Samvinna heimila og skóla er mikilvæg til að leggja grunninn að heilsueflingu barna sem mun síðan nýtast þeim áfram í lífinu.  Fulltrúi foreldra telur mikilvægt að kynning á verkefninu sé markviss og til þess fallin að kveikja áhuga og tryggja að skólasamfélag hvers skóla sé tilbúið til að taka við verkefninu.  Skólaráðum er ætlað að móta sérkenni og stefnu síns skóla,  en á sama tíma eru æ fleiri skyldur og verkefni lagðar á herðar hans. Ef vel á að takast til við innleiðingu á verkefni sem þessu þarf ekki bara áhugi og vilji að vera til staðar, heldur einnig tími og fjármagn. 
 
Bókun skóla- og frístundaráðs: 
 
Skóla- og frístundaráð þakkar Heiðu Björg Hilmisdóttur og Helgu Sigurðardóttur fyrir kynningu á áfangaskýrslu um lýðheilsu og heilsueflingu barna og unglinga í leik- og grunnskólum og frístundastarfi. Skýrslan rímar vel við einn af grunnþáttum menntunar sem er heilbrigði og velferð og gefur hún glögga mynd af mikilvægi heilsueflingar í starfi með börnum. Í skýrslunni eru lagðar til leiðir að innleiðingu heilsueflandi skóla sem skóla- og frístundaráð telur mikilvægt að hrinda í framkvæmd. Í því tilliti mun skóla- og frístundasvið kynna verkefnið á fundum með stjórnendum leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva og brýna fyrir þeim mikilvægi verkefnisins ásamt því að halda áfram vinnu sinni um heilsueflingu starfsmanna.
 
 
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs:
 
Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til við skóla- og frístundaráð að hætt verði rekstri  leikskólans Sjónarhóls frá og með  áramótum 2015-2016. Foreldrar barna sem nú eru í Sjónarhóli fái nú þegar forgang fyrir börn sín í aðra leikskóla Reykjavíkurborgar og fari börnin fram fyrir önnur börn á forgangslista í þann leikskóla sem foreldrar óska eftir að þau fari í. Sviðsstjóra er falið að stofna samráðshóp sem saman stendur af fulltrúum stjórnenda í Sjónarhóli, foreldrum barna í Sjónarhóli og fulltrúa skrifstofu skóla- og frístundasviðs.  Samráðshópurinn ber ábyrgð á upplýsingagjöf og samráði við foreldra og skipuleggur yfirfærslu barnanna á nýjan leikskóla.  Samráðshópurinn aðstoðar starfsmenn Sjónarhóls við að finna sambærileg störf og gætir að hagsmunum þeirra er kemur að vinnurétti.
 
Greinargerð fylgir. SFS2015070039
 
Jafnframt lögð fram umsögn foreldraráðs Sjónarhóls, dags. 21. ágúst 2015.
 
Samþykkt og vísað til borgarráðs með 5 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.
 
Ásta Kristín Svavarsdóttir, leikskólastjóri Sjónarhóls tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir gagnrýni foreldraráðs Sjónarhóls í Grafarvogi vegna þeirra vinnubragða, sem viðhöfð hafa verið vegna lokunar leikskólans. Í umsögn foreldraráðs Sjónarhóls kemur skýrt fram að málið hafi verið unnið í óeðlilegum flýti og samráð við foreldra og starfsfólk hafi verið af mjög skornum skammti. Óeðlilegt er að svo stór ákvörðun skuli ekki hafa komið til umfjöllunar í skóla- og frístundaráði fyrr en raun bar vitni en síðasti fundur ráðsins fyrir sumarleyfi var 24. júní. Foreldrar voru boðaðir til fundar í byrjun júlí með skömmum fyrirvara þrátt fyrir að ljóst væri að margir þeirra ættu erfitt með að sækja fundinn vegna sumarleyfa. Ljóst varð að ekki yrði aftur snúið þegar tillaga um lokun leikskólans var kynnt á þessum fundi. Skóla- og frístundaráð stóð því í raun frammi fyrir orðnum hlut þegar þetta mál kom þar til umfjöllunar á fyrsta fundi eftir sumarleyfi, 12. ágúst sl.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
 
Fulltrúar meirihlutans í skóla- og frístundaráði árétta að málefni leikskólans Sjónarhóls var unnið af fagmennsku og vandvirkni af hálfu starfsfólks skóla- og frístundasviðs þegar stjórnendur leikskólans viðruðu áhyggjur sínar af mikilli fækkun barna á leikskólanum. Ágætt samráð hefur verið haft við bæði foreldra og starfsfólk og lögð áhersla á að tryggja öllum börnum vist á öðrum leikskólum og aðstoða foreldra með aðlögun og að útvega starfsfólki eftir fremsta megni störf á öðrum vettvangi.
 
3. Lögð fram skýrsla starfshóps um fjárhag skóla- og frístundasviðs, dags. í ágúst 2015. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundsviðs, dags. 7. september 2015, um innleiðingaráætlun helstu tillagna starfshóps um fjárhag skóla- og frístundsviðs. SFS2015080031 
 
Tillögur starfshóps og innleiðingaráætlun samkvæmt minnisblaði sviðsstjóra, dags. 7. sept. 2015, með áorðnum breytingum, samþykktar. Tillögu 2 varðandi innri leigu og tillögu 6 varðandi upplýsingatækni vísað til borgarráðs. 
 
- Kl. 13:07 víkur Jóna Björg Sætran af fundi og Rakel Dögg Óskarsdóttir tekur þar sæti.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 
 
Varðandi tillögu nr. 3. um fyrirkomulag sérkennslu og stuðnings verði unnið að því að tryggt verði að umrædd þjónusta við börn flytji með þeim á milli skóla ef fjölskyldan flytur – eða á milli skólastiga.
Varðandi tillögu nr. 6 varðandi upplýsingatækni að útbúið verði yfirlit yfir úrval af opnum hugbúnaði sem tölvutæknar UTD og aðrir tölvusérfræðingar innan menntamála telja hentugan og öruggan. Sá listi verði aðgengilegur á netinu fyrir bæði kennara og heimili.
 
4. Lóð Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík. Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2015
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt að þeir valkostir sem tiltækir eru varðandi lóð fyrir Barnaskóla Hjallastefnunnar verði kynntir opinberlega og gott samráð verði haft við íbúa í nágrenni þeirra til að tryggja góða sátt um lóðaval og framtíðarstarf skólans.
 
5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. ágúst 2015, varðandi umsóknir frá sjálfstætt reknum leikskólum um aukið framlag og stöðu umsókna um ný rekstrarleyfi leikskóla. SFS2015090025090055
 
- Kl. 13:44 víkur Ragnheiður E. Stefánsdóttir af fundi. 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu:
 
Skóla- og frístundaráð samþykkir að fyrirliggjandi umsóknum sjálfstætt rekinna leikskóla  um að greitt verði framlag vegna fleiri barna en nú er greitt vegna verði synjað. Fyrir liggur að fjárhagsáætlun vegna ársins 2015 gerir ekki ráð fyrir auknum framlögum til viðkomandi skóla. Erindin verði þó áfram til skoðunar í tengslum við stefnumótunarvinnu borgarinnar sem nú stendur yfir vegna málefna barna á leikskólaaldri. 
 
Samþykkt með 5 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina gegn 2 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 
 
Framsókn og flugvallarvinir harma að ekki eru aðstæður til að verða við óskum sjálfstætt reknu leikskólanna sem óskuðu eftir að greitt yrði framlag vegna fleiri barna en nú er. Vissulega er brýnt að tryggja sem flestum börnum á leikskólaaldri trausta vistun sem einnig er hagkvæm fyrir foreldra þeirra sem þurfa nú vafalítið að greiða fyrir mun dýrari vistun t.d. í gæslu dagforeldra. Fyrirliggjandi fjárhagsáætlun veitir ekki svigrúm til aukinna framlaga á þessu sviði en vonandi verður hægt að verða við þessum óskum með sparnaði á öðrum útgjaldaliðum síðar.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
 
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna skuli hafna fyrirliggjandi umsóknum fjögurra sjálfstætt rekinna leikskóla um fjölgun barna, sem borgin greiðir með í þessum skólum. Eðlilegt hefði verið að skoða einhverja fjölgun í þessum skólum með jákvæðum hætti í tengslum við fjárhagsáætlun næsta árs samkvæmt þeirri stefnu að fé fylgi barni enda mikilvægt að foreldrar eigi sem víðtækast val um skóla fyrir börn sín. Allir þessir skólar eru nú þegar með samning við Reykjavíkurborg og eiga að baki langt og farsælt samstarf við borgina. 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fjárheimildir fyrir skóla- og frístundasvið árið 2015 gera ekki ráð fyrir að fjölga leikskólabörnum umfram það sem komið er. Fulltrúar meirihluta í skóla- og frístundaráði árétta að börn í sjálfstætt reknum leikskólum kosta borgina hlutfallslega meira heldur en börn í borgarreknum leikskólum. Það vegur þungt við núverandi aðstæður þegar þörf er á aðhaldi í öllum rekstri borgarinnar.
 
6. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. júlí 2015, með ósk um umsögn um skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar ásamt skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar, dags. 30. júní 2015. SFS2015070065
 
Umsögn skóla- og frístundaráðs um skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar samþykkt með 5 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina, skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. 
 
7. Lögð fram hugmynd af vefsvæðinu Betri Reykjavík, dags. 29. maí 2015, um hverfismiðstöðvar með skiptimörkuðum og eflingu félagsauðs. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2015, um hugmyndina.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
 
Skóla- og frístundaráð vísar hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík um hverfismiðstöðvar með skiptimörkuðum og eflingu félagsauðs til velferðarsviðs.
 
Samþykkt.
 
8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. september 2015, um niðurstöður lesskimunar í 2. bekk vorið 2015. Jafnframt lögð fram skýrslan Lesskimun 2015: Niðurstöður úr lesskimun í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur vorið 2015, dags. í september 2015. Ásgeir Björgvinsson, sérfræðingur á tölfræði- og rannsóknaþjónustu skóla- og frístundasviðs og Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs kynna og svara fyrirspurnum. SFS2015040074
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Samkvæmt niðurstöðum lesskimunarkönnunar 2015 geta rúmlega 64% nemenda í 2. bekk lesið sér til gagns samkvæmt skilgreiningu. Það veldur vonbrigðum að þetta hlutfall hafi lækkað um 3% frá fyrra ári og er hlutfallið hið næstlægsta frá árinu 2006. Þessar niðurstöður sýna að afar þýðingarmikið er að leggja aukna áherslu á lestrarkennslu í reykvísku skólastarfi. Nauðsynlegt er að kennarar, skólastjórnendur og foreldrar nýti niðurstöður lesskimana til framþróunar í skólastarfi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að niðurstöður lesskimun-arkönnunar séu kynntar með skýrum hætti fyrir nemendum og foreldrum í því skyni að sem gleggstar upplýsingar um stöðu nemenda séu aðgengilegar á hverjum tíma. Mikilvægt er að foreldrar fái einstaklingsbundnar upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimuninni. Að auki er mikilvægt að foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu þess skóla í lesskimun, sem barn þeirra gengur í, samanborið við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Aukin upplýsingagjöf milli heimila er af hinu góða og hvetur foreldra til ríkari þátttöku í námi barna sinna. 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Niðurstöður lesskimunar barna í 2. bekk grunnskólum Reykjavíkur undirstrika hve brýnt er að fylgja markvisst eftir stefnumótun skóla- og frístundaráðs um að efla læsi skólabarna í borginni. Það er forgangsverkefni núverandi meirihluta sem hefur þegar hafið innleiðingu á tillögum fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings. Þar er m.a. lögð áhersla á skimun strax í 1. bekk og aukinn stuðning við þau börn sem á þurfa að halda.  Þessi stefna kemur til framkvæmda strax á þessu hausti.
 
9. Lagðar fram skýrslur um mat á leikskólastarfi í Heiðarborg, dags. í desember 2014; Fossakoti, dags. í nóvember 2014; Suðurborg, dags. í janúar 2015; Lundi, dags. í mars 2015; Sunnuási, dags. í mars 2015; Kvistaborg, dags. í mars 2015 og ungbarnaleikskólanum Ársól, dags. í maí 2015. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu skóla- og frístundasviðs og Sigrún Einarsdóttir, verkefnastjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs kynna og svara fyrirspurnum. SFS2015060052
 
10. Lagt fram sex mánaða fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs, janúar til júní 2015. Kristján Gunnarsson, fjármálastjóri skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2015060210
 
11. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr., apríl – júní 2015. SFS2015060211
 
12. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 10. apríl 2015, um reglur Reykjavíkurborgar um starfs- og stýrihópa. Jafnframt lagt fram yfirlit yfir starfshópa skóla- og frístundasviðs, dags. 4. september 2015. SFS2015040032
 
13. Lagt fram svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina frá 26. ágúst 2015, varðandi leikskólavist barna fæddra í mars 2014. SFS2015080153
 
14. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. september 2015, um embættisafgreiðslu erindis sem borist hefur skóla- og frístundaráði, eitt mál. SFS2015010035
 
15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 
 
Framsókn og flugvallarvinir óska eftir upplýsingum um stöðu biðlista eftir helstu greiningum og þjónustu sem fellur undir skóla og frístundasvið og veitt er í borgarreknum leikskólum, grunnskólum og frístund í Reykjavík. Upplýsingar um umfang og eðli slíkra biðlista eru mikilvægar þegar fjármagn er af skornum skammti og mikilvægt að forgangsraða áríðandi verkefnum í þágu reykvískrar æsku.
 
SFS2015090078
 
16. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 
 
Varðandi eftirlitsskyldu skóla- og frístundaráðs. Var skipaður sérstakur stýrihópur, starfshópur eða verkefnastjóri til að styðja við og fylgja eftir innleiðingu nýrrar aðalnámskrár sem á að vera lokið á þessu starfsári? Samkvæmt áætlun ráðuneytisins eiga grunnskólanemendur að ljúka námi í vor samkvæmt nýju námsmati og matskvarða, A-D.  Er vitað hver staðan er varðandi innleiðingu nýrrar námskrár í einstökum hverfum eða grunnskólum borgarinnar?  
 
- Kl. 15:18 víkja Sara Þöll Finnbogadóttir, Ragnar Þorsteinsson, Helgi Grímsson, Guðlaug Erla Gunnarsdóttir og Rósa Ingvarsdóttir af fundi. 
 
 
 
Fundi slitið kl. 15.30
 
 
Skúli Helgason
 
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Nichole Leigh Mosty Rakel Dögg Óskarsdóttir 
Sabine Leskopf Örn Þórðarson
 
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

2 + 5 =