Fundur nr. 78 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 78

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
 
Ár 2015, 29. apríl, var haldinn 78. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi á Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12:30. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Hilmar Sigurðsson (S), Jóna Björg Sætran (B), Kjartan Magnússon (D), Líf Magneudóttir (V), Marta Guðjónsdóttir (D) og Ragnar Hansson (Æ). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Bryndís Jónsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum;  Sesselja Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjórar í grunnskólum og Sveinn Sigurður Kjartansson, foreldrar barna í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir og Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
 
Þetta gerðist:
 
1. Lögð fram skýrsla starfshóps um innritun barna í grunnskóla oftar en einu sinni á ári, dags. í apríl 2015. Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir, þróunarfulltrúi á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs og Róbert Rafn Birgisson, fjármálasérfræðingur á fjármálaþjónustu skóla- og frístundasviðs kynna og svara fyrirspurnum. SFS2014110068
 
- Kl. 12:55 taka Soffía Pálsdóttir og Sara Þöll Finnbogadóttir sæti á fundinum. 
 
2. Lögð fram drög að áherslum og forgangsröðun í skóla- og frístundamálum 2016-2020, trúnaðarmál. SFS2015030001
 
Samþykkt með áorðnum breytingum með 5 atkvæðum Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins  sitja hjá.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna  leggja fram svohljóðandi bókun:
 
Skóla og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna leggja áherslu á skýra forgangsröðun skóla- og frístundamála í borginni þar sem í forgrunni verði eftirfarandi umbótaþættir á komandi misserum: efling lestrarfærni og lesskilnings; nemendamiðað skóla- og frístundastarf, bætt þjónusta við börn og ungmenni af erlendum uppruna, aukið vægi verk-, tækni- og listnáms og eftirsóknarvert starfsumhverfi fagfólks á grundvelli gæða og fagmennsku.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 
 
Í yfirliti yfir mikilvægustu viðfangsefnin varðandi áherslur og forgangsröðun skóla- og frístundasviðs 2016 – 2020 er margt jákvætt og uppbyggilegt að finna en ýmsu er þó ábótavant. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í skóla- og frístundaráði saknar þess m.a. að þar sé ekki sterkar kveðið að áherslum varðandi að veita almennum nemendum skilyrðislaust þá aðstoð sem þeir þurfa til að ná góðum tökum á námsefni líðandi stundar.  Hvað varðar jöfnuð og mannréttindi telur fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina að vanti að ítreka að horft verði til þeirra barna sem búa við mikla fátækt. Einnig þarf að tryggja nemendum góða aðstöðu og vinnufrið til að stunda nám sitt og því þarf að leggja enn meiri áherslu á jákvæðan aga, góð og gefandi samskipti og jákvæða og uppbyggilega rýni til gagns.  Eins þarf að leggja mikla áherslu á að vinna gegn einelti, bæði meðal nemenda og starfsfólks og tryggja virk úrræði hvað þau mál varðar.
 
3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 28. mars 2015, varðandi þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi grunnskóla, yfirlit yfir nemendafjölda reykvískra barna í sjálfstætt starfandi grunnskólum 2009 til 2014, drög að þjónustusamningi milli skóla- og frístundasviðs og sjálfstætt starfandi skóla og drög að þjónustusamningi með breytingum. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, dags. 24. janúar 2014, um drög að þjónustusamningum við sjálfstætt starfandi grunnskóla og bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. desember 2013 um þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi grunnskóla ásamt drögum að þjónustusamningi. Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs og Guðrún Sigtryggsdóttir, yfirlögfræðingur skóla- og frístundasviðs, kynna og svara fyrirspurnum. SFS2013090060
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna  leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
 
Með vísan til minnisblaðs sviðsstjóra, dags. 28. mars 2015, felur skóla- og frístundaráð sviðsstjóra að óska eftir umsögn Samtaka sjálfstæðra skóla og þeirra sjálfstætt starfandi skóla sem í hluta eiga um drög að samningi við sjálfstætt rekna grunnskóla og hámarksfjölda sem lagt er til að greitt verði  framlag vegna. 
 
Samþykkt.
 
4. Ráðning skólastjóra við Réttarholtsskóla. SFS2015040027
Lögð fram:
a) Greinargerð sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. apríl 2015, vegna ráðningar í stöðu skólastjóra við Réttarholtsskóla.
b) Yfirlit yfir umsækjendur um stöðu skólastjóra Réttarholtsskóla.
c) Auglýsing um stöðu skólastjóra við Réttarholtsskóla.
d) Viðmið skóla- og frístundaráðs vegna ráðninga skólastjóra við grunnskóla í Reykjavík, samþykkt á 153. fundi menntaráðs 24. ágúst 2011.
e) Bréf til skóla- og frístundaráðs, dags. 16. apríl 2015. 
 
Sautján umsóknir bárust um stöðuna.
Sviðsstjóri leggur til að Jón Pétur Zimsen verði ráðinn í stöðu skólastjóra við Réttarholtsskóla.
Samþykkt.
 
Bókun skóla- og frístundaráðs:
 
Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum skólastjóra  Jóni Pétri Zimsen velfarnaðar í starfi og þakkar fráfarandi skólastjóra Hilmari Hilmarssyni vel unnin störf í þágu grunnskólastarfs í Reykjavík um árabil.
 
- Kl. 14:15 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundi og Örn Þórðarson tekur þar sæti. 
-
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun: 
 
Ráðning skólastjóra er eitt stærsta hagsmunamál hvers skólasamfélags. Kjörnir fulltrúar í skóla- og frístundaráði hafa margir lýst sig opna fyrir því að auka aðkomu foreldra að ráðningu skólastjórnenda. Samkvæmt verklagi sem samþykkt var í skóla- og frístundaráði í júní 2013 eiga skólaráð að fá tækifæri til að koma með tillögur um hæfniskröfur, en þær eru þó einungis ráðgefandi. Því er sérstaklega fagnað að nemendur og starfsfólk Réttarholtskóla hafi náð að koma á framfæri skoðunum sínum varðandi ráðningu í starf skólastjóra skólans. Skólastjóri ber ábyrgð á samstarfi aðila skólasamfélagsins. Það ætti að vera marktækur vitnisburður um samskipta og stjórnunarhæfileika að í skóla sem umsækjandi hefur stýrt sé virkt skólaráð og að lögbundin félög foreldra og nemenda séu virk, en skólastjóri ber ábyrgð á stofnun þeirra.
Fulltrúi foreldra leggur til að þegar fjallað er um hæfnisþætti umsækjenda sem hafa gegnt stöðu skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra sé ávallt gengið úr skugga um starfsemi og virkni þessara lögbundnu félaga og ráða sem eru hluti af stjórnskipan hvers skóla samkvæmt grunnskólalögum.  Jafnvel mætti óska eftir umsögn frá foreldra- og nemendafélagi í þeim skóla. 
 
 Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
 
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja ráðningu Jóns Péturs Zimsen í stöðu skólastjóra Réttarholtsskóla og lýsa yfir ánægju sinni með að fræðslustjóri hafi veitt viðtöku og kynnt sér sjónarmið nemenda og starfsmanna Réttarholtsskóla um ráðninguna og að skóla- og frístundaráði hafi einnig verið gefinn kostur á að gera það, áður en endaleg ákvörðun var tekin. Slík vinnubrögð eru til fyrirmyndar. 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
 
Sú krafa hvílir á stjórnvaldi að velja ávallt hæfasta einstaklinginn í starf skólastjóra, það mat verður alltaf að byggja á þeim hæfniskröfum sem koma fram í auglýsingu. Meðmælalistar lýsa fyrst og fremst vilja viðkomandi aðila en hafa ekki og geta ekki haft  áhrif á niðurstöðu stjórnvalds.
 
5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. apríl 2015,  um umsókn um rekstrarleyfi fyrir Leikskólann Skerjagarð og brottfall rekstrarleyfis Skerjagarðs ehf. Jafnframt lagt fram bréf Leikskólans Skerjagarðs ehf. og Skerjagarðs ehf., dags. 29. apríl 2015 auk draga að rekstrarleyfi fyrir Leikskólann Skerjagarð. Auk þess lagt fram á fundinum ljósrit umboðs dags. 29. apríl 2015. SFS2015020174
Frestað. 
 
6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. apríl 2015, varðandi framlag vegna dvalar reykvískra barna í sjálfstætt starfandi leikskólanum Skerjagarði og samningur um framlag Leikskólasviðs til sjálfstætt starfandi leikskólans Skerjagarðs, dags. 19. maí 2010. Auk þess lagt fram bréf Leikskólans Skerjagarðs ehf og Skerjagarðs ehf, dags. 29. apríl 2015. Jafnframt lögð fram drög að samningi um framlag til sjálfstætt starfandi leikskólans Leikskólinn Skerjagarður ehf. Auk þess lagt fram á fundinum ljósrit umboðs, dags. 29. apríl 2015. 
Frestað. 
 
- Kl. 14:25 víkur Guðrún Kaldal af fundinum.
 
7. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 19. nóvember 2014: 
 
Skóla- og frístundaráð samþykkir að skýrslur með niðurstöðum um árangur hvers grunnskóla í lesskimun og stærðfræðiskimun, þ.e. skólaskýrsla, verði birtar á heimasíðu viðkomandi skóla ásamt skýrslu um heildarniðurstöður fyrir grunnskóla borgarinnar.
 
Tillagan felld með 5 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina gegn 2 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2014110003
 
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 11. mars 2015: 
 
Skóla- og frístundaráð samþykkir að skýrsla með heildarniðurstöðum um árangur grunnskóla í lesskimun og stærðfræðiskimun, þar sem m.a. koma fram upplýsingar um árangur hvers skóla, verði birtar á heimasíðu viðkomandi skóla.
 
Tillagan felld með 5 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina gegn 2 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
 
Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. apríl 2015, um birtingu upplýsinga um niðurstöður um lesskimun og stærðfræðiskimun.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins og flugvallarvina skuli fella tillögur okkar um að skýrslur með heildarniðustöðum um árangur hvers grunnskóla í lesskimum og stærðfræðiskimun verði gerðar aðgengilegar með því að birta þær á heimasíðu viðkomandi skóla ásamt skýrslu um heildarniðurstöður fyrir grunnskóla borgarinnar. Með slíkri birtingu væri stórt skref stigið í þá átt að auka gagnsæi og upplýsingagjöf um skólastarf til reykvískra foreldra. 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
 
Á fundi skóla- og frístundaráðs þann 3. desember 2014 var sviðstjóra falið að óska álits skólastjóra í Reykjavík á tillögu Sjálfstæðisflokksins um birtingu á skýrslu með heildarniðurstöðum um árangur hvers skóla í lesskimun og stærðfræðiskimun á heimasíðum grunnskóla Reykjavíkur. Niðurstaða skólastjóra er afgerandi: Skólastjórnendur þriggja hverfa af sex voru eindregið gegn birtingunni, í tveimur hverfum til viðbótar höfðu skólastjórar miklar efasemdir um tillöguna en í einu hverfi voru skoðanir skiptar. Fulltrúar meirihluta ráðsins telja mikilvægt að hlusta á sjónarmið skólastjóra í þessu efni sem leggja áherslu á að tilgangur skimana af þessu tagi sé fyrst og fremst að greina og aðstoða í tíma þau börn sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda, en ekki að ýta undir samanburð á árangri skóla sem auðvelt er að mistúlka með rangri framsetningu. Fulltrúar meirihlutans minna þó á að skólastjórnendum er frjálst, líkt og áður, að birta skýrslur um niðurstöður skimana og eðlilegt er að leita leiða til að gera upplýsingar um stöðu skóla og þróun námsárangurs aðgengilegri foreldrum.
 
8. Lögð fram drög að samningi skóla- og frístundasviðs og NKG verkefnalausna um verkefnið Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda. SFS2015040087
Samþykkt.
 
9. Lögð fram hugmynd af vefsvæðinu Betri Reykjavík, dags. 27. febrúar 2015, um að vinaverkefni verði sett inn í móttökuáætlun skóla. Einnig lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. apríl 2015, um hugmyndina. SFS2015020214
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
 
Skóla og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna vísa erindinu til umræðu á sameiginlegum vettvangi skólastjóra í grunnskólum Reykjavíkur.
 
Samþykkt.
 
10. Lögð fram áskorun frá SAMFOK og fleiri samtökum og foreldrafélögum, ódags., um skólastefnuna Skóli án aðgreiningar. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. apríl 2015, varðandi upplýsingar um stuðning og úrræði við grunnskóla Reykjavíkurborgar. SFS2015040079
 
Áheyrnarfulltrúar foreldra barna í leikskólum og grunnskólum, kennara í grunnskólum og skólastjóra í leikskólum og grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:
 
Þjónusta við börn með margþættan vanda þarf að vera samvinnuverkefni allra þeirra sem koma að umönnun og þjónustu við börn. Skortur á samstarfi þessara aðila veldur því að utanumhaldið verður ekki heildstætt. Oft er verið að bregðast við birtingarmynd vandans á hverjum stað fyrir sig sem dugar skammt því ekki er unnið nægilega vel, sameiginlega og markvisst, að því að greina og vinna með rót vandans. Heimilin, skólinn, sveitarfélögin, ríkið, heilbrigðisstofnanir og aðrar þjónustustofnanir fyrir börn í vanda þurfa að vinna saman og vinna þarf heildstætt með einstaklinginn, fjölskylduna og skólaumhverfið til þess að sem bestur árangur náist. Ljóst er að þessum vinnubrögðum getur fylgt mikill kostnaður en jafnljóst ætti að vera að þeir fjármunir muni sparast síðar ef vel tekst til við að leysa úr vanda barna áður en hann verður verulega alvarlegur. Fulltrúar foreldra grunnskólabarna, grunnskólakennara og skólastjórnenda í grunnskólum leggja til að farið verið í sameiginlega vinnu Reykjavíkurborgar, heilbrigðis- og menntamálaráðuneytis við að greina umfang vandans, hvaða úrbóta er þörf og leggja til lausnir og bjóða fram aðkomu sína að slíkri vinnu.
 
11. Höfuð í bleyti, ráðstefna sem fram fer í Gerðubergi 30. apríl 2015, kynnt. Höfuð í bleyti er kynning á áhugaverðum verkefnum á vettvangi frístundamála SFS og hugmyndir um þróun frístundastarfsins. 
 
12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu: 
 
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í skóla- og frístundaráði leggur til að skóla-og frístundasvið taki saman niðurstöður rannsókna um hámark æskilegs tíma sem börn nota við tölvuskjá, sjónvarpsáhorf og aðra netnotkun og niðurstöðurnar verði gerðar aðgengilegar á netinu fyrir forráðamenn barna og unglinga. Niðurstöðunum fylgi útskýringar á því hvaða neikvæðu áhrif lengri netnotkun séu taldar geta haft á líkamsþroska barna.  Einnig verði skoðaðar þær forsendur sem lágu fyrir ákvarðanatöku franska þingsins um takmörkun á netnotkun i skólum, og hvort að hið sama eigi mögulega við í grunnskólum Reykjavíkur.
 
Frestað. 
 
- Kl. 15:10 víkur Rósa Ingvarsdóttir af fundi. 
 
13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 
 
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í skóla- og frístundaráði leggur fram fyrirspurn um hvort skóla og frístundasvið hafi kannað hvort fjöldi tilkynninga, atvika eða meðferðarúrræða á vegum Þjónustumiðstöðva á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við netnotkun og netfíkn barna og unglinga á grunnskólaaldri hafi aukist sl. 5 ár. Er skimað sérstaklega fyrir þessu.
 
14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
 
Lagt er til að eftirfarandi setning bætist við 2. lið í núgildandi reglum um auglýsingar í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar frá 10. september 2013. Skólastjórum grunnskóla er heimilt að leyfa fulltrúum félaga, sem sinna uppbyggilegu íþrótta- og æskulýðsstarfi í viðkomandi hverfi að kynna starfsemi sína á skólatíma enda sé gætt hófs og farið eftir fyrirmælum viðkomandi skólastjóra.
 
Frestað.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna benda á að frjálsum félagasamtökum er fullkomlega heimilt að koma inn í skólana með kynningu á sinni starfsemi í tengslum við nám nemenda og í samráði við skólastjórnendur og kennara.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Flest hverfisíþróttafélög í Reykjavík hafa kvartað yfir því að fá ekki lengur að kynna starfsemi sína fyrir nemendum í grunnskólum borgarinnar eins og gert var um áratugaskeið í góðri sátt við skólastjóra, nemendur og foreldra. Þessa óheillavænlegu breytingu má rekja til reglna, sem settar voru á síðasta kjörtímabili með fullum vilja Samfylkingar og Bjartrar framtíðar. Það er  ótrúverðugt þegar fulltrúar þessara flokka reyna nú að halda því fram að umræddar reglur hamli ekki kynningu á íþróttastarfi í borginni og ljóst er að slíkt hljómar undarlega í eyrum þeirra íþrótta- og æskulýðsfélaga, sem hafa þurft að hrökklast með kynningarstarf sitt úr grunnskólum Reykjavíkur á grundvelli þessara reglna.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Meirihluti skóla- og frístundaráðs áréttar að umræddar reglur um auglýsingar í skóla- og frístundastarfi voru afgreiðsla sviðsstjóra en voru ekki lagðar fram til afgreiðslu eða samþykktar í skóla- og frístundaráði.
 
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins benda á að á síðasta kjörtímabili fóru margoft fram umræður um þann verknað borgaryfirvalda að meina íþrótta- og æskulýðssamtökum að kynna starfsemi sína í grunnskólum borgarinnar með þeim hætti sem tíðkast hafði um áratugaskeið í góðri samvinnu viðkomandi félaga, skólastjóra, nemenda og foreldra. I þeim umræðum kom skýrt fram að þetta óþurftaverk var gert með vitund og vilja og þar af leiðandi á ábyrgð þáverandi meirihluta, þ.e. borgarfulltrúa Samfylkingar og Bjartrar framtíðar/Besta flokksins. 
 
15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
 
Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur óskar eftir því við umhverfis- og skipulagssvið að sem fyrst verði farið í viðhald og endurbætur á húsnæði og lóð leikskólans Bakkaborgar í Breiðholti. Húsnæði og lóð skólans er verulega ábótavant svo vægt sé til orða tekið. Slysahætta er jafnvel fyrir hendi á lóðinni eins og foreldraráð Bakkaborgar hefur bent á.
 
Frestað.
 
- Kl. 15.15 víkur Sesselja Ingibjörg Jósefsdóttir af fundi. 
 
16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 
 
Gerð er alvarleg athugasemd við að tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breytingu á núgildandi reglum um auglýsingar í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar, sem borgarstjórn vísaði til skóla- og frístundaráðs á fundi sínum 3. febrúar sl., hafi ekki enn verið tekin til umfjöllunar og afgreiðslu í ráðinu. Óskum við eftir því að það verði gert hið fyrsta. Spurt er: Af hverju hefur umrædd tillaga ekki enn verið lögð fyrir skóla- og frístundaráð þrátt fyrir að næstum þrír mánuðir séu nú liðnir frá umræddri samþykkt borgarstjórnar?
 
- Kl. 15:30 víkur Bryndís Jónsdóttir af fundi. 
- Kl. 15:40 víkja Auður Árný Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Rósa Ingvarsdóttir og Sveinn Sigurður Kjartansson af fundi. 
- Kl. 16:00 víkur Sara Þöll Finnbogadóttir af fundi.
 
Fundi slitið kl. 16.05
 
Skúli Helgason
 
Hilmar Sigurðsson Jóna Björg Sætran Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Ragnar Hansson Örn Þórðarson
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

2 + 15 =