Fundur nr. 5436

B O R G A R R Á Ð

Ár 2016, fimmtudaginn 15. desember, var haldinn 5436. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.08. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Kjartan Magnússon, Halldór Halldórsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Helga Björg Ragnarsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Kristbjörg Stephensen, Hallur Símonarson, Ólöf Örvarsdóttir, Pétur Ólafsson og Linda Sif Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. desember 2016. R16010021
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 14 mál. R16120004

3. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R16120001

- Kl. 9.23 víkur Pétur Ólafsson af fundinum.

4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. desember 2016, sbr. synjun umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. desember 2016 á breytingu á deiliskipulagi Skuggahverfis vegna lóðarinnar nr. 19 við Klapparstíg og nr. 1 við Veghúsastíg, ásamt fylgiskjölum. R16060108
Synjun umhverfis- og skipulagsráðs staðfest með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 2 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.

Málið fer til endanlegrar afgreiðslu í borgarstjórn í samræmi við ákvæði 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Húsið við Veghúsastíg 1 var metið ónýtt árið 2011. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mat húsið óíbúðarhæft í byrjun árs 2012 og Minjastofnun affriðaði húsið á árinu 2014 vegna bágs ástands þess. Minjastofnun gerði ekki athugasemdir við niðurrif þess. Vegna þessa er eðlilegt að fallast á þá deiliskipulagsbreytingu sem auglýst hefur verið.

5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. desember 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. desember 2016 á auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Langholtsvegar/Drekavogar vegna lóðarinnar nr. 113 við Langholtsveg, ásamt fylgiskjölum. R16120040
Samþykkt.

6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. desember 2016, sbr. synjun umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. desember 2016, á umsókn um breytingu á deiliskipulagi vegna reits nr. 55 við Laugaveg, ásamt fylgiskjölum. R16120038
Synjun umhverfis- og skipulagsráðs staðfest.

7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. desember 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. desember 2016 á auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna lóðarinnar nr. 3B við Veltusund, ásamt fylgiskjölum. R16120039
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. desember 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að bjóða út framkvæmdir vegna fyrirhugaðs kirkjugarðs í Úlfarsfelli. R16040024
Samþykkt.

Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. desember 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að bjóða út 2. áfanga gatnagerðar vegna uppbyggingar á Hlíðarenda. R16120052
Samþykkt með 6 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 1 atkvæði borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina.

Málið fer til endanlegrar afgreiðslu í borgarstjórn í samræmi við ákvæði 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

- Kl. 9.45 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum.

10. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 28. nóvember 2016, um aðstöðumáls ungmennafélagsins Fjölnis, ásamt fylgigögnum. R16110118
Borgarráð veitir borgarstjóra umboð til að ganga til samninga við Fjölni á grundvelli fyrirliggjandi tillagna í bréfi skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og íþrótta- og tómstundasviðs.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Á undanförnum árum hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað flutt tillögur um að bæta aðstöðu Ungmennafélagsins Fjölnis til að sinna íþróttastarfi fyrir börn og unglinga í Grafarvogi. Ákveðin tímamót urðu 9. nóvember 2012 þegar ÍTR samþykkti tillögu Sjálfstæðisflokksins um að leitað yrði leiða til að bæta úr aðstöðuvanda Fjölnis fyrir inni-íþróttagreinar og viðræður teknar upp við félagið í því skyni. Í framhaldi af þeirri tillögu lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að jafnframt yrði efnt til viðræðna milli Reykjavíkurborgar og ríkisvaldsins um samstarf um byggingu íþróttahúss, sem samnýtt yrði í þágu íþróttastarfs Fjölnis og Borgarholtsskóla. Stórum áfanga var náð árið 2015 þegar glæsilegur fimleikasalur var tekinn í notkun við Egilshöll. Um hríð hefur legið fyrir tilboð frá rekstraraðila Egilshallar um að bæta öðrum íþróttasal við húsið og hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað óskað eftir því að gengið verði til samninga á grundvelli þess, nú síðast á fundi ÍTR 25. nóvember síðastliðinn. Ástæða er til að fagna því að nú skuli gengið til samninga um byggingu viðbótar-íþróttasalar við Egilshöll enda er með því verið að koma í framkvæmd áðurnefndri tillögu Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2012. Ljóst er að umrædd framkvæmd er stórt framfaraskref enda mun hún bæta úr aðstöðuskorti Fjölnis vegna handknattleiks- og körfuboltaiðkunar annars vegar og Borgarholtsskóla hins vegar.

11. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 5. desember 2016, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 1. desember 2016, á tillögum að breytingum á leiguverði Félagsbústaða hf., dags. 28. nóvember 2016, ásamt fylgigögnum. Jafnframt er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, dags. 28. nóvember 2016. R16120017
Tillögur a. um nýtt leiguverðskerfi, c. um uppfærslu leiguverðs mánaðarlega, og d. um gildistöku breytinga samþykktar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.

Tillaga b. um leigugrunn sértækra húsnæðisúrræða samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.

12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. desember 2016:

Í samningum um innkaup á vörum, þjónustu og framkvæmdum frá því 1. janúar 2017 verði ávallt ákvæði um að birgjar skulu geta upplýst um magn innkaupa og hlutfall umhverfismerkja skv. grænu bókhaldi í grænum skrefum Reykjavíkurborgar. Innkaupadeild verði falið að kalla eftir viðeigandi magnupplýsingum frá birgjum svo unnt sé að bæta við viðbótarflokkum í grænt bókhald, s.s. pappír, hreinlætisvörur og aðrar rekstrarvörur. Lagt er til að í skapalónum innkaupadeildar sem notuð eru við gerð útboða verði sérkafli sem ætlaður er umhverfisskilyrðum. Innkaupadeild verði falið að halda utan um fjölda útboða með innkaupaskilyrðum VINN og/eða ESB.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Einnig er lögð fram skýrsla starfshóps um grænt bókhald Reykjavíkurborgar, dags. 24. nóvember 2016. R16010120
Samþykkt.

Þórhildur Ósk Halldórsdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir og Guðmundur B. Friðriksson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra dags. 13. desember:

Lagt er til að umhverfisþættir sem grænt bókhald fyrir Reykjavíkurborg í heild verði í samræmi við grænt bókhald í grænum skrefum Reykjavíkurborgar. Til að byrja með verði bókhald birt fyrir: rafmagn og heitt vatn, eldsneytisnotkun/ferðir og úrgang/endurvinnslu. Í skýrslu starfshópsins er lagt til verklag við skráningu á hverjum og einum þætti og er miðað við að ferlið sé sem sjálfvirkast. Lagt er til að grænt bókhald fyrir Reykjavíkurborg í heild verði kynnt borgarráði samhliða ársuppgjöri borgarinnar. Lagt er til að birting græns bókhalds verði í gegnum vefsíðuna graenskref.reykjavik.is og þaðan verði tengt við heimasíðu Reykjavíkurborgar. Ábyrgðaraðilar birtingar fyrir Reykjavíkurborg í heild sinni verði verkefnastjóri grænna skrefa á umhverfis- og skipulagssviði og tölfræði og greining á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Einnig er lögð fram skýrsla starfshóps um grænt bókhald Reykjavíkurborgar, dags. 24. nóvember 2016. R16010120
Samþykkt.

Þórhildur Ósk Halldórsdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir og Guðmundur B. Friðriksson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra dags. 13. desember:

Lagt er til að unnið verði að birtingu fyrir pappír, ræstingar og aðrar rekstrarvörur og að grænt bókhald Reykjavíkurborgar nái einnig til fjölda útboða með umhverfisskilyrðum VINN1 og/eða ESB.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Einnig er lögð fram skýrsla starfshóps um grænt bókhald Reykjavíkurborgar, dags. 24. nóvember 2016. R16010120
Samþykkt.

Þórhildur Ósk Halldórsdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir og Guðmundur B. Friðriksson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra dags. 13. desember:

Lagt er til að fjármálaskrifstofu, verkefnastjóra grænna skrefa og tölfræði og greiningu verði falið að útfæra verklag við skráningu CO2 losunar vegna ferða.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Einnig er lögð fram skýrsla starfshóps um grænt bókhald Reykjavíkurborgar, dags. 24. nóvember 2016. R16010120
Samþykkt.

Þórhildur Ósk Halldórsdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir og Guðmundur B. Friðriksson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra dags. 13. desember:

Lagt er til að fjármálaskrifstofu verði falið að útbúa einfaldar fyrirspurnir í bókhaldskerfinu fyrir grænt bókhald sem verði aðgengilegar í sérmöppu „Grænt bókhald“.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Einnig er lögð fram skýrsla starfshóps um grænt bókhald Reykjavíkurborgar, dags. 24. nóvember 2016. R16010120
Samþykkt.

Þórhildur Ósk Halldórsdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir og Guðmundur B. Friðriksson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra dags. 13. desember:

Lagt er til að tengiliður á hverju sviði haldi utan um þættina sem grænt bókhald tekur til fyrir viðkomandi svið og að umhverfisfulltrúar grænna skrefa geti skráð grænt bókhald fyrir sinn starfsstað sérstaklega, auk þess sem grænt bókhald fyrir skilgreinda umhverfisþætti verði birt fyrir Reykjavíkurborg í heild sinni.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Einnig er lögð fram skýrsla starfshóps um grænt bókhald Reykjavíkurborgar, dags. 24. nóvember 2016. R16010120
Samþykkt.

Þórhildur Ósk Halldórsdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir og Guðmundur B. Friðriksson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. desember 2016, ásamt minnisblaði stýrihóps um heildstæða frítímaþjónustu og atvinnumál fyrir fötluð ungmenni, dags. 29. febrúar 2016:

Lagt er til að tillögum í minnisblaði frá stýrihópi um heildstæða frítímaþjónustu og atvinnumál fyrir fötluð ungmenni verði vísað til stýrihóps um atvinnu- og virkniúrræði á vegum Reykjavíkurborgar. Stýrihópnum verði falið að móta stefnu í atvinnu- og virknimálum fyrir fólk með skerta starfsgetu. Byggt verði á viljayfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga, velferðarráðuneytis og Vinnumálastofnunar um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks. Þá verði byggt á þeirri reynslu sem hlotist hefur af þeim fjölmörgu atvinnu- og virkniúrræðum sem borgin hefur leitt og tekið þátt í. Lögð verði áhersla á að stefnan nái til þess hvernig Reykjavíkurborg styðji við starfsfólk sem vegna veikinda þarf að breyta um starfsvettvang og hvernig bjóða megi fólki sem farið er á eftirlaun störf á vegum Reykjavíkurborgar. Lögð verði áhersla á að taka tillit til mismunandi getu fólks í störfum hjá Reykjavíkurborg. Jafnframt eru lögð fram til staðfestingar borgarráðs drög að erindisbréfi stýrihóps um atvinnu- og virkniúrræði á vegum Reykjavíkurborgar og óskað eftir því að borgarráð skipi fulltrúa í hópinn.

Greinargerð fylgir tillögunni. R15020070
Samþykkt.

Borgarráð samþykkir að skipa Líf Magneudóttir, Halldór Auðar Svansson, Heiðu Björgu Hilmisdóttur, Áslaugu Friðriksdóttur og Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur í stýrihópinn.

19. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 11. janúar 2016, með svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar þann 5. janúar 2016 og vísað var til borgarráðs:

Borgarstjórn samþykkir að hrinda af stað sérstöku átaki í atvinnumálum fatlaðs fólks. Átakið snúist um að innleiða störf á vinnustöðum borgarinnar fyrir fatlað fólk sem þarf stuðning. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að fötluðu fólki bjóðist tækifæri á vinnumarkaði en slík tækifæri eru nú mjög af skornum skammti. Mjög brýnt er einnig að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að vinna að nauðsynlegum leiðum og aðgerðum til að finna hvaða störf henta og hvernig nauðsynlegt er að útfæra stuðninginn. Efnt skal til átaksins í samvinnu við Vinnumálastofnun og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.

Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga borgarstjóra, dags. 5. desember 2016, ásamt drögum að erindisbréfi:

Stýrihópi um atvinnu- og virkniúrræði verði falið að gera tillögu að átaki í atvinnumálum fatlaðs fólks með það að markmiði að fjölga atvinnutækifærum sem standa fötluðu fólki og fólki með skerta starfsgetu til boða. R16010113

Samþykkt.

20. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 8. desember 2016, varðandi samkomulag Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna sf. vegna aðstöðu Viðeyjarferju. R16120044
Samþykkt með þeim fyrirvara að samningurinn nái til eins árs.

21. Lagt fram samkomulag Reykjavíkurborgar, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og Samtaka ferðaþjónustu, f.h. skemmtistaða, dags. 12. desember 2016, um ofbeldislausa og örugga skemmtistaði. R15100347
Samþykkt.

22. Lögð fram drög að samningi Reykjavíkurborgar og knattspyrnufélagsins Fram vegna uppbyggingar á íþróttamannvirkjum í Úlfarsárdal sem þjóna eiga félagsmönnum Fram, íbúum Grafarholts og Úlfarsárdals, dags. 8. desember 2016.

Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R13100424

23. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samráð við aðgerðahóp foreldra í Grafarholti og Úlfarsárdals um samninga við Fram, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. desember 2016. R13100424
Samþykkt.

24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra dags. 14. desember 2016:

Lagt er til að borgarstjórn veiti samþykki sitt fyrir því að eignasjóður Reykjavíkurborgar selji Félagsbústöðum hf. eftirtaldar eignir: Álfaland 6, Árland 9, Ásvallagata 14, Eikjuvogur 9, Holtavegur 27, Laugarásvegur 39, Miklabraut 18-20, Njálsgata 74, Seljahlíð og Snorrabraut 52. Heildarverð eignanna er metið á krónur 1.982.129.000. Að teknu tilliti til uppsafnaðrar viðhaldsþarfar greiða Félagsbústaðir hf. krónur 1.703.429.000 fyrir eignirnar 10.

Greinargerð fylgir tillögunni. R16120063
Vísað til borgarstjórnar.

Auðun Freyr Ingvarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra dags. 14. desember 2016:

Lagt er til að borgarráð samþykki að vísa til borgarstjórnar tillögu Félagsbústaða hf. um að veitt verði veðheimild í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar til tryggingar á ábyrgð á lántöku félagsins hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf.:

Borgarstjórn Reykjavíkurborgar samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Félagsbústaða hf. hjá Lánasjóði sveitarfélaga að nafnvirði 1.500 m.kr. en að útgreiðslufjárhæð 1.352 m.kr. til 39 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Ábyrgð þessi er veitt sbr. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og veitir sveitarstjórnin lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til greiðslu láns þessa, ásamt vöxtum og verðbótum auk hvers kyns innheimtukostnaðar. Lánið er tekið til að fjármagna kaup á félagslegu húsnæði og til uppgreiðslu óhagstæðra lána Félagsbústaða hf. sem tekin voru til kaupa og viðhalds á félagslegu húsnæði, sem fellur undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Borgarstjórn Reykjavíkurborgar skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Félagsbústaða hf. til að selja ekki eignarhlut sinn í Félagsbústöðum hf. til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt. Fari svo að Reykjavíkurborg selji eignarhlut í Félagsbústöðum hf. til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjavíkurborg sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu. Jafnframt er Birgi Birni Sigurjónssyni, kt. 200249-2169 veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að samþykkja, f.h. Reykjavíkurborgar, veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar.

Einnig er lagt fram erindi Félagsbústaða, dags. 13. desember sl., og umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 14. desember sl. R16090189
Vísað til borgarstjórnar.

Auðun Freyr Ingvarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

26. Fram fer kynning á mánaðarlegu rekstraruppgjöri A-hluta janúar-október 2016.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að verið sé að birta upplýsingar um útgjöld og tekjur fagsviða og miðlægrar stjórnsýslu Reykjavíkurborgar á vefnum. Það er þó vonum seinna því í október 2012 samþykkti borgarstjórn einróma tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að allar kostnaðargreiðslur borgarinnar yrðu gerðar almenningi tiltækar með rafrænum hætti á netinu en þá var gert var ráð fyrir því að tillagan gæti komið til framkvæmda á árinu 2013. Sú birting upplýsinga um útgjöld og tekjur fagsviða, sem nú er verið að ráðast í, er tvímælalaust til bóta en Reykjavíkurborg á þó enn langt í land með að framkvæma til fulls þá tillögu Sjálfstæðisflokksins sem borgarstjórn samþykkti einróma fyrir fjórum árum. Er borgarstjóri hvattur til að bæta þarna úr og sjá til þess að upplýsingar um allar kostnaðargreiðslur borgarinnar verði gerðar almenningi tiltækar sem fyrst á vef borgarinnar. R16010141

27. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. desember 2016, með tillögur að viðaukum við fjárhagsáætlun 2016. R16010225
Vísað til borgarstjórnar.

28. Lagt fram minnisblað fjármálaskrifstofu, dags. 12. desember 2016, um stöðu langtímalána A-hluta og samstæðu eftir lánveitendum 30. september 2016. R16010183

29. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu, dags. 12. desember 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi tímaáætlun vegna skuldabréfaútboða á fyrri hluta árs 2017. R16120032
Samþykkt.

30. Lagt fram minnisblað fjármálaskrifstofu, dags. 12. desember 2016, varðandi samning um innheimtuþjónustu og fruminnheimtu. R16080096

31. Fram fer kynning á drögum að minnisblaði fjármálaskrifstofu til borgarráðs um fjárlagafrumvarp 2017, dags. 14. desember 2016. R16010183

32. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 9. desember 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir einbýlishús að Haukdælabraut 118. R16050112
Samþykkt.

33. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. nóvember 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi leigusamning um leigu á stæðum á lóð Kirkjugarða Reykjavíkur. R16110137
Samþykkt.

34. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 9. desember 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að lóðir á Esjumelum við Vesturlandsveg, samkvæmt samþykktu deiliskipulagi, verði seldar með útboðsfyrirkomulagi. R16110145
Samþykkt.

- Kl. 11.35 víkur borgarstjóri af fundinum.

- Kl. 11.40 víkur Elín Oddný Sigurðardóttir af fundinum.

35. Lögð fram umsögn borgarlögmanns um frumvarp til laga um breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (breyting á A-deild sjóðsins); 6. mál. R16120059
Borgarráð tekur undir breytingatillögur Sambands íslenskra sveitarfélaga og mælir með samþykkt frumvarpsins svo breyttu.

36. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. desember 2016, við fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina um gildistíma lóðarleigusamninga, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. ágúst sl.  R16080089

37. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina:

Óskað er eftir greinargerð um áhrif fyrirliggjandi hugmynda meirihluta borgarstjórnar um sölu eigna frá Reykjavíkurborg til Félagsbústaða hf. Sérstaklega er óskað eftir því að fram fari greining á því hvort og þá hvaða breytingar umrædd eignasala kunni að hafa í för með sér fyrir viðkomandi íbúa en allar þessar eignir eru nú nýttar af velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Þá er óskað eftir umsögn fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar um málið, m.a. hvaða áhrif fyrirhugaðar breytingar kunni að hafa á stöðu A- og B-hluta Reykjavíkurborgar.  R16120063

38. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina:

Lagt er til að framlagðar hugmyndir meirihluta borgarstjórnar um sölu á eignum til Félagsbústaða hf. fari til umfjöllunar velferðarráðs Reykjavíkur sem og notendaráða íbúa viðkomandi húsnæðis, sem til stendur að selja, í þeim tilvikum sem um þau er að ræða. R16120063

Vísað til velferðarráðs.


Fundi slitið kl. 11.50

Sigurður Björn Blöndal

Halldór Halldórsson Kjartan Magnússon
Halldór Auðar Svansson Heiða Björg Hilmisdóttir
Sveinbjörg B. Sveinbjörnsdóttir

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

13 + 5 =