Fundur nr. 320

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2017, fimmtudaginn 16. nóvember var haldinn 320. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.09 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Áslaug María Friðriksdóttir og Börkur Gunnarsson. Áheyrnarfulltrúi var: Gréta Björg Egilsdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 

1.    Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

-    Kl. 13.15 tekur Kristín Elfa Guðnadóttir sæti á fundinum.
-    Kl. 13.25 tekur Gunnar Alexander Ólafsson sæti á fundinum.

2.    Lögð fram að nýju tillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 2. nóvember 2017.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að þeim notendum og fjölskyldum þeirra þar sem við á, sem eru á biðlistum eftir stuðningsþjónustu vegna manneklu verði boðið að sjá sjálfir um að finna starfsmann til að sinna þjónustunni gegn beingreiðslusamningi við velferðarsvið. 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

Lagt er til að tillögunni verði vísað til meðferðar í tengslum við heildarendurskoðun reglna um stuðningsþjónustu.

Samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur. 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Ljóst þykir að erfiðlega gengur að ráða fólk í stuðningsþjónustu og þær upplýsingar virðast ekki hafa náð til allra viðkomandi að fólk geti sjálft ráðið fólk, þó að þjónustumiðstöð sjái um umsýsluna við þær ráðningar. Fulltrúarnir mælast til að þeim upplýsingum verði komið á framfæri við þá sem nú bíða eftir stuðningsþjónustu. Tillögu sjálfstæðismanna um að útvíkka reglur um beingreiðslusamninga er vísað í þá heildarendurskoðun á stuðningsþjónustu og reglum um beingreiðslusamninga sem nú er hafin með hliðsjón af nýjum lögum um þjónustu við fatlað fólk.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að mikilvægt að notendum sé boðið að ráða fólk á forsendum beingreiðslusamninga. Með því fyrirkomulagi er líklegra að nauðsynlegum sveigjanleika sem notendur kalla á sé mætt og þarfir þeirra séu í forgrunni. Þá telja fulltrúarnir að líklegt sé að notendur geti boðið starfsmönnum betri launakjör í gegnum beingreiðslusamningaleiðina og því sé hún vænlegri til árangurs.

3.    Lögð fram tillaga dags. 15. nóvember 2017, um aukið fjármagn við gerð samnings velferðarsviðs Reykjavíkurborgar við Rauða krossinn í Reykjavík um Vin - fræðslu- og batasetur, ásamt drögum að samningi og fylgiskjölum.
Samþykkt að vísa tillögunni til borgarráðs.
4.    Lögð fram að nýju greinargerð, dags. 16. nóvember 2017, um manneklu og viðbrögð við henni á velferðarsviði. sbr. lið 2 í fundargerð velferðarráðs frá 17. ágúst 2017. 

Anna Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri og Sigurveig Helga Jónsdóttir, mannauðsráðgjafi, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

5.    Lögð fram tillaga, dags. 7. nóvember 2017, um framlengingu á reglum um beingreiðslusamninga. 
Samþykkt.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata og áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggja fram eftirfarandi bókun:

Samþykkt er að taka út tímamörk í reglum um beingreiðslusamninga. Er það gert þar sem mikilvægt er að útrýma þeirri óvissu sem notendur þjónustu upplifa með tímabundnum reglum. Nú stendur yfir heildarendurskoðun á reglum um stuðningsþjónustu og beingreiðslusamninga. Ítrekuð er fyrri bókun um að við endurskoðun á reglum verði haft fullt samráð við hagsmunasamtök og notendur þjónustunnar.

Sigurbjörg Fjölnisdóttir, deildarstjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

6.    Lögð fram greinargerð, dags. 14. nóvember 2017, með tölfræðigreiningu vegna sérstaks húsnæðisstuðnings, sbr. bókun frá 304. fundi velferðarráðs 2. febrúar 2017. 

Guðmundur Sigmarsson, verkefnastjóri, Jóna Guðný Eyjólfsdóttir, deildarstjóri og Jón Viðar Pálmason, deildarstjóri, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

7.    Lagðar fram lykiltölur fyrir tímabilið janúar til september 2017. 

8.    Lagt fram minnisblað, dags. 15. nóvember 2017, ásamt drögum að stefnu í málefnum eldri borgara til ársins 2022 og fylgiskjölum 

9.    Lögð fram fundaáætlun velferðarráðs fyrir tímabilið janúar-júní 2018. 

10.    Fram fer kynning á PMTO foreldrafærni námskeiðum (Parental Management Training – Oregon). 

Arndís Þorsteinsdóttir, sálfræðingur og Stefanía Sörheller, verkefnastjóri, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

11.    Fram fer kynning á verkferli vegna meints ofbeldis starfsmanna gagnvart íbúum í sértækum húsnæðisúrræðum, skammtímavistunum og vinnu- og virknimiðaðri stoðþjónustu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ánægjulegt er að sjá að fyrir liggur tillaga að verkferli vegna meints ofbeldis starfsmanna gagnvart íbúum í sértækum húsnæðisúrræðum, skammtímavistunum og vinnu- og virknimiðaðri stoðþjónustu. Mikilvægt er að skýrt sé hvernig ber að hegða sér ef slíkt kemur upp. Unnið var að verkferlinu í kjölfar þess að borgarstjórn samþykkti tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í apríl 2014 um að sérstaklega yrði skoðað hvernig sporna megi við ofbeldi gegn þeim sem tilheyra minnihlutahópum og sérstaklega fötluðum konum og konum af erlendum uppruna, en rannsóknir sýna að þriðjungur fatlaðra kvenna verður fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. 

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Framsókn og flugvallarvinir óska eftir því að teknar séu saman upplýsingar um algengi ofbeldis gagnvart starfsmönnum velferðarsviðs af skjólstæðingum sviðsins eftir mismunandi starfsstöðum. Skoðað verði einnig hversu algengt er að starfsmenn sleppi því að skrá atvik sem annars myndu flokkast sem ofbeldi eða einelti á öðrum vinnustöðum.

Tómas Ingi Adolfsson, sérfræðingur á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og Aðalbjörg Traustadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

12.    Fram fer kynning á úttektaáætlun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Velferðarráð þakkar fyrir kynningu á úttektaráætlun velferðarsviðs fyrir árið 2018 og leggur áherslu á mikilvægi þess að fá greinargóða úttekt á starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur í ársbyrjun 2018. Það er mjög mikilvægt að tryggja góðar starfsaðstæður i barnavernd vegna eðli verkefna sem þar eru unnin og tryggja að þau úrræði sem eru til staðar hjá Reykjavíkurborg gagnist sem best í vinnu með börnum og fjölskyldum þeirra. Velferðarráð leggur einnig áherslu á nauðsyn þess að greina þá kostnaðaraukningu sem hefur orðið í málaflokknum hjá Reykjavíkurborg, meðal annars vegna vistana barna utan heimilis.

Erla Björg Sigurðardóttir, deildarstjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

13.    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Hvernig hefur veikindahlutfall starfsmanna hjá velferðarsviði þróast undanfarin 5 ár? Má sjá einhver áhrif sérstakra aðgerða á veikindahlutfallið? Til dæmis hefur því oft verið svarað til að í gangi séu aðgerðir til heilsueflingar til að vinna á móti háu veikindahlutfalli, má merkja merkja einhvern árangur af því ?

Fundi slitið kl. 16.30

Ilmur Kristjánsdóttir (sign)

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign)    Börkur Gunnarsson (sign)
Áslaug María Friðriksdóttir (sign)    Kristín Elfa Guðnadóttir (sign)
Heiða Björg Hilmisdóttir (sign)    Gunnar Alexander Ólafsson (sign)

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 0 =