Fundur nr. 313 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 313

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2017, fimmtudaginn 17. ágúst var haldinn 313. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.09 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Áslaug María Friðriksdóttir og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi var Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Birna Sigurðardóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Sólveig Reynisdóttir og Bára Sigurjónsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fram fer kynning sviðsstjóra á starfi velferðarsviðs á milli funda velferðarráðs.

- Kl. 13.12 tekur Magnús Már Guðmundsson sæti á fundinum.

2. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs frá 22. júní 2017.

Mannekla er vandamál sem gæti ógnað þjónustu velferðarsviðs verulega á næstu misserum. Lagt er til að velferðarráð samþykki að vísa því til velferðarsviðs að kortleggja hvar helst má búast við að um manneklu verði að ræða í þjónustu sviðsins og hvernig megi bregðast við henni. Greindar verði ástæður manneklunnar og tillögur um viðbrögð kynntar velferðarráði að því loknu. Skoðað verði sérstaklega hvernig mæta má fólki eftir öðrum leiðum ef ekki verður nægt starfsfólk til staðar.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

Velferðarráð vísar því til velferðarsviðs að kortleggja hvar helst má búast við manneklu í þjónustu sviðsins og hvernig megi bregðast við henni. Greindar verði helstu ástæður manneklu og tillögur um viðbrögð kynntar velferðarráði að því loknu.

Samþykkt.

3. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs frá 22. júní 2017:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að velferðarsvið skoði aðferðir til að meta árangur úr viðtölum skjólstæðinga við ráðgjafa. Meta þarf hversu oft það gerist að skjólstæðingar koma í viðtöl til ráðgjafa án þess að nein úrlausn mála náist né málið hljóti framgang. Dæmi eru um að fólk leiti margsinnis til ráðgjafa vegna umsókna um húsnæði eða vegna umsókna um sértæk búsetuúrræði en sökum ástands á húsnæðismarkaði gerist lítið því úrræði eru engin. Eins og staðan er í dag er slík mæling ekki til. Mikilvægt er að skoða vel hvort nýta megi tíma bæði ráðgjafa og skjólstæðinga betur. Niðurstöðurnar verði svo nýttar til að skoða hvort þróa megi betri aðferðir við þjónustuveitingu.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

Velferðarráð leggur til að velferðarsvið skoði aðferðir til að meta árangur úr viðtölum skjólstæðinga við ráðgjafa. Meta þarf hversu oft það gerist að skjólstæðingar koma í viðtöl til ráðgjafa án þess að nein úrlausn mála náist né málið hljóti framgang. Eins og staðan er í dag er slík mæling ekki til. Mikilvægt er að skoða vel hvort nýta megi tíma bæði ráðgjafa og skjólstæðinga betur. Velferðarráð leggur til að þessi vinna verði innt af hendi samhliða fyrirhugaðri endurskoðun á verkferlum allra umsókna um þjónustu á velferðarsviði vegna væntanlegrar rafvæðingar á umsóknunum. Niðurstöðurnar verði svo nýttar til að skoða hvort þróa megi betri aðferðir við þjónustuveitingu. Velferðarráð óskar eftir að fá kynningu á ferlinu á haustmánuðum.

Samþykkt.

4. Lögð fram til kynningar tillaga Framsóknar og flugvallarvina, sbr. samþykkt borgarráðs frá 22. júní 2017 um stofnun starfshóps sem greinir og kemur með tillögur vegna húsnæðisvanda barnafjölskyldna, einnig lögð fram umsögn velferðarsviðs, dags. 17. júlí 2017.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina fagnar því að tillagan hafi verið samþykkt samhljóða og að vinnan sé að hefjast við að greina stöðu barnafjölskyldna sem að búa við ótryggt húsnæði, erfiðar aðstæður og lágar tekjur. Fram kemur í umsögn velferðarsviðs við tillögunni að á biðlistanum séu 218 einstæðir foreldrar og 33 hjón/sambýlisfólk eða 251 barnafjölskylda og er fjöldi barna þar á bak við 372 börn. Um 120 barnafjölskyldur eru í brýnni þörf í dag og er þarft að bregðast við með skammtímalausnum þar til langtímalausnum hefur verið náð þar sem meðalbiðtími eftir félagslegu leiguhúsnæði er 3 ár.

5. Lagt fram minnisblað, dags. 2. ágúst 2017, um stöðu samnings um Vin, fræðslu- og bataseturs, ásamt fylgigögnum.

- Kl. 13.35 tekur Börkur Gunnarsson sæti á fundinum.

6. Lögð fram verkáætlun, dags. 8. ágúst 2017, vegna niðurlagningar herbergjasambýla, sbr. 2. lið fundargerðar velferðarráðs frá 18. maí 2017.

7. Lagðar fram lykiltölur frá janúar til júní 2017.

8. Lögð fram húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar til 2020, sbr. samþykkt borgarstjórnar frá 6. júní 2017, ásamt bréfi borgarstjóra, dags. 30. maí 2017, og fylgigögnum.

Fram fara eftirfarandi kynningar:

Haraldur Sigurðsson, deildarstjóri á umhverfi- og skipulagssviði kynnir húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar til 2020.

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, kynnir tölfræðiupplýsingar vegna biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði.

Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða hf., kynnir áætlaða þróun á eignasafni Félagsbústaða hf. og átak til fjölgunar íbúða hjá Félagsbústöðum haustið 2017.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:

Velferðarráð fagnar metnaðarfullri húsnæðisáætlun sem gerir ráð fyrir mikilli fjölgun félagslegra íbúða, sértækra búsetuúrræða og annarra leiguíbúða og búseturéttaríbúða á næstu árum. Slík uppbygging stuðlar að heilbrigðari húsnæðismarkaði. Mikilvægt er að önnur sveitarfélög láti sitt ekki eftir liggja þannig að vandinn leysist eins fljótt og nauðsynlegt er. Til að flýta enn frekar fjölgun félagslegra íbúða og brúa bilið fyrir fjölskyldur á meðan á uppbyggingunni stendur eru lagðar fram eftirfarandi tillögur:

1. Félagsbústaðir hefji byggingu á tveimur til fjórum litlum fjölbýlishúsum með 8-10 einstaklingsíbúðum með fjölbreytileika og félagslega blöndun í huga.

2. Samhliða kaupum Félagsbústaða á 1- 2 herbergja íbúðum á almennum markaði verði gert átak í að fjölga íbúðum fyrir barnafólk.

3. Tryggt verði fjármagn til kaupa eða leigu á íbúðum sem verði nýttar sem skammtímalausnir þar til þær íbúðir Félagsbústaða sem eru í undirbúningi, s.s. í gegnum leigufélögin Bjarg og Búseta verða tilbúnar. Velferðarsvið hefur nú þegar hafið vinnu við útfærslu hugmynda að framkvæmdinni, það er inntökuferli í bráðabirgðahúsnæði, rekstur og aðra umsýslu.

4. Í framhaldi af greiningu velferðarsviðs á stöðu barnafjölskyldna í mikilli þörf fyrir húsnæði verði gerð áætlun fyrir hverja fjölskyldu, þar sem horft verði á skammtímalausnir þar til hægt verður að tryggja varanlegt húsnæði á vegum Félagsbústaða.

Tillagan er samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við atkvæðagreiðsluna og leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutanum í Reykjavík hefur ekki tekist að standa við húsnæðisáætlanir sínar hingað til. Borgarfulltrúar minnihlutans, greiddu því allir sem einn, atkvæði gegn húsnæðisáætlun þessari sem gengur í raun út á að fresta kosningaloforðum meirihlutans um a.m.k. eitt kjörtímabil í viðbót. Ástandið í húsnæðismálum er sjálfskapaður vandi meirihlutans í Reykjavík sem ekki hefur sinnt því grunnatriði að tryggja nægt framboð lóða og þar af leiðandi fjölgun íbúða í því alvarlega húsnæðisástandi sem nú er. Þetta veldur því að álagið og þrýstingurinn á félagslega húsnæðiskerfið er gríðarlegur með tilheyrandi fjölgun á biðlistum. Vísað er til bókunar minnihlutans, Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn um húsnæðisáætlunina frá 6. júní 2017. Biðlistar eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík lengjast með hverju ári sem meirihlutinn situr. Nú eru 1081 á biðlista sem er um 50% fjölgun á 1½ ári, þar af eru 782 metnir í mikilli þörf. Samtals eru 808 einhleypir einstaklingar og af þeim fjölda eru 651 metnir í mikilli þörf. Allt kjörtímabilið hefur meirihlutanum verið bent á mikilvægi þess að Félagsbústaðir fjölgi í sínu eignasafni. Skýringarnar hafa verið að erfiðlega hafi gengið að fjölga íbúðum og jafnframt fylgja viðmiðum borgarinnar um félagslega blöndun. Um árabil hefur meirihlutanum hins vegar verið bent á að félagsleg blöndun sé ekki eins mikilvægur þáttur þegar kemur að einhleypum einstaklingum eins og þegar um umsækjendur með börn er að ræða, ef það á að nást að fækka á biðlistum í fyrirsjáanlegri framtíð. Nú hafa Félagsbústaðir keypt 50 íbúðir í húsnæði sem Bjarg er að byggja fyrir tekjulægstu hópana, íbúðir sem verða tilbúnar eftir ca. 2 ár, sem sýnir að borgin er að víkja frá þessari stefnu sinni um félagslega blöndun. Einnig liggja fyrir tillögur um að byggðar verði 40 íbúðir í litlum fjölbýlishúsum. Miklu hraðar hefði þó þurft að vinna til að bregðast við.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er í senn róttæk, félagsleg og stórhuga. Reykjavík hefur með átaki í skipulagi tryggt fjölbreytt byggingarsvæði fyrir allar gerðir íbúða með áherslu á litlar og meðalstórar íbúðir á grundvelli markmiða um húsnæði fyrir alla, félagslega blöndun og aðalskipulag Reykjavíkur. Borgin leggur samanlagt fram 59 milljarða til fjárfestinga, húsnæðisstuðnings og sérstakra búsetuúrræða næstu fimm ár. Húsnæðisáætlun veitir kærkomna yfirsýn yfir framgang þessara mála. Byggingarsvæði fyrir yfir 2.500 íbúðir eru komin á framkvæmdastig í borginni og fjölgar hratt, byggingarsvæði fyrir yfir 2.500 íbúðir að auki liggja fyrir í staðfestu skipulagi og um 4.000 íbúðir eru í formlegu skipulagsferli. Auk þess eru svæði fyrir rúmlega 9.000 íbúðir í þróun. Megináhersla í húsnæðisáætlun borgarinnar er á samstarf við byggingafélög sem reisa íbúðir án hagnaðarsjónarmiða. Alls eru um 3.700 staðfest áform um íbúðir fyrir stúdenta, eldri borgara, fjölskyldur með lægri og millitekjur og búsetu. Á öllum nýjum þróunarsvæðum hefur verið samið um að hlutfall leigu- og búseturéttaríbúða á hverju uppbyggingarsvæði verði 20-25%. Jafnframt hefur verið samið um að Félagsbústaðir hafi kauprétt að um 5% af öllum nýjum íbúðum. Samhliða samþykkt húsnæðisáætlunar voru samþykktar tillögur sem lúta að hraðari uppbyggingu, betri og öruggari leigumarkaði og ódýrari íbúðum fyrir ungt fólk. Áætlunin og tillögurnar eru samþykktar til þess að tryggja félagslega blöndun um alla borg.

Erla Björg Sigurðardóttir, deildarstjóri á skrifstofu sviðsstjóra velferðarsviðs, Guðmundur Sigmarsson, verkefnastjóri, Haraldur Sigurðsson og Auðun Freyr Ingvarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

9. Lagt fram minnisblað, dags. 10. ágúst 2017, um foreldra á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði.

Erla Björg Sigurðardóttir, deildarstjóri á skrifstofu sviðsstjóra, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

10. Lagt fram minnisblað, dags. 8. ágúst 2017, um öryggisvistun og öryggisgæslu, sbr. 4. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. júní 2017, ásamt fylgigögnum.

Sigtryggur Jónsson, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

11. Lögð fram drög að gjaldskrám fyrir árið 2018 fyrir þjónustu á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

a)  Gjaldskrá fyrir veitingar og fæði.
b) Gjaldskrá í félagsstarfi.
c)  Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í íbúðum aldraðra.
d)  Gjaldskrá fyrir heimaþjónustu.
e)  Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í Foldabæ.
f)  Gjaldskrá fyrir húsnæði og fæðisgjald í búsetuúrræðum.
g)  Gjaldskrá vegna greiðslna til stuðningsfjölskyldna
h)  Gjaldskrá fyrir akstursþjónustu eldri borgara.
i)  Gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

12. Lagt fram bréf frá Rauða krossi Íslands, dags. 2. ágúst 2017, vegna neyðarástands í húsnæðismálum flóttafólks.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina samþykkja að vísa erindinu til þeirrar vinnu sem framundan er hjá velferðarsviði við að kortleggja bráðabirgðahúsnæði.

13. Lagt fram minnisblað, dags. 14. ágúst 2017, um stöðu samninga velferðarsviðs við Barka samtökin ásamt fylgigögnum.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Velferðarráð fagnar þeim góða árangri sem náðst hefur í þjónustu og aðstoð við heimilslausa á grunni samnings borgarinnar við Barka samtökin. Í ársbyrjun 2017 hófu samtökin að starfa í Reykjavík á grundvelli samnings við borgina og veita samtökin heimilislausum einstaklingum aðstoð við að tengjast upprunalandi ef þeir óska þess eða að auka lífsgæði sín í Reykjavík. Frá því í janúar á þessu ári hafa sjö einstaklingar verið tengdir heimalandi sínu. Rætt hefur verið við þá einstaklinga sem tekið hafa þátt í Barka verkefninu og eru þeir afar ánægðir með ákvörðun sína um að þiggja hjálp frá Barka og eru að auki bjartsýnir á framtíðina. Fyrir liggur að samstarfssamningur við Barka hefur verið framlengdur til loka árs 2017. Velferðarráð telur einsýnt að halda samstarfinu áfram og leggur áherslu á aðkomu velferðarráðuneytisins m.a. vegna skorts á viðeigandi heilbrigðisúrræðum fyrir þá sem taka þátt i verkefninu.

14. Lagður fram til kynningar samningur velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar, dags.16. júní 2017, um greiðslu gistináttagjalds í neyðarathvörfum Reykjavíkurborgar fyrir utangarðsfólk.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Velferðarráð fagnar samningi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Fjölskyldusviðs Hafnarfjarðar um greiðslu gistináttagjalds í neyðarathvörfum Reykjavíkurborgar fyrir utangarðsfólk vegna einstaklinga með lögheimili í Hafnarfirði. Mikilvægt er að öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu axli ábyrgð og bjóði íbúum sínum upp á þjónustu neyðarathvarfa. Velferðarráð fer þess a leit að velferðarsvið óski eftir sambærilegum samningum við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

15. Lagt fram svar við fyrirspurn frá fulltrúa Sjálfstæðisflokks um upplýsingar um hvernig fjárhagsrammi borgarinnar hefur þróast undanfarin átta ár, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs frá 22. júní 2017.

16. Lagt fram minnisblað um stöðu tilraunaverkefnis um starfsemi þriggja búsetukjarna fyrir fatlaða einstaklinga, dags. 9. ágúst 2017, ásamt fylgigögnum.
Frestað.

17. Kynnt viðhorfskönnun meðal íbúa og aðstandenda í þremur búsetukjörnum frá apríl 2017.
Frestað.

Fundi slitið kl. 16.54

Ilmur Kristjánsdóttir (sign)

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Magnús Már Guðmundsson (sign)
Börkur Gunnarsson (sign) Gréta Björg Egilsdóttir (sign)
Heiða Björg Hilmisdóttir (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign)

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

2 + 15 =