Fundur nr. 305 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 305

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2017, fimmtudaginn 16. febrúar var haldinn 305. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.05 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Magnús Már Guðmundsson,  Gunnar Alexander Ólafsson, Áslaug  María Friðriksdóttir, Björn Gíslason og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi var Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Ellý Alda Þorsteinsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Birna Sigurðardóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir og  Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um starfið á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga, dags. 23. janúar 2017, vegna kaupa á átta nýjum rýmum í vinnu-og virknimiðaðri stoðþjónustu, ásamt fylgigagni.

Lagt er til að velferðarsvið gangi til samninga við Ás styrktarfélag um kaup á átta nýjum rýmum í vinnu og virknimiðaðri stoðþjónustu, til að tryggja að ekki verði rof í þjónustukeðju velferðarsviðs í vor við útskrift framhaldsskólanema. Áætlaður kostnaður fyrir árið 2017 er 60 milljónir kr.

Samþykkt að vísa tillögunni til borgarráðs.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Nú liggur fyrir kostnaðargreind uppbyggingaráætlun í vinnumiðaðri stoðþjónustu fyrir fatlað fólk. Mikilvægt er að mið sé tekið af henni við vinnslu fjárhagsáætlunar hvers árs og gert ráð fyrir þeirri aukningu á þjónustuþörf sem  liggur fyrir. Nú hefur verið brugðist við fjölgun rýma á árinu 2017 og ítrekar velferðarráð mikilvægi þess að gert sé ráð fyrir fyrirséðri aukningu í vinnumiðaðri stoðþjónustu við gerð fjárhagsáætlunar á árinu 2018.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina samþykkir fyrirliggjandi tillögu um að bæta við átta nýjum rýmum í vinnu- og virknimiðaðri stoðþjónustu svo að ekki  verði rof í þjónustu við þá fötluðu einstaklinga sem að eru að útskrifast úr framhaldsskóla í vor. Einnig er mikilvægt að velferðarráðuneytið komi til móts við þá ósk velferðarsviðs að Reykjavíkurborg fái greidd daggjöld vegna vinnumiðaðrar stoðþjónustu við fatlaða aldraða sem eru 67 ára og eldri og geta ekki nýtt sér hefðbundin úrræði.

3. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 19. janúar 2017 vegna áherslna og leiða í þjónustu við aldraða.

Velferðarráð leggur fram  svohljóðandi breytingartillögu:

Lagt er til að velferðarsvið kortleggi hvaða tæknilausnir hægt væri að nýta í þjónustu sviðsins. Einnig er óskað eftir að lagðar verði fram sviðsmyndir um hvernig nýta mætti velferðartækni í þjónustunni og gera tillögur að tilraunaverkefnum. Ber þar sérstaklega að skoða hvort hægt sé að endurskipuleggja heimaþjónustu og heimahjúkrun með hliðsjón af aukinni velferðartækni þannig að hægt verði að sinna fleiri notendum án þjónustuskerðingar í framtíðinni. Lagt til að velferðarsvið vinni að fyrrgreindum atriðum með verkefnastjóra Smart cities þar sem velferðartæknin heyrir þar undir. Tillögur verði lagðar fram í velferðarráði fyrir lok september 2017.

Tillagan er samþykkt samhljóða svo breytt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn í Reykjavík hefur ekki lagt mikinn kraft í nýsköpun. Ekki hefur verið skilningur á því að fjárfesta í breytingum og tillögur þess efnis felldar ítrekað.  Strax í upphafi kjörtímabilsins felldi meirihlutinn tillögu Sjálfstæðisflokksins um 40 milljóna framlag inn á velferðarsviðið til fjárfestinga í nýsköpunarverkefnum. Nú þegar rúmlega eitt ár er eftir af kjörtímabilinu er aðeins eitt stöðugildi að vinna að nýsköpun og tæknilausnum fyrir málefni aldraðra og fatlaðra á öllu velferðarsviði. Þó að um öflugan starfsmann sé að ræða er ljóst að áhersla meirihlutans er vart mælanleg.

Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg hefur nú hafið þátttöku í verkefninu Smart Cities en fram að því voru tekin mikilvæg skref í átt að nýsköpun í velferðarþjónustu á velferðarsviði,  t.d   með þátttöku í norrænni samkeppni á sviði velferðartækni. Auk þess stöðugildi sem sérstaklega er eyrnamerkt í Smart Cities verkefnið er unnið að nýsköpun í velferðarþjónustu. Fulltrúarnir taka undir mikilvægi nýsköpunar á sviði velferðarþjónustu og fagna öllum áhuga á slíku.

4. Lögð fram til kynningar drög að samkomulagi, dags. 18. janúar 2017, vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóð við Sléttuveg , ásamt bréfi til borgarráðs, dags. 23. janúar 2017 ásamt fylgiskjali með samkomulaginu.

5. Lagt fram minnisblað, dags. 7. febrúar 2017, um breytingar á skammtímavistun í Hólabergi 86.

Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerir grein fyrir málinu.

6. Lögð fram til kynningar drög að samningi Reykjavíkurborgar og Útlendingastofnunar dags, 1. janúar 2017 um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd ásamt bréfi til borgarráðs, dags. 16. janúar 2017.

7. Lagt fram minnisblað, dags. 7. febrúar 2017, um vinnu velferðarsviðs í málefnum innflytjenda, flóttafólks, kvótaflóttafólks , umsækjenda um alþjóðlega vernd og mansalsfórnarlamba.


Edda Ólafsdóttir og Þóra Kemp taka sæti á fundinum undir þessum lið.

8. Lagt fram minnisblað, dags. 6. febrúar 2017, um málefni fylgdarlausra barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi. Jafnframt kynnt aukið hlutverki Barnaverndarstofu vegna nýrra laga um útlendinga nr. 80/2016.

Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur og Heiða Björg Pálmadóttir, lögfræðingur Barnaverndarstofu, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Velferðarráð þakkar vel unnin og greinargóð minnisblöð um málefni innflytjenda, flóttafólks, kvótaflóttafólks, umsækjenda um alþjóðlega vernd og mansalsfórnarlamba auk barna sem koma hingað til lands án fylgdarmanna.
Verkefni tengd þessum málefnum eru flókin og margvísleg. Þau eru á könnu  margra aðila; ríkis, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka. Fram kemur í minnisblaði unnu af velferðarsviði að  skortur sé á að ríkið komi að stuðningi við starfsfólk sveitarfélaga og fræðslu við flóttafólk sem hefur fengið hér alþjóðlega vernd. Spurningar hafa vaknað um hlutverk Fjölmenningarseturs, sem staðsett er á Ísafirði og lítið virðist gagnast því starfsfólki sem hefur með málaflokkinn að gera.
Einnig er mikilvægt að taka á þeim aðstöðumun sem ríkir í þjónustu við kvótaflóttafólk og flóttafólk sem fær stöðu flóttamanns í kjölfar umsóknar um alþjóðlega vernd.
Mikilvægt er að grípa til aðgerða vegna fylgdarlausra barna, sérstaklega hvað varðar þeirra fyrstu daga hér á landi. Koma þarf á fót einhvers konar móttökustöð eða afmarka rými fyrir þennan hóp svo hægt sé að sinna honum sem skyldi með þarfir barna í huga.
Velferðarráð fagnar því að nú sé að störfum stýrihópur um málaflokkinn sem skilar vinnu í apríl 2017. Ráðið óskar eftir að fá kynningu á þeirri vinnu þegar henni er lokið.

9. Kynning á þróun í framsetningu á tölfræðilegum upplýsingum á velferðarsviði (VELSTAT).

Guðmundur  Sigmarsson og Tinna Björg Sigurðardóttir, starfsmenn í deild gæða og rannsókna, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

- Áslaug María Friðriksdóttir víkur af fundi kl. 15.35.

10. Lagt fram yfirlit yfir lykiltölur fyrir tímabilið janúar til desember 2016.
Frestað.

11. Lagður fram kynningar samningur Reykjavíkurborgar við velferðarráðuneytið, dags. 3. febrúar 2017, um öryggisvistun á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og þjónustu við einstaklinga með fjölþætta og sértæka stuðningsþörf.

12. Kynning á stöðu mála varðandi afgreiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings.

Jón Viðar Pálmason, deildarstjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Velferðarráð þakkar fyrir yfirferð á stöðu mála vegna breytinga á sérstökum húsnæðisstuðningi. Ljóst er að breytt framkvæmd kallar á nána samvinnu velferðarsviðs, Félagsbústaða og Vinnumálastofnunar. Velferðarráð óskar eftir að fá nánari kynningu á stöðu mála á næsta fundi ráðsins.

13. Velferðarráð leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Velferðarráð óskar eftir upplýsingum um hvernig eftirliti með sértækum húsnæðisúrræðum, skammtímavistunum og stuðningsþjónustu, s.s liðveislu, stuðningsfjölskyldum og beingreiðslusamningum er háttað hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Einnig óskar velferðarráð eftir tillögum um hvernig bæta megi eftirlit, t.d með bættu verklagi og verkferlum ef talin er þörf á því.
Einnig óskar ráðið eftir upplýsingum um hversu margar einstaklingsbundnar þjónustuáætlanir hafa verið gerðar.
Eins óskar ráðið eftir að fá heildaryfirlit um það eftirlit, bæði innra og ytra, sem haft er með þjónustu velferðarsviðs.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Í ljósi niðurstöðu skýrslu vistheimilanefndar um nokkur vistheimili, nú síðast Kópavogshæli sem starfrækt voru um og eftir miðja síðustu öld er ljóst að við þurfum að vera vel vakandi fyrir hvers kyns ofbeldi og vanrækslu sem getur átt sér stað í samfélagi okkar. Sagan hefur kennt okkur að fólk í viðkvæmri stöðu, s.s vegna fötlunar eða bágra félagslegra aðstæðna,  er útsettara fyrir ofbeldi af ýmsu tagi, hvort sem það er af hendi náinna  ættingja eða umönnunaraðila. Það er rík þörf á eftirliti með velferðarþjónustu og einnig að það eftirlit taki mið af þeim breytingum sem þjónustan tekur í takt við einstaklingsmiðaða þjónustu og einnig þarf umræðu um hvernig eftirlitshlutverki sveitarfélaga skuli háttað þegar notendur eru í mun meira  mæli að stýra þjónustunni sjálfir, sbr NPA. Velferðarráð ítrekar þörfina á kröfulýsingum í þjónustunni sem byggðar eru á notendasamráði og eftirliti með því að þeim kröfulýsingum sé fylgt  Mikilvæg er ekki síst umræða á opinberum vettvangi um mannréttindi fólks. Velferðarráð vill koma á framfæri þakklæti til þeirra sem unnið hafa að þessum skýrslum. Þær eru mikilvægur vitnisburður til að endurtaka ekki sömu mistök og hjálpar okkur að sofna ekki á verðinum. Ráðið vill einnig koma á framfæri mikilvægi þess að þeir sem tengdust þessum vistheimilum á einn eða annan hátt fái viðeigandi aðstoð til að vinna úr þeim áföllum sem þeir kunna að hafa orðið fyrir.

14. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina  leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Hver er ábyrgð Félagsbústaða gagnvart leigutaka íbúðar þar sem fram kemur myglusveppur og viðkomandi þarf að yfirgefa húsnæðið og jafnvel innbú er skemmt ? Einnig er óskað eftir upplýsingum um hve mörg slík tilfelli hafa komið upp á síðustu 24 mánuðum. Óskað er eftir upplýsingum um hversu margir þurfa eða hafa þurft að flytja úr íbúðum sínum vegna eigna- og tekjumarka eftir að Félagsbústaðir keyptu íbúðirnar af Íbúðalánasjóði á síðasta ári?

Fundi slitið kl.16.25

Ilmur Kristjánsdóttir (sign)

Elín Oddný Sigurðardóttir(sign) Gréta Björg Egilsdóttir(sign)
Magnús Már Guðmundsson(sign) Björn Gíslason (sign)
Gunnar Alexander Ólafsson(sign)

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

7 + 6 =