Fundur nr. 263 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 263

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2017, föstudaginn 5. maí var haldinn 263. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi Hofi og hófst kl. 12:05. Viðstaddir: Þórgnýr Thoroddsen formaður, Eva Einarsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Dóra Magnúsdóttir, Tomasz Chrapek og Trausti Harðarson. Einnig: Benóný Harðarson varaáheyrnarfulltrúi fyrir Hermann Valsson VG, Frímann Ari Ferdinandsson ÍBR, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Andés B. Andreasen fjármálastjóri  og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fram fer kynning á jafnréttisúttekt á hverfisíþróttafélögum KR, Þrótti og Fjölni.

- kl. 12.15 kom Kjartan Magnússon á fundinn
- kl. 12.55 vék Benóný Harðarson af fundinum.

Fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Mjög góð vinna og áhugaverð greining hefur verið unnin í jafnréttisúttekt þessari. Áhyggjuefni er að íþróttafélögin virðast ekki af eigin frumkvæði hafa virka innri jafnréttisvinnu eða innriúttekt á hvort eitthvað þurfi að bæta og/eða hvernig félögin eru að standa sig þegar þau skoða sín jafnréttismál sjálf.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu á jafnréttisúttekt sem mannréttindaskrifstofa borgarinnar gerði hjá þremur hverfisíþróttafélögum. Mikilvægt er að áframhaldandi vinna að úrbótum í þessum málum fari fram í sem bestu samstarfi við hverfisíþróttafélögin. Í þeirri vinnu þarf að hafa í huga að þau eru áhugamannafélög sem byggja að mestu leyti á sjálfboðaliðastarfi en ekki opinberar stofnanir með tugi eða hundruð fastra starfsmanna. Athyglisvert er að fulltrúar íþróttafélaganna þriggja lögðu mikla áherslu á að gefa þyrfti þeim aukin tækifæri til að kynna starfsemi sína í skólum borgarinnar og að það væri lykillinn að því hversu vel tækist til við að efla fjölbreytni innan félaganna og innan tiltekinna íþróttagreina. Tekið er undir þetta sjónarmið íþróttafélaganna og minnt á tillögur Sjálfstæðisflokksins  um að hverfisíþróttafélögin fái að kynna starfsemi sína í grunnskólum borgarinnar með sama hætti og tíðkaðist áður en meirihluti Samfylkingar og Bjartrar framtíðar setti hamlandi reglur um slíkar kynningar á síðasta kjörtímabili.

Fulltrúar Samfylingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingarinnar og VG í íþrótta og tómstundaráði þakka fyrir ítarlega og góða kynningu mannréttindaskrifstofu á jafnréttisútekt sem var gerð hjá þremur hverfafélögum í Reykjavík.
Því miður er niðurstaða úttektarinnar ekki nógu jákvæð og víða pottur brotinn.
Mikilvægt er að unnið verði með niðurstöðurnar á uppbyggilegan hátt. ÍTR mun vinna með ÍBR að því að aðstoða félögin við að auka meðvitund um jafnrétti og að fullnægja kynja- og jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar.

Arnþrúður Ingólfsdóttir og Halldóra Gunnarsdóttir frá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar taka sæti á fundinum undir þessum lið.

2. Fram fer umræða um áherslur og forgangsröðun í fjárhagsáætlun 2018.

3. Fram fer umræða um opin fund ráðsins 15. september n.k. 

- kl. 13.30 víkur Frímann Ari Ferndinardsson af fundinum.

- kl. 13.35 víkur Dóra Magnúsdóttir af fundinum.

4. Lögð fram svör sviðsstjóra ÍTR dags. 28. apríl sl. vegna fyrirspurnar fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina á fundi ráðsins 28. apríl sl. sbr. liðir 10, 12 og 13 í fundargerð. um fjölskyldu- og húsdýragarðinn.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikið þarfnast endurnýjunar í Fjölskyldu og húsdýragarðinum, margt þarfnast viðhalds og margt er hreinlega orðið ónýtt: Krakkafoss þarfnast endurnýjunar er orðinn býsna gamall (14. ára) og viðhaldsfrekur og fallturninn (10. ára). Lestin (16. ára) í húsdýragarðinum er í viðunnandi lagi þótt rafgeyma þurfi að endurnýja. Öll ljós í Hringekju (15. ára) eru ónýt. Þarf að mála Naglfar (leikkastalaskipið), skipta um rennibraut í stað þeirrar ónýtu og stög. Þá er æskilegt að setja viðunnandi fallundirlag s.s. gúmmímottur (sbr. og er í skólum / leikskólum) við skipið. Brunabíllinn sem stendur við Barnaborg (smáhýsin) er ónýtur. Litli leikkastalinn er orðinn mjög sjúskaður en hann er ekki er hægt að mála enda plasthúðaður. Gormaleiktæki eru öll (8 stk) ónýt. Fjölga þarf rafmagnsbílum fyrir yngri börn og bæta akstursaðstöðuna. Ökuskólabíla fyrir eldri börn þarf að endurnýja að hluta. Endurnýjun og viðgerð á þessum hluta er áætlað 32,4 til 37,4 milljónum króna. Girðingar almennt eru löngu orðnar úr sér gengnar. Loka þarf einhverjum tækjum í fjölskyldugarði í sumar vegna „niðurskurðar“ á atvinnuátaki (15-17 fj.sumarstörf) Reykjavíkurborgar. Alvararlegasta staðan í garðinum þessa stundina er þó vegna aðstöðuleysis annars vegar fyrir kennslu og hins vegar starfsfólks. Aðstaða starfsfólks uppfyllir ekki lágmarkskröfur.

5. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Íþrótta- og tómstundaráð óskar eftir því að jafnréttisúttekt verði gerð í ár hjá þremur hverfisíþróttafélögum til viðbótar við þau sem fyrir hafa verið tekin út og dregið verði út hver þau verði. En fyrir er lokið jafnréttisúttekt á Þrótti, KR og Fjölni.

Frestað.

6. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata í framhaldi af umræðu á seinasta fundi um Frístundakortið:

ÍTR leggur til að settur verði á laggirnar starfshópur sem skoðar markvissar leiðir til að auka þátttöku barna og notkun á frístundakortinu fyrir börn sem eiga erlenda foreldra. Kannanir sýna að þátttaka þeirra er marktækt minni. Æskilegt er að skoða hugsanlegt samstarf ÍTR, SFR og VEL til að ná fram því markmiði. Ágætur árangur hefur náðst í Breiðholti og í ákveðnum verkefnum en þessi vinna þarf að skila sér heildstætt til allra barna í borginni af erlendum uppruna. Ljóst er að þetta er sá hópur barna og foreldra sem líklegast er að þekki ekki til kortsins og þess sparnaðar og hvatningar til þátttöku sem notkun þess leiðir af sér. Líklegt er að það þurfi sértækar og ólíkar leiðir til að ná til þessa hóps og mikilvægt að það sé gert með skilvirkum hætti.

Frestað.

Fundi slitið kl. 14.00

Þórgnýr Thoroddsen

Eva Einarsdóttir Tomasz Chrapek
Marta Guðjónsdóttir Trausti Harðarson
Kjartan Magnússon

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

10 + 10 =