Fundur nr. 261

STJÓRN STRÆTÓ BS.

Ár 2017, föstudaginn 3. mars 2017 var haldinn 261. fundur í stjórn Strætó bs. í Mjódd og hófst hann kl. 11.00. Mætt voru Heiða Björg Hilmisdóttir stjórnarformaður, Bryndís Haraldsdóttir, Guðlaug Kristjánsdóttir, Gunnar Valur Gíslason, Sverrir Óskarsson og Bjarni Torfi Álfþórsson, varamaður. Fundinn sátu einnig Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri og Ástríður Þórðardóttir, sviðsstjóri fjármála og reksturs, sem ritaði fundargerð.

Dagskrá fundar:
1. Ársreikningur 2016
2. Húsnæðismál
3. Dómsmál - matsmál Allrahanda GL ehf. gegn Strætó bs.
4. Leiðakerfisbreytingar

Þetta gerðist:

1. Ársreikningur 2016
Ástríður Þórðardóttir, sviðsstjóri fjármála og reksturs, kynnti helstu niðurstöður ársreiknings 2016. Árni Claessen, endurskoðandi hjá KPMG, fór yfir ársreikninginn og endurskoðunarskýrslu KPMG, dags. 3. mars 2017. Ólafur Kristinsson, formaður endurskoðunarnefndar Strætó bs., kynnti störf endurskoðunarnefndar vegna ársreiknings 2016. Stjórn samþykkir ársreikning Strætó bs. 2016. Stjórn og framkvæmdastjóri staðfestu ársreikninginn með undirritun sinni. Jafnframt staðfesti endurskoðandi ársreikninginn fyrir sitt leyti með undirritun sinni.

2. Húsnæðismál
Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri, fór yfir drög að skýrslu verkfræðistofunnar Mannvits varðandi mat á húsnæðisþörf fyrir starfsemi Strætó. Stjórn samþykkti að framkvæmdastjóri og stjórnarformaður haldi áfram að vinna að málinu í samstarfi við Mannvit og Reykjavíkurborg, sem er eigandi húsnæðis Strætó á Hesthálsi og Þönglabakka.

5. Dómsmál - matsmál Allrahanda GL ehf. gegn Strætó bs.
Anton Björn Markússon, hrl, lögmaður Strætó, fór yfir stöðuna í nýju kærumáli Allrahanda GL ehf.  gegn Strætó. Um er að ræða kröfu Allrahanda GL um nýtt mat á fjártjóni sem fyrirtækið taldi sig verða fyrir vegna missis hagnaðar, þar sem ekki var samið við það eftir útboð á akstri á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2010.  Héraðsdómur féllst á beiðni Allrahanda GL um heimild til að leggja fram nýtt mat á fjártjóni vegna missis hagnaðar. Dómur í umræddu máli var kveðinn upp 16. júní 2016. Þar taldi héraðsdómur skilyrðum um skaðabótaábyrgð vera fullnægt í málinu og ætlaði fjártjón stefnanda vegna missis hagnaðar nema 100 mkr. Stjórn samþykkti að fela lögmanni Strætó að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms í nýju kærumáli Allrahanda GL til Hæstaréttar.

6. Leiðakerfisbreytingar
Áframhaldandi umræða um fyrirliggjandi hugmyndir að leiðakerfisbreytingum í Kópavogi, breytingu á leiðum 6, 21 og 31, akstri um Hverfisgötu og nætur- og kvöldakstri Strætó. Framkvæmdastjóra var falið að taka saman fyrir næsta fund stjórnar yfirlit yfir áætlaðan kostnað og skiptingu kostnaðar milli einstakra sveitarfélaga vegna þeirra breytinga sem liggja fyrir, samþykktar af viðkomandi sveitarfélagi og koma þess vegna til álita næsta vor. Aðrar breytingar á leiðakerfi Strætó, sem viðkomandi sveitarfélög vilja að komi til álita næsta haust, þurfa að liggja fyrir samþykktar af viðkomandi sveitarfélögum og stjórn eigi síðar en í lok apríl 2017.

Fundi slitið kl. 13.00

Fylgiskjöl:
Ársreikningur Strætó bs. 2016, Kynning á ársreikningi 2016, dags. 3. mars 2017, Endurskoðunarskýrsla 2016, Um störf endurskoðunarnefndar og ársreikning 2016, dags. 2. mars 2017

Heiða Björg Hilmisdóttir

Bjarni Torfi Álfþórsson Bryndís Haraldsdóttir
Gunnar Valur Gíslason Guðlaug Kristjánsdóttir
Sverrir Óskarsson

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

11 + 1 =