Fundur nr. 259 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 259

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2017, föstudaginn 3. mars, var haldinn 259. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsinu, Tjarnarbúð og hófst kl. 11.30. Viðstaddir: Þórgnýr Thoroddsen formaður, Diljá Ámundadóttir varamaður fyrir Evu Einarsdóttur, Björn Gíslason varamaður fyrir Mörtu Guðjónsdóttur, Dóra Magnúsdóttir, Trausti Harðarson. Einnig: Benóný Harðarson, áheyrnarfulltrúi, Helenda Sif Gunnarsdóttir áheyrnarfulltrúi Reykjavíkurráðs ungmenna, Steinþór Einarsson, Ómar Einarsson og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Framsóknar- ogt flugvallarvina:

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur óskar eftir því að við hönnun á nýju knatthúsi fyrir ÍR sem á að vera yfirbyggður hálfur knattspyrnuvöllur, að einn útveggur hússins verði léttveggur þ.e. ekki burðarveggur. Í beinu framhaldi af þeim léttvegg væri afmörkuð lóð/landsvæði sem síðar væri möguleiki á að nýta til stækkunar á knatthúsinu þannig að í komandi framtíð væri möguleiki á að stækka húsið um helming ef þörf væri á, til að ná yfirbyggðum heilum löglegum keppnis knattspyrnuvelli. Húsnæði framtíðarinnar eru þau húsnæði sem byggð eru í dag og verða þau upp næstu hundrað árin. Fyrri reynsla í byggingu íþróttahúsa er að byggð voru fjölda svo kölluð þrír/fjórðu hús eða löglegir körfuboltavellir en of stuttir sem löglegir handboltavellir. Hefur Reykjavíkurborg því þurft að byggja áratugum seinna ný og stærri íþróttahús til að koma móts við þarfir nútímans, þar sem ekki hefur verið hægt að stækka fyrri byggingar og þar sem ekki hafði verið lagt í upphafi í byggingu á fullri stærð af íþróttahúsum. Í ljósi þessarar reynslu er nauðsynlegt að eiga möguleika í komandi framtíð á næstu áratugum að geta með einföldum hætti t.d. stækkað byggingu eins og nýtt knatthús ÍR ef síðar reynst þörf á.

Samþykkt að vísa tillögunni til samskipta- og viðræðunefndar Reykjavíkurborgar og ÍR.

- Kl 11.36 tekur Tomasz Chrapek sæti á fundinum.

2. Lagt fram afrit af bréfi sviðsstjóra ÍTR, dags. 7. feb. sl., til Ólafs Egils Egilssonar, skv. 4. lið síðustu fundargerðar.

3. Lagt fram bréf íþróttafulltrúa Fram dags. 14. feb. sl. sem svar við fyrirspurn fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina frá 3. febrúar sl.

- Kl. 1145 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Þökkum góðar og nákvæmar upplýsingar frá Fram. Athyglisvert er að í aðalstjórn FRAM eru engir íbúar úr Grafarholti og Úlfarsárdals þrátt fyrir að 70% iðkenda félagsins komi úr þeim hlutanum eða 949 iðkendur meðan 446 iðkenndur eru Safamýris hlutanum. Nú stefnir íþróttafélagið að flytja á næstu árum að fullu í Grafarholtið og Úlfarsársdal og er ekki annað en að gera athugasemd við að félagið sé ekki búið að leita til íbúa og byggja upp hlutfall stjórnarmanna þ.e. vinna almennt að því að fullu að félagið sé að meirihluta stýrt af íbúum Grafarholts og Úlfarsársdal, þeim sem eru að taka við að leiða félagið áfram næstu árin og áratugina.

4. Lagt fram bréf Skátasambands Reykjavíkur og Skátafélagsins Seguls, dags. 15. feb. sl., vegna skátaheimilis í Seljahverfi.
Vísað til formanns og sviðsstjóra til skoðunar.

5. Lögð fram eftirfarandi tillaga meirihluta:

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að fela sviðsstjóra að kanna kaup á færanlegri hjólabraut sem nýtist í tómstundastarfi á opnum svæðum og lóðum borgarinnar.

Samþykkt.

6. Lagt fram að nýju bréf Íshokkísambands Íslands dags. 14. nóv. 2016 vegna reksturs Skautahallarinnar sbr. fundargerð ráðsins 25. nóv. 2016. Einnig lagt fram bréf ÍBR, dags. 23. feb. sl., ásamt umsögn Skautafélags Reykjavíkur, dags. 8. feb. sl., og umsögn Skautasambands Íslands, dags. 8. feb. sl. Jafnframt lagt fram að nýju bréf sviðsstjóra ÍTR, dags. 20. maí 2016, sbr. fundargerð ráðsins 26. maí 2016, ásamt drögum að samningi við ÍBR um framhaldandi rekstur Skautahallarinnar.
Vísað til sviðsstjóra.

7. Lögð fram hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík, dags. 31. janúar sl., Knatthús á ÍR svæðið við Skógarsel.

Íþrótta- og tómstundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Íþrótta- og tómstundaráð þakkar ábendinguna og bendir á að í nýgerðum samningi milli Reykjavíkurborgar og ÍR er gert ráð fyrir byggingu knatthús á svæði ÍR.

8. Lögð fram hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík, dags. 31. janúar sl., Sundlaug í Fossvogsdal.

Íþrótta- og tómstundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Íþrótta- og tómstundaráð þakkar fyrir ábendinguna. Bent er á að fyrir liggur skýrsla frá Reykjavíkurborg og Kópavogi um sundlaug í Fossvogi.

9. Lögð fram tímaáætlun vegna gerðar fjárhagsáætlunar 2018.

10. Fram fer umræða að beiðni fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um málefni KR.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Á síðasta fundi íþrótta- og tómstundaráðs kynntu fulltrúar KR mjög vandaða vinnu um framtíðarsýn bygginga á svæði íþróttafélagsins. Sú framtíðarsýn snýst að miklu leyti um að byggja fjölda fjölbýlishúsa á svæðinu og gera félagið enn sjálfbærar tekjulega. Auk þess sem þeir sjá fyrir sér að byggja síðar hálft knattspyrnuhús. Það þrönga svæði sem félagið hefur í dag verður því þrengt enn meir og má jafnvel áætla að í komandi framtíð verði þörf á því að Reykjavíkurborg látið félagið hafa nýtt viðbótarlandsvæði fyrir framtíðar þörf félagsins þar sem félagið verði búið að byggja fjölda fjölbýlishúsa á sínu svæði.

11. Lagt fram svar við fyrirspurn fullrúa Framsóknar og flugvallarvina frá 6. janúar sl. um Grafarvogslaug.

12. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Í ljósi ábendinga Glímufélagsins Ármanns og þá er sérstaklega snýr að fimleikadeild þeirra um að búningsklefar félagsins anni á engan hátt fjölda iðkenda er óskað eftir því að fulltrúar íþróttafélagsins haldi dagbók í viku tímabil frá klukkustund til klukkustundar eða eins vel og nákvæmlega þeir geta orðið við beiðninni þannig að talning fari fram hversu margir iðkendur eru í húsinu á hverjum tíma og hversu mikið búningsklefar eru nýttir á hverri klukkustund fyrir sig og þá einnig listun yfir önnur rými sem nýtt eru á þeim klukkustundum sem búningsklefar og fatageymslur ásamt fjöldatölum iðkenda sem nýta þau rými.

13.  Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur samþykkir að óska eftir viðræðum við Knattspyrnufélag Reykjavíkur um uppbyggingu frjálsíþróttaaðstöðu í Vesturbænum, sem þjóni m.a. frjálsíþróttadeild félagsins. Metið verði í samráði við félagið og umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar hvar best sé að koma slíkri aðstöðu fyrir, á félagssvæði KR eða í nágrenni þess, t.d. á túninu við Sundlaug Vesturbæjar. Einnig kemur til greina að byggja slíka aðstöðu upp í samvinnu við Háskóla Íslands á svæði hans. Í framhaldi af slíku staðarvali verði ráðist í hönnun á svæðinu og kostnaður metinn við gerð þess og hugsanlega áfangaskiptingu.

Frestað.

Fundi slitið kl. 12.34

Þórgnýr Thoroddsen

Tomasz Chrapek  Dóra Magnúsdóttir
Diljá Ámundadóttir  Kjartan Magnússon
Björn Gíslason  Trausti Harðarson

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 9 =