Fundur nr. 258 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 258

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2017, föstudaginn 3. febrúar var haldinn 258. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn hjá Knattspyrnufélagi Reykjavíkur í Frostaskjóli og hófst kl. 12.10. Viðstödd Þórgnýr Thoroddsen formaður, Eva Einarsdóttir, Bjarni Þór Sigurðsson varamaður fyrir Tomasz Chrapek, Dóra Magnúsdóttir, Björn Gíslason varamaður fyrir Mörtu Guðjónsdóttir, Kjartan Magnússon og Trausti Harðarson. Einnig Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi VG, Ingvar Sverrisson ÍBR, Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri, Ómar Einarsson sviðsstjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fram fer kynning á starfi Knattspyrnufélags Reykjavíkur og framtíðarsýn.

Jónas Kristinsson framkvæmdastjóri KR og Gylfi Dalmann formaður aðalstjórnar tóku sæti á fundinum undir þessum lið.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Knattspyrnufélag Reykjavíkur hefur starfrækt öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf í borginni í 118 ár með miklum myndarbrag og fyrir það ber að þakka. KR glímir nú þegar við verulegan aðstöðuvanda en ljóst er að kröfur til félagsins munu aukast enn frekar á næstu árum vegna fyrirhugaðrar íbúafjölgunar í Vesturbænum. Það er leitt að núverandi meirihluti borgarstjórnar hefur ekki nýtt ákjósanleg tækifæri til að bæta úr þessum aðstöðuvanda og vegur þar þyngst sú ákvörðun að skipuleggja fjölbýlishúsabyggð á SÍF-reitnum (Keilugranda 1) í stað þess að ráðstafa honum í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Vesturbænum. Eins hefur sú ákvörðun verið gagnrýnd að Reykjavíkurborg fjármagni byggingu nýs fimleikahúss á Seltjarnarnesi í stað þess að velja slíku húsi stað miðsvæðis í Vesturbænum í góðu göngu- og hjólreiðafæri við meginþorra íbúa, en slík staðsetning innan hverfisins væri til þess fallin að draga mjög úr skutli með börn og unglinga. Brýnt er að skoðaðar verði nýjar leiðir til að bæta úr aðstöðuvanda KR og gripið til úrbóta sem fyrst. Forsvarsmenn félagsins hafa hér á fundinum kynnt áhugaverðar og metnaðarfullar hugmyndir í því skyni, þ.e. um byggingu nýrra mannvirkja á núverandi félagssvæði.

Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna og pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og VG þakka fyrir góðar móttökur og telja að KR hafi puttann á púlsinum en þeir hafa lýst yfir ánægju með það fyrirkomulag sem Reykjavíkurborg hefur náð við Seltjarnarnesbæ um barna- og unglingastarf í samstarfi við KR og Gróttu.

2. Lagt fram svar íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 1. feb. sl., við fyrirspurn fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina á fundi ráðsins 6. janúar sl. um rennibrautir í Grafarvogslaug.

3. Lagt fram umsögn forstöðumanns Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, dags. 24. janúar sl., um tillögu fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina frá fundi íþrótta- og tómstundaráðs 20. janúar sl., um Fjölskyldugarðinn.

Samþykkt að vísa tillögunni til skrifstofu eigna og atvinnuþróunnar.
4.
5. Lagt fram bréf Ólafs Egils Egilssonar dags. 27. janúar sl.l vegna afgreiðslutíma sundstaða. Einnig er lagt fram að nýju yfirlit yfir afgreiðslutíma sundstaðanna.
Vísað til umsagnar sviðsstjóra og skrifstofustjóra íþrótta og tómstundasviðs.

6. Lagt fram yfirlit yfir afgreiðslutíma sundstaða á frídögum árið 2017.


7. Lagt fram bréf sviðstjóra, dags. í dag, með tillögu að breytingum á reglum um frístundakort.
Samþykkt.

8. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. febrúar 2017, við fyrirspurn fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina á fundi ráðsins 6. janúar sl. um Sundhöllina.

9. Lagt fram bréf sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 26. janúar 2017, vegna tjóns í Víkinni.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að sem fyrst verði ráðist í viðgerðir í íþróttahúsi Víkings í Víkinni og að Reykjavíkurborg fjármagni verkið. Samkvæmt verkfræðiúttekt er mjög aðkallandi að hefja strax lagfæringar á húsnæðinu svo það standist notkunarkröfur sem og til að koma í veg fyrir frekari skemmdir.

10. Lagt fram bréf Keilusambands Íslands, dags. 27. janúar sl., vegna aðstöðu fyrir keiluíþróttina. Einnig lagt fram að nýju bréf keiludeilda, dags. 3. okt. 2016, sbr. fundargerð ráðsins 7. október 2017.

11. Fram fer kynning á verkefninu Ég kýs – skuggakosningar í framhaldsskólum.

Markús H. Guðmundsson, forstöðumaður Hins Hússins og Hildur Björgvinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra framhaldsskólanema taka sæti á fundinum undir þessum lið.

12. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina:

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur óskar eftir því að við hönnun á nýju knatthúsi fyrir ÍR sem á að vera yfirbyggður hálfur knattspyrnuvöllur, að einn útveggur hússins verði léttveggur þ.e. ekki burðarveggur. Í beinu framhaldi af þeim léttvegg væri afmörkuð lóð/landsvæði sem síðar væri möguleiki á að nýta til stækkunar á knatthúsinu þannig að í komandi framtíð væri möguleiki á að stækka húsið um helming ef þörf væri á, til að ná yfirbyggðum heilum löglegum keppnis knattspyrnuvelli. Húsnæði framtíðarinnar eru þau húsnæði sem byggð eru í dag og verða þau upp næstu hundrað árin. Fyrri reynsla í byggingu íþróttahúsa er að byggð voru fjölda svo kölluð þrír/fjórðu hús eða löglegir körfuboltavellir en of stuttir sem löglegir handboltavellir. Hefur Reykjavíkurborg því þurft að byggja áratugum seinna ný og stærri íþróttahús til að koma móts við þarfir nútímans, þar sem ekki hefur verið hægt að stækka fyrri byggingar og þar sem ekki hafði verið lagt í upphafi í byggingu á fullri stærð af íþróttahúsum. Í ljósi þessarar reynslu er nauðsynlegt að eiga möguleika í komandi framtíð á næstu áratugum að geta með einföldum hætti t.d. stækkað byggingu eins og nýtt knatthús ÍR ef síðar reynst þörf á.

Frestað.

13. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina:

Óskað er eftir upplýsingum frá Knattspyrnufélaginu Fram. Hvernig iðkendur félagsins skiptast milli hverfishluta og allra deilda félagsins þ.e. hvað margir iðkendur eru annars vegar úr Safamýrahluta félagsins og hvað margir iðkendur koma frá Grafarholti og Úlfarsdals hluta félagsins og það í öllum deildum félagsins. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvernig sama skipting þ.e. hverfisskipting er í aðalstjórn félagsins og stjórnum deilda félagsins.

Fundi slitið kl. 14.30

Þórgnýr Thoroddsen

Eva Einarsdóttir Dóra Magnúsdóttir
Bjarni Þór Sigurðsson Kjartan Magnússon
Björn Gíslason Trausti Harðarson

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

3 + 1 =