Fundur nr 2 | Reykjavíkurborg

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2018, miðvikudaginn 22. ágúst kl. 09:05, var haldinn 2. fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Ráðssal. Viðstaddir voru: Líf Magneudóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Egill Þór Jónsson, Marta Guðjónsdóttir, Vigdís Hauksdóttir og Ólafur Jónsson. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Árný Sigurðardóttir, Óskar Ísfeld Sigurðsson, Rósa Magnúsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Sigurjóna Guðnadóttir og Marta Grettisdóttir.
Fundaritari er Harri Ormarsson.

Þetta gerðist:

(E) Umhverfis- og heilbrigðismál

I.    Málefni heilbrigðisnefndar skv. samþykktum um heilbrigðisnefnd Reykjavíkur,

1.    Málefni heilbrigðisnefndar          Mál nr. US180209

1. Lagt fram bréf Skrifstofu borgarstjórnar dags. 19. júní 2018 um skipan í umhverfis- og heilbrigðisráð og bréf Samtaka atvinnulífsins dags. 29. júní 2018 um skipan fulltrúa í heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar.

2. Lagt fram bréf Borgarstjórans í Reykjavík dags. 24. júní 2018 um tillögu að stofnun umhverfis- og heilbrigðisráðs.

3. Lagt fram bréf Samtaka atvinnulífsins dags. 29. júní 2018 um skipan fulltrúa í heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.

4. Kynning á starfssviði heilbrigðisnefndar Reykjavíkur og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava Svanborg Steinarsdóttir taka sæti undir þessum lið.

5.    Kynntar ráðningar í stöður heilbrigðisfulltrúa hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur; Rán Sturlaugsdóttir og Ásthildur Erlingsdóttir.

6. Lagðar fram fundargerðir nr. 123. og 124. Framkvæmdarstjórnar um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu.

7.    Lagður fram tölvupóstur Skipulagsstofnunar dags. 19. júní 2018 vegna beiðni um umsögn og skýrslu Mannvits dags. apríl 2018 um endurnýjun veitukerfa í Elliðarárdal, tilkynning til ákvörðunar um matsskyldu.  Einnig er lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 28. júní 2018.

Umhverfis- og heilbrigðisráð tekur undir umsögn Heilbrigðiseftirlitsins varðandi matsskyldu við framkvæmdir um endurnýjun veitukerfa í Elliðarárdal. 

Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava Svanborg Steinarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

-    Kl. 10.32 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundi.
-    Kl. 10.33 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundi.
-    Kl. 10.33 tekur Örn Þórðarson sæti á fundinum.
-    Kl. 10.35 tekur Baldur Borgþórsson sæti á fundinum.

8.    Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 25. júní 2018 vegna beiðni um umsögn og skýrslu Mannvits dags. júní 2018 um viðhalds- og rekstrardýpkanir Faxaflóahafna árin 2019-2013, mat á umhverfisáhrifum, fyrirspurn um matsskyldu framkvæmda.  Einnig lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 2. júlí 2018.

Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava Svanborg Steinarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 1. júní 2018 ásamt greinargerð og deiliskipulagsúrdrætti um deiliskipulagstillögu um brú yfir Fossvog dags. 30. apríl 2018.  Einnig lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 12. júní 2018.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Egill Þór Jónsson og Örn Þórðarson bóka:

“Ekki er ljóst hver endanleg kostnaðarþátttaka Reykjavíkurborgar verður í verkefninu sem gæti hlaupið á um og yfir 1000 milljónum króna. Á meðan eru önnur og brýnni samgönguverkefni sem sitja á hakanum. Auk þess sem brúin leysir ekki úr neinum aðkallandi umferðarmálum.” 

Fulltrúi Vinstri græna, Líf Magneudóttir, Fulltrúar Samfylkingarinnar Kristín Soffía Jónsdóttir og Magnús Már Guðmundsson og fulltrúi Pírata Sigurborg Ósk Haraldsdóttir bóka:

“Brú yfir Fossvoginn er samvinnuverkefni sem á sér langan aðdraganda og er unnið í góðu samstarfi sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða mikilvægt samgönguverkefni sem styður við virka og vistvæna ferðarmáta með því að stytta vegalengdir fyrir gangandi, hjólandi og notendur almenningssamganga. Samtímis er unnið að samgönguúrbótum um alla borg og óljóst í hvað er vísað þegar tala erum að mikilvægar samgöngubætur sitji á hakanum vegna þessa verkefnis.”

Fulltrúi Miðflokksins, Baldur Borgþórsson bókar: 

“Það er óskiljanlegt hvað verkefnið „brú yfir Fossvogsdal“ er komið langt í borgarkerfinu. Litlar upplýsingar hafa verið lagðar fyrir nýja borgarfulltrúa og Reykvíkinga alla. Eins liggur kostnaðarmat ekki fyrir. Lítil áhersla er lögð á uppbyggingu vegakerfis innan borgarinnar. Unnið er markvisst að því að útrýma einkabílnum úr borgarskipulaginu og ekki er tekið tillit til tilmæla Vegagerðarinnar um uppbyggingu vegakerfis borgarinnar sem kom fram í skýrslu sem ber heitið: „Vegir á höfuðborgarsvæðinu í umsjá Vegagerðarinnar Höfuðborgarsvæðið 2040 – Sýn Vegagerðarinnar – Júní 2018.“ Lýst er yfir miklum áhyggjum að ekki er gert ráð fyrir lagningu Sundabrautar en í skýrslunni segir um Sundabraut: „Þar til sátt hefur náðst við Reykjavíkurborg um legu og útfærslu Sundabrautar mun Vesturlandsvegur um Mosfellsbæ og Kjalarnes verða fyrsti kostur Vegagerðarinnar að stofnvegi A til norðurs frá höfuðborginni. Syðsti hluti Sundabrautar gæti létt á umferðarþunga í Ártúnsbrekku.“ Á öðrum stað segir um meginstofnvegi sem mynda hringtengingu innan höfuðborgarsvæðisins: „Sú hringtenging samanstendur af Fjarðarhrauni, Hafnarfjarðarvegi, Kringlumýrarbraut sunnan Miklubrautar og Miklubraut austan Kringlumýrarbrautar.“ Brú yfir Fossvoginn áframhald þrengingastefnu frá fyrra kjörtímabili og er það óásættanlegt fyrir borgarbúa. Brúin leysir ekki úr aðkallandi umferðarmálum akandi, gangandi eða hjólandi og styttir vegalengdir ekki sem neinu nemur.”

Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava Svanborg Steinarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

10.    Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 13. júní 2018 og 26. júlí 2018,  greinargerð Veitna ohf. dags. maí 2018 um lagningu 11 kW jarðstrengs að Gvendarbrunnum, fyrirspurn um matsskyldu ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 22. júní 2018.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Egill Þór Jónsson og Örn Þórðarsson og fulltrúi Miðflokksins, Baldur Borgþórsson bóka:

“Í ákvæði skipulag vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu frá 2015 segir í kafla 7.1, að gæta skuli að verndun neysluvatns höfuðborgarbúa til framtíðar með því að koma í veg fyrir ósæskileg áhrif athafna og framkvæmda á neysluvatnið. Með hliðsjón af þeirri staðreynd ættu fyrirhugaðar framkvæmdir á lagningu 11KW jarðstrengs að Gvendarbrunnum að vera háðar mati á umhverfisáhrifum.”

Fulltrúi Vinstri grænna, Líf Magneudóttir, fulltrúar Samfylkingarinnar Kristín Soffía Jónsdóttir og Magnús Már Guðmundsson og fulltrúi Pírata Sigurborg Ósk Haraldsdóttir taka undir umsögn Heilbrigðiseftirlitsins sem telur framkvæmdina ekki háða mati á umhverfisáhrifum, miðað við fyrirliggjandi gögn.

Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava Svanborg Steinarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

11.    Lögð fram gögn um kerfisáætlun Landsnets 2018-2027; áætlun um framkvæmdaverk nr. 18018, umhverfisskýrsla nr. 18019 ásamt viðauka 1 nr. 18020, greinargerð Landsnets nr. 18021 um mat á þjóðhagslegri uppbyggingu flutningskerfi raforku.  Einnig lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 28. júní 2018.

Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava Svanborg Steinarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

12.    Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 29. maí 2018 varðandi Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, Sundahöfn og verklýsing, breyting nr. 29 dags. maí 2018 ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 14. júní 2018. 

Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava Svanborg Steinarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

13.    Lagt fram bréf Orkustofnunar dags. 22. júní 2018 vegna umsóknar Björgunar ehf. um leyfi til leitar og rannsóknar á möl og sandi af hafsbotni á tíu svæðum í Kollafirði við Faxaflóa. Einnig lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 20. ágúst 2018.  

Fulltrúi Miðflokksins, Baldur Borgþórsson bókar:

,,Fulltrúi Miðflokksins lýsir undrun sinni á veitingu leyfis til leitar og rannsóknar á möl og sandi á hafsbotni í Kollafjarðar og Faxaflóa. Þó svæðið liggi að mestu leyti utan netalaga og er ekki á forræði borgarinnar þá er um afar takmarkaða auðlind að ræða á mjög viðkvæmu svæði. Það er með ólíkindum að einn aðili hafi aðgang að þeim auðlindum sem eru á þessu svæði og ekki hefur komið fram hvort greitt sé fyrir afnot að þeim. Það hefur verið í umræðunni að friða með öllu Faxaflóann og þar með talið Kollafjörð fyrir öllu áreiti á lífríkið þ.m.t. að banna ætti hvalveiðar á svæðinu. Tekið er undir þær hugmyndir og því telur fulltrúi Miðflokksins að vinnsla á möl og sandi af þessu svæði algjör tímaskekkja í aukinni þekkingu og vitundarvakningar á umhverfis- og auðlindamálum.“

Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava Svanborg Steinarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

14.    Lögð fram gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs í Reykjavík. 
Lögð fram til kynningar.  

Fulltrúi Vinstri grænna, Líf Magneudóttir, fulltrúar Samfylkingarinnar Kristín Soffía Jónsdóttir og Magnús Már Guðmundsson og fulltrúi Pírata Sigurborg Ósk Haraldsdóttir gera ekki athugasemd við framkomna gjaldskrá.

15.    Lagður fram listi dags. 22. ágúst 2018 yfir samþykkt tóbaks- og starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

16.    Lagður fram listi dags. 22. ágúst 2018 yfir samþykkt hundaleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

-    Kl. 10.59 að lokinni afgreiðslu málefna heilbrigðisnefndar víkur fulltrúi atvinnulífsins, Ólafur Jónsson af fundi. 

II    Umhverfismál  

2.    Lögð fram tillaga Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata:
Umhverfis- og heilbrigðisráð samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að koma með tillögur að því hvernig best er hægt að kolefnisjafna ferðir starfsfólks borgarinnar á vinnutíma jafnt innanlands sem utanlands.

Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Vinstri Grænna, Líf Magneudóttur, Samfylkingar, Kristínar Soffíu Jónsdóttur og Magnúsar Más Guðmundssonar og Pírata, Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Örn Þórðarson og Egill Þór Jónsson og fulltrúi Miðflokksins Baldur Borgþórsson bóka:

“Ekki liggur fyrir hver kostnaðurinn er við að halda bókhald yfir ferðir starfsfólks í þeim tilgangi að kolefnisjafna ferðir þeirra eða samþykki þeirra. Betra hefði farið á því að hvetja starfsfólk til umhverfisvænna ferðmáta og kolefnisjöfnunar.”

3.    Lögð fram tillaga umhverfis- og heilbrigðisráðs um skipun stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar í úrgangsmálum í Reykjavík Í janúar 2016 var samþykkt aðgerðaáætlun í úrgangsmálum í Reykjavík fyrir árin 2015-2020 sem bar heitið "Framtíð úrgangsmála í Reykjavík, aðgerðaáætlun 2015-2020". Mikilvægt er að hefjatímanlega endurskoðun og gerð nýrrar áætlunar til næstu ára. Meirihluti umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur leggur til að skipaður verði stýrihópur tveggja fulltrúa úr meirihluta og eins úr minnihluta umhverfis- og heilbrigðisráðs til að endurskoða núverandi áætlun og vinna nýja áætlun sem taki við af núverandi. Deildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar á Umhverfis- og skipulagssviði verði starfsmaður hópsins.

4.    SORPA bs., fundargerð         Mál nr. US130002

Lögð fram fundargerð SORPU bs. nr. 392 frá 4. júlí 2018. 

5.    Kollafjörður, bréf Orkustofnunar         Mál nr. US180175

Lagt fram bréf Orkustofnunar dags. 22. júní 2018  varðandi beiðin um umsögn vegna umsóknar Björgunar ehf. um leyfi til leitar og rannsókna á möl og sandi af hafsbotni á tíu svæðum í Kollafirði við Faxaflóa. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða dags. 14. ágúst 2018.

Umhverfis- og heilbrigðisráð tekur undir umsögn umhverfis- og skipulagssviðs varðandi beiðni Björgunar ehf. um leyfi til leitar og rannsóknar á möl og sandi á hafsbotni á tíu svæðum Kollafjarðar í Faxaflóa.

Fulltrúi Miðflokksins, Baldur Borgþórsson bókar:

Fulltrúi Miðflokksins lýsir undrun sinni á veitingu leyfis til leitar og rannsóknar á möl og sandi á hafsbotni í Kollafjarðar og Faxaflóa. Þó svæðið liggi að mestu leyti utan netalaga og er ekki á forræði borgarinnar þá er um afar takmarkaða auðlind að ræða á mjög viðkvæmu svæði. Það er með ólíkindum að einn aðili hafi aðgang að þeim auðlindum sem eru á þessu svæði og ekki hefur komið fram hvort greitt sé fyrir afnot að þeim. Það hefur verið í umræðunni að friða með öllu Faxaflóann og þar með talið Kollafjörð fyrir öllu áreiti á lífríkið þ.m.t. að banna ætti hvalveiðar á svæðinu. Tekið er undir þær hugmyndir og því telur fulltrúi Miðflokksins að vinnsla á möl og sandi af þessu svæði algjör tímaskekkja í aukinni þekkingu og vitundarvakningar á umhverfis- og auðlindamálum. 

Snorri Sigurðsson verkefnisstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

6.    Græna borg Evrópu,          Mál nr. US180207

Lögð fram tillaga að svari umhverfis- og skipulagssviðs dags. 14. ágúst 2018 við beiðni frá Evrópusambandinu um að Reykjavíkurborg taki þátt í tveggja ára samstarfsverkefni og vinnustofum, samstarfsneti Grænna borga Evrópu.
Samþykkt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Örn Þórðarson og Egill Þór Jónson og fulltrúi Miðflokksins, Baldur Borgþórsson bóka:

Minnihlutinn fagnar þátttöku Reykjavíkurborgar í samstarfsverkefni Evrópusambandsins um Grænar borgir Evrópu. Fyrir liggur að enginn kostnaður fellur til borgarinnar vegna þátttökunnar. 

Hrönn Hrafnsdóttir sérfræðingur tekur sæti undir þessum lið.

7.    Umhverfismat tillögu að samgönguáætlun 2019-2033, umsögn         Mál nr. US180197

Samgönguráð auglýsti í byrjun júlí umhverfismat tillögu að samgönguáætlun 2019-2033 til kynningar skv. lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Í samgönguáætlun er mörkuð  stefna fyrir allar greinar samgangna næstu fimmtán ár. Með umhverfismatinu hafa verið skilgreind helstu áhrif og aðgerðir til að dregið verði úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Í kjölfar kynningar í borgarráði var Umhverfis- og skipulagssviði og samgöngustjóra falið að undirbúa umsögn um umhverfismatið. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, samgöngur 20. ágúst 2018.

Fulltrúi Miðflokksins Baldur Borgþórsson bókar:

“Lítil áhersla er lögð á uppbyggingu vegakerfis innan borgarinnar hvort sem um er að ræða götur á ábyrgð ríkis eða borgar og enginn sjáanlegur vilji til að leggjast á árar með ríkinu að bæta úr. Unnið er markvisst að því að útrýma einkabílnum úr borgarskipulaginu og ekki er tekið tillit til tilmæla Vegagerðarinnar um uppbyggingu vegakerfis borgarinnar sem kom fram í skýrslu sem ber heitið: „Vegir á höfuðborgarsvæðinu í umsjá Vegagerðarinnar Höfuðborgarsvæðið 2040 – Sýn Vegagerðarinnar – Júní 2018.“ Lýst er yfir miklum áhyggjum að ekki er gert ráð fyrir lagningu Sundabrautar en í skýrslunni segir um Sundabraut: „Þar til sátt hefur náðst við Reykjavíkurborg um legu og útfærslu Sundabrautar mun Vesturlandsvegur um Mosfellsbæ og Kjalarnes verða fyrsti kostur Vegagerðarinnar að stofnvegi A til norðurs frá höfuðborginni. Syðsti hluti Sundabrautar gæti létt á umferðarþunga í Ártúnsbrekku.“ Á öðrum stað segir um meginstofnvegi sem mynda hringtengingu innan höfuðborgarsvæðisins: „Sú hringtenging samanstendur af Fjarðarhrauni, Hafnarfjarðarvegi, Kringlumýrarbraut sunnan Miklubrautar og Miklubraut austan Kringlumýrarbrautar.“ Stjórnendur Reykjavíkurborgar líta ekki til nýrrar tækni í umhverfismálum og hafa gamaldags sýn í samgöngumálum eins og t.d. að taka ekki inn í áætlunina sjálfkeyrandi bíla, rafmagnsbíla og aðra nýja tækni sem kemur á næstu árum.”

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Örn Þórðarson og Egill Þór Jónsson bóka:

“Á síðustu átta árum hefur umferð í borginni þyngst til mikilla muna og hefur ferðatími lengst verulega. Meira er um lausagang bifreiða vegna tafa í umferð, en bifreiðar geta mengað meira við þær aðstæður. Þá hefur hlutfall almenningssamgangna haldist óbreytt þrátt fyrir skýr markmið um að hún tvöfaldist a.m.k. á tíu árum. Milljörðum hefur verið varið af vegafé til að tryggja að svo verði, en þrátt fyrir þessar árangurstengdu greiðslur hefur hlutfallið ekkert aukist. Það er því morgunljóst af framansögðu að framkvæmd stefnu Reykjavíkurborgar hefur ekki gengið upp. Þrátt fyrir fögur fyrirheit og skýr mælanleg markmið hefur umferð versnað með tilheyrandi neikvæðum umhverfisáhrifum að ótöldum vandamálum vegna tafatíma í umferð. Svifryksmengun er enn ítrekað yfir heilsufarsmörkum og dagsgildi NO2 geta verið mjög há. Mikilvægt er að samningi um framkvæmdastopp sem gerður var milli borgarinnar og ríkisins árið 2012 verði sagt upp, enda eru forsendur hans brostnar.”

8.    Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, grassláttur         Mál nr. US180223

Lögð fram fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins  Arnars Þórðarsonar og Egils Þórs Jónssonar: 

Kvartanir hafa borist frá borgarbúum um að grasslætti hafi víða verið ábótavant í sumar. Óskað er upplýsinga um hvenær sláttur hófst í ár, hversu oft var slegið og hvaða svæði í borgarlandinu hafi ekki verið sleginn og hver sé ástæða þess.

Frestað.

Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 11:45

Fundargerðin lesin yfir og undirrituð 

Líf Magneudóttir

Kristín Soffía Jónsdóttir    Magnús Már Guðmundsson 
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir    Egill Þór Jónsson
Örn Þórðarson    Baldur Borgþórsson

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

3 + 10 =