Fundur nr. 140 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 140

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2018, 13. júní, var haldinn 140. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Dalskóla, Úlfarsbraut 118-120 í Reykjavík kl. 10:07. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Kjartan Magnússon (D) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Jóna Björg Sætran (B); Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva, Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum, Kristín Lára Torfadóttir, Reykjavíkurráð ungmenna og Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, staðgengill sviðsstjóra, Anna Garðarsdóttir, Elísabet Helga Pálmadóttir, Guðmundur G. Guðbjörnsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Sigrún Sveinbjörnsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

Anna Metta Norðdahl og Sigríður Björk Einarsdóttir eru boðnar velkomnar á sinn fyrsta fund í skóla- og frístundaráði.

1.    Heimsókn í Dalskóla. SFS2018060204

Hildur Jóhannesdóttir, skólastjóri Dalskóla, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

-    Kl. 10:30 tekur Þórlaug Ágústsdóttir sæti á fundinum.

-    Kl. 10:45 víkur Eva Einarsdóttir af fundinum.

-    Kl. 10:50 taka Marta Guðjónsdóttir og Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum.

Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráð þakkar starfsmönnum og nemendum Dalskóla fyrir höfðinglegar móttökur og góða kynningu á starfi skólans. Greinilegt er að unnið er af krafti og metnaði í þessum yngsta skóla Reykjavíkur og að skólastjórinn nýtur víðtæks trausts og stuðnings meðal íbúa hverfisins. Ánægjulegt er hversu vel hefur tekist að samþætta starfsemi leikskóla, grunnskóla og frístundastarfsemi í Dalskóla. Ljóst er að gagnkvæmur ávinningur felst í því fyrir nemendur að nýta fagþekkingu á einu skóla- eða frístundastigi á öðru. Nemendur hafa einnig hag af því að kennarar í leik- og grunnskóla séu þannig kunnugir viðfangsefnum, starfsháttum og vinnuskipulagi hvert annars.

2.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. júní 2018, um hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs vegna skólaársins 2017-2018. SFS2018010029

3.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. júní 2018, um ráðningu í stöðu framkvæmdastjóra frístundamiðstöðvarinnar Ársels. SFS2018060178 

Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum framkvæmdastjóra frístundamiðstöðvarinnar Ársels Árna Jónssyni til hamingju með starfið og óskar honum velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi framkvæmdastjóra Jóhannesi Guðlaugssyni fyrir vel unnin störf.

4.    Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr. janúar til mars 2018. SFS2018060175

5.    Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs janúar til mars 2018. SFS2018060173

6.    Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. júní 2018, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 138. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi ferð til Kanada. SFS2018050017 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Vegna framlagðs lögfræðiálits skal tekið fram að umrædd ferðaheimild borgarfulltrúa Samfylkingarinnar var samþykkt af skrifstofustjóra borgarstjórnar 2. mars 2018 og var ferðin farin 13. – 20. apríl. Umrædd ferð var kynnt skóla- og frístundaráði 23. maí, eftir að formleg fyrirspurn hafði verið lögð fram um málið á fundi skóla- og frístundaráðs. Það er ófrávíkjanleg regla að þegar skylt er samkvæmt reglum að upplýsa ráð um ákveðnar ákvarðanir, skuli það gert svo fljótt sem auðið er. Ekki er hægt að fallast á þá túlkun, sem kemur fram í framlögðu áliti, að embættismenn á sviðinu eða formaður ráðsins hafi heimild til að draga það mánuðum saman að kynna slíkar ákvarðanir fyrir ráðinu eins og gert var í þessu tilviki. Ef vafi leikur á um túlkun þessa atriðis er rétt að leita álits borgarlögmanns á því. 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Alþjóðlega menntaráðstefnan uLead í Banff í Kanada þykir vera í fremstu röð á Vesturlöndum varðandi stefnumótun og forystu í menntamálum. Formanni skóla- og frístundaráðs og stýrihóps um mótun menntastefnu var boðið að flytja erindi á ráðstefnunni 16-18. apríl um mótun menntastefnu Reykjavíkurborgar og taka þátt í málstofu um menntamál á Íslandi. Meirihlutinn bendir á að það kemur skýrt fram í svarinu að kynning fór fram á umræddri ferð á fundi skóla- og frístundaráðs 23. maí 2018 eins og kveðið er á um í reglum um ferðaheimildir og greiðslu ferðakostnaðar. Það kemur fram í umsögn yfirlögfræðings skóla- og frístundasviðs sem birt er í svarinu að ekki er kveðið á um í reglunum að kynning skuli fara fram áður en ferð er farin en sjálfsagt er að skerpa á reglunum og beitingu þeirra hvað það varðar.

7.    Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. júní 2018, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 138. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi meðalaldur barna við innritun í leikskóla og uppsagnir starfsmanna leikskóla. SFS2018030116 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ljóst er að staða starfsmannamála í leikskólum borgarinnar er óljós þar sem ekki er hægt að segja til um fjölda starfsmanna sem hafa sagt upp störfum á síðustu mánuðum. Vegna mikillar starfsmannaveltu og manneklu er mikilvægt að slíkar upplýsingar liggi fyrir svo hægt verði að bregðast við og gera ráðstafanir til að manna leikskólana svo hægt verði að taka á móti þeim börnum, sem hefur verið lofað leikskólarými í haust.

8.    Barnamenningarhátíð í Reykjavík 2018.

Harpa Rut Hilmarsdóttir, verkefnastjóri barnamenningar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

-    Kl. 11:45 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum.

9.    Lagt fram minnisblað borgarlögmanns, dags. 30. maí 2018, um álit borgarlögmanns á því hvort samningur skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar við RÚV væri í samræmi við innkaupareglur Reykjavíkurborgar. SFS2018050161 

Harpa Rut Hilmarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

10.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. júní 2018, um nemendaverðlaun skóla- og frístundaráðs 2018. SFS2018060172

11.    Lagðar fram til kynningar upplýsingar varðandi ráðningu í stöðu skólastjóra við Réttarholtsskóla:

a)    Greinargerð skóla- og frístundasviðs, dags. 31. maí 2018, vegna ráðningar í stöðu skólastjóra við Réttarholtsskóla, trúnaðarmál.
b)    Yfirlit yfir umsækjendur um stöðu skólastjóra við Réttarholtsskóla, trúnaðarmál.
c)    Auglýsing um stöðu skólastjóra við Réttarholtsskóla.
d)    Viðmið vegna ráðninga skólastjóra leikskóla og grunnskóla í Reykjavík.

Sjö umsóknir bárust um stöðuna og er ákvörðun sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að ráða Margréti Sigfúsdóttir skólastjóra við Réttarholtsskóla frá og með 1. ágúst 2018. SFS2018060150

Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum skólastjóra Réttarholtsskóla Margréti Sigfúsdóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi skólastjóra Jóni Pétri Zimsen fyrir vel unnin störf.

12.    Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. júní 2018, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 136. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi aðstöðumál frístundaheimilisins Neðstalands við Fossvogsskóla. SFS2018040047 

13.    Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. júní 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina frá 139. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi auglýsingabækling Tjarnarskóla. SFS2018050197 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins þakkar fyrir framlagt svar vegna kynningarbæklings Tjarnarskóla. Sjálfsagt er að sjálfstætt reknir skólar kynni starfsemi sína með þessum hætti í því skyni að fjölga nemendum og styrkja þannig grundvöll og starfsemi skólans. Frá árinu 1985 hefur Tjarnarskóli staðið fyrir öflugu og metnaðarfullu skólastarfi. Hefur skólinn margsannað gildi sitt sem ákjósanlegur valkostur og þannig stuðlað að fjölbreytileika í reykvísku skólastarfi. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins vill nota þetta tækifæri til að þakka aðstandendum Tjarnarskóla fyrir ómetanlegt framlag í þágu skólamála í Reykjavík í aldarþriðjung. 

14.    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

Nýbygging Dalskóla er byggð þétt upp við spennistöð, sem hefur óæskileg áhrif á birtuskilyrði í skólanum auk þess sem foreldrar og starfsmenn skólans hafa áhyggjur af hugsanlegri hættu vegna rafsviðs stöðvarinnar. Skóla- og frístundaráð skorar á borgarráð að beita sér fyrir því að umrædd spennistöð verði flutt í viðunandi fjarlægð frá skólabyggingunni. 

Frestað. SFS2018060205

Fundi slitið kl. 12:17

Skúli Helgason

Kjartan Magnússon    Sabine Leskopf
Þórlaug Ágústsdóttir

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 3 =