Fundur nr. 137

Hverfisráð Grafarvogs

Ár 2017, þriðjudaginn 14. mars var haldinn 137. fundur hverfisráðs Grafarvogs. Fundurinn var haldinn í Miðgarði, þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness og hófst fundurinn kl. 17.00. Viðstödd voru Sigurður Hólm Gunnarsson, formaður, Gísli Rafn Guðmundsson, Guðbrandur Guðmundsson, Ólafur Kr. Guðmundsson, Björn Jón Bragason. Einnig sátu fundinn Trausti Harðarson áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, Jóhannes Óli Garðarson, áheyrnarfulltrúi Korpúlfa, Stefán Garðarsson áheyrnarfulltrúi íbúasamtaka Bryggjuhverfis, Ingibjörg Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Miðgarðs og Þorvaldur Guðjónsson, verkefnastjóri félagsauðs og frístunda í Miðgarði, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um tillögur að breytingu strætóleiða 6 og 31.

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Í dag eru Grafarvogsbúar nokkuð ánægðir/sáttir við strætisvagnaleiðir sem boðið er upp á fyrir hverfið. Leið 6 nýtist vel fyrir Staðarhverfi, Engjahverfi, Víkurhverfi, Borgarhverfi, Rimahverfi og Bryggjuhverfi við að koma börnum og unglingum til og frá íþróttamannvirkjum og er einnig tenging allra strætisvagnanotenda í Grafarvogi við miðborgina. Á sama tíma leysir leið 31 þörf Hamrahverfis, Foldahverfis og Húsahverfis við íþróttamannvirki Egilshallar, sundlaugar og íþróttahús Dalhúsar og Frístundasvæði Gufunesbæjar. Má segja að nokkuð góð sátt sé með núverandi strætisvagnaleiðir í hverfinu. Fyrirhuguð stytting á leið 6 með því að hafa endastöð í Spöng og leið 6 aki ekki í Staðarhverfi mun vera hrikalegt fyrir íbúa Staðarhverfis hvað tengingu við miðbæinn og íþróttamannvirki hverfisins varðar. Fyrirhuguð lenging á leið 31 út úr Grafarvogi yfir í Mosfellsbæ og fækkun ferða úr 15 mínútna fresti í 30 mínútna fresti mun setja alla dagskrá í uppnám hjá barnafjölskyldum þeirra hverfishluta þ.e. koma ílla í veg fyrir að börn og unglingar geti sjálfir komið sér milli skóla og íþróttamannvirkja. Grafarvogsbúar gætu sætt sig við að leið 6 myndi hafa endastöð í Staðarhverfi í stað þeirra tillögu að hafa endastöð í Spöng. Mjög erfitt getur reynst fyrir Grafarvogsbúa að sætt sig við að leið 31 verði breytt og er það algjörlega nauðsynlegt að leið þessi aki áfram á 15 mín fresti. Á sumartíma er þörf á að leið 31 byrji akstur aftur eftir morgunferðir þ.e. kl 11.30 í stað 12.42 en einmitt á sumrin eru börn og unglingar að sækja morgun-og eftir hádegisnámskeið íþrótta og frístundastarfs. Á vetratíma er þörf á að leið 31 aki til kl 21.00 til að þjónusta sama hóp á vetraræfingum.

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Nauðsynlegt er að minna stjórnendur Strætó og þá sömuleiðis borgarfulltrúa á að Grafarvogur er barnstærsta hverfi borgarinnar með um 20% allra barna og unglinga Reykjavíkur. Íbúafjöldinn er rétt undir 20 þúsund og fer vaxandi. Enginn frístundastrætó er í hverfinu en núverandi leið 6 og leið 31 hafa nokkuð vel leyst þá þörf. Leið 31 er vinsæl og var meðal annars sett upp til að tengja saman sameinað unglingastig grunnskóla hverfisins. Þá hefur aukning farþega á leið 31 verið um 35% á milli ára sem rökstyður hversu vel hefur tekist til með útfærslu á leiðinni. Þetta barnstærsta hverfi Reykjavíkurborgar verður að fá að halda leið 31 að fullu innan hverfisins eingöngu og leið 6 verður að ná til íbúa Staðarhverfis þannig að þessar tvær leiðir þjóni öllum Grafarvogsbúum eins vel og þær gera í dag, annað er mikil afturför í þjónustu við íbúana.

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu:

Hverfisráð Grafarvogs leggur til að Strætó verði við breytingartillögu ráðsins sem hér er lögð fram á leiðum 6 og 31.
1. Að leið 6 hafi endastöð í Staðarhverfi.
2. Að leið 31 verið áfram eins og hún er í dag þ.e. eingöngu í Grafarvogi.
3. Að búin verði til ný leið sem aki frá Mosfellsbæ til Grafarvogs og útfærð á þann hátt sem íbúar Mosfellsbæjar óska eftir þannig að engin breyting verði á leið 6 og leið 31 er snertir Grafarvogsbúa.
Til viðbótar óskar hverfisráð að leið 31 byrji sumartíma akstur þá aftur eftir morgunferðir þ.e.  kl 11.30 í stað 12.42 en einmitt á sumrin eru börn og unglingar að sækja morgun-og eftirhádegisnámskeið íþrótta og frístundastarfs og á vetratíma aki leið 31 til kl 21.00 til að þjónusta sama hóp á vetraræfingum og tómstundum.
Hverfisráð óskar eftir því að tillaga þessi, öll göng og bókanir við dagskráliðnum um leið 6 og leið 31 verði sendar til stjórnar Stærtó og borgarráðs til að ítreka hversu mikilvægt málið er Grafarvogsbúum.
Samþykkt.

Hverfisráð Grafarvogs leggur fram svohljóðandi bókun:

Hverfisráð Grafarvogs tekur undir báðar bókanir auk tillögu áheyrnarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina er varðar breytingar á leiðakerfi Strætó. Hverfisráð vill ennfremur vekja athygli á sérstöðu hverfisins varðandi stærð þess og íþróttamannvirki en landfræðileg stærð hverfisins veldur því að of dýrt hefur þótt að starfrækja frístundastrætó fyrir börn í íþróttum innan hverfisins. Því hafa strætisvagnar hverfisins gegnt mikilvægu hlutverki fyrir börn í íþróttum í hverfinu. Ennfremur er það sérstaða hverfisins hversu langt er fyrir börn að sækja íþróttir miðað við önnur hverfi og því skiptir góð þjónusta Strætó mjög miklu máli í því samhengi.

2. Fram fer kynning á fyrirkomulagi verkefnisins Hverfið mitt 2017 frá verkefnastjóra félagsauðs og frístunda í Miðgarði.

3. Lögð fram útskrift úr gerðarbók umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. mars 2017 varðandi fegrunarviðurkenningar

4. Lögð fram útskrift úr  gerðarbók umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. febrúar 2017 varðandi grjótnám í Geldinganesi.

Hverfisráð Grafarvogs leggur fram svohljóðandi bókun:

Hverfisráð Grafarvogs hefur móttekið svar USK um grjótnám í Geldinganesi. Hverfisráð telur mikilvægt að ef grjótnám verður leyft verði forsenda þess að búið verði að skipuleggja framtíðarnotkun nessins að grjótnámi loknu.

5. Fram fer umræða um samstarf hverfisráða og öldungaráðs Reykjavíkur.

Hverfisráð Grafarvogs leggur fram svohljóðandi bókun:

Hverfisráð Grafarvogs tekur heilshugar undir óskir Öldungaráðs Reykjavíkurborgara um aðkomu að hverfisráðum. Hverfisráðið vill jafnframt benda á að Korpúlfar, félag eldri borgara í Grafarvogi hafa haft áheyrnarfulltrúa í hverfisráði Grafarvogs í langan tíma og hann sinnir þessu hlutverki vel.


6. Lögð fram útskrift úr gerðarbók umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. febrúar 2017 varðandi Bryggjuhverfi vestur, svæði 4.

7. Lagt fram svar frá íþrótta- og tómstundaráðs dags. 20. febrúar 2017 varðandi fyrirspurn um byggingu íþróttahúss.

Fundi slitið kl. 17.55


Sigurður Hólm Gunnarsson

Guðbrandur Guðmundsson Gísli Rafn Guðmundsson
Ólafur Kr. Guðmundsson Björn Jón Bragason

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

6 + 3 =