Fundur nr. 134 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 134

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2018, 28. febrúar, var haldinn 134. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík, kl. 11.03. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Kjartan Magnússon (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Þórlaug Ágústsdóttir (Þ). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Jóna Björg Sætran (B); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Kristín Lára Torfadóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.


Þetta gerðist:

1.    Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur fram svohljóðandi tillögu, dags. 26. febrúar 2018, auk þess lögð fram skýrsla starfshóps um skipulag úrræða vegna stuðnings við nemendur á grunnskólaaldri með fjölþættan vanda, dags. í janúar 2018; minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. febrúar 2018, um umsagnir vegna tillagna starfshóps um skipulag úrræða vegna stuðnings við nemendur á grunnskólaaldri með fjölþættan vanda; umsögn Félags skólastjórnenda í Reykjavík, dags. 31. janúar 2018; umsögn stjórnar Kennarafélags Reykjavíkur, ódags; umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 29. janúar 2018; umsögn framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva, ódags og tölvubréf velferðarsviðs með bókun velferðarráðs, dags. 11. febrúar 2018:

Lagt er til að starfrækt verði tvö farteymi og tvö skólasel vegna nemenda með alvarlegan fjölþættan vanda í grunnskólum borgarinnar frá og með 1. ágúst 2018. Hvort farteymi og skólasel myndar samhæfða starfseiningu og hefur sameiginlega starfsstöð. Teymin hafi það hlutverk að starfa innan skólanna, vinna með nemandanum, aðstoða og handleiða kennara og starfsfólk. Áhersla er á vinnu með mál nemenda í daglegum bekkjaraðstæðum en í undantekningartilvikum geti vinna með nemanda farið fram utan skólastofunnar/skólans í nærumhverfi nemandans eða í skólaseli.

Greinargerð fylgir. SFS2017090263

-    Kl. 11.50 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum og Elísabet Gísladóttir tekur þar sæti.

Samþykkt og vísað til borgarráðs.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata fagna því að starfrækt verða tvö farteymi og tvö skólasel frá og með 1. ágúst næstkomandi til að koma til móts við nemendur á grunnskólaaldri með fjölþættan vanda, alvarlegan hegðunarvanda eða geðraskanir. Vinna undanfarinna missera hefur leitt í ljós mikla þörf fyrir ný og bætt úrræði fyrir þennan hóp nemenda. Tillagan sem samþykkt var í dag er hluti af viðbrögðum borgarinnar við ábendingum grunnskólakennara í vinnu um bætt starfsumhverfi þeirra þar sem óskað var eftir nýjum úrræðum í skólaumhverfinu til að mæta þörfum barna með fjölþættan vanda. Úrræðið byggir á því að bjóða snemmtæka íhlutun, þverfaglegan og samræmdan stuðning og samstarf við kennara og viðkomandi starfsfólk beint inn á vettvang skóla- og frístundastarfs frekar en að leggja áherslu á utanaðkomandi ráðgjöf eða taka barnið úr sínum heimaskóla. Unnið verður í daglegu bekkjarstarfi en í undantekningartilvikum getur verið um tímabundið inngrip að ræða sem fari fram utan skólans, í nærumhverfi nemandans eða í skólaselum. Gert er ráð fyrir öflugu samstarfi milli foreldra, sérfræðiteymis og skólans sem byggir samt ofan á reynslu sem nú þegar er til staðar eins og í Brúarskóla og skólaþjónustunni. 

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina fagnar stofnun tveggja átta manna farteyma sérvaldra sérfræðinga til að veita aðstoð og handleiðslu í skólum borgarinnar varðandi nemendur með alvarlegan fjölþættan vanda, oft á tíðum tengdum miklum hegðunar- og samskiptavanda. Samhliða virkjun farteymanna verður einu skólaseli bætt við það eina sem fyrir er. Hér er um að ræða nýung þar sem leitast er við að virkja mannauð skólanna enn frekar og einstaklingar í þverfaglegu farteymunum vinna þá náið með kennurum og starfsfólki skólanna og með samhæfðum kröftum sinna þá nemendum í alvarlegum vanda í allt að 6 – 8 vikur og hafa þá möguleika á að vinna sérstaklega með 3 – 4 nemendur í skólaseli. Faglegu farteymin geta sinnt nokkrum skólum samhliða og nýting sérhæfingu starfsmanna teymanna nýtist þannig sem best þegar þeir dreifast eftir eðli vanda nemenda á milli skóla. Brýnt er að farteymin taki til starfa nú á vorönn 2018. Áríðandi er að samhliða því verði tryggt aukið aðgengi að starfsstöð í anda Brúarskóla þegar vandi nemenda er alvarlegri en svo að sýnt er að skólasel henti þeim.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja fyrirliggjandi tillögu þar sem hún felur í sér aukinn stuðning við grunnskólanemendur sem glíma við fjölþættan vanda. Flest bendir þó til að sá stuðningur muni hvergi nærri duga eins og komið hefur fram í umræðum hér á fundinum sem og í umsögnum um tillöguna. Í umsögn Félags skólastjórnenda í Reykjavík segir að umræddar tillögur nái ekki að koma til móts við þann hóp grunnskólanemenda sem er í mestum vanda. Í umsögn stjórnar Kennarafélags Reykjavíkur segir að farteymi séu ekki góð leið til að vinna með nemendur í miklum vanda. Vandamálin verði ekki leyst með ráðgjöf og handleiðslu til kennara, heldur með markvissri vinnu með nemendum, oft þar sem þeir eru teknir úr aðstæðum. Einnig þurfi að ,,hvíla bekki“, sem í langan tíma hafi tekist á við mikla erfiðleika nokkurra nemenda. Frístundaheimili gegna afar mikilvægu hlutverki í skóla- og frístundastarfi og því skal tekið undir álit framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva, sem harma að fulltrúi þeirra hafi ekki átt sæti í umræddum starfshópi. Þá gagnrýnir velferðarsvið að lítil áhersla sé á samþættingu og þverfaglega samvinnu ólíkra aðila, annarra en innan sjálfs grunnskólans. Lítil áhersla sé á að nýta, virkja og endurskipuleggja þá þjónustu og úrræði sem fyrir eru. Verkaskipting sé óljós og hætta á tvíverknaði sem og lengri úrvinnslutíma. Athugasemd er og gerð við óljóst orðalag í tillögunni. Skólasel hefur verið starfrækt í Breiðholti frá árinu 2008 og felur tillagan því einungis í sér stofnun annars skólasels sem ætlað er að sinna vesturhluta borgarinnar. Þá felur tillagan í sér stofnun tveggja svokallaðra farteyma en á móti kemur að fardeild í Grafarvogi verður lögð niður.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi foreldra fagnar að nú sé komin tillaga að aðgerðum og skipulagi úrræða vegna stuðnings við nemendur á grunnskólaaldri og vonast til að farteymin og skólaselin muni gagnast vel þeim grunnskólabörnum og fjölskyldum sem eiga við mestan vanda að stríða. Áheyrnarfulltrúi harmar að ekki hafi verið leitað eftir umsögn samtaka foreldra grunnskólabarna, á sama hátt og skólastjórnenda, kennara og framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva og bendir á mikilvægi þess að leita eftir áliti þeirra sem eiga að njóta þjónustunnar, foreldra og barna, að þeim sé veitt aðkoma að þegar unnið er að úrbótum á þjónustu sem þá varðar.

Hrund Logadóttir og Helgi H. Viborg taka sæti á fundinum undir þessum lið.

2.    Niðurstöður Heilbrigðiseftirlits vegna starfseininga skóla- og frístundasviðs 2017. SFS2018020109

Rósa Magnúsdóttir, Helgi Guðjónsson, Berglind Ósk Þ. Þórólfsdóttir, Daníel Benediktsson, Agnar Guðlaugsson og Jón Valgeir Björnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

-    Kl. 12.55 víkur Rósa Ingvarsdóttir af fundinum.

3.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. febrúar 2018, varðandi tillögu að skóladagatali grunnskóla skólaárið 2019-2020 auk skóladagatals fyrir skólaárið. Skólaárið 2019-2020 er gert ráð fyrir að skólastarf hefjist 22. ágúst 2019 og að skólar taki vetrarleyfi 24., 25. og 28. október 2019 og 28. febrúar og 2. mars 2020. Lagt er til að umhverfisdagar verði 16. september 2019 og 25. apríl 2020. Skólaslit verði 5. júní 2020. SFS2018020107
Samþykkt.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi foreldra fagnar því að nú séu ávallt lögð fram til samþykktar skóladagatöl tvö ár fram í tímann og þannig komið á móts við m.a. óskir foreldra. 

4.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. febrúar 2018, varðandi leyfi til dagforeldra í Reykjavík árið 2017. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. febrúar 2017, um ný leyfi til daggæslu í Reykjavík 2017. SFS2018020111

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Enn fækkar dagforeldrum í Reykjavík. Á árunum 2011-2017 fækkaði dagforeldrum í Reykjavík um 34% eða úr 204 í 135. Á sama tímabili fækkaði börnum hjá dagforeldrum um 29% eða úr 781 í 551. Þessi óæskilega þróun er bein afleiðing af fjandsamlegri stefnu meirihluta borgarstjórnar gagnvart starfsemi dagforeldra á umræddu tímabili undir forystu Samfylkingarinnar. Á sama tíma hefur dagforeldrum fjölgað í ýmsum öðrum sveitarfélögum enda njóta þeir mun betri kjara þar en hjá Reykjavíkurborg. Sem fyrr leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að efla dagforeldrakerfið í Reykjavík og vill tryggja að það verði ákjósanlegur valkostur fyrir daggæslu barna í öllum hverfum borgarinnar. Enn og aftur skal minnt á tillögu Sjálfstæðisflokksins frá 4. apríl 2017 um leiðréttingu á niðurgreiðslum til dagforeldra. Tillagan hefur ekki enn verið afgreidd en meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna hefur hins vegar sýnt mikla hugmyndaauðgi við að vísa henni fram og til baka í nefndakerfi borgarinnar án nokkurrar niðurstöðu í ellefu mánuði.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Auglýst hefur verið eftir nýjum dagforeldrum samhliða vinnu starfshóps um endurskoðun og úrbætur á dagforeldrakerfinu þar sem markmiðið er að auka gæði og öryggi þjónustunnar. Í skoðun er m.a. að bjóða nýjum og eldri dagforeldrum húsnæðisaðstöðu á lóðum gæsluvalla í borginni sem lið í að hvetja dagforeldra til að starfa saman sem tvíeyki. Hækkun á niðurgreiðslum vegna barna hjá dagforeldrum er sömuleiðis til skoðunar í starfshópnum. Mikilvægt er að fjölga dagforeldrum með slíkum hvetjandi aðgerðum, sem valkosti fyrir foreldra ungra barna.

5.    Lagt fram bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 1. febrúar 2018, varðandi eftirfylgni með úttekt á leikskólanum Hömrum, máli lokið. SFS2017060162

6.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. febrúar 2018, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði, 21. febrúar 2018. SFS2017020191

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Vel hefur gengið að fylla lausar stöður í leikskólum og frístundaheimilum undanfarinn mánuð. Nú vantar að ráða í 21 stöðugildi í leikskólum í stað 28 fyrir mánuði og eru nú nærri 8 af hverjum 10 leikskólum fullmannaðir. 12% til viðbótar vantar í mesta lagi 1 starfsmann. Mikill árangur hefur náðst í að leysa mönnunarvanda frístundarinnar þar sem nú vantar innan við 10 stöðugildi í stað 27 fyrir mánuði. Í 93% starfsstöðva frístundar er annað hvort fullmannað eða vantar að fylla að hámarki hálft stöðugildi. Þetta er mikilvægur árangur sem ber að þakka öflugu starfi stjórnenda, starfsfólks og mannauðsdeildar skóla- og frístundasviðs auk þeirra aðgerða sem skóla- og frístundaráð samþykkti síðastliðið haust.

7.    Lögð fram tíma- og verkáætlun A-hluta vegna undirbúnings og afgreiðslu fjárhagsáætlunar og fimm ára áætlunar 2019-2023, dags. 26. janúar 2018, frá fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Jafnframt lagðar fram reglur um gerð og framkvæmd fjárhagsáætlunar hjá Reykjavíkurborg. SFS2018020112

8.    Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. febrúar 2018, við fyrirspurnum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 2. lið fundargerðar 107. fundar skóla- og frístundaráðs og 23. lið fundargerðar 124. fundar skóla- og frístundaráðs, varðandi beiðni um upplýsingar um tillögur til að ráða bót á manneklu og afdrifum þessara tillagna. SFS2016100083

-    Kl. 13.25 víkja Elísabet Gísladóttir og Magnús Þór Jónsson af fundinum.

9.    Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 15. febrúar 2018, þar sem skýrslu starfshóps um skipulags- og uppbyggingarmál á íþróttasvæði Þróttar og Ármanns á Þróttarsvæðinu í Laugardal er vísað til kynningar í skóla- og frístundaráði. Jafnframt lögð fram skýrsla starfshóps um skipulags- og uppbyggingarmál á íþróttasvæði Þróttar og Ármanns á Þróttarsvæðinu í Laugardal, dags. 5. febrúar 2018. SFS2018020063

Ómar Einarsson og Daníel Benediktsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

10.    Lagt fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 16. janúar 2018, varðandi innleiðingu grunnskóla í kjölfar álits Persónuverndar í Mentor máli og nýrra persónuverndarlaga og minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. febrúar 2018, um aðgerðir til að uppfylla skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga í tengslum við álit Persónuverndar nr. 2015/1203. SFS2018020026 

11.    Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. febrúar 2018, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 15. lið fundargerðar 125. fundar skóla- og frístundaráðs, um talþjálfun. SFS2017090342

Hrund Logadóttir og Hanna Halldóra Leifsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

12.    Innleiðing nýrrar persónuverndarlöggjafar í Reykjavíkurborg: Verkefnið framundan. Lagt fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ódags. og Hvað þýða nýjar persónuverndarreglur fyrir sveitarfélögin? leiðbeiningar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. í nóvember 2017. SFS2018020026 

Sonja Wiium og Dagbjört Hákonardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina ítrekar mikilvægi þess að persónuverndar sé gætt við skráningu upplýsinga um hagi nemenda. Æskilegt er að stjórnendur grunnskóla ítreki við kennara og annað starfsfólk skólanna í byrjun skólaárs með hvaða hætti ber að skrá upplýsingar um nemendur í mentor.is og önnur sambærileg samskipta- og skráningarkerfi. Einnig ber að ítreka hvers konar upplýsingar má skrá sem persónugreinanlegar. Þetta er nauðsynlegt þar sem alltaf er nokkuð um starfsmannaveltu kennara, leiðbeinenda og annars starfsfólks að ræða við upphaf skólaárs.

-    Kl. 15.00 víkja Kristján Gunnarsson, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristín Lára Torfadóttir og Guðrún Edda Bentsdóttir af fundinum.

Fundi slitið kl. 15:07

Skúli Helgason
Eva Einarsdóttir    Hermann Valsson
Kjartan Magnússon    Sabine Leskopf
Þórlaug Ágústsdóttir     

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 10 =