Fundur nr. 133 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 133


SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2018, 14. febrúar, var haldinn 133. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík, kl. 10.03. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Halldór Auðar Svansson (Þ) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Jóna Björg Sætran (B); Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Pétur Zimsen, skólastjórar í grunnskólum; Kristín Ólafsdóttir, foreldrar barna í leikskólum og Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Elísabet Helga Pálmadóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, Jóhanna H. Marteinsdóttir, Kristján Gunnarsson, Sigrún Sveinbjörnsdóttir, Soffía Vagnsdóttir og Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

Soffía Vagnsdóttir er boðin velkomin á sinn fyrsta fund í skóla- og frístundaráði.

1.    Lagðar fram skýrslurnar Austurbæjarskóli - ytra mat, dags. í september 2017; ytra mat í frístundastarfi, félagsmiðstöðin 100og1, dags. í nóvember 2017; ytra mat í frístundastarfi, frístundaheimilið Draumaland, dags. í nóvember 2017 og ytra mat í frístundastarfi, frístundaheimilið Frostheimar, dags. í maí 2017. SFS2015060052

Sigrún Harpa Magnúsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

-    Kl. 10.10 taka Örn Þórðarson og Birgitta Bára Hassenstein sæti á fundinum.
-    Kl. 10.30 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
-    Kl. 10.37 tekur Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir sæti á fundinum. 

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina telur mikilvægt að niðurstöður ytra mats skóla- og frístundasviðs á starfsemi leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva séu aðgengilegar foreldrum á hverjum stað. Skóla- og frístundasvið þarf að leggja áherslu á að veita nauðsynlegan jákvæðan stuðning í góðu samstarfi við stjórnendur og starfsfólk til að nýta mannauð starfstaðanna til að gera gott starf enn betra. Brýnt er að nýta sem ábyggilegustu mögulegar upplýsingar til að skoða námsárangur nemenda hverju sinni. Hvað varðar vinnu að nauðsynlegum umbótum þarf að treysta viðkomandi stjórnendum til að leiða þá faglegu vinnu í góðri, gefandi og gagnrýnni samvinnu við allt starfsfólk starfstaðarins ásamt fulltrúum nemenda og foreldra. Vafalítið má efla samstarf milli skólakjarna innan hverfis og jafnvel milli hverfa þegar um sambærileg umbótaverkefni er að ræða og má þar m.a. nefna aðlögun og aðgengi fjölbreyttra námsgagna fyrir nemendur með takmarkaðan orða- og lesskilning.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum þakkar fyrir góða kynningu um ytra mat í skóla- og frístundastarfi. Áheyrnarfulltrúi vill ítreka fyrri bókanir um gagnsemi ytra mats og að þær nýtist til að efla skólasamfélagið. Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum vill ítreka mikilvægi þess að skólaráðsfulltrúar hvers skóla fái ávallt boð um að taka þátt í kynningu úttektaraðila á niðurstöðum matsins ásamt starfsfólki skólans, auk fulltrúa lögbundins foreldrafélags og nemendafélags. Mikilvægt er að stuðla að góðri kynningu þessara mikilvægu úttekta til að efla samstarf og samábyrgð allra aðila innan skólasamfélagsins um skólastarfið. 


2.    Lögð fram viðhorfskönnun meðal þátttakenda í Skrekk 2017 og greinargerð um niðurstöður könnunar til skólastjóra í grunnskólum Reykjavíkur um þátttöku unglingastigs í hæfileikakeppninni Skrekkur haustið 2017. SFS2018010002

Harpa Rut Hilmarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. febrúar 2018:

Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að rekstur tungumálavers skóla- og frístundasviðs verði sameinaður Miðju máls og læsis (MML). Tungumálaverið er nú rekið sem sjálfstæð starfseining með aðstöðu í Laugalækjarskóla. Við þetta breikkar hlutverk MML og fagleg samlegð eykst. Starfsemin felist þá í ráðgjöf við læsi og málþroska í skóla- og frístundastarfi, þjónustu brúarsmiða en að auki kennslu og kennsluráðgjöf í norsku, sænsku og pólsku vegna grunnskóla Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga í norsku og sænsku í stað- og fjarnámi. MML verði í samstarfi við Pólska skólann og samtökin Móðurmál vegna móðumálskennslu. Jafnframt er lagt til að sett verði ný gjaldskrá fyrir kennslu og kennsluráðgjöf í norsku og sænsku vegna nemenda á vegum annarra sveitarfélaga og sjálfstætt starfandi skóla sem felst í að þessir aðilar greiði hærra hlutfall af núverandi raunkostnaði við þeirra nemendur. Breytingin taki gildi 1. ágúst 2018. 

Greinargerð fylgir. SFS2018010124
Samþykkt með 4 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Pírata.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Vísað til borgarráðs.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartar framtíðar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar meirihlutans í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar fagna sameiningu Tungumálavers og Miðju máls og læsis (MML). Bæði Fjölmenningarstefna SFS „Heimurinn er hér“ og skýrsla starfshópsins um móðurmálskennslu undirstrika að aukinn stuðningur við móðurmál barna af erlendum uppruna styður við læsi og málþroska þeirra í heild sinni. Að færa Tungumálaverið inn í MML þýðir að starfsemi beggja stofnana eflist til muna. Gífurlegur ávinningur er af reynslu sem er til staðar í Tungumálaverinu og MML verður þar regnhlíf yfir tungumálakennslu, móðurmálskennslu og stuðning við málþroska og læsi barna af erlendum uppruna. Einnig ítreka fulltrúar meirihlutans í skóla- og frístundarráði Reykjavíkurborgar mikilvægi þess að efla og formgera samstarf við ríki og önnur sveitarfélög varðandi móðurmálskennslu, námskrárgerð, mat á móðurmálskunnáttu nemenda og kröfur um menntun móðurmálskennara.

Dagbjört Ásbjörnsdóttir og Haukur Þór Haraldsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

4.    Lögð fram að nýju tillaga óháðs borgarfulltrúa, Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, varðandi samantekt í tengslum við lokun Reykjavik International School, sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar þann 7. nóvember 2017 að vísa til meðferðar skóla- og frístundaráðs. Auk þess lagt fram tölvubréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 8. nóvember 2017 og umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 13. nóvember 2017. SFS2017110049

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. febrúar 2018, ásamt drögum að viðauka við samning um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt rekna leikskóla, bréf samtaka sjálfstæðra skóla og samtaka verslunar og þjónustu, dags. 8. febrúar 2018, og tillaga ásamt greinargerð um viðauka við samning við sjálfstætt rekna leikskóla og undirbúningur nýrra samninga, dags. 17. nóvember 2017:

Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að honum verði falið að gera viðauka við samning Reykjavíkurborgar við sjálfstætt rekna leikskóla í Reykjavík með þjónustusamning við skóla- og frístundasvið þar sem gildistími skv. núgildandi samningi frá maí 2010 og viðauka skv. honum verði framlengdur til 1. júní 2018 á meðan unnið er að gerð nýs samnings. 

Greinargerð fylgir. SFS2017110158
Samþykkt.

6.    Lagt fram bréf borgarráðs, dags. 6. desember 2017, um tillögu Sjálfstæðisflokksins um lagningu battavalla auk umsagnar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. janúar 2018, um tillöguna. 
Samþykkt. SFS2017120104

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
    
Við samþykkjum umsögn sviðsstjóra vegna tillögu Sjálfstæðisflokksins um að ráðist verði í átak við lagningu sparkvalla með gervigrasi við borgarrekna grunnskóla í borginni enda kemur þar fram efnislegur stuðningur við tillöguna. Við áréttum að skilyrði eru fyrir lagningu slíkra valla við alla grunnskóla í borginni en enginn slíkur völlur hefur þó verið lagður frá árinu 2014. Mikilvægt er að rjúfa þá kyrrstöðu sem fyrst og halda verkinu áfram með það að markmiði að slíkir vellir verði við alla grunnskóla í borginni innan nokkurra ára. 

7.    Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. febrúar 2018, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 14. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 10. janúar 2018, um hálkueyðingu á skólalóðum. SFS2018010068

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir svar sviðsstjóra varðandi snjómokstur og hálkueyðingu við skóla í borginni. Ljóst er að bregðast þarf við óskum einstakra skólastjóra og stjórnenda frístundaheimila um að mokað sé alla leið að lóðum viðkomandi skóla og frístundaheimila eins og verklagsreglur gera ráð fyrir. Þá óska fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir því að sjálfstætt reknir skólar í Reykjavík fái sömu þjónustu hjá Reykjavíkurborg varðandi snjómokstur og hálkueyðingu og borgarreknir skólar. 

Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggja fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva fagna umræðu um hálkueyðingu og mokstur, söndun og söltun. Reglulega kemur þessi umræða upp hjá leikskólastjórum því þeir eru óánægðir með illa skilgreinda þjónustu og því sem ætlast er til af þeim eða öðrum starfsmönnum. Á fundi samráðs leikskólastjóra var vísað í, að verið væri að ræða þessi mál í djúpgreiningunni. Djúpgreiningu er lokið en enginn hefur fengið að sjá niðurstöður þeirrar vinnu. Skorað er á skóla- og frístundasvið að opinbera niðurstöður djúpgreiningar og fara í endurskoðun á forgangsmokstri og greiningarþörf í samráði við stjórnendur.

Fundi slitið kl. 12.14

Skúli Helgason

Eva Einarsdóttir    Halldór Auðar Svansson
Kjartan Magnússon    Sabine Leskopf
Örn Þórðarson     

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 3 =