Fundur nr. 129 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 129

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2017, miðvikudaginn 22. nóvember, var haldinn 129. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík og hófst kl. 11.08. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Þórlaug Ágústsdóttir (Þ). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Jóna Björg Sætran (B); Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1.    Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur fram svohljóðandi tillögu, dags. 17. nóvember 2017, auk þess lögð fram drög að viðauka við samning um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskóla, rekstrar- og húsnæðisframlag til sjálfstætt starfandi leikskóla með samning við skóla- og frístundasvið, börn frá 18 mánaða til 6 ára, í gildi frá 1. júní 2017 og rekstrar- og húsnæðisframlag til sjálfstætt starfandi ungbarnaleikskóla með samning við skóla- og frístundasvið, börn 6/9 mánaða til 36 mánaða, í gildi frá 1. júní 2017:

Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að honum verði falið að gera viðauka við samning Reykjavíkurborgar við sjálfstætt rekna leikskóla í Reykjavík með þjónustusamning við skóla- og frístundasvið þar sem gildistími skv. núgildandi samningi frá maí 2010 og viðaukar skv. honum eru framlengdir til 1. mars 2018. Jafnframt er lagt til að sviðsstjóra verði falið að leggja fram drög að nýjum þjónustusamningi Reykjavíkurborgar við sjálfstætt rekna leikskóla með þjónustusamning við Reykjavíkurborg með gildistöku frá 1. mars 2018 til þriggja ára, skal hann leita eftir samráði við fyrirsvarsmenn sjálfstætt rekinna leikskóla vegna nýs samnings. 

Greinargerð fylgir. SFS2017110158
Samþykkt.

-    Kl. 11.15 taka Guðrún Gunnarsdóttir, Birgitta Bára Hassenstein og Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum.

2.    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu, auk þess lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. nóvember 2017, um rekstur alþjóðlegrar deildar við Landakotsskóla, bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 8. nóvember 2017, um framlengingu þróunarverkefnis til loka skólaársins 2017-2018, tölvubréf Landakotsskóla, dags. 20. nóvember 2017, varðandi framlengingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins og minnisblöð sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. maí 2017 og 27. maí 2015: 

Skóla- og frístundaráð samþykkir að ákvörðun skóla- og frístundaráðs frá 7. júní 2017 þar sem veitt var heimild fyrir stofnun og starfrækslu alþjóðadeildar við Landakotsskóla með fyrirvara um samþykkti mennta- og menningarmálaráðuneytisins verði endurupptekin. Endurupptaka fer fram til samræmis við upplýsingar frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, dags. 8. nóvember 2017, um að ekki sé hægt að afgreiða umsókn skólans um viðurkenningu og því hafi ráðuneytið ákveðið að framlengja þróunarverkefnið fram til loka skólaársins 2017 - 2018. Skóla- og frístundaráð samþykkir því að veitt verði heimild fyrir framlengingu á þróunarverkefni fram til skólaársins 2017 - 2018 fyrir allt að 70 nemendur. Fyrri samþykkt frá 7. júní 2017 varðandi viðmið um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna verði óbreytt. 

Samþykkt og vísað til borgarráðs. SFS2016060089

-    Kl. 11.30 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

3.    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 25. október 2017: 

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur felur skólastjórum að kynna niðurstöður lesskimunarkönnunar fyrir nemendum og foreldrum í því skyni að sem gleggstar upplýsingar um stöðu nemenda séu aðgengilegar á hverjum tíma. Rétt er að foreldrar fái einstaklingsbundnar upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimuninni. Auk þess er mikilvægt að foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu þess skóla í lesskimun, sem barn þeirra gengur í, samanborið við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Aukin upplýsingagjöf milli heimila og skóla er af hinu góða og hvetur foreldra til ríkari þátttöku í námi barna sinna. SFS2017030186

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

Skóla- og frístundaráð felur skólastjórum að kynna niðurstöður lesskimunarprófa fyrir nemendum og foreldrum, eins og tíðkast hefur undanfarin misseri. Mikilvægt er að foreldrar fái einstaklingsbundnar upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimuninni enda er megin tilgangur hennar að greina og aðstoða þann hóp nemenda sem þarfnast sérstaks stuðnings. Auk þess er eðlilegt að foreldrar fái upplýsingar um niðurstöður þess skóla í lesskimun, sem barn þeirra gengur í, samanborið við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Aukin upplýsingagjöf milli heimila og skóla er af hinu góða og hvetur foreldra til ríkari þátttöku í námi barna sinna.

Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

Skóla- og frístundaráð felur skólastjórum að kynna niðurstöður lesskimunarprófa fyrir nemendum og foreldrum, eins og tíðkast hefur undanfarin misseri. Mikilvægt er að foreldrar fái einstaklingsbundnar upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimuninni enda er megin tilgangur hennar að greina og aðstoða þann hóp nemenda sem þarfnast sérstaks stuðnings. Auk þess er eðlilegt að foreldrar fái upplýsingar um niðurstöður þess skóla í lesskimun, sem barn þeirra gengur í, samanborið við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Aukin upplýsingagjöf milli heimila og skóla er af hinu góða og hvetur foreldra til ríkari þátttöku í námi barna sinna. Mikilvægt er að niðurstöður lesskimunarinnar verði greindar með það að markmiði að gerð verði áætlun um hvernig unnið verði að því að bæta frammistöðu þeirra nemenda sem þarfnast stuðnings, kunnátta þeirra metin jafnt og þétt til að meta hvort þau úrræði hafi skilað árangri og þau náð þeim lestrarviðmiðum sem ætlast er til.

Samþykkt. 

4.    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 8. nóvember 2017: 

Lagt er til að horfið verði frá fyrirliggjandi tillögum um sameiningu leikskóla í Reykjavík. Þess í stað verði reynslan metin af hinum víðtæku leikskólasameiningum sem átt hafa sér stað í borginni frá árinu 2011. Lagt er til að úttekt verði gerð um málið og metið hvaða áhrif umræddar sameiningar hafa haft á faglegt starf og starfsmannamál í þeim skólum sem þær náðu til. Í þessari vinnu komi eftirfarandi atriði meðal annars til skoðunar: Hafði sameining í för með sér aukið álag á stjórnendur og starfsmenn viðkomandi skóla? Hefur veikindadögum fjölgað sem og töku veikindaleyfa? Hvernig hefur viðkomandi leikskólum haldist á stjórnendum, leikskólakennurum og öðru starfsfólki eftir sameiningu? Hafa þeir t.d. bætt við sig faglærðu fólki eða misst það í kjölfar sameiningar? Hver hefur þróunin orðið í hugmyndafræði og aðferðafræði viðkomandi skóla í þeim tilvikum þegar hún hefur verið ólík fyrir sameiningu. Höfðu breytingarnar áhrif á ánægju nemenda og foreldra í viðkomandi leikskólum? Lagt er til að við gerð úttektarskýrslunnar verði haft gott samráð við stjórnendur og starfsfólk viðkomandi leikskóla og þeim gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Einnig foreldraráðum og foreldrafélögum viðkomandi leikskóla ásamt Félagi leikskólakennara, Félagi starfsfólks í leikskólum og Sambandi foreldra leikskólabarna í Reykjavík. SFS2017050160

Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að víkja til hliðar framkomnum tillögum um sameiningu leikskóla í Reykjavík, þ.m.t. í norðanverðum Grafarvogi og Seljahverfi í Breiðholti. Lagt er til að gerð verði úttekt á sameiningum leikskóla á undanförnum árum þar sem metin verði áhrif þeirra á fagstarf, mannauðsmál, starfsánægju og viðhorf foreldra m.a. með samanburði fyrirliggjandi gagna fyrir og eftir sameiningar. Sérstaklega verði kannað hvort munur er á reynslu af sameiningum leikskóla á tveimur starfsstöðvum annars vegar og þremur starfsstöðvum hins vegar. Lagt er til að við gerð úttektarinnar verði haft gott samráð við stjórnendur og starfsfólk viðkomandi leikskóla og þeim gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Einnig foreldraráðum og foreldrafélögum viðkomandi leikskóla ásamt Félagi leikskólakennara, Félagi starfsfólks í leikskólum og Samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík.

Samþykkt.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn hefur mótað þá stefnu að ekki verði efnt til frekari sameininga leikskóla á sinni vakt heldur verði lögð áhersla á aðgerðir sem bæta starfsumhverfi leikskólastarfsfólks með hagsmuni leikskólabarnanna í fyrirrúmi. Það á við um framkomnar tillögur um sameiningar í norðanverðum Grafarvogi og Seljahverfi í Breiðholti. Nú þegar nokkur reynsla er komin á þær sameiningar sem ráðist var í eftir hrun er mikilvægt að fram fari óháð úttekt á þessum sameiningum út frá faglegum og fjárhagslegum þáttum þar sem metið verði hvernig til hefur tekist, hvort markmiðum sameiningar hafi verið náð og hvaða áhrif þær hafi haft á starfsánægju, viðhorf foreldra til starfsins og mannauðsmála svo eitthvað sé nefnt. 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Við fögnum jákvæðri afgreiðslu á tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 8. nóvember sl. um að horfið verði frá tillögum um sameiningu leikskóla í Reykjavík, þ.m.t. í Breiðholti og Grafarvogi, og að ráðist verði í úttekt á sameiningum leikskóla á undanförnum árum þar sem metin verði áhrif þeirra á fagstarf, mannauðsmál, starfsánægju og viðhorf foreldra. Óskað er eftir því að úttektin nái til allra slíkra sameininga sem orðið hafa í borginni frá og með árinu 2009 og að í henni komi eftirfarandi spurningar m.a. til umfjöllunar: Hafði sameining í för með sér aukið álag á stjórnendur og starfsmenn viðkomandi skóla? Hefur veikindadögum fjölgað sem og töku veikindaleyfa? Hvernig hefur viðkomandi leikskólum haldist á stjórnendum, leikskólakennurum og öðru starfsfólki eftir sameiningu? Hafa þeir t.d. bætt við sig faglærðu fólki eða misst það í kjölfar sameiningar? Hver hefur þróunin orðið í hugmyndafræði og aðferðafræði viðkomandi skóla í þeim tilvikum þegar hún hefur verið ólík fyrir sameiningu? Höfðu breytingarnar áhrif á ánægju nemenda og foreldra í viðkomandi leikskólum?

-    Kl. 12.20 tekur Rósa Ingvarsdóttir sæti á fundinum.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga óháðs borgarfulltrúa, Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar þann 7. nóvember 2017 að vísa til meðferðar skóla- og frístundaráðs, auk þess lagt fram tölvubréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 8. nóvember 2017 og umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 13. nóvember 2017: 

Skóla- og frístundasviði er falið að taka saman þá þætti sem misfórust í uppbyggingu og innleiðingu Reykjavík International School RIS, þannig að lögð sé áhersla á hvað betur má fara, hvernig Reykjavíkurborg getur stutt við nýja skóla og veitt þeim leiðbeiningar svo að menntahagsmunir barna sem þangað sækja nám séu ætíð hafðir í hávegum. SFS2017110049

Frestað. 

6.    Fram fer kynning á þátttöku reykvískra stúlkna í alþjóðlegum viðburði, Girl2Leader.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

7.    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu, auk þess lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. nóvember 2017, um umsókn um leyfi til reksturs ungbarnadeildar á Barnaheimilinu Ósi, tölvubréf stjórnar Barnaheimilisins Óss, dags. 31. október 2017, þar sem sótt er um starfsleyfi til reksturs ungbarnadeildar á Barnaheimilinu Ósi, rekstrar- og húsnæðisframlag til sjálfstætt starfandi leikskóla með samning við skóla- og frístundasvið, börn frá 18 mánaða til 6 ára, í gildi frá 1. júní 2017 og rekstrar- og húsnæðisframlag til sjálfstætt starfandi ungbarnaleikskóla með samning við skóla- og frístundasvið, börn 6/9 mánaða til 36 mánaða, í gildi frá 1. júní 2017:

Synjað er beiðni Barnaheimilisins Óss um að heimilt verði að greiða framlag vegna allt að 10 barna frá 9 mánaða aldri.

Samþykkt með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

8.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. nóvember 2017, um íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík sem afhent voru 16. nóvember 2017. SFS2017100035 

Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráð lýsir yfir mikilli ánægju með framkvæmd Íslenskuverðlauna unga fólksins og óskar þeim 65 nemendum og aðstandendum þeirra til hamingju sem hlutu verðlaunin í ár. Ráðið þakkar frumkvöðli verkefnisins Mörtu Guðjónsdóttur, verndara verðlaunanna frú Vigdísi Finnbogadóttur, kennurum, skólastjórum og starfsfólki sviðsins sem kom að undirbúningi verkefnisins kærlega fyrir vel unnin störf í þágu þessa mikilvæga verkefnis, sem er ætlað að auka áhuga grunnskólanema á íslenskri tungu og hvetja þá til dáða í tjáningu á töluðu og rituðu máli.

9.    Lagðar fram til kynningar upplýsingar varðandi ráðningu í stöðu skólastjóra við Árbæjarskóla.

a)    Greinargerð skóla- og frístundasviðs, dags. 17. nóvember 2017, vegna ráðningar í stöðu skólastjóra við Árbæjarskóla, trúnaðarmál.
b)    Yfirlit yfir umsækjendur um stöðu skólastjóra við Árbæjarskóla, trúnaðarmál
c)    Auglýsing um stöðu skólastjóra við Árbæjarskóla.
d)    Viðmið vegna ráðninga skólastjóra leikskóla og grunnskóla í Reykjavík.

Fjórar umsóknir bárust um stöðuna og er ákvörðun sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að ráða Guðlaugu Sturlaugsdóttur skólastjóra Árbæjarskóla frá og með 1. janúar 2018. SFS2017110112

Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum skólastjóra Árbæjarskóla Guðlaugu Sturlaugsdóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi skólastjóra Þorsteini Sæberg fyrir vel unnin störf.

10.    Lagt fram yfirlit yfir fundi skóla- og frístundaráðs janúar til júní 2018, dags. 15. nóvember 2017. SFS2017050059

11.    Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. nóvember 2017, um embættisafgreiðslu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, eitt mál. SFS2016080100

-    Kl. 13.40 víkja Rósa Ingvarsdóttir og Magnús Þór Jónsson af fundinum.

12.    Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er eftir upplýsingum um hvort og þá með hvaða hætti skólasamfélaginu á Kjalarnesi hefur verið veittur sérstakur stuðningur bæði í formi viðbótar fjármagns og viðbótar stöðugilda í tengslum við sameiningu leikskólans, grunnskólans, íþróttahússins/sundlaugar og skólahljómsveitar undir sömu rekstrarstjórn. Hvenær má búast við úttekt á því hvernig þessi sameining tókst til, hvaða annmarkar hafi komið í ljós og hvað skólastjórnendur á Kjalarnesi telja nú 2017 að enn sé brýnt að gera til að styrkja skólasamfélag Kjalarness enn frekar. SFS2017110171

Fundi slitið kl. 13:43

Skúli Helgason

Eva Einarsdóttir    Hermann Valsson    
Kjartan Magnússon    Marta Guðjónsdóttir
Sabine Leskopf    Þórlaug Ágústsdóttir

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 7 =