Fundur nr. 123 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 123

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2017, 23. ágúst, var haldinn 123. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík, kl. 11.05. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Jóna Björg Sætran (B), Kjartan Magnússon (D), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Þórlaug Ágústsdóttir (P); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Jón Pétur Zimsen, skólastjórar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. ágúst 2017, um samstarf Reykjavíkurborgar og bókaútgefenda um eflingu lesturs barna og ungmenna. SFS2017080126

Bryndís Loftsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Barnabókmenntir eru mikilvægasti liðurinn í almennri málörvun leikskólabarna samkvæmt læsisstefnu leikskólanna. Markviss lestrarkennsla og þjálfun í öllum árgöngum grunnskólans er sömuleiðis ríkur þáttur í læsisstefnu borgarinnar gagnvart grunnskólunum samkvæmt stefnumótun sem byggði á niðurstöðum Fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings. Til að undirstrika mikilvægi lesturs fyrir börn og ungmenni hefur skóla- og frístundasvið nú tekið upp samstarf við Félag íslenskra bókaútgefenda og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO til að vekja athygli á gildi lesturs fyrir börn og ungmenni í Reykjavík. Tilgangur verkefnisins er að efla læsi barna og ungmenna og vekja áhuga þeirra á íslenskum barnabókmenntum. Verður það gert með því að auka innlendan bókakost skólabókasafna og leikskóla í Reykjavík. Skólabókasöfnin og leikskólar borgarinnar munu fá 7 milljóna aukafjárveitingu til að bæta sinn bókakost af þessu tilefni og geta þá boðið börnum og ungmennum í skólum borgarinnar að njóta nýrra barna- og unglingabóka um leið og þær koma út.

2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. ágúst 2017, um undanþágu frá greiðslu gjalda fyrir dvöl á frístundaheimilum vegna barna sem eru nýflutt til landsins, eru að hefja skólagöngu á Íslandi og eru með annað móðurmál en íslensku. Jafnframt lagðar fram reglur um undanþágu frá greiðslu gjalda fyrir dvöl í frístundaheimili vegna barna sem eru að hefja skólagöngu á Íslandi. SFS2016100024
Samþykkt og vísað til borgarráðs.

Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

Framkvæmdastjórar fagna verkefni sem styður nýja íbúa borgarinnar til virkari þátttöku í skipulögðu frístundastarfi og lengir viðveru tvítyngdra barna í íslensku málumhverfi. Verklagsreglur eru mjög skýrar og lögð er áhersla á að skólastjórnendur gæti þess að í móttökuviðtali nýrra nemenda sé foreldrum kynnt frístundatilboð. Framkvæmdastjórar fagna því að skýra eigi upp ábyrgð og hlutverk hvers og eins og innleiða þannig að stjórnendur sem starfa á skóla- og frístundasviði séu meðvitaðir um það. Hvort sem verkefnið hlýtur framgang áfram eða ekki er mjög mikilvægt að hafa skýra verkferla varðandi móttöku- og skilafundi á sviðinu.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn þakkar fyrir kynningu á framkvæmd reglna um undanþágu frá greiðslu gjalda fyrir dvöl á frístundaheimili vegna barna sem eru nýflutt til Íslands. Árangur þessa verkefnis er augljós en af þeim 43 börnum sem fengu gjaldfrjálsa dvöl á frístundaheimili héldu 36 þeirra áfram dvöl á frístundaheimilinu eða nærri 84%. Þetta verður að teljast mikilvægt skref í aðlögun þessara barna og er í samræmi við stefnuna að auka viðveru barna af erlendum uppruna í íslensku málumhverfi eins snemma og kostur er. Meirihlutinn fagnar þessum góða árangri verkefnisins og að því verður haldið áfram í það minnsta næstu þrjú árin, m.a. með það í huga að geta veitt enn fleiri börnum í þessum hópi frístundaþjónustu í framtíðinni.

Dagbjört Ásbjörnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.


3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2017, um hlunnindi starfsmanna skóla- og frístundasviðs. SFS2017080099

- Kl. 11.45 tekur Birgitta Bára Hassenstein sæti á fundinum.

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að veita starfsfólki frístundaheimila sem á börn í vistun á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar afslátt af vistunargjaldi í frístundaheimili borgarinnar gegn umsókn þar um. Starfsmenn sem starfa að minnsta kosti 3 daga í frístundaheimili á viku fái 58,5% afslátt af vistunargjaldi í frístundaheimili Reykjavíkurborgar. Ekki er veittur afsláttur af fæðisgjaldi. Markmiðið með þessari aðgerð er að fjölga starfsfólki á vettvangi frístundaheimila og bæta starfsumhverfi þeirra og gera störf á vettvangi frítímans eftirsóknarverðari. Framangreint taki gildi 1. október 2017. Sviðsstjóra verði falið að koma þessu í framkvæmd.

Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2017080101
Samþykkt og vísað til borgarráðs.

Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

Framkvæmdastjórar fagna því að skóla- og frístundaráð samþykki að veita starfsfólki frístundaheimila sem eiga börn í vistun á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar afslátt af vistunargjaldi í frístundaheimili borgarinnar. Mikill mönnunarvandi blasir nú við á frístundaheimilum í borginni og þeir fagna öllum aðgerðum sem stuðla að því að gera starfsumhverfi á skóla- og frístundasviði eftirsóknarverðara.

- Kl. 12.20 tekur Rósa Ingvarsdóttir sæti á fundinum.

5. Lagðar fram skýrslurnar; Álftaborg – mat á leikskólastarfi, dags. í desember 2016; Lyngheimar – mat á leikskólastarfi, dags. í mars 2017 og Hlíð – mat á leikskólastarfi, dags. í maí 2017. SFS2015060052

Auður Ævarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

- Kl. 12.40 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum.

6. Lagt fram á fundinum minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. ágúst 2017, um stöðu ráðninga í skóla- og frístundastarfi í ágúst 2017. SFS2017020191

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Nýjar upplýsingar um stöðu ráðningamála í leikskóla, grunnskóla og frístundastarfsemi borgarinnar sýna að staðan hefur batnað verulega í grunnskólum þar sem nú vantar að ráða í rúm 25 stöðugildi í stað 58 fyrir viku síðan. Hins vegar vantar enn að ráða í rúmlega 100 stöðugildi í bæði leikskólum og frístund þó tekist hafi að ráða í rúmlega 30 stöðugildi þar undanfarna viku. Enn er mikið verk að vinna á komandi vikum en stjórnendur vinna hörðum höndum að því að leysa málin í góðu samstarfi við mannauðsdeild og stjórnendur skóla- og frístundasviðs. Aukinn kraftur hefur verið settur í auglýsingar eftir starfsfólki, vakin athygli á bættum launakjörum og hlunnindum starfsfólks og beitt ýmsum nýjum aðferðum til að benda á kosti þess að starfa með börnum í skólasamfélagi borgarinnar.

Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Félag skólastjórnenda í Reykjavík hefur áhyggjur af því að gæði kennarahópsins í grunnskólanum fari þverrandi vegna skorts á kennurum. Nú vantar 8 stöður grunnskólakennara í grunnskólann og þeir sem eru með réttindi fá flestir stöður, hver sem gæði þeirra sem grunnskólakennara eru. Að auki er meirihluti þeirra sem ráðinn er inn í grunnskólann núna leiðbeinendur. Þar sem lög skylda foreldra til að senda börn sín í grunnskóla hljóta þeir (foreldrar) að geta treyst því að börn þeirra gangi að lágmarksgæðum vísum.

Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

Framkvæmdastjórar hafa miklar áhyggjur af mönnunarvanda frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva í haust. Enn á eftir að ráða 226 starfsmenn til að hægt sé að bjóða öllu börnum pláss á komandi starfsári. Framkvæmdastjórar fagna því að í gang sé farinn starfshópur á vegum sviðsins sem mun skoða starfsaðstæður í frístundastarfi sem víða er ábótavant en ekki er hægt að bíða eftir niðurstöðum þess starfshóps. Mikilvægt er að grípa til aðgerða og hafa framkvæmdastjórar lagt fram tillögur í þá átt sem mikilvægt er að fái brautargengi.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina óskar eftir að upplýsingar varðandi prósentuhlutföll ráðninga verði innbyggðar í upplýsingar um starfsmannaskort í leikskólum, grunnskólum og á frístundaheimilum þar sem slíkar upplýsingar segja oft meira en hráar tölur. Einnig er óskað eftir tölulegum upplýsingum um fjölda leiðbeinenda sem eru ráðnir í kennslustörf. Að lokum er ítrekað að fá greinargóð svör við fyrirspurn sem fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sendi inn á undirbúningsfund skóla og frístundaráðs 16.8. sl. og ekki fást endanleg svör við á fundinum nú 23. ágúst.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn sem send var þann 15. ágúst 2017:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina óskar eftir að nýjar upplýsingar um stöðu starfsmannamála á skóla- og frístundasviði verði birtar sundurgreindar á einstaka leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili borgarinnar, á fundi skóla- og frístundaráðs 23. ágúst 2017. Hversu víða stefnir í að loka þurfi einstaka deildum leikskóla vegna skorts á starfsfólki? Hve víða er ekki unnt að taka inn ný börn á leikskóladeildir sem þó eru starfandi? Hefur í einhverjum tilvikum hvorki tekist að ráða kennara né leiðbeinanda til grunnskólakennslu og ef svo er með hvaða hætti er brugðist við því? Stefnir í skerta starfsemi frístundaheimila borgarinnar við upphaf skólaárs vegna skorts á starfsfólki? Ef svo er óskast upplýsingarnar sundurgreindar á frístundaheimili.

Auður Ævarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2017, um húsnæðismál Melaskóla 2017. SFS2016120002

8. Lögð fram skýrslan Koma kvótaflóttafólks til Reykjavíkur 2017, yfirlit yfir stöðu verkefnisins í ágúst 2017 með áherslu á skóla- og frístundamál, dags. 4. ágúst 2017. Jafnframt lagður fram samningur velferðarráðuneytis og Reykjavíkurborgar um móttöku, aðstoð og stuðning við hóp flóttafólks 2017-2019, dags. 26. janúar 2017. SFS2016110093

Fríða Bjarney Jónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn þakkar kærlega fyrir vandaða vinnu og skýrslu teymis um málefni barna kvótaflóttafólks og ekki síst fyrir vinnu starfsfólks í skólum sem sinnt hafa þessu krefjandi starfi. Ljóst er að mikil framför hefur orðið í samstarfi milli sviðanna í borginni eftir að fulltrúar skóla- og frístundasviðs komu beint að samningagerð um verkefnið. Nauðsynlegt er jafnframt að skerpa enn betur á hlutverkum velferðarsviðs annars vegar og skóla- og frístundasviðs hins vegar og auka samtalið um þennan málaflokk en einnig að tryggja aukna hlutdeild ríkisins í kostnaði sveitarfélaga í þessum málaflokki. Enginn vafi er á því að þessi gífurlega þekking sem skapast hefur gæti jafnframt nýst í þjónustu við börn af erlendum uppruna almennt og hins vegar við börn þeirra sem hingað koma í leit að alþjóðlegri vernd. Eins og skóla- og frístundaráð hefur áður bent á er gríðarlega mikilvægt að jafna stöðu flóttafólks sem kemur á eigin vegum og þeirra sem koma hingað í hópi kvótaflóttafólks. Mikilvægt er að allir geri sér grein fyrir viðkvæmri og nær oftast erfiðri stöðu þessara barna og hversu ómetanlegur hver dagur er í þeirra lífi þar sem þau fá aðgang að skólakerfinu.

9. Lagðar fram til kynningar upplýsingar varðandi ráðningu í stöðu leikskólastjóra við leikskólann Borg.

a) Greinargerð skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2017, vegna ráðningar í stöðu leikskólastjóra við leikskólann Borg, trúnaðarmál.
b) Yfirlit yfir umsækjendur um stöðu leikskólastjóra við leikskólann Borg, trúnaðarmál.
c) Auglýsingar um stöðu leikskólastjóra við leikskólann Borg.
d) Viðmið vegna ráðninga skólastjóra leikskóla og grunnskóla í Reykjavík.

Fimm umsóknir bárust um stöðuna og er ákvörðun sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að ráða Gyðu Guðmundsdóttur leikskólastjóra við leikskólann Borg frá og með 1. október 2017. SFS2017080096

Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum leikskólastjóra, Gyðu Guðmundsdóttur, til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi leikskólastjóra Hildi Gísladóttur fyrir vel unnin störf í þágu leikskólans Borgar.

10. Lagðar fram til kynningar upplýsingar varðandi ráðningu í stöðu leikskólastjóra við leikskólann Bakkaborg.

a) Greinargerð skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2017, vegna ráðningar í stöðu leikskólastjóra við leikskólann Bakkaborg, trúnaðarmál.
b) Yfirlit yfir umsækjendur um stöðu leikskólastjóra við leikskólann Bakkaborg, trúnaðarmál.
c) Auglýsing um stöðu leikskólastjóra við leikskólann Bakkaborg.
d) Viðmið vegna ráðninga skólastjóra leikskóla og grunnskóla í Reykjavík.

Tvær umsóknir bárust um stöðuna og er ákvörðun sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að ráða Ágústu Amalíu Friðriksdóttur leikskólastjóra við leikskólann Bakkaborg frá og með 1. október 2017. SFS2017080097

Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum leikskólastjóra, Ágústu Amalíu Friðriksdóttur, til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi leikskólastjóra Elínu Ernu Steinarsdóttur fyrir vel unnin störf í þágu leikskólans Bakkaborgar.

11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. ágúst 2017, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum um kennslu í list- og verkgreinum sbr. 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 22. mars 2017. SFS2017030155

12. Lögð fram ársskýrsla skóla- og frístundasviðs 2016. SFS2017080098

13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Á fundi skóla og frístundaráðs þann 9. ágúst 2017, lagði fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina fram bókun varðandi þá alvarlegu stöðu sem nú er í Brúarskóla, þar sem 25 nemendur eru á biðlista eftir skólavist, þar af 18 nemendur á unglingastigi. Óskað er eftir upplýsingum um hvenær borgaryfirvöldum og/eða skóla- og frístundasviði bárust fyrst óskir um stækkun skólahúsnæðis Brúarskóla og óskað er afrita af þeim gögnum. Einnig er óskað eftir upplýsingum um með hvaða hætti skóla- og frístundasvið ætlar að leysa hinn bráða vanda Brúarskóla nú í haust til að hægt verði að sinna sem skyldi þeim 25 nemendum sem þar eru á biðlista og með engu móti er talið ásættanlegt að sæki almenna grunnskóla nú í vetur vegna hegðunar- og samskiptavanda og í mörgum tilvikum ofbeldishneigðar. SFS2017080022

14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Ný sérdeild fyrir einhverfa nemendur tók til starfa í Hamraskóla 1. ágúst sl. Þegar kennsla hófst í deildinni í gær, að lokinni skólasetningu, var aðbúnaður þar óviðunandi fyrir nemendur og kennara. Til dæmis vantaði grunnbúnað eins og borð og stóla fyrir nemendur, tölvur, tölvutengingar o.s.frv. Slíkt er bagalegt enda mikilvægt að hlutir séu í föstum skorðum þegar um einhverfa nemendur er að ræða. Þá hefur ekki tekist að manna deildina að fullu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að þarna verði bætt úr hið fyrsta þannig að unnt verði að starfrækja deildina með eðlilegum hætti. Óskað er eftir skýringum á því af hverju áðurnefndan grunnbúnað vantaði í deildina við skólabyrjun og upplýsingum um hvenær bætt verður úr honum þannig að kennsla geti farið fram með eðlilegum hætti. SFS2017080141

15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er eftir greinargerð um flutning 7. bekkjar úr Korpuskóla yfir í Víkurskóla (Kelduskóla) skólaárið 2017-2018 þar sem eftirfarandi spurningum verði meðal annars svarað. Hvaða ástæður liggja að baki umræddum flutningi? Hvenær og með hvaða hætti var umrædd ákvörðun tekin? Hvenær og með hvaða hætti var samráð haft við foreldra þeirra barna sem flutningurinn nær til? Með hvaða hætti verður staðið að sérgreinakennslu fyrir 7. bekk í Kelduskóla á komandi vetri? Minnt er á að umræddur flutningur var m.a. réttlættur með því að til stæði að auka sérgreinakennslu í 7. bekk. Mun sérgreinakennsla í 7. bekk aukast við þessar breytingar? Er fyrirhugað að flytja fleiri bekki úr Korpuskóla í Víkurskóla? Að auki er óskað eftir upplýsingum um fyrirkomulag sundkennslu í Kelduskóla, m.a. hvort skilyrðum um tímafjölda sé fullnægt. SFS2017080142

16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Töluverður munur getur verið á kostnaði vegna námsgagna nemenda eftir skólum. Í ljósi þess er óskað eftir þeim upplýsingum um þessi mál sem sviðsstjóri hefur tiltækar. SFS2017080143

Fundi slitið kl. 14.40

Skúli Helgason
Eva Einarsdóttir                              Hermann Valsson
Jóna Björg Sætran                           Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir                              Sabine Leskopf

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

4 + 1 =