Fundur nr. 111 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 111

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2017, 11. janúar, var haldinn 111. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi á Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 11.05. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Jóna Björg Sætran (B), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S).Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Katla Hólm Þórhildardóttir (P); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Helena Sif Gunnarsdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Jón Pétur Zimsen, skólastjórar í grunnskólum; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum og Þórhildur Löve, foreldrar barna í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.

Þetta gerðist:

Helena Sif Gunnarsdóttir og Þórhildur Löve eru boðnar velkomnar á sinn fyrsta fund í skóla- og frístundaráði. SFS2016110126

1. Fram fer kynning á djúpgreiningu á starfsemi skóla- og frístundasviðs.

- Kl. 11.13 taka Guðrún Gunnarsdóttir og Kristján Gunnarsson sæti á fundi.
- Kl. 11.23 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundi.

Ágúst Þorbjörnsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Öflug og faglega unnin djúpgreiningarvinna á starfsemi skóla- og frístundasviðs er nauðsynlegur og mikilvægur þáttur til að efla starfsemi allra eininga sviðsins. Brýnt er að vanda vel til allrar kynningar á tilgangi greiningarinnar til þeirra sem þar þurfa að skila greinargóðu verkbókhaldi til að fáist raunsæ mynd af umfangi og álagi auk mikilvægrar SVÓT greiningar. Það sem mikilvægast er þó hvernig verður unnið með niðurstöður djúpgreiningarinnar. Úrvinnsla gagnanna og metnaðarfull, framsýn og raunhæf endurskipulagning starfsemi sviðsins skiptir miklu máli fyrir framtíð barna borgarinnar til að þau geti fótað sig vel og blómstrað í samfélagi framtíðarinnar. Þar sem starfsemi hinna ýmsu sviða stjórnsýslu borgarinnar fléttast víða saman er brýnt að djúpgreiningarvinna þeirra þátta sviðanna verði sem mest samhliða eins og til dæmis samtvinnuð þjónusta skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs á þjónustumiðstöðvum borgarinnar.

2. Lögð fram tillaga borgarstjórnar, dags. 20. desember 2017, um mótun menntastefnu Reykjavíkurborgar. SFS2017010019

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina fagna samþykkt borgarstjórnar um að halda skuli áfram langtímastefnumótun í menntamálum í Reykjavík. Slík vinna hófst að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í febrúar 2009 þegar sérstök tillaga um málið var samþykkt í borgarstjórn. Rúmu ári síðar mynduðu Samfylkingin og Besti flokkurinn (síðar Björt framtíð) meirihluta í borgarstjórn og var eitt fyrsta verk þessara flokka að hætta umræddri stefnumótunarvinnu án skýringa. Skaut óneitanlega skökku við að sömu borgarfulltrúar Samfylkingarinnar og samþykktu að hefja þessa vegferð 2009 skyldu taka ákvörðun um að hætta henni ári síðar. Í ljósi þessarar forsögu er sérstakt fagnaðarefni að borgarfulltrúar Samfylkingarinnar hafi séð að sér og vilji nú halda þessari vinnu áfram eftir rúmlega sex ára hlé. Í stefnumótunarvinnu í menntamálum er mikilvægt að tryggja fullt samráð, gagnsæi og rétta upplýsingagjöf gagnvart öllum aðilum sem ætlað er að taka þátt í umræddri vinnu svo traust ríki á milli þeirra í öllu ferlinu. Að þessu leyti hefur nú pottur þegar verið brotinn þar sem ítrekað hefur komið fram að fulltrúar meirihlutans hafa unnið að málinu um nokkurt skeið og tekið mikilvægar ákvarðanir í sambandi við það án nokkurs samráðs við fulltrúa minnihluta borgarstjórnar. Þá er mikilvægt í slíkri vinnu að leita fanga sem víðast og rétt að sá hópur, sem valinn verður til að sinna verkefninu, hafi fullt frelsi til að velja sér ráðgjafa. Borgarstjóri kaus hins vegar að semja við ákveðinn mann um að leiða vinnu erlendra ráðgjafa í verkefninu án nokkurs samráðs við minnihlutann og áður en tillaga um málið var lögð fram í borgarstjórn. Var þessi maður boðaður til landsins á fundi á vegum verkefnisins áður en tillaga um að ráðast í það var lögð fram og áður en skipað hefur verið í stýrihóp þess, allt án nokkurs samráðs við fulltrúa minnihluta borgarstjórnar. Lýst er yfir furðu á þessum vinnubrögðum og óskað eftir því að betur verði staðið að framhaldi verkefnisins. Þá er gerð athugasemd við að í fréttatilkynningu Reykjavíkurborgar, sem send var fjölmiðlum 10. janúar sl., er ranglega fullyrt að vegna þessarar vinnu hafi nú þegar verið skipaður þverpólitískur stýrihópur, verkefnastjórn sem og ráðgjafateymi. Slíkt hefur ekki enn verið gert og er óskað eftir því að þessi atriði í umræddri fréttatilkynningu verði leiðrétt.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti borgarstjórnar setti sókn í skólamálum á dagskrá með skýrum hætti síðastliðið haust og frá því í september hafa fjárveitingar til málaflokksins aukist um vel á þriðja milljarð króna með margvíslegum aðgerðum og stuðningi við innra starf leikskóla, grunnskóla og frístundar. Nú sameinast allir flokkar í borgarstjórn um að hefja vinnu við mótun menntastefnu Reykjavíkur til 2030 í nánu samstarfi við fulltrúa allra helstu aðila sem koma að skóla- og frístundastarfi á vegum borgarinnar. Markmið vinnunnar verður að ná breiðri samstöðu um mikilvægustu markmið, brýnustu úrbætur og aðgerðir í menntamálum borgarinnar til framtíðar með áherslu á hag barna og ungmenna í skólasamfélaginu. Leitað verður til innlendra og erlendra ráðgjafa til að tryggja að stefnan verði byggð á bestu þekkingu og greiningum á því hvernig best verði náð fram árangursríkum breytingum í menntamálum. Finnski menntunarfræðingurinn Pasi Sahlberg mun leiða teymi innlendra og erlendra ráðgjafa og er mikill fengur að aðkomu hans en þó er mikilvægt að árétta að kennarar, skólastjórnendur, annað starfsfólk og nemendur í skólakerfinu munu gegna lykilhlutverki við mótun og eftirfylgni stefnunnar.

3. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 1. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 14. desember 2016:

Lagt er til að niðurstöður reykvískra grunnskóla í PISA-könnun 2015 verði gerðar opinberar. Sundurgreindar upplýsingar um árangur hvers skóla í einstökum greinum; lesskilningi, náttúruvísindum og stærðfræði verði sendar viðkomandi skólastjórnendum, skólaráði og stjórn foreldrafélags í því skyni að hvetja til upplýstra umræðna um kennsluhætti og námsárangur.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi birtingu niðurstaðna PISA til umsagnar Menntamálastofnunar.

Samþykkt.

SFS2016120046

Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Félag skólastjórnenda í Reykjavík óskar eftir að skólar fái senda niðurstöður í PISA könnuninni með sama hætti og gert var vegna PISA könnunarinnar 2012. Þessar niðurstöður eru mjög mikilvæg endurgjöf á það starf skólanna sem PISA mælir og um leið verkfæri skólanna til umbóta. Skólar fóru í umbótastarf eftir niðurstöðurnar 2012 og það væri bagalegt að fá ekki endurgjöf á það umbótastarf sem unnið hefur verið síðan niðurstöður 2012 bárust.

4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. janúar 2017, varðandi drög að nýjum reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla og drög að samningum vegna neðri og efri stiga tónlistarnáms og umsagnir tónlistarskóla. Jafnframt lögð fram drög að reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla, drög að samningsformi fyrir þjónustusamninga við tónlistarskóla vegna neðri stiga tónlistarnáms og vegna efri stiga tónlistarnáms. Enn fremur reglur um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla, dags. 29. maí 2012, samningsform tónlistarskólasamninga, dags. 2012, samkomulag um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, dags. 13. apríl 2016, reglur um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til stuðnings við tónlistarnám og jöfnunar á aðstöðumun nemenda, dags. 31. ágúst 2016, minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. desember 2016, varðandi drög að nýjum reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla og drög að samningum vegna neðri og efri stiga tónlistarnáms og minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. ágúst 2016, tillaga um að sviðsstjóra verði falið að leggja fram drög að breytingum á reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla og drög að samningum við þá. Einnig samantekt frá fundi með stjórnendum tónlistarskóla þann 23. september 2016.
Enn fremur lagðar fram umsagnir og athugasemdir eftirfarandi aðila um reglur um þjónustusamninga við tónlistarskóla og drög að samningum vegna neðri og efri stiga tónlistarnáms: Samband íslenskra sveitarfélaga, dags. 5. janúar 2017; Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, dags. 5. janúar 2017; Tónlistarskóli FÍH, ódags; Tónskóli Hörpunnar, dags. 4. janúar 2017; Stjórn samtaka tónlistarskóla, dags. 5. janúar 2017; Píanóskóli Þorsteins Gauta, ódags; Tónskóli Sigursveins og Tónskóli Hörpunnar, dags. 8. janúar 2017; Söngskóli Sigurðar Demetz, dags. 9. janúar 2017; Tónskóli Eddu Borg, dags. 7. janúar 2017; Tónlistarskólinn í Grafarvogi, ódags og Allegro Suzukitónlistarskólinn, dags. 8. janúar 2017.

Sigfríður Björnsdóttir, deildarstjóri listfræðslu á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SFS2016080106

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að taka afstöðu til umsagna og athugasemda sem borist hafa í tengslum við drög að reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla og drög að samningum vegna neðri og efri stiga. Lagðar verði fram tillögur að breytingum eftir því sem við á á 112. fundi skóla- og frístundaráðs. Tónlistarskólum verði gefinn formlega kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi framlag Reykjavíkurborgar til þeirra en upplýsingar um kennslumagn og fjárhæðir voru sendar tónlistarskólum til kynningar þann 13. desember 2016. Gerður er fyrirvari um samþykki borgarráðs.

Samþykkt.

5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. janúar 2017:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að fela sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að óska eftir umsögn sjálfstætt rekinna grunnskóla í Reykjavík með yngri árganga um drög að samningi um framlag til þeirra vegna reksturs frístundaheimila. Jafnframt verði skólunum gefinn kostur á að óska eftir að gerður verði við þá þjónustusamningur um framlag vegna reksturs frístundaheimilis. Í umsókn komi fram upplýsingar um fjölda nemenda sem nýta frístundaheimili skólans sem uppfylli skilyrði samningsins, sundurliðað eftir bekkjum. Jafnframt verði lögð fram gjaldskrá skólans vegna frístundaheimilis þar sem kostnaður vegna síðdegishressingar/fæðisgjalds er aðgreindur. Óskað verði eftir að veittar verði upplýsingar um hversu marga klukkutíma á dag er boðið upp á frístund í skólanum og í hverju hún er fólgin. Jafnframt verði veittar upplýsingar um hvort rekstrarkostnaður skólans vegna frístundaheimilisins sé aðskilinn í bókhaldi skólans frá rekstrarkostnaði grunnskólans.

Greinargerð fylgir tilögunni.

Samþykkt.

Jafnframt lögð fram drög að þjónustusamningi um framlag vegna barna sem nýta frístundaheimili sjálfstætt rekinna grunnskóla og eiga lögheimili í Reykjavík og fósturbarna ef fósturforeldrar eiga lögheimili í Reykjavík. Enn fremur lagðar fram tillögur varðandi framlag Reykjavíkurborgar til sjálfstætt rekinna grunnskóla vegna reksturs frístundaheimila ásamt greinargerðum, dags. 8. desember 2016 og 21. október 2016. SFS2016100093

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina ítreka þá afstöðu sína að rekstrarumhverfi sjálfstætt rekinna frístundaheimila verði endurskoðað í því skyni að þau njóti sambærilegs rekstrarstuðnings og borgarrekin frístundaheimili. Til að tryggja jafnræði er eðlilegt að sjálfstætt reknum frístundaheimilum verði gefinn kostur á að bjóða nemendum sínum sambærilegt gjald fyrir þjónustu sína og tíðkast á borgarreknum frístundaheimilum.

- Kl. 13.53 víkur Kristján Gunnarsson af fundi.

6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. janúar 2017, um tilhögun minningarverðlauna Arthurs Morthens. SFS2016090078

Samþykkt með 6 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá.

7. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu:

Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að stofna starfshóp í samstarfi við félög dagforeldra um þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu borgarinnar með það að markmiði að auka enn frekar gæði starfsins og öryggi barna í daggæslu. Í hópnum eigi sæti fulltrúar félaga dagforeldra í Reykjavík, skóla- og frístundasviðs og daggæsluráðgjafa á þjónustumiðstöðvum. Hópurinn taki mið af vinnu stýrihóps um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Samþykkt.

SFS2017010035

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti skóla- og frístundaráðs leggur áherslu á gott samstarf við dagforeldra og vill bjóða félögum dagforeldra til samvinnu um þróun og úrbætur á dagforeldraþjónustu innan borgarinnar með það að markmiði að auka gæði starfsins og öryggi barna í daggæslu. Dagforeldar bjóða upp á mikilvæga þjónustu fyrir foreldra ungbarna sem eðlilegt er að standa vörð um og efla samhliða uppbyggingu á leikskólaþjónustu borgarinnar.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Á árunum 2011 – 2016 fækkaði dagforeldrum í Reykjavík um 29 % eða úr 204 í 145. Á sama tímabili fækkaði börnum hjá dagforeldrum um 21 % eða úr 781 í 618. Að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins er hér um að ræða óæskilega þróun, sem rekja má til fjandsamlegrar stefnu meirihluta borgarstjórnar gagnvart starfsemi dagforeldra á umræddu tímabili undir forystu Samfylkingarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að sú vinna, sem nú verður hleypt af stokkunum samkvæmt fyrirliggjandi tillögu, fari fram í góðu samstarfi við félög dagforeldra með það að leiðarljósi að efla starfsemi þeirra en ekki að draga úr henni. Mikilvægt er að staðinn verði vörður um dagforeldrakerfið og það eflt svo tryggt verði að það verði áfram raunhæfur valkostur fyrir daggæslu barna í öllum hverfum borgarinnar.

8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. janúar 2017, um leyfi til dagforeldra í Reykjavík árið 2016 og yfirlit yfir ný leyfi til daggæslu í Reykjavíkurborg 2016. SFS2017010016

Bókun skóla- og frístundaráðs:

Skóla- og frístundaráð hvetur velferðarráðuneytið til að hraða endurskoðun reglugerðar um daggæslu í heimahúsum. Mikilvægt er að leggja áherslu á samstarf milli þeirra sem sinna eftirliti með daggæslu á vegum skóla- og frístundasviðs og þeirra sem starfa sem daggæsluráðgjafar, ásamt því að skerpa á hlutverki daggæsluráðgjafa og endurgjöf til skóla- og frístundasviðs vegna ráðgjafaheimsókna en í dag er engin slík til staðar. Áríðandi er að horfa til hlutverks heilbrigðiseftirlitsins sem einungis tekur út daggæslu þar sem tveir dagforeldrar starfa saman en því þyrfti að breyta í að heilbrigðiseftirlitið skoði alla þá staði þar sem daggæsla fer fram burtséð frá því hvort um eitt eða fleiri dagforeldra er að ræða. Það er í raun meira öryggi af því að tveir dagforeldrar starfi saman og því þarf að efla heilbrigðiseftirlit með þeim sem starfa einir. Afar mikilvægt er að setja aldursviðmið dagforeldra og gera kröfu um starfshæfnisvottorð frá trúnaðarlækni, bæði við veitingu leyfa og þegar nær dregur hámarksaldri, til að tryggja öryggi barna í daggæslu.

9. Lögð fram skýrslan Viðhorf dagforeldra 2015-2016, dags. 2016. Ásgeir Björgvinsson, sérfræðingur á skrifstofu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2017010018

10. Lögð fram skýrslan Viðhorf foreldra barna hjá dagforeldrum 2015-2016, dags. 2016. Ásgeir Björgvinsson, sérfræðingur á skrifstofu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2017010017

11. Lagt fram yfirlit yfir erindisbréf starfs- og verkefnahópa vegna djúpgreiningar á starfsemi skóla- og frístundasviðs, 57 erindisbréf. Ennfremur lagt fram yfirlit yfir starfshópa skóla- og frístundasviðs ágúst – desember 2016, eitt erindisbréf. SFS2017010020

12. Lagt fram svar, dags. 15. desember 2016, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum, frá 105. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi skóla án aðgreiningar. Jafnframt lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. nóvember 2016, svar við fyrirspurn SAMFOK varðandi framkvæmd skólastefnu um skóla án aðgreiningar í Reykjavík. SFS2016090273

13. Lagt fram svar, dags. 6. janúar 2017, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, frá 107. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi fjölda umsókna um stuðning í leikskólum, grunnskólum og á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar. SFS2016100105

14. Lagt fram svar, dags. 20. desember 2016, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, frá 110. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi móttöku og íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku. Jafnframt lagðar fram viðmiðunarreglur um úthlutun fjármagns til grunnskóla vegna barna með annað móðurmál en íslensku. SFS2016120064

- Kl.15.04 viku Guðlaug Sturlaugsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Atli Steinn Árnason og Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir af fundi.

15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í kjölfar frétta af lokun skólamötuneyta vegna músagangs, óska fulltrúar Sjálfstæðisflokks eftir því að fá yfirlit og kynningu frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur á reglubundnu eftirliti skólahúsnæðis.

SFS2017010057

Fundi slitið kl. 15.10

Skúli Helgason

Eva Einarsdóttir Hermann Valsson
Jóna Björg Sætran Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

7 + 8 =