Fundur nr. 109 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 109

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2016, 23. nóvember, var haldinn 109. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi á Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 11.03. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Jóna Björg Sætran (B), Kjartan Magnússon (D), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S).
Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Katla Hólm Þórhildardóttir (P); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum.
Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Pálsdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram skýrslan Fagráð um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings í leik- og grunnskólum – áfangaskýrsla, dags. í febrúar 2015. SFS2016090217

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn leggur mikla áherslu á aukinn stuðning við leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili varðandi læsi. Miðja máls og læsis sem tók til starfa í byrjun hausts er hryggjarstykkið í nýrri læsisstefnu. Þessari viðbót hefur verið tekið opnum örmum í skólasamfélaginu og er ljóst að mikil þörf er fyrir starfsemi sem byggir á auknum stuðningi, ráðgjöf og fræðslu við kennara og starfsstöðvar m.a. með námskeiðum fyrir starfsfólk. Markmiðið er að stuðla að auknum málþroska, lestrarfærni og lesskilningi barna í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi borgarinnar. Þarfagreining leiðir í ljós að skólarnir telja mesta þörf fyrir stuðning og ráðgjöf varðandi þjónustu við börn með annað móðurmál en íslensku og er það í forgangi hjá forsvarsmönnum Miðju máls og læsis sem hafa sett sér skýr markmið um framfarir. Meirihlutinn þakkar forsvarskonum Miðjunnar fyrir greinargóða kynningu og öfluga byrjun og hvetur þær til dáða í sínu mikilvæga verkefni.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir fagna því mikla átaki sem stefnt er að varðandi aukna og markvissari ráðgjöf, símenntun og þjálfun kennara í lestrarkennslu og síaukinni færni í málþroska og lestrarfærni barna og unglinga í leik- og grunnskólum og frístundamiðstöðvum í tengslum við Miðju máls og læsis. Í sjálfstæði í skólastarfi og fjölbreyttri skólamenningu þróast mismunandi skólastefnur varðandi kennsluaðferðir í læsi. Skimanir, sem byggðar eru á íslenskum stöðlum ásamt færni og vilja til að nýta niðurstöður skimana, eru mikilvægar til að bæta sífellt kennsluna, árangur og skólastarfið. Á sama tíma er brýnt að tryggja kennurum aukið rými til að vinna að markvissari lestrarþjálfun og íslenskukennslu í víðum skilningi því það er forsenda þess að lestrarfærni eflist til frambúðar og nýtist börnum og unglingum í raun til að tryggja betur aukinn almennan árangur þeirra í námi í grunnskóla. Ennfremur er mikilvægt að auka aðgengi barna með annað móðurmál en íslensku að enn meiri þjálfun í íslensku og lestri en nú er ásamt áherslu á að þessi börn þjálfist einnig í sínu eigin móðurmáli sem er forsenda þess að þau nái taki á góðri undirstöðu á færni í íslensku.

Dröfn Rafnsdóttir, Arnheiður Helgadóttir, Ingibjörg Elísabet Jónsdóttir og Þóra Sæunn Úlfsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. nóvember 2016, varðandi starfsemi Skólahljómsveita starfsárið 2016-2017. Jafnframt lagðar fram starfsáætlanir Skólahljómsveitar Austurbæjar, skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts, Skólahljómsveitar Grafarvogs og Skólahljómsveitar Vesturbæjar og Miðbæjar. SFS2016110128

- KL. 12.35 tekur Elsa Hrafnhildur Yeoman sæti á fundinum og Eva Einarsdóttir víkur af fundinum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir telja afar brýnt að stækka starfandi skólahljómsveitir til að auka og auðvelda aðgengi grunnskólabarna að þátttöku í skólahljómsveitunum. Á sama tíma þarf að auðvelda börnunum aðgengi að góðum hljóðfærum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn bendir á að stækkun skólahljómsveita er til skoðunar í vinnu við gerð fjárhagsáætlunar komandi árs.

Sigfríður Björnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. nóvember 2016 með áorðnum breytingum:

Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til við skóla- og frístundaráð að hætt verði rekstri leikskólans Mýrar frá og með 15. júlí 2017. Foreldrar barna sem nú eru á Mýri fái forgang fyrir börn sín í aðra leikskóla Reykjavíkurborgar og fari börnin fram fyrir önnur börn á forgangslista í þann leikskóla sem foreldrar óska eftir að þau fari í. Sviðsstjóra er falið að stofna samráðshóp sem saman stendur af fulltrúum stjórnenda á Mýri, foreldrum barna á Mýri og fulltrúa skrifstofu skóla- og frístundasviðs. Samráðshópurinn ber ábyrgð á upplýsingagjöf og samráði við foreldra og skipuleggur yfirfærslu barnanna á nýja leikskóla. Samráðshópurinn aðstoðar starfsmenn Mýrar við að finna sambærileg störf og gætir að hagsmunum þeirra er kemur að vinnurétti. Samráðshópurinn hefur umsjón með lokun leikskólans, frágangi gagna og skilum húsnæðis. Samráðshópurinn starfar til 1. september 2017 en þá er miðað við að öllum verkþáttum sé lokið.

Greinargerð fylgir.

Jafnframt lögð fram umsögn fulltrúa foreldra barna í leikskólanum Mýri og umsögn fulltrúa starfsfólks í leikskólanum Mýri. SFS2016050047

Samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og vísað til borgarráðs. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Um nokkurt skeið hefur verið ljóst að afar veikur grundvöllur væri fyrir áframhaldandi rekstri leikskólans Mýrar vegna mikillar fækkunar barna í leikskólanum. Foreldrar óskuðu eftir rúmum tíma til að aðlagast breyttum veruleika og var orðið við því. Væntingar um fjölgun barna hafa ekki gengið eftir og er því ljóst að ekki er grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri. Börnum sem nú eru á Mýri verður tryggð dvöl á leikskólum og munu viðkomandi börn njóta forgangs í þann leikskóla sem foreldrar óska eftir að þau fari í. Þá mun starfsfólk Mýrar fá aðstoð við að útvega sér sambærileg störf, t.d. í öðrum leikskólum borgarinnar.


Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlega athugasemd við þau vinnubrögð, sem viðhöfð hafa verið við lokun leikskólans Mýrar. Sú leið var farin að skapa óvissu um rekstur leikskólans og þrengja að rekstri hans, sem leiddi til þess að nýskráningum barna fækkaði mjög og reynslumikið starfsfólk hvarf á brott. Þannig var búið í haginn fyrir lokun leikskólans sem nú hefur verið samþykkt. Þessi aðferðafræði hefur haft óþægindi og kvíða í för með sér fyrir börn, foreldra og starfsfólk á leikskólanum Mýri og augsýnilega vegið þungt í brotthvarfi starfsfólks og barna yfir í aðra leikskóla og í önnur störf eins og bent er á í umsögn foreldra. Ljóst er að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna ber alla ábyrgð á þessum ámælisverðu vinnubrögðum.
Ekki hefur verið kannað til hlítar hvort skynsamlegt sé að leggja leikskólann Mýri niður þegar mið er tekið af mikilli fjölgun barna Vesturbænum og Skerjafirði, sem fyrirhuguð er með þéttingu byggðar og þá ekki síst viðamikilli uppbyggingu fjölbýlishúsa. Einnig hefði mátt skoða hvort unnt væri að hefja samstarf við Félagsstofnun stúdenta, sem hefur ítrekað óskað eftir fjölgun leikskólarýma vegna mikillar eftirspurnar, um rekstur leikskólans sem er örstutt frá þeim þremur skólum sem FS rekur nú þegar.

4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. nóvember 2016, um skoðun umsókna sjálfstætt rekinna grunnskóla út frá spá um fjölda nemenda við grunnskóla Reykjavíkurborgar á næstu árum, dreifingu þeirra í skólahverfi og aðstæðum skólanna til að taka við þeim fjölda nemenda. Jafnframt lagðar fram viðmiðunarreglur vegna umsókna sjálfstætt rekinna grunnskóla um aukið framlag. Enn fremur lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. október 2016, með tillögu um að skóla- og frístundasviði verði falið að skoða umsóknir sjálfstætt rekinna grunnskóla út frá spám um fjölda nemenda við grunnskóla Reykjavíkurborgar á næstu árum, dreifingu þeirra í skólahverfi og aðstæðum skólanna til að taka við þeim fjölda nemenda og leggja fram viðmiðunarreglur. SFS2016100091

- Kl. 13.10 víkur Katla Hólm Þórhildardóttir af fundinum og Þórgnýr Thoroddsen tekur þar sæti.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina telja æskilegt að grunnskólanemendur í Reykjavík hafi val um hvaða skóla þeir sæki, óháð rekstrarformi skóla eða sveitarfélagamörkum. Mikilvægt er að sjálfstætt reknir skólar í Reykjavík geti áfram þróast með eðlilegum hætti og vaxið í samræmi við spurn borgarbúa eftir þjónustu þeirra.

Ásgeir Björgvinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

5. Húsnæði leik- og grunnskóla og frístundamiðstöðva með tilliti til viðhalds og nýframkvæmda.

Agnar Guðlaugsson og Jón Valgeir Björnsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

6. Gjaldskrár skóla- og frístundasviðs 2017, trúnaðarmál. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. nóvember 2016, drög að gjaldskrám skóla- og frístundasviðs 2017 og minnisblað fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, dags. 11. nóvember 2016. Jafnframt lögð fram drög að starfs- og fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs árið 2017. SFS2016020033
Samþykkt að vísa málinu til borgarráðs.

Kristján Gunnarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

7. Fram fara umræður um stöðu mála í grunnskólum í tengslum við kjaramál kennara.
SFS2016110043

- Kl. 14.42 víkja Rósa Ingvarsdóttir og Magnús Þór Jónsson af fundinum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata lýsa yfir miklum áhyggjum af stöðu mála í grunnskólum borgarinnar og leggja áherslu á að viðræður samninganefnda sveitarfélaga og grunnskólakennara skili nýjum kjarasamningi á allra næstu dögum. Strax í kjölfarið þarf að setja í forgang að bæta vinnuumhverfi kennara eins og skóla- og frístundaráð hefur samþykkt að ráðast í, með aðkomu kennarafélaga, skólastjórnenda, háskóla og fleiri. Samhliða þurfa allir aðilar skólasamfélagsins að sameinast um að halda til haga því góða starfi sem unnið er í grunnskólum borgarinnar og hlúa að börnunum í skólasamfélaginu. Þá er nauðsynlegt að ríkið taki ábyrgð á sínum hlut í málinu með því að vinda ofan af úrskurði Kjararáðs. Jafnframt þarf að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna aukins álags í grunnskólunum sem tengst hefur stefnumótun ríkisins í menntamálum þar með talið um skóla án aðgreiningar.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina tekur undir bókunina.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir lýsa yfir miklum áhyggjum yfir þeirri grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í grunnskólum borgarinnar í tengslum við yfirstandandi kjaramálaviðræður kennara og þeim erfiðleikum og í einhverjum tilvikum hálfgerðri upplausn sem víða virðist hafa orðið í kjölfar þeirra. Í dag er með öllu ófyrirséð hvernig kennslumál eiga eftir að þróast í grunnskólunum næstu daga og vikur. Búast má við að mikið uppbyggingarstarf bíði í grunnskólum borgarinnar eftir að kjaramálaviðræðum lýkur til að blómlegt skólastarf færist aftur í fast horf. Brýnt er að efla jákvæða og uppbyggilega umræðu um kennarastarfið og hefja það til þess vegs og virðingar sem nauðsynlegt er til að fá góða kennara til að haldast í starfi og til að auka aðsókn almennt í kennarastarfið.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Staðan í grunnskólum borgarinnar er orðin grafalvarleg. Nú þegar hefur 31 kennari sagt upp starfi og búast má við fleiri uppsögnum á næstu dögum. Kennarar hafa auk þess gripið til þess örþrifaráðs að ganga út úr kennslu á miðjum degi til að minna á kjör sín. Borgaryfirvöld geta ekki setið hjá og verða að bregðast við með því að þrýsta á að kjaradeilan verði leyst sem fyrst svo stoðunum verði ekki kippt enn frekar undan skólastarfinu í borginni.

8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. nóvember 2016, um íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík 2016. SFS2016090057

9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. nóvember 2016, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, frá 103. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi tölvumál grunnskóla Reykjavíkurborgar. SFS2016080139

10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. nóvember 2016, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina, frá 105. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi gæðamál í skólamötuneytum í kjölfar hækkunar fæðisgjalds. SFS2016090271

Helga Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. nóvember 2016, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, frá 105. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi fjölda dagforeldra í Reykjavík og niðurgreiðslur til dagforeldra. SFS2016090272

- Kl. 15.02 víkur Guðlaug Sturlaugsdóttir af fundi.

Kristján Gunnarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

12. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. nóvember 2016, um embættisafgreiðslu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, eitt mál. SFS2016080100

- Kl. 15.15 víkja Kristján Gunnarsson, Helgi Grímsson, Atli Steinn Árnason, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Andrea Sigurjónsdóttir og Soffía Pálsdóttir af fundi.

Fundi slitið kl. 15.20

Skúli Helgason

Elsa Hrafnhildur Yeoman Hermann Valsson
Jóna Björg Sætran Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

2 + 4 =