Fundur nr. 108 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 108

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2016, 9. nóvember, var haldinn 108. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi á Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 11.04. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S), Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir (B) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Katla Hólm Þórhildardóttir (P); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Jóhanna H. Marteinsdóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Pálsdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. október 2016, varðandi tilraunaverkefni um Bataskóla, bréf velferðarsviðs, dags. 7. október, ásamt minnisblaði velferðarsviðs, dags. 27. september 2016, um tilraunaverkefni um bataskóla í Reykjavík og skýrslu um kynnisferð til London og Nottingham 31. mars – 1. apríl 2016. Enn fremur lagt fram opið bréf frá stjórn Hugarafls, dags. 14. október 2016. SFS2016100044

- Kl. 11.11 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum.

Iðunn Antonsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir og Anna Gunnhildur Ólafsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Hugmyndin um Bataskóla er áhugaverð viðleitni til að styðja við bakið á þeim nemendum í fullorðinsfræðslu sem glíma við geðraskanir og þurfa annars konar nálgun en veitt er í hefðbundnum framhaldsskólum. Batamiðuð þjónusta hefur verið starfrækt fyrir einstaklinga með geðraskanir á vegum borgarinnar undanfarin ár og er mikilvægt að taka mið af henni við þróun þessa verkefnis. Meirihluti skóla- og frístundaráðs tekur undir með velferðarráði að mikilvægt er að vinna málið áfram í samráði við notendur batamiðaðrar þjónustu, frjáls félagasamtök og með hliðsjón af öðrum úrræðum sem í boði eru á þessu sviði.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir telja að vel útfærðar hugmyndir um Bataskóla ættu að njóta brautgengis innan borgarkerfisins, enda mikilvægt að búa til tækifæri fyrir hóp geðfatlaðra til að byggja sig upp og komast á þann stað að verða virkir í samfélaginu á ný.

2. Lögð fram skýrslan Aukið lýðræði barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi SFS: Greinargerð og tillögur starfshóps, dags. í ágúst 2016. Jafnframt lagðar fram tillögur að kostnaðargreindri forgangs- og innleiðingaráætlun, dags. 7. nóvember 2016, um aukið lýðræði barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi. SFS2016010163

Samþykkt.


Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Aukið lýðræði barna og ungmenna er eitt af helstu áherslumálum meirihlutans í málaflokknum sem leið til að auka virkni, ánægju og árangur nemenda í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Það er fagnaðarefni að hér liggi fyrir áætlun um innleiðingu tillagna sem komu frá sérstökum starfshópi um lýðræðismál. Tillögurnar miða m.a. að því að valdefla börn og ungmenni í skóla og frístundastarfi, hefja markvissa innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en jafnframt að standa fyrir fræðslu, námskeiðahaldi og annarri starfsþróun fagfólks í skóla og frístundastarfi um lýðræðisleg vinnubrögð með börnum og ungmennum í skólasamfélaginu. Sérstök ástæða er til að fagna tillögu um regluleg ungmennaþing í hverfum borgarinnar þar sem tækifæri er til að virkja ungmennaráð borgarinnar varðandi umsjón og framkvæmd. Tilraunaverkefni um ráðningu umboðsmanns ungmenna á frístundamiðstöð borgarinnar er spennandi dæmi um nýja leið til að örva lýðræðislega þátttöku ungmenna.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir samþykkja tillögur starfshóps um aukið lýðræði barna og ungmanna í skóla- og frístundastarfi, og hvetjum meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata til að virkja nýstofnað Friðarsetur til að hafa aðkomu að samstarfi Háskóla Íslands og skóla- og frístundasviðs um lýðræðismál i tengslum við þessa vinnu, enda lýðræði mikilvægur hornsteinn friðar í samfélagi okkar allra.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Enn er verið að fresta markvissri innleiðingu Barnasáttmálans í öllu starfi á vegum skóla- og frístundaráðs. þrátt fyrir að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hafi verið lögfestur hér á landi árið 2013. Í lok janúar á þessu ári var tillögu starfshóps um innleiðingu vísað til kostnaðargreiningar og liggja enn óafgreiddar á borði borgarstjóra. Það er óásættanlegt hversu lengi hefur tafist að afgreiða þetta mál í ljósi þess að bent hefur verið á mikilvægi þess að unnið sé í öllu skólastarfi í anda sáttmálans og hann fari inn í skólanámskrár. Umboðsmaður borgarbúa hefur bent á að það þurfi að vera til staðar fræðsla um kæruleiðir sem ætti ekki að hafa mikinn kostnað í för með sér og því enn óskiljanlegra hversu lengi hefur tafist að hefjast handa við innleiðingu sáttmálans.

3. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 24. febrúar 2016, um tillögu Reykjavíkurráðs ungmenna um regluleg málþing um málefni ungmenna. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. maí 2016, varðandi tillöguna. Enn fremur lagðar fram umsagnir forsætisnefndar, dags. 3. júní 2016, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs, dags. 30. maí 2016 og starfshóps um aukið lýðræði í skóla- og frístundastarfi, dags. 6. júlí 2016. SFS2016040107

Lögð fram svohljóðandi tillaga Ágústs Beinteins Árnasonar frá ungmennaráði Vesturbæjar:

Ungmennaráð Vesturbæjar leggur til að Reykjavíkurborg haldi regluleg málþing ungmenna um málefni sem snerta þau, þar sem fyrsta málþing verði haldið ekki síðar en að vori árið 2017.

Greinargerð fylgir.

Samþykkt.

4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. nóvember 2016, um staðfestingu starfsáætlana frístundamiðstöðva 2016-2017. Jafnframt lagðar fram starfsáætlanir frístundamiðstöðvanna Ársels, Gufunesbæjar, Kringlumýrar, Miðbergs og Tjarnarinnar fyrir starfsárið 2016-2017. SFS2016100025

Samþykkt.

5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. nóvember 2016, um staðfestingu 52 starfsáætlana leikskóla í Reykjavík starfsárið 2016-2017. SFS2016110045

- kl. 12.08 víkur Guðrún Edda Bentsdóttir af fundi og Guðlaug Sturlaugsdóttir tekur þar sæti.

Samþykkt.

6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. nóvember 2016, um ályktanir kennara í grunnskólum í Reykjavík varðandi kjaramál. Jafnframt lagðar fram ályktanir kennara í Austurbæjarskóla, dags. 3. nóvember 2016; kennara í Árbæjarskóla, dags. 2. nóvember 2016; kennara í Ártúnsskóla, dags. 3. nóvember 2016; kennara í Fossvogsskóla, dags. 3. nóvember 2016; kennara í Hamraskóla, dags. 3. nóvember 2016; kennara í Ingunnarskóla, dags. 3. nóvember 2016; kennara í Laugarnesskóla, dags. 7. nóvember 2016; kennara í Melaskóla, dags. 4. nóvember 2016; kennara og annars fagfólks í Rimaskóla, dags. 3. nóvember 2016; kennara í Selásskóla, dags. 2. nóvember 2016 og kennara í Vogaskóla, dags. 2. nóvember 2016. SFS2016110043

Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Skólastjórafélag Reykjavíkur lýsir yfir þungum áhyggjum vegna stöðunnar í kjaraviðræðum Félags grunnskólakennara og launanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Kjarasamningur kennara rann út í vor og hafa nú margir mánuðir liðið án þess að sátt hafi náðst um nýjan samning. Þessi staða veldur mikilli óánægju á meðal kennara í Reykjavík sem birtist í ályktunum þeim sem skóla- og frístundaráði hefur borist. Kennarastarfið er mikilvægt starf sem krefst menntunar á meistarastigi háskóla og það þarf að vera metið að verðleikum í samræmi við það. Skólastjórar í Reykjavík hafa áhyggjur af fyrirsjáanlegum flótta úr kennarastétt verði ekki brugðist við nú. Skólastjórafélag Reykjavíkur skorar á Reykjavíkurborg að beita sér af fullum krafti fyrir því að viðræðum ljúki á ásættanlegan hátt hið fyrsta svo dregið verði úr þeirri óvissu sem núverandi ástandi fylgir og kemur niður á skólastarfi í borginni.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum lýsir yfir þungum áhyggjum af alvarlegu ástandi í grunnskólum borgarinnar og vill geta þess að samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík hafa skorað á stjórnvöld, ríki og sveitarfélög að sammælast í eitt skipti fyrir öll um forgangsröðun í þágu menntunar og velferðar barna. Samtökin hafa nýlega ályktað um að stjórnvöld taki ábyrgð á framkvæmd eigin skólastefnu, skóla án aðgreiningar, að þau meti stjórnendur, kennara og annað starfsfólk skólanna að verðleikum sem hafa árum saman reynt að reka grunnskólana við óásættanleg skilyrði.
Rekstur grunnskólanna sé ábyrgð sveitarfélaganna, það sé á ábyrgð sveitarfélagsins að krefja ríkið um nýja tekjustofna telji þeir vera rangt gefið. Á þeim 20 árum frá því að grunnskólarnir fluttust yfir til sveitarfélaganna hafi um 100.000 börn útskrifast úr grunnskóla og hafi mörg þeirra ekki notið að fullu þeirrar þjónustu sem þau eiga rétt á. Það hafi tekið ríkið og sveitarfélög 20 ár að semja um þjónustu talmeinafræðinga við börn. Enn eigi eftir að skýra verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og semja um önnur málefni barna á sviði velferðarþjónustu innan skólakerfisins og nefna ýmiss konar sérfræðiþjónustu, til dæmis við börn með fjölþættan vanda og börn með ADHD. Skólakerfið sé að bregðast þessum börnum og fjölskyldum þeirra daglega.
Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum í Reykjavík vonast til að betri fjárhagur Reykjavíkurborgar og ríkisins skili sér í að betri kjörum og vinnuumhverfi starfsmanna grunnskólanna og öflugri grunnþjónustu við börn og ungt fólk sem eru að hefja lífið og sérstaklega þá sem standa höllum fæti í skólakerfinu.

Áheyrnarfulltrúi kennara í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi kennara í skóla- og frístundaráði lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu grunnskólans í dag. Stór hluti kennara á landinu hefur skrifað undir áskorun til sveitarfélaganna að bregðast við vegna hættulegra áherslna í kjarastefnu sveitarfélaganna gagnvart grunnskólakennurum. Vegna lágra launa og mikils álags grunnskólakennara er lítil ásókn í kennaranám, kennarar fara úr kennslu í önnur störf og meðalaldur grunnskólakennara nálgast 50 ár. Þolinmæði kennara er á þrotum og ef ekkert verður að gert þá stefnir í hnignun faglegs starfs grunnskólans innan mjög skamms tíma.
Það er ekki ásættanlegt að grunnlaun kennara með 5 ára háskólanám séu að meðaltali 480.000 kr. á mánuði á sama tíma og meðalheildarlaun í landinu voru 612.000 kr. samkvæmt heimildum frá Hagstofu Íslands. Til að búa til gott og farsælt samfélag er mikilvægt að æska landsins fái góða menntun. Það verður ekki gert án kennara.
Kennarar skora því á fulltrúa borgarinnar sem er stærsta sveitarfélags landsins að beita sér innan samtaka sveitarfélaga til að bæta launakjör kennara nú þegar.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Brýnt er að borgarstjórn bregðist hratt við þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp í grunnskólunum og að leitað verði allra leiða til að leysa kjaramál kennara sem allra fyrst áður en ástandið fer að bitna verulega á faglegu starfi skólanna. Mikilvægt er að friður ríki um skólastarfið í borginni en það er á ábyrgð borgarstjórnar að tryggja það.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Alvarleg staða er í kjaramálum kennara og Kjararáð hefur með úrskurði sínum kastað sprengju inn í kjaraumhverfi á vinnumarkaði og dýpkað þá gjá sem er á milli þeirra sem stjórna landinu og venjulegs launafólks. Við svo búið má ekki standa og nauðsynlegt að vinda ofan af þeirri ákvörðun strax á vettvangi Alþingis. Það er mikið í húfi fyrir skólastarf í borginni og landinu öllu að samningar náist sem fyrst um nýjan kjarasamning sem sátt getur náðst um. Kjaradeilan er nú komin á borð ríkissáttasemjara og er mikilvægt að þar verði unnið hratt og vel að lausn málsins. Velferð barna í skólasamfélaginu er í veði. Þá er rétt að benda á að meirihlutinn hefur í samvinnu við skóla- og frístundasvið kallað eftir víðtæku samstarfi við félög grunnskólakennara, háskóla, skólastjórnendur, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem mótaðar verði tillögur um aðgerðir til að auka nýliðun og bæta starfsumhverfi grunnskólakennara.

7. Fram fer kynning á réttindaskólum UNICEF. SFS2016110081

Elín Þóra Böðvarsdóttir, Sigríður Heiða Bragadóttir, Kristinn Svavarsson, Jón Páll Haraldsson og Sólveig Hrafnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Ein af tillögum starfshóps um aukið lýðræði barna og ungmenna í skóla og frístundastarfi er að hafin verði markviss innleiðing Barnasáttmálans í öllu starfi á vegum skóla- og frístundasviðs. Þar er lagt til að aukið verði samstarf við UNICEF um vinnu við Réttindaskóla barna og er afar ánægjulegt að einstakir grunnskólar Reykjavíkur eins og Laugalækjarskóli og Laugarnesskóli hafi þegar stigið myndarleg skref í þá átt að verða Réttindaskólar UNICEF. Frumkvæði þessara skóla er lofsvert og til eftirbreytni fyrir aðra skóla borgarinnar.

- Kl. 13.50 víkur Jóhanna H. Marteinsdóttir af fundi.

8. Lögð fram skýrslan Hvar þrengir að í Reykjavík 2016? Fólkið í skugganum. Athugun á högum lakast settu borgarbúanna. SFS2016110061

Helgi Eiríksson, Jóhann Skagfjörð Magnússon, Nichole Leigh Mosty, Sigurbjörg Birgisdóttir Ómar Valdimarsson og Hermann Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

- Kl. 15.17 víkur Magnús Þór Jónsson víkur af fundi.
- Kl. 15.20 viku Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Andrea Sigurjónsdóttir, Atli Steinn Árnason og Guðlaug Sturlaugsdóttir, af fundi.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Skýrsla Rauða krossins: Fólkið í skugganum varpar upp mynd af stöðu þeirra verst settu í borginni. Þarna er að finna mikilvæga áminningu um að það þarf að styrkja enn frekar úrræði þeirra fjölskyldna sem minnst hafa á milli handanna. Hins vegar er mikilvægt að halda til haga því góða starfi sem haldið er úti af starfsstöðvum leikskóla, grunnskóla, frístundamiðstöðvar og þjónustumiðstöðvar í Breiðholti undir forystu hverfisstjóra og byggja þarf á þeim grunni með frekari styrkingu á öryggisneti velferðarþjónustu, skóla- og frístundastarfs og fjárhagslegs stuðnings. Leita þarf allra leiða til að bæta aðbúnað og kjör þeirra tekjulægstu s.s. með lækkun gjalda, fjölgun úrræða og betri kynningu á þeirri þjónustu sem er í boði þ.m.t. fjölbreytt framboð frístundastarfs. Setja þarf í sérstakan forgang aðgerðir til að stemma stigu við fátækt barna í borginni.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokksins taka undir bókun skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata.

Skóla- og frístundaráðfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Skýrslan er of stofnanalituð, gildishlaðin og hlutdræg sem dregur mjög úr gildi hennar. Nú liggur fyrir endurskoðun á henni og vonumst við til þess að hreinskiptar umræður á fundi skóla- og frístundaráðs skili sér við endurskoðun hennar með uppbyggjandi hætti. Heppilegra hefði verið að hún kæmi hér til kynningar og umræðu áður en hún var kynnt fjölmiðlum, skaðinn er skeður þar sem skýrslan gjaldfellir eitt hverfi og íbúa hennar í borginni umfram annað. Tækifæri hverfsins liggja m.a. í mannauði og fjölbreytileika og það er hlutverk borgarstjórnar að virkja það.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Tekið er undir áhyggjur Rauða Krossins af stöðu verst settu barnanna í borginni. Hitt er svo annað mál að betur hefði verið að draga jafnhliða fram jákvæða þætti í hverfisbrag Breiðholts og er þar af nógu að taka. Gagnlegt er að gera úttekt á stöðu verst settu barnanna í borginni en annað mál er hvernig það er sett fram í fjölmiðlum.

9. Lagt fram yfirlit yfir fundi skóla- og frístundaráðs, janúar til júní 2017. SFS2015110044

10. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum:

Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum leggur fram fyrirspurn til skóla- og frístundaráðs í tengslum við fundarfyrirkomulag ráðsins. Er skóla- og frístundaráð reiðubúið til að breyta fundarfyrirkomulagi ráðsins með þeim hætti að fundarefnum ráðsins verði skipt niður, annars vegar í málefni leikskólans og hins vegar málefni grunnskóla- og frístundastarfs ? Þetta fyrirkomulag þekkist í öðrum sveitarfélögum þar sem skólanefndir hafa verið sameinaðar og reynist mjög vel. Til dæmis má nefna að á Seltjarnarnesi er fundað fyrst á morgnanna, til skiptis byrjað á málefnum leikskóla og grunnskóla, ýmist kl. 8 eða 9. Fundir ráðsins um 25 á ári, sem reiknast til ca. 5 vikna fjarveru. Fæstir eiga vinnuveitendur sem sætta sig við svo mikið vinnutap árlega. Óheppileg tímasetning og ekki síst lengd fundanna hefur þær afleiðingar að fólk veigrar sér við að taka þetta mikilvæga verkefni að sér, óháð því hvort eða hversu mikið fulltrúar fá fyrir fundarsetu og undirbúning. Auk þess má nefna að tímasetning fundanna um miðjan daginn veldur því að þeir taka lungann úr vinnudegi eða skóladegi flestra. Breytt fyrirkomulag og deildarskipting fundanna getur verið til mikillar hagræðingar fyrir alla þá lögbundnu áheyrnarfulltrúa sem fundina sitja, gert áhugasömum kleift að sinna þessum áhugaverðu borgaralegu skyldum sínum. SFS2016110083

Fundi slitið kl. 15.36

Skúli Helgason

Eva Einarsdóttir Hermann Valsson
Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir Örn Þórðarson

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

2 + 0 =