Fundur nr. 107 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 107

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2016, 26. október, var haldinn 107. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi á Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 11:05. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Jóna Björg Sætran (B), Kjartan Magnússon (D), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Katla Hólm Þórhildardóttir (P); Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar í leikskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum, Stella Marteinsdóttir, starfsfólk í leikskólum og Sveinn Sigurður Kjartansson, foreldrar barna í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Jóhanna H. Marteinsdóttir og Soffía Pálsdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Ytra mat í skóla- og frístundastarfi. Lagðar fram skýrslurnar Hlíðaskóli, ytra mat, dags. í ágúst 2016; Breiðagerðisskóli, ytra mat, dags. í apríl 2016; félagsmiðstöðin Hólmasel, mat á frístundastarfi, dags. í júní 2016; Leikskólinn Ösp, mat á leikskólastarfi, dags. í janúar 2016; Jöklaborg, mat á leikskólastarfi, dags. í febrúar 2016; Hulduheimar, mat á leikskólastarfi, dags. í mars 2016; Hagaborg, mat á leikskólastarfi, dags. í apríl 2016 og Sólgarður, mat á leikskólastarfi, dags. í maí 2016. Auður Ævarsdóttir og Sigrún Harpa Magnúsdóttir, sérfræðingar á skrifstofu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs kynna og svara fyrirspurnum. SFS2015060052

Sveinbjörg Anna Karlsdóttir situr fundinn undir þessum lið.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum þakkar fyrir góða kynningu um ytra mat í grunnskólum í Reykjavík. Áheyrnarfulltrúi ítrekar mikilvægi þess að fulltrúar foreldra og nemenda og fulltrúar í skólaráði hvers skóla fái ávallt boð um að taka þátt í kynningu úttektaraðila á niðurstöðum matsins ásamt starfsfólki skólans. Áheyrnarfulltrúi telur jafnframt gagnlegt að fleiri viðmið SFS en viðmið um mat á gæði kennslustundar fylgi niðurstöðum ytra mats grunnskóla, má þar nefna td. viðmið SFS um gæði foreldrasamstarfs og viðmið SFS um framkvæmd og áhrif stefnu um skóla án aðgreiningar. Þetta myndi geta stuðlað að betri kynningu þessara mikilvægu viðmiða fyrir alla aðila skólasamfélagsins.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Ytra mat skóla og frístundasviðs á starfi leikskóla, grunnskóla, frístundar og félagsmiðstöðva er afar jákvætt og eftirsóknarvert ferli að mati fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina sem gefur þessum starfstöðvum góða innsýn í margvísleg sóknarmið eftir því til hvaða þátta starfseminnar ytra matið nær hverju sinni. Niðurstöður ytra matsins verða að leiða til áríðandi umbóta, það byggir á umfangsmikilli vinnu starfsmanna á skóla- og frístundasviði og áríðandi að sá dýrmæti tími nýtist í raun. Mikilvægt er að eftirfylgni með framkvæmd umbótaáætlana sé fylgt mjög grannt eftir og að skóla- og frístundasvið aðstoði starfstöðvarnar eftir því sem þess er óskað. Í ljós hefur komið að starfsfólk skrifstofu skóla og frístundasviðs hefur ekki náð að fylgja eftirfylgninni nægileg vel eftir sökum annríkis og manneklu. Þessu þarf að breyta því að öðrum kosti nýtist hin mikla vinna starfsmanna við ytra matið ekki eins vel og mögulegt er.

- Kl. 11:45 tekur Kristján Gunnarsson sæti á fundinum.

2. Umfjöllun um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2016100083

Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að efna til formlegs samstarfs við félög leikskólakennara, háskóla og mennta- og menningarmálaráðuneytið um leiðir til að fjölga leikskólakennurum og bæta starfsumhverfi þeirra á leikskólum borgarinnar með það að markmiði að gera störf leikskólakennara eftirsóknarverðari. Áhersla verði lögð á aðgerðir til að auka nýliðun í stétt leikskólakennara, bæta starfsumhverfi þeirra, m.a. með vísan til lýðheilsumarkmiða Reykjavíkurborgar, fjölga karlkyns leikskólakennurum til að draga úr kynjahalla, auka umræðu um mikilvægi og inntak starfsins í samfélaginu og efla kennaramenntun þar með talið vettvangsnám. Sérstaklega verði rýnt hvernig megi ná til einstaklinga með kennsluréttindi sem valið hafa sér annan starfsvettvang með það fyrir augum að hvetja þá til að taka að sér störf við leikskóla borgarinnar. Sviðsstjóra verði falið að stofna starfshóp um verkefnið sem verði skipaður fulltrúum skóla- og frístundaráðs, Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda í leikskólum, félags foreldra leikskólabarna, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Háskóla Íslands, þar með talið menntavísindasviðs og mennta- og menningarmálaráðuneytisins, auk fulltrúa skóla- og frístundasviðs.

Samþykkt.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Eitt mikilvægasta verkefni leikskólastigsins á komandi árum verður að fjölga leikskólakennurum, bæta starfsumhverfi þeirra á leikskólum og tryggja eðlilega nýliðun þeirra. Meirihlutinn vill eiga frumkvæði að því að kalla til samstarfs fulltrúa leikskólakennara, leikskólastjóra, foreldra, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Háskóla Íslands þar sem mótaðar verði tillögur um aðgerðir til að fjölga leikskólakennurum, minnka kynjahalla, fjölga nemendum í leikskólakennaranámi og bæta vinnuaðstæður á leikskólum borgarinnar.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Þegar leita á farsælla leiða til að styrkja stöðu leikskólakennara og gera leikskólakennarastarfið eftirsóknarverðara og fjölga fagmenntuðum leikskólakennurum af báðum kynjum, er brýnt að fá fagmenntaða leikskólakennara sem eru í starfi í dag til að ræða þessi mál af hreinskilni. Afar brýnt er að leysa vandann í dag og ekki síður mikilvægt að horfa til framtíðar. Hvað veldur ótímabæru brotthvarfi leikskólakennara úr starfi og afar takmarkaðri nýliðun? Óheyrilegt vinnuálag vegna manneklu og mikillar starfsmannaveltu, takmarkaður stuðningur og sérkennsla, bágleg vinnuaðstaða, takmarkaðir möguleikar á endurmenntun, mikið andlegt álag og ýmsir fleiri þættir geta þar haft mikil áhrif ekki síður en launa- og kjaramál og fjársvelti undanfarinna ára. Fagmenntaðir leikskólakennarar sem eru störfum hlaðnir í dag og eru jafnvel á leið úr starfi, geta komið með upplýsingar og tillögur um úrbætur sem aðeins fást með hreinskiptum og opnum umræðum þar sem allt er sett upp á borðið. Upplýsingar frá þessum aðilum og einnig frá ófagmenntuðum starfsmönnum leikskóla sem hafa, eða hafa ekki, hug á að afla sér starfsmenntunar, geta verið gott innlegg inn í starf þess starfshóps sem skóla- og frístundasvið fer nú af stað með til að vinna að varanlegri bót á starfsmannahaldi í leikskólum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er eftir yfirliti yfir þær tillögur, sem fluttar hafa verið á vettvangi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur frá árinu 2011 (áður menntaráðs og leikskólaráðs) í því skyni að fjölga leikskólakennurum og bæta starfsumhverfi þeirra. Þá er óskað eftir upplýsingum um hvernig umræddum tillögum hefur verið fylgt eftir.

- Kl. 12:15 víkur Kristján Gunnarsson af fundi.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. október 2016:

Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til við skóla- og frístundaráð að hætt verði rekstri leikskólans Mýrar frá og með 1. júlí 2017. Foreldrar barna sem nú eru á Mýri fái forgang fyrir börn sín í aðra leikskóla Reykjavíkurborgar og fari börnin fram fyrir önnur börn á forgangslista í þann leikskóla sem foreldrar óska eftir að þau fari í. Sviðsstjóra er falið að stofna samráðshóp sem saman stendur af fulltrúum stjórnenda á Mýri, foreldrum barna á Mýri og fulltrúa skrifstofu skóla- og frístundasviðs. Samráðshópurinn ber ábyrgð á upplýsingagjöf og samráði við foreldra og skipuleggur yfirfærslu barnanna á nýja leikskóla. Samráðshópurinn aðstoðar starfsmenn Mýrar við að finna sambærileg störf og gætir að hagsmunum þeirra er kemur að vinnurétti. Samráðshópurinn hefur umsjón með lokun leikskólans, frágangi gagna og skilum húsnæðis. Samráðshópurinn starfar til 1. september 2017 en þá er miðað við að öllum verkþáttum sé lokið.

Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2016050047

Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa tillögu sviðsstjóra varðandi rekstur leikskólans Mýrar til umsagnar foreldraráðs, foreldrafélags og starfsfólks leikskólans Mýrar.

Samþykkt með sex atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá.

4. Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs, 12. október 2016:

Lagt er til að undanþágan nái til allra barna sem eru í grunnskólum reknum af Reykjavíkurborg sem og sjálfstætt reknum og að veitt verði tímabundin undanþága frá greiðslu gjalda óháð því hvort lögheimili barnsins er í Reykjavík eða ekki.

Samþykkt.

Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. október 2016:

Lagt er til að gerð verði sú breyting á reglum um undanþágu frá greiðslu gjalda fyrir dvöl á frístundaheimili vegna barna sem eru að hefja skólagöngu á Íslandi að við reglurnar verði bætt við nýrri 5. gr. sem hljómi svo: Reglurnar gilda jafnframt fyrir foreldra og börn sem eru í sjálfstætt reknum grunnskólum í Reykjavík, að því gefnu að við skólann sé rekið frístundaheimili. Að uppfylltum skilyrðum reglnanna greiðir skóla- og frístundasvið hlut foreldra í gjaldi fyrir dvöl í frístundaheimili enda taki gjaldskrá frístundaheimilisins mið af gjaldskrá fyrir frístundaheimili Reykjavíkurborgar.

Greinargerð fylgir.

Jafnframt lagðar fram reglur um undanþágu frá greiðslu gjalda fyrir dvöl á frístundaheimili vegna barna sem eru að hefja skólagöngu á Íslandi, með viðbótum. SFS2016100024

Samþykkt og vísað til borgarráðs.

5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. október 2016:

Lagt er til að skóla- og frístundasviði verði falið að meta umsóknir sjálfstætt rekinna grunnskóla um aukið framlag í samhengi við spár um fjölda nemenda við grunnskóla Reykjavíkurborgar á næstu árum; dreifingu þeirra á skólahverfi og aðstæðum skólanna til að taka við þeim fjölda nemenda. Jafnframt verði lögð fram drög að viðmiðunarreglum vegna umsókna sjálfstætt rekinna grunnskóla um aukið framlag. Niðurstöður liggi fyrir eigi síðar en 23. nóvember 2016.

Greinargerð fylgir.
Samþykkt.

Jafnframt lagt fram tölvubréf frá Reykjavik International School, dags. 13. september 2016, ósk um fjölgun reykvískra nemenda við Reykjavik International School; þjónustusamningur skóla og frístundasviðs og Reykjavik International School, dags. 20. október 2015; bréf Landakotsskóla, dags. 21. september 2016, ósk um greiðslu með fjölda reykvískra barna sem er umfram þann fjölda sem kemur fram í þjónustusamningi og greiðslu með nemendum sem eiga ekki lögheimili á Íslandi og tölvubréf frá grunnskólanum NÚ – Framsýn, dags. 21. október 2016, ósk um heimild fyrir fimm nemendur með lögheimili í Reykjavík skólaárið 2016-2017. Auk þess lögð fram lög nr. 76/2016 um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum.

6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. október 2016, varðandi umsókn Landakotsskóla um greiðslu framlags til skólans, bréf Landakotsskóla, dags. 21. september 2016, ósk um greiðslu með fjölda reykvískra barna sem er umfram þann fjölda sem kemur fram í þjónustusamningi og greiðslu með nemendum sem eiga ekki lögheimili á Íslandi, þjónustusamningur skóla- og frístundasviðs og Landakotsskóla, dags. 20. október 2015 ásamt viðauka við þjónustusamning, dags. 19. janúar 2016.

Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að synja beiðni Landakotsskóla um að greitt verði framlag til skólans vegna barna sem ekki eiga lögheimili á Íslandi. Að öðru leyti verði afgreiðslu umsóknar Landakotsskóla um aukið framlag vegna fjölgunar reykvískra nemenda frestað þar til niðurstaða sviðsstjóra liggur fyrir varðandi mat á umsóknum sjálfstætt rekinna grunnskóla auk framlagningar viðmiðunarreglna vegna umsókna sjálfstætt rekinna grunnskóla.

Greinargerð fylgir.
Samþykkt með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

- Kl. 13:00 víkja Jóhanna H. Marteinsdóttir, Stella Marteinsdóttir og Eva Einarsdóttir af fundinum og Elsa Hrafnhildur Yeoman og Andrea Sigurjónsdóttir taka þar sæti.

7. Lögð fram skýrslan Lýðheilsa og heilsuefling barna og unglinga í leik- og grunnskólum og frístundastarfi, skýrsla stýrihóps um heilsueflingu, dags. í mars 2016. Jafnframt lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 10. október 2016, um tillögur borgarstjóra um lýðheilsu og heilsueflingu barna og unglinga í leikskóla, grunnskóla og frístundastarfi. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stýrihópsins, kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2014110060

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn þakkar stýrihópi um lýðheilsu og heilsueflingu barna og unglinga í leikskóla, grunnskóla og frístundastarfi fyrir vandaða skýrslu og tillögur. Heilsuefling ávarpar einn af grunnþáttum menntunar sem mikilvægt er að samþætta öllu skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Næsta skref verður að vinna áætlun um innleiðingu þeirra tillagna sem vísað hefur verið til skóla- og frístundasviðs og tryggja náið samstarf við velferðarsvið um framkvæmdina.

- Kl. 13:11 víkur Kjartan Magnússon af fundi og Herdís Anna Þorvaldsdóttir tekur þar sæti.
- Kl. 13:50 víkur Herdís Anna Þorvaldsdóttir af fundinum.

8. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. október 2016, þar sem lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem greitt er framlag vegna í grunnskólann Framsýn verði breytt. Lagt er til að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra nemenda sem greitt er framlag vegna geti orðið 5 á skólaárinu 2016-2017. Greinargerð fylgir. Jafnframt lagt fram tölvubréf frá grunnskólanum NÚ – Framsýn, dags. 21. október 2016, ósk um heimild fyrir fimm nemendur með lögheimili í Reykjavík skólaárið 2016-2017.

Ákvörðun um viðmið er tímabundin til 1. júlí 2017, fyrir þann tíma verður tekin ákvörðun um framlengingu eða endurskoðun á fyrirkomulaginu. SFS2016040020

Tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs í bréfi, dags. 19. október 2016, um viðmið um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem greitt er framlag vegna í Framsýn auk fyrirvara, samþykkt með fimm atkvæðum Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og og Sjálfstæðisflokksins og vísað til borgarráðs. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina þykir miður að grunnskólanemendur með lögheimili í Reykjavík þurfi að leita til nágrannasveitarfélaga, hér til Hafnarfjarðar, til að sækja grunnskólamenntun þar sem sérstök áhersla er lögð á íþróttir og notkun tölvu- og upplýsingatækni í námi. Þessi mikilvægu atriði fyrir nútíð og framtíð, íþróttaiðkun grunnskólanema og færni í notkun tölvu- og upplýsingatækni í nútíma þekkingarleit og námsvinnu, ættu að vera forgangsmál í metnaðarfullum og framsýnum reykvískum grunnskólum.

9. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. október 2016:

Lagt er til að skóla- og frístundasviði verði falið að leggja fram tillögur eigi síðar en 14. desember 2016 varðandi framlög skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt rekinna grunnskóla vegna dvalar reykvískra nemenda á frístundaheimilum skólanna.

Greinargerð fylgir.
Samþykkt.

Jafnframt lagt fram bréf Skóla Ísaks Jónssonar, dags. 23. september 2016, beiðni um greiðslu vegna frístundar og þjónustusamningur Reykjavíkurborgar og Skóla Ísaks Jónssonar vegna niðurgreiðslu vistunar skólabarna á frístundaheimilum sjálfstætt starfandi grunnskóla, dags. 10. september 2011. Enn fremur lögð fram lög nr. 76/2016 um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 með síðari breytingum. SFS2016100093

- Kl. 14:03 tekur Herdís Anna Þorvaldsdóttir sæti á fundinum á ný.

10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. október 2016, varðandi starfsáætlanir frístundamiðstöðva 2016-2017. Jafnframt lagðar fram starfsáætlanir frístundamiðstöðvanna Ársels, Gufunesbæjar, Kringlumýrar, Miðbergs og Tjarnarinnar fyrir starfsárið 2016-2017. Soffía Pálsdóttir, skrifstofustjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2016100025

11. Lögð fram umsögn sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. október 2016, um tillögu borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um vikulega fundi velferðarráðs og skóla- og frístundaráðs. Jafnframt lögð fram samþykkt fyrir skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar, samþykkt í borgarstjórn 20. september 2011 með breytingum samþykktum í borgarstjórn 2. desember 2014 og 19. maí 2015.

Umsögn sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. október 2016, samþykkt með sex atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins. skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá.

12. Lagt fram bréf umboðsmanns borgarbúa, dags. 24. júní 2016, varðandi mál umboðsmanns borgarbúa nr. 346/2014 um fyrirkomulag skólaheimsókna í tengslum við jólahald í grunnskólum Reykjavíkurborgar, trúnaðarmál. SFS2016060158

Áheyrnarfulltrúi Pírata í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi Pírata lítur svo á að reglur borgarinnar séu ekki virtar í öllum tilfellum þegar kemur að samskiptum trúfélaga við nemendur í skólum borgarinnar. Í áliti umboðsmanns í máli er varðar fyrirkomulag skólaheimsókna í kirkju sem hefur legið á borði hjá honum í rúm tvö ár er ekki litið á reglurnar eða framfylgd þeirra í heild sinni. Píratar í Reykjavík hafa ályktað að heimsóknir í kirkjur á gildishlöðnum tíma líkt og desember ýti óhjákvæmilega undir hugrenningatengsl við trúarlegan boðskap. Einnig eru dæmi þess að börnum sé innrætt í slíkum heimsóknum að jólahátíðin sé fyrst og fremst kristin hátíð. Píratar telja trúarbragðafræðslu ávallt af hinu góða en það þarf að gæta verulega að jafnræði og hlutleysi þegar að henni kemur. Með því að stilla nemendum upp við vegg, að velja heimsókn í kirkju með hópnum eða að sleppa því, eru þau börn að gefa upp lífsskoðanir sínar og fjölskyldu sinnar. Valið er því í raun hvorki frjálst né óheft, en nemendur eiga ávallt að njóta vafans. Ljóst er að reglur borgarinnar líkt og þær standa í dag eru ekki að tryggja friðhelgi nemenda og fjölskyldna þeirra með fullnægjandi hætti og því þarf að endurskoða þær ítarlega með gagnrýnum huga í ljósi reynslunnar af þeim.

13. Lagt fram á fundinum minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. október 2016, um stöðu ráðninga í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum Reykjavíkurborgar. SFS2016080037

- Kl. 15.00 víkja Helgi Grímsson og Magnús Þór Jónsson af fundinum.

14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er eftir upplýsingum um fjölda umsókna um stuðning og fjölda stöðugilda starfsmanna sem samþykkt hafa verið til að sinna þeim sem þurfa stuðninginn, sundurliðað niður á alla leikskóla, alla grunnskóla og öll frístundaheimili Reykjavíkurborgar, þannig hægt sé að sjá hlutfall þarfar á móti hlutfalli veittrar þjónustu hjá hverjum leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili fyrir sig. SFS2016100105

Fundi slitið kl. 15:07

Skúli Helgason

Elsa Hrafnhildur Yeoman Herdís Anna Þorvaldsdóttir Hermann Valsson Jóna Björg Sætran
Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

4 + 12 =