Fundur nr. 106 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 106

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2016, 12. október, var haldinn 106. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi á Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 11:06. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Jóna Björg Sætran (B), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Kristín Elfa Guðnadóttir (P); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum; Jón Pétur Zimsen, skólastjórar í grunnskólum; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum og Sindri Smárason, Reykjavíkurráð ungmenna. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Jóhanna H. Marteinsdóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Pálsdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 7. október 2016, tilkynning um að Hermann Valsson taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Lífar Magneudóttur. SFS2016060184

2. Eva Einarsdóttir er kosin varaformaður skóla- og frístundaráðs með 5 atkvæðum.

3. Lýðfræði grunnskólakennara: Spá um stærð og samsetningu. Helgi Eiríkur Eyjólfsson, félagsfræðingur og meistaranemi í aðferðafræði við Háskóla Íslands kynnir og svarar fyrirspurnum.

- Kl. 11:15 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

4. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að efna til formlegs samstarfs við fagfélög grunnskólakennara, háskóla og ríkisvaldið um leiðir til að styrkja faglega stöðu grunnskólakennara og gera kennarastarfið eftirsóknarverðara. Áhersla verði lögð á aðgerðir til að auka nýliðun í stétt grunnskólakennara, bæta starfsumhverfi þeirra, m.a. með vísan til lýðheilsumarkmiða Reykjavíkurborgar og efla kennaramenntun þar með talið vettvangsnám. Sérstaklega verði rýnt hvernig megi ná til einstaklinga með kennsluréttindi sem valið hafa sér annan starfsvettvang með það fyrir augum að hvetja þá til að taka að sér störf við kennslu í grunnskólum borgarinnar. Sviðsstjóra verði falið að stofna starfshóp um verkefnið sem verði skipaður fulltrúum skóla- og frístundaráðs, Kennarafélags Reykjavíkur, Félags grunnskólakennara, Háskóla Íslands, þar með talið menntavísindasviðs og mennta- og menningarmálaráðuneytis, auk fulltrúa skóla- og frístundasviðs. SFS2016100041

Samþykkt.

Áheyrnarfulltrúi kennara í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi kennara lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðunni í lýðfræði kennara á Íslandi sem kemur fram í rannsókn Helga Eiríks Eyjólfssonar. Það er verulegt áhyggjuefni að alltof fáir velji sér að fara í kennaranám og þeir sem það gera fari ekki nema að hluta til að starfa við kennslu. Á sama tíma er aukning á langtímaveikindum hjá starfandi kennurum, leiðbeinendum í skólum er að fjölga og starfandi kennarar kvarta undan alltof miklu álagi í starfi og að vinnuumhverfi skólanna sé orðið bæði flókið og erfitt. Jákvætt skref er því að skóla- og frístundráð hyggst hefja formlegt samstarf við félög grunnskólakennara, háskóla og ríkisvaldið um leiðir til að styrkja faglega stöðu grunnskólakennara og gera kennarastarfið eftirsóknarverðara. Mikilvægt er að niðurstöður fyrirhugaðs starfshóps um þessi mál verði ekki bara í orði heldur líka á borði.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Eitt stærsta verkefni þjóðarinnar í menntamálum á komandi árum verður að bæta starfsumhverfi kennara um land allt og gera kennarastarfið eftirsóknarverðara í hugum ungs fólks og þeirra fjölmörgu sem hafa aflað sér kennararéttinda en valið sér annan starfsvettvang. Það er sláandi að nærri fimm þúsund manns á landinu öllu eru með kennararéttindi en starfa ekki við kennslu.  Þá hverfa nærri 30% ungra kennara frá kennslu innan fimm ára frá því þeir hefja störf.  Með tillögunni tekur Reykjavíkurborg frumkvæði í að efna til víðtæks samstarf við félög grunnskólakennara, háskóla og ríkisvaldið um leiðir til að bæta vinnuumhverfi og styrkja faglega stöðu kennara, tryggja nauðsynlega nýliðun þeirra, bæta kennaramenntun og styrkja vettvangsnám og laða til kennarastarfa þá fjölmörgu sem hafa aflað sér réttinda en starfa við annað í dag.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Nú þegar til stendur að leita leiða til að styrkja stöðu kennara og gera kennarastarfið eftirsóknarverðara telur fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina brýnt að fá kennara sem eru í starfi í dag til að ræða þessi mál af hreinskilni. Hvað er það sem veldur ótímabæru hvarfi kennara úr starfi? Óheyrilegt vinnuálag, mikil miðstýring yfirstjórnunar menntamálayfirvalda, léleg vinnuaðstaða, takmarkaðir möguleikar á endurmenntun, félagslegt andstreymi, andlegt álag, áhrif skólahverfis, samsetning nemendahópa, skortur á stuðningi og sérskennslu, skortur á jákvæðum samskiptum innan stofnunar og ýmsir fleiri þættir geta þar haft mikil áhrif ekki síður en launa- og kjaramál. Kennarar sem eru störfum hlaðnir í dag og eru jafnvel lengi búnir að vera á barmi þess að segja starfi sínu lausu af ýmsum ástæðum geta komið með upplýsingar og tillögur um úrbætur sem aðeins fást með hreinskiptum og opnum umræðum þar sem allt er sett upp á borðið. Slíkar upplýsingar geta verið gott innlegg inn í formlegt samstarf skóla- og frístundaráðs við fagfélög kennara, háskóla og mennta- og menningarmálaráðuneytið til að styrkja faglega stöðu  kennara og gera kennarastarfið eftirsóknarverðara.

Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra þakkar fyrir góða kynningu og umræður um spá og hugsanlegan grunnskólakennaraskort í náinni framtíð og fagnar að skóla- og frístundasvið ætlar að fara í aðgerðir til að bregðast við því.  Á sama tíma er nauðsynlegt að fara í sambærilega greiningarvinnu  um stöðu og fjöldaspá leikskólakennara og fara í átak og ímyndarvinnu, bæta starfskjör til að laða fleiri að leikskólakennaranáminu eða til að ná leikskólakennurum sem farið hafa í önnur störf, aftur til starfa í leikskólana.   Á síðustu þremur árum voru útskrifaðir 28 leikskólakennara frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

5. Lögð fram drög að starfs- og fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs árið 2017, trúnaðarmál. Kristján Gunnarsson, fjármálastjóri skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2016020033
Samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna að vísa drögum að starfs- og fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2017 til borgarráðs. skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá.

6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. október 2016, um reglur um undanþágu frá greiðslu gjalda fyrir dvöl á frístundaheimili vegna barna sem eru að hefja skólagöngu á Íslandi. Jafnframt lagðar fram reglur um tilraunaverkefni um undanþágu frá greiðslu gjalda fyrir dvöl á frístundaheimili vegna barna sem eru að hefja skólagöngu á Íslandi. SFS2016100024

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

Lagt er til að undanþágan nái til allra barna sem eru í grunnskólum reknum af Reykjavíkurborg sem og sjálfstætt reknum og að veitt verði tímabundin undanþága frá greiðslu gjalda óháð því hvort lögheimili barnsins er í Reykjavík eða ekki.

Frestað.

Reglur um undanþágu frá greiðslu gjalda fyrir dvöl á frístundaheimili vegna barna sem eru að hefja skólagöngu á Íslandi samþykktar og vísað til borgarráðs.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er eitt af forgangsmálum meirihlutans í borgarstjórn að bæta þjónustu við börn af erlendum uppruna í skóla- og frístundastarfi borgarinnar.  Liður í því er samþykkt tillögu um að börn með annað móðurmál en íslensku sem eru að hefja skólagöngu í grunnskólum borgarinnar skuli tímabundið njóta undanþágu frá greiðslu fyrir dvöl á frístundaheimili. Samþykktin nær til 6-9 ára barna í 1.- 4. bekk og byggir á tillögu starfshóps um móðurmálskennslu barna með annað móðurmál en íslensku, en hann lagði til að efla bæri frístundastarf í þeim hópi. Þannig gæfist tækifæri til að vinna með félagslega tungumálið og efla þátttöku tví- og margtyngdra barna í íslenskri barnamenningu.

Eftir samþykkt skóla- og frístundaráðs í dag verður nýjum regum í þessa veru nú vísað til borgarráðs til endanlegrar samþykktar.

7. Hagræðing í rekstri Reykjavíkurborgar, djúpgreining á starfsemi skóla- og frístundasviðs. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum.

Ágúst Þorbjörnsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

- Kl. 13:22 víkur Rósa Ingvarsdóttir af fundinum.

8. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs, 14. september 2016:

Framsókn og flugvallarvinir leggja til að nú í haust verði framkvæmd viðhorfskönnun foreldra leikskólabarna sem væri byggð á svipuðum grunni og þær viðhorfskannanir sem lagðar hafa verið fyrir foreldra grunnskólabarna.

Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. október 2016, varðandi fyrirkomulag viðhorfskannana til foreldra barna í leikskólum, grunnskólum og á frístundaheimilum. SFS2016090146

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að í mars 2017 verði framkvæmd viðhorfskönnun foreldra leikskólabarna sem verði byggð á svipuðum grunni og þær viðhorfskannanir sem lagðar hafa verið fyrir foreldra grunnskólabarna.

Greinargerð fylgir.

Samþykkt.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lýsir ánægju með að skóla- og frístundaráð hafi nú í kjölfar tillögu Framsóknar og flugvallarvina sem frestað var á fundi nr. 104 samþykkt að framkvæmd verði viðhorfskönnun foreldra leikskólabarna sem væri byggð á svipuðum grunni og þær viðhorfskannanir sem lagðar hafa verið fyrir foreldra grunnskólabarna.

9. Lögð fram skýrslan Talþjálfun barna í leik- og grunnskólum, dags. 13. maí 2016. Elísabet Helga Pálmadóttir og Hrund Logadóttir, verkefnastjórar á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, Helgi Viborg, deildarstjóri sérfræðiþjónustu í þjónustumiðstöðinni Miðgarði og Hákon Sigursteinsson, deildarstjóri í þjónustumiðstöð Breiðholts kynna og svara fyrirspurnum. SFS2016010123

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Starfshópi um talþjálfun barna í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar er þakkað fyrir afar vandaða vinnu og metnaðarfullar tillögur um úrbætur. Meirihluti skóla- og frístundaráðs tekur undir að Reykjavíkurborg þarf að veita börnum og ungmennum með málþroskafrávik sérhæfða talþjálfun. Mikilvægt er að nýta sér reynslu og þekkingu sem þróunarverkefnið sem Þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness hefur staðið fyrir undanfarin ár. Tillögur um eflingu talþjálfunar falla vel að stefnu meirihlutans og verða skoðaðar ekki síðst við gerð nýrra úthlutunarlíkana. Meirihluti skóla- og frístundaráðs beinir því einnig til skóla- og frístundasviðs að auka upplýsingagjöf til foreldra um mismunandi málþroskaraskanir og um þann stuðning sem stendur til boða.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Faglega skipulögð vinna talmeinafræðinga úti í skólunum til að finna og vinna með þeim börnum sem þurfa á aðstoð þeirra og þjálfun að halda er brýnt verkefni sem þarf að mati fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina í skóla- og frístundaráði að fá forgang í öllum hverfum borgarinnar. Verklag það sem þjónustumiðstöð Kjalarness og Grafarvogs hefur þróað hefur gefið góða raun og væri til góðs að þróa það og yfirfæra á aðrar þjónustumiðstöðvar. Verkefnið kallar á aukið samstarf velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs og einnig kallar það á aukna samvinnu við sveitarfélögin til að hægt verði að tryggja fjármagn til að koma verkefninu í gang hið fyrsta. Málþroski barna á undir högg að sækja í dag af ýmsum ástæðum í breyttri þjóðfélagsmynd og mikilli notkun snjalltækja auk annríkis og tímaskorts á heimilum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ljóst er staða talmeinakennslu leik- og grunnskólabarna er verulega ábótavant, vandinn uppsafnaður og biðlistar eftir þjónustu langir. Í skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins kemur fram að það veki sérstaka athygli hversu litla áherslu Reykjavík leggi á að veita börnum og ungmennum með málþroskafrávik sérhæfða þjónustu.  Til að tryggja jafnræði milli skóla og hverfa hvað þessa þjónustu varðar og bæta hana þarf að fylgja sérmerkt fjármagn en ekki gera ráð fyrir að skólar veiti þessa þjónustu af almennri úthlutun til sérkennslu eins og nú er gert.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum fagnar tillögum starfshóps um talþjálfun barna og að nú sé skýrt hvað sé á ábyrgð ríkis og hins vegar sveitarfélags varðandi málefni barna með þörf fyrir talmeinaþjónustu barna. Áheyrnarfulltrúi foreldra vill minna á að enn eru nokkur málefni barna á svokölluðu gráu svæði hvað varðar verkskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga á sviði velferðarþjónustu, má þar nefna börn með þörf fyrir sérfræðiþjónustu, börn með fjölþættan vanda og börn með ADHD greiningu. Mikilvægt er nú að borgin veiti þessa grunnþjónustu, börn eiga bara eina æsku.

10. Lagðar fram til kynningar upplýsingar varðandi ráðningu leikskólastjóra við leikskólann Hof.

a) Greinargerð skóla- og frístundasviðs, dags. 7. október 2016, vegna ráðningar í stöðu leikskólastjóra við leikskólann Hof, trúnaðarmál.
b) Yfirlit yfir umsækjendur um stöðu leikskólastjóra við leikskólann Hof, trúnaðarmál.
c) Auglýsing um stöðu leikskólastjóra við leikskólann Hof.
d) Viðmið vegna ráðninga skólastjóra leikskóla og grunnskóla.

Fjórar umsóknir bárust um stöðuna og er ákvörðun sviðsstjóra að ráða Særúnu Ármannsdóttur leikskólastjóra við leikskólann Hof frá og með 1. nóvember 2016. SFS2016100023

Bókun skóla- og frístundaráðs:

Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum leikskólastjóra, Særúnu Ármannsdóttur, til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi leikskólastjóra, Ingveldi Hrönn Björnsdóttur, fyrir vel unnin störf í þágu leikskólans Hofs.

11. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. október 2016, um stöðu innritunar í leikskóla Reykjavíkurborgar í október 2016. SFS2016100027

12. Lagt fram yfirlit yfir nemendafjölda í grunnskólum Reykjavíkur skólaárið 2016-2017 miðað við 1. október 2016. SFS2016100014

13. Lagt fram yfirlit um stöðu markmiða í starfsáætlun skóla- og frístundasviðs 2016, dags. í ágúst 2016

- Kl. 14:35 víkur Jón Pétur Zimsen af fundinum.

14. Skóla- og frístundaráðsfulltrú Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í samstarfssáttmála meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata er staðhæft að gera eigi verk, tækni og listgreinum jafnhátt undir höfði og bóklegum greinum. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina óskar eftir yfirliti á til hvaða beinna aðgerða meirihlutinn hefur gripið á þessu kjörtímabili til að standa við þetta loforð sitt og hversu miklum fjármunum af fjárhagsáætlun hefur verið ráðstafað til þessa þáttar sérstaklega, annars vegar í leikskólum og hins vegar í grunnskólum. SFS2016100046

Fundi slitið kl. 14:45

Skúli Helgason

Eva Einarsdóttir Hermann Valsson
Jóna Björg Sætran  Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 6 =