Fundur nr. 104 | Reykjavíkurborg

Fundur nr. 104

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
Ár 2016, 14. september, var haldinn 104. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi á Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 11:05. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Jóna Björg Sætran (B), Kjartan Magnússon (D), Líf Magneudóttir (V), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Katla Hólm Þórhildardóttir (Þ); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Sveinn Sigurður Kjartansson, foreldrar barna í leikskólum; Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum og Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Valgerður Janusdóttir, staðgengill sviðsstjóra, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Elín Norðmann, Guðrún Edda Bentsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Pálsdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram skýrslan Aukið lýðræði barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi SFS, greinargerð og tillögur starfshóps, dags. í ágúst 2016. Hulda Valdís Valdimarsdóttir og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastjórar á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynna og svara fyrirspurnum. SFS2016010163
- Kl. 11:27 tekur Sindri Smárason sæti á fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Skóla- og frístundaráð þakkar starfshópi um aukið lýðræði barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi fyrir skýrslu hópsins og góðar tillögur. Sviðsstjóra er falið að vinna kostnaðargreinda forgangs- og innleiðingaráætlun á tillögum sem fram koma í skýrslunni sem kynnt verði skóla- og frístundaráði eigi síðar en 1. nóvember 2016.
Samþykkt.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú þegar er unnið öflugt lýðræðisstarf með börnum og ungmennum víða í Reykjavík. Til að mynda hafa þrír grunnskólar í Reykjavík lagt Barnasáttmálann til grundvallar í öllu sínu starfi og eiga þeir eftir að verða enn fleiri þegar markviss áætlun um innleiðingu sáttmálans er hafin í öllu starfi á vegum skóla- og frístundasviðs. Markmiðið er að byggja upp lýðræðislegt náms- og leikumhverfi, auka þekkingu á mannréttindum og stuðla að gagnkvæmri virðingu innan skólasamfélagsins. Tillögurnar eru í góðu samræmi við nemendamiðað skólastarf og þá er hugmyndin um ungmennaþing spennandi nýbreytni og mikilvægur vettvangur ungs fólks sem meirihlutinn styður af öllu hjarta. Verkefnið um aukið lýðræði í skóla- og frístundastarfi er víða hafið og virðist á góðri leið í reykvískum skólum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Í skýrslu starfshóps vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins er bent á mikilvægi þess að Barnasáttmálinn fari inn í skólanámskrár og starfsáætlanir frístundamiðstöðva og skólahljómsveita. Þar er kveðið á um að unnið sé í anda sáttmálans, hvernig hann sé kynntur og hvernig unnið sé með ákvæði hans. Þá er bent á að til staðar þurfi að vera sjálfstæðar kæruleiðir barna auk þess sem umboðsmaður borgarbúa hefur bent á að það þurfi að vera til staðar fræðsla um kæruleiðir og það sé hluti af almennri fræðslu. Í þessum aðgerðum ætti ekki að felast mikill kostnaður heldur frekar staðfesting á mikilvægi þess að unnið sé í anda sáttmálans á öllum starfsstöðvum sfs. Mikilvægt er að komið verði til móts við þessar ábendingar enda varð Barnasáttmálinn hluti af íslenskri löggjöf árið 2013.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Lýðræði er dýrmætt en getur verið vandmeðfarið. Til að aukið lýðræði barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi verði raunhæft í framkvæmd þarf að leggja aukna rækt við að þjálfa nemendur og starfsfólk í rökrænni hugsun. Aukin áhersla á lýðræðislega ákvarðanatöku meðal yngstu barnanna getur verið vandmeðfarin en öllum er hollt að þurfa að taka þátt og eiga hlutdeild í lýðræðislegum ákvörðunum sem geta m.a. haft áhrif á viðfangsefni í leikskólanum og yngstu stigum grunnskólans. Á síðustu Öskudagsráðstefnu var sjónum beint að auknu lýðræði í kennslu og kynntar áhugaverðar hugmyndir um vinnu nemenda með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og væri vel að auka áherslu á slíkt í grunnskólum borgarinnar. Með aukinni áherslu á lýðræðisleg vinnubrögð í skólunum meðal stjórnenda og starfsmanna, fá starfsmenn einnig meiri hlutdeild í ákvarðanatöku og skipulagningu skólastarfsins sem er af hinu góða og getur aukið starfsánægju starfsfólks.
- Kl. 11:58 víkur Jóna Björg Sætran af fundinum.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 24. ágúst 2016:
Lagt er til við borgarráð að það bregðist við og endurskoði afstöðu sína varðandi að gefa 8. bekkingum á ný kost á vinnu hjá Vinnuskóla Reykjavíkur næsta sumar. Fyrir nokkrum árum var hætt að bjóða þessum aldurshópi sumarvinnu og mikilvægt nú þegar skólum er að ljúka að bregðast við svo ungmennum á þessum aldri gefist kostur á að stunda uppbyggilegt starf hjá Vinnuskóla Reykjavíkur.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að beina tillögu um að 8. bekkingum verði á ný gefinn kostur á vinnu hjá Vinnuskóla Reykjavíkur til umfjöllunar á umhverfis- og skipulagsráði sem fer með málefni Vinnuskólans. SFS2016060069
Samþykkt.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. ágúst 2016:
Skóla- og frístundaráð samþykkir og leggur til við borgarráð að frá og með hausti 2016 verði bætt við annarri færanlegri stofu fyrir starfsemi frístundaheimilisins Sólbúa við Breiðagerðisskóla.
Greinargerð fylgir.
Jafnframt lögð fram drög að verkferli varðandi húsnæði frístundaheimila. Enn fremur lögð fram á fundinum umsögn skólaráðs Breiðagerðisskóla, dags. 13. september 2016, um færanlegar kennslustofur á skólalóð Breiðagerðisskóla. SFS2016060138
Samþykkt og vísað til borgarráðs.
4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. september 2016, varðandi skólasöfn í grunnskólum Reykjavíkurborgar og stuðning skóla- og frístundasviðs við starfsemi þeirra. SFS2016090059
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að eftir lokun Skólasafnamiðstöðvar tókst ekki að ljúka þeim breytingum á skólasöfnum sem nauðsynlegar eru fyrir starf þeirra og þeim ekki lokið fyrir skólabyrjun og er enn ekki lokið að fullu. Brýnt er að þegar farið í breytingar sem snertir daglega starfsemi skólanna að þær séu betur undirbúnar svo að þær komi ekki niður á skólastarfinu. Mikilvægt er að stuðla að sem bestri endingu bókakosts í leikskólum jafnt sem grunnskólum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska því eftir að leikskólum verði úthlutað bókaplasti og viðgerðarefni með miðlægum hætti eins og grunnskólum.
5. Lagðar fram niðurstöður könnunar um viðhorf foreldra grunnskólabarna. Ásgeir Björgvinsson, sérfræðingur á skrifstofu sviðsstjóra kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2016060113
- Kl. 12:45 tekur Jóna Björg Sætran sæti á fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Um 90% foreldra grunnskólabarna eru á heildina litið ánægð með grunnskólann sem barn þeirra er í samkvæmt niðurstöðu nýrrar viðhorfskönnunar sem rúmlega 2000 foreldrar tóku þátt í. Almenn ánægja kemur fram með vel flesta þætti skólastarfsins. Niðurstöðurnar eru mikilvæg viðurkenning á góðu starfi kennara, stjórnenda og annars starfsfólks í grunnskólum borgarinnar.
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskóla leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi grunnskólaforeldra fagnar góðum niðurstöðum foreldrakönnunar um líðan, nám og kennslu barna þeirra í grunnskólum Reykjavíkur og hvetur til þess að allir grunnskólar taki þátt þegar skóla- og frístundasvið býður skólunum þátttöku í slíkum könnunum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Tekið er undir bókun áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum í skóla- og frístundaráði.
6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. september 2016, um niðurstöður lesskimunar í 2. bekk vorið 2016. Jafnframt lögð fram skýrslan Lesskimun 2016: Niðurstöður úr lesskimun í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur vorið 2016, dags. í september 2016. Ásgeir Björgvinsson, sérfræðingur á skrifstofu sviðsstjóra og Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynna og svara fyrirspurnum. SFS2016040089
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt niðurstöðum lesskimunarkönnunar 2016 geta rúmlega 66% nemenda í 2. bekk lesið sér til gagns samkvæmt skilgreiningu. Ánægjulegt er að þetta hlutfall skuli hækka um 2% frá fyrra ári og er að þessu leyti um sambærilegar niðurstöður að ræða og 2014.
Mikilvægt er að kennarar, skólastjórnendur og foreldrar nýti niðurstöður lesskimana til framþróunar í skólastarfi með það að markmiði að hækka verulega hlutfall nemenda sem geta lesið sér til gagns. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að niðurstöður lesskimunarkönnunar séu kynntar með skýrum hætti fyrir nemendum og foreldrum í því skyni að sem gleggstar upplýsingar um stöðu nemenda séu aðgengilegar á hverjum tíma. Mikilvægt er að foreldrar fái einstaklingsbundnar upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimuninni. Að auki er mikilvægt að foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu þess skóla í lesskimun, sem barn þeirra gengur í, samanborið við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Aukin upplýsingagjöf milli heimila og skóla er af hinu góða og hvetur foreldra til ríkari þátttöku í námi barna sinna.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Nemendum sem geta lesið sér til gagns fjölgar milli ára skv. niðurstöðum lesskimunar í 2. bekk grunnskóla borgarinnar. Tveir þriðju nemenda, 66% fylla nú þann flokk í stað 64% í fyrra. Mikilvægt er að sá hópur sem þarf á sérstökum stuðningi að halda minnkar um 3% milli ára og er nú 17% nemenda en meginmarkmið skimunarinnar er einmitt að finna og styðja við bakið á þeim nemendum sem þurfa sérstakan stuðning í lestri. Niðurstöðurnar eru jákvæð vísbending og með tilkomu Miðju máls og læsis, sem mun fylgja eftir innleiðingu metnaðarfullra tillagna í læsismálum, standa vonir til að árangurinn batni enn frekar á komandi árum.
7. Aðgerðir í skólamálum, trúnaðarmál. Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs kynnir og svarar fyrirspurnum.
- Kl. 13:52 víkur Eva Einarsdóttir af fundi og Elsa Yeoman tekur þar sæti.
Lagt fram á fundinum yfirlit yfir áskoranir vegna fjárveitinga til leikskóla. Jafnframt lögð fram áskorun stjórnar foreldrafélags leikskólans Hlíðar, dags. 9. september 2016, áskorun foreldrafélags leikskólans Rauðhóls, dags. 2. september 2016 og áskorun leikskólastjórnenda í Reykjavík, dags. 30. ágúst 2016. SFS2016040027
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum fagnar því að boðaðar hafi verið aðgerðir í skólamálum í borginni, og að borgarráð vilji nú setja aukið fjármagn til skólanna. Ekki síst er mikilvægt að í fjárhagsáætlun borgarinnar og í úthlutun til SFS sé gert ráð fyrir kjarasamningsbundinni hækkun launa starfsfólks í skóla- og frístundastarfi.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Komið hefur í ljós að með fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2016 gerði meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna óraunhæfar hagræðingarkröfur til leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar. Með framlögðum tillögum um viðbótarframlög viðurkennir meirihlutinn loks að skólakerfi borgarinnar er gróflega undirfjármagnað og ekki seinna vænna í ljósi þess að rúmlega tveir þriðju fjárhagsársins eru nú að baki. Ákveðinn tvískinnungur felst í því að tala um ný framlög til skólamála í þessu sambandi því að langstærstum hluta er um að ræða útgjöld, sem orðin eru að veruleika, og Reykjavíkurborg hefur ekki tök á að víkja sér undan, t.d. vegna sérkennslu, langtímaveikinda og skólaaksturs. Við vinnslu fjárhagsáætlunar 2016 bentu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og skólastjórar á að ýmsar niðurskurðartillögur meirihlutans væru óraunhæfar. Til dæmis myndi niðurskurður á fæðisgjaldi leikskóla og grunnskóla óhjákvæmilega bitna á gæðum skólamáltíða. Það hefur því miður gerst. Komið hefur í ljós að hluta af fæðisgjaldi leikskólanna er nú ráðstafað til annars en matarinnkaupa og segir formaður Félags leikskólakennara að þar með hafi botninum verið náð. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um málið frá kennurum, skólastjórnendum og öðrum starfsmönnum brást meirihlutinn ekki við þessari alvarlegu stöðu fyrr en málið hafði hlotið mikla og endurtekna umfjöllun í fjölmiðlum. Athygli vekur að meirihlutinn gerir ekki ráð fyrir neinum aðgerðum í því skyni að styrkja rekstur frístundaheimila Reykjavíkurborgar þrátt fyrir að niðurskurður hafi jafnvel verið hlutfallslega meiri þar á undanförnum árum en í leikskólum og grunnskólum.
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra í leikskólum og grunnskólum, kennara í grunnskólum og starfsfólks í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúar skólastjórnenda og kennara í leik- og grunnskólum fagna því að Reykjavíkurborg ætli að setja inn viðbótar fjármagn fyrir haustönn skólanna og breyta vinnureglum varðandi yfirfærslu halla og afgangs frá árinu 2015. Þetta er jákvæð viðleitni til að bæta þá alvarlegu fjárhagsstöðu sem skólarnir búa við í dag. Þetta er spor í rétta átt til að efla skólastarfið og ýta undir betri líðan og árangur nemenda sem og starfsmanna. Væntingar eru um að nýtt úthlutunarlíkan fjármagns muni leiðrétta stöðuna enn frekar og skapa réttlátari dreifingu fjármagns á milli starfsstöðva.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn sýnir forgangsröðun sína í verki með því að hækka framlög til skólamála um tæpan milljarð króna strax í haust og enn frekar á næsta ári, skv. tillögu sem lögð verður fyrir borgarrráð. Framlög til sérkennslu í leik- og grunnskólum hækka um 250 m. kr., framlög vegna fagstarfs í leikskólum og grunnskólum hækka, sömuleiðis framlög til kaupa á námsgögnum til skapandi starfs í leikskólum og inntaka barna sem fædd eru í mars og apríl 2015 á leikskóla hefst frá og með áramótum 2017. Fæðisgjöld vegna mataráskriftar hækka til að bæta matinn í skólunum og renna tekjurnar alfarið til skólamötuneyta í kaup á hráefni. Þá verður hluta af hagræðingu matarinnkaupa sem ákveðin var í byrjun árs skilað til baka alls 45 m. kr. Reykjavík verður þá með mjög sambærileg framlög og þau sveitarfélög sem leggja mest í hráefnisframlög til skólamötuneyta. Leikskólagjöld og önnur gjöld vegna skólagöngu barna verða áfram með þeim lægstu á landinu. Með þessum fyrstu aðgerðum er með kröftugum hætti snúið vörn í sókn í skólamálum í borginni eftir hagræðingu og aðhald allt frá hruni og stefnan sett á að skóla- og frístundastarf borgarinnar verði ótvírætt í fremstu röð.
8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. september 2016, varðandi úthlutun úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla og haustsmiðjur fyrir grunnskólakennara. Jafnframt lagt fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 15. júní 2016, um úthlutun úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla 2016 og yfirlit yfir úthlutun úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla 2016. SFS2016060144
9. Lögð fram handbókin Hreinlæti og heilbrigði í leikskólum. SFS2015110175
10. Lagt fram á fundinum minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. september 2016, um stöðu ráðningarmála í leikskólum og frístundaheimilum Reykjavíkurborgar. SFS2016080037
11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. september 2016, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, frá 103. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi tölvuritfærni, tölvukost skóla og rafræn próf. SFS2016080137
Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir tekur á sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrú Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Í svari sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs kemur fram að ýmislegt bendi til þess að undirbúningur nemenda í fjórða bekk fyrir rafræn samræmd könnunarpróf nú í september 2016 sé nokkuð misjafn eftir skólum hvað varðar reynslu þessara nemenda af tölvubúnaði og þjálfun í fingrasetningu. Augljóslega ríkir því ekki jafnræði meðal barnanna og því er ekki með nokkru móti réttlætanlegt að leggja samræmdu könnunarprófin í fjórða bekk fyrir með rafrænum hætti nú í haust.
Betra væri að bíða með þetta form fyrirlagnar þar til á næsta skólaári en þá má reikna með að tölvuaðgengi nemenda verði orðið mun betra samkvæmt áformum sem kynnt hafa verið í þá veru af hálfu meirihlutans. Þvi miður var meirihlutinn í borgarráði 8. sept. ekki tilbúinn til að senda áskorun til Menntamálastofnunar um frestun á rafrænum prófum svo að hægt væri að nota fjárhagsárið 2017 til að jafna stöðu nemenda í grunnskólum borgarinnar þegar kemur að tölvunoktun, þekkingu og búnaði en sú ósk var þar lögð fram af hálfu Framsóknar og flugvallarvina.
Einnig má minna á að sú tölvufærni nemenda í fjórða bekk sem próftakan er miðuð við nú í haust er samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla gert ráð fyrir að nemendur fjórða bekkjar hafi öðlast við lok fjórða bekkjar.
12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. september 2016, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, frá 103. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi sundkennslu SFS2016080138
- Kl. 15:20 víkja Guðrún Edda Bentsdóttir og Sindri Smárason af fundinum
13. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. september 2016, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, þrjú mál. SFS2016080100
- Kl. 15:30 víkja Soffía Pálsdóttir, Atli Steinn Árnason og Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir af fundinum.
- Kl. 15:40 víkur Rósa Ingvarsdóttir af fundinum.
14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu:
Fjölmenningin er komin til að vera í skólum borgarinnar. Í dag búa fjölmörg grunnskólabörn hjá foreldrum sem lesa ekki íslensku sér til gagns. Það getur því verið afar bagalegt þegar áríðandi orðsendingar eru sendar heim með nemendum og má þar nefna sem dæmi árlegan lúsafaraldur í grunnskólum. Orðsendingar með áríðandi leiðbeiningum sem eru aðeins sendar heim á íslensku þrátt fyrir að ekki sé öruggt að allir foreldranna fái skilaboðin með skiljanlegum hætti ná ekki fullum tilgangi. Leiðbeiningar sem eru þá jafnframt sendar með frá heilsugæslustöðvum eru þá mögulega einnig aðeins á íslensku. Hluti af þessu máli er því á ábyrgð skólanna, annað er á ábyrgð heilsugæslunnar. Framsókn og flugvallarvinir leggja til að skrifstofa skóla- og frístundasviðs sjái til þess að ákveðnar grunntilkynningar og mikilvægar leiðbeiningar sem ætla má að flestir grunnskólanna þurfi að senda til foreldra á hverjum vetri séu til þýddar á ýmsum tungumálum sem ætla má að æskilegt er að senda slíkar orðsendingar og tilkynningar á til að tryggja skilning foreldra og nauðsynlegar aðgerðir sem og til að tryggja jafnræði, gagnsæi sem og til að auka ýmis öryggismál. SFS2016090137
Frestað.
15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu:
Framsókn og flugvallarvinir leggja til að nú í haust verði framkvæmd viðhorfskönnun foreldra leikskólabarna sem væri byggð á svipuðum grunni og þær viðhorfskannanir sem lagðar hafa verið fyrir foreldra grunnskólabarna. SFS2016090146
Frestað.
16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir greinargerð um þá vinnu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum á skóla- og frístundasviði vegna gerðar nýrra úthlutunarlíkana fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðvar. Hvenær hófst þessi vinna, hvernig hefur henni miðað og hvenær má búast við að ný úthlutunarlíkön á grundvelli þessarar vinnu verði tilbúin? SFS2016090147
Fundi slitið kl. 15:46
Skúli Helgason
Elsa Yeoman Jóna Björg Sætran
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 0 =