Borgarstjórn 8.5.2018 | Reykjavíkurborg

Borgarstjórn 8.5.2018

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2018, þriðjudaginn 8. maí, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eva Einarsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Herdís Þorvaldsdóttir, Kjartan Magnússon, Áslaug María Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagður fram til fyrri umræðu samantekinn ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 (A- og B-hluti), sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. apríl 2018. Jafnframt er lögð fram skýrsla fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, samantekt yfir breytingar á fjárhagsáætlun 2017, verkstöðuskýrsla vegna nýframkvæmda 2017 og ábyrgða- og skuldbindingayfirlit fyrir Reykjavíkurborg, skv. reglugerð 1212/2015. Einnig eru lagðar fram endurskoðunarskýrsla KPMG, dags. í apríl 2018, og skýrsla endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. í apríl 2018. R17010090

-    Kl. 15:54 víkur Áslaug María Friðriksdóttir af fundi og Björn Jón Bragason tekur sæti. 

Samþykkt að vísa ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 ásamt endurskoðunarskýrslum til síðari umræðu borgarstjórnar.

Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Ársreikningur Reykjavíkurborgar lítur vel út. Hins vegar verður að líta til þess að við erum á toppi hagsveiflunnar og ytri aðstæður hafa haft veruleg áhrif á útkomuna. Tekjur borgarinnar hafa aukist verulega, álverð hefur hækkað, matsbreytingar fjárfestingaeigna hefur hækkað vegna þeirrar gríðarlegu hækkana sem orðið hafa á fasteignaverði síðustu árin vegna skorts á fasteignum og sala byggingarréttar er langt fram úr því sem tíðkast hefur. Þetta eru allt atriði sem ekki er hægt að treysta á í framtíðinni. Það eru vonbrigði að rekstrarniðurstaða aðalsjóðs sé neikvæð um tæpa 7 milljarða. Ef ekki hefði komið til allra þessara tekna af sölu byggingarréttar væri A-hlutinn í mínus þrátt fyrir verulega auknar tekjur aðalsjóðs.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi leggja fram svohljóðandi bókun: 

Ársreikningur Reykjavíkurborgar sýnir að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna hefur engin tök á fjármálum borgarinnar. Tekjur vegna lóðasölu eru hærri en rekstrarafgangur A-hluta og er rétt að hafa í huga að ekki er um varanlegar tekjur að ræða heldur einskiptisaðgerð. Þrátt fyrir stórauknar tekjur borgarinnar og hámarksskattheimtu halda skuldir borgarsjóðs áfram að hækka. Frá árslokum 2016 til ársloka 2017 hækkuðu skuldir borgarinnar um tæpa 15 milljarða króna eða 17,7% og námu 99 milljörðum króna. Greinilegt er að núverandi borgarstjórnarmeirihluti hefur þá sýn á fjármál Reykjavíkurborgar að aukin skuldsetning sé af hinu góða og hyggst halda áfram á sömu braut, fái hann umboð til þess í komandi borgarstjórnarkosningum. Enginn skuldsetur sig hins vegar út úr fjárhagsvanda og gildir þá einu hvort um er að ræða heimili, fyrirtæki eða sveitarfélag. Þetta er þó engu að síður fjármálastefna vinstri meirihlutans í Reykjavík undir forystu Samfylkingarinnar: að fresta því að takast á við hinn óhjákvæmilega fjárhagsvanda með aukinni skuldsetningu. Veltufé frá rekstri A-hluta minnkar um 1.700 milljónir frá ársreikningi 2016. Þetta er afar slakur árangur enda er veltufé frá rekstri besti mælikvarðinn á hvernig reksturinn gengur. Þegar góðæri ríkir og tekjur hækka mikið ætti veltufé frá rekstri að aukast en ekki dragast saman. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Rekstur samstæðu Reykjavíkurborgar gekk afar vel í fyrra. Samstæða borgarinnar var rekin með 28 milljarða hagnaði, en í henni eru B-hluta fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur og Félagsbústaðir. A-hluti borgarinnar sem heldur utan um eiginlegan rekstur borgarinnar skilaði fimm milljarða afgangi. Skuldir samstæðunnar hafa farið lækkandi mörg ár. Þær hafa lækkað úr 255 milljörðum árið 2011 í 193 milljarða 2017. Skuldahlutfall samstæðunnar án skulda Orkuveitu Reykjavíkur er 83% sem er vel innan þeirra viðmiða sem sett eru um skuldir sveitarfélaga. Samkvæmt árlegri greinargerð fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar með ársreikningi er reksturinn í blóma og fjárhagsleg staða borgarinnar góð. Meirihlutinn vill þakka öllum sem hafa komið að fjármálastjórn borgarinnar fyrir vel unnin störf. Það vekur sérstaka athygli að borgin hefur að fullu staðið við allar lífeyrisskuldbindingar og greiddi tæpa 15 milljarða til Brúar fyrir síðustu áramót. Á sama tíma fjárfestum við fyrir rúma fimmtán milljarða í öllum hverfum borgarinnar, lækkuðum fasteignagjöld og gjaldskrár og jukum framlög til velferðar og leik- og grunnskóla. Metár í uppbyggingu og lóðaúthlutunum hafa m.a. gert okkur þetta kleift. Þá hafa laun einnig verið að hækka. Við höfum nýtt góðærið til að bæta og styrkja þjónustuna með það að markmiði að búa til borg fyrir alla. Öllum þessum áskorunum hefur þessi meirihluti mætt sameinaður og með miklum sóma.

2.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 26. apríl og 3. maí. R18010002
36. liður fundargerðarinnar frá 26. apríl, tillaga að eigendastefnu fyrir Félagsbústaði, dags. í apríl 2018, er samþykktur. R17110172
37. liður fundargerðarinnar frá 26. apríl, tillaga að lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar, dags. 23. apríl 2018, er vísað til frekari vinnslu stjórnkerfis- og lýðræðisráðs. R18010207
45. liður fundargerðarinnar frá 26. apríl, ábyrgðar- og skuldbindingayfirlit 2017, er samþykkt. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, sitja hjá við afgreiðslu málsins. R18040207
27. liður fundargerðarinnar frá 3. maí, viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2018 er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi sitja hjá við afgreiðslu málsins.R17100024

3.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 4. maí, íþrótta- og tómstundaráðs frá 13. apríl, mannréttindaráðs frá 24. apríl, menningar- og ferðamálaráðs frá 23. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 25. apríl, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 23. apríl, umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. og 25. apríl og 2. maí og velferðarráðs frá 18. apríl.

-    Kl. 17:05 víkur Herdís Þorvaldsdóttir af fundi og Örn Þórðarson tekur sæti. R18010074

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti borgarstjórnar neitaði að setja tvær tillögur Sjálfstæðisflokksins á dagskrá þessa borgarstjórnarfundar, 8. maí, sem og umræðu um málefni Hlíða, Holta og Háaleitishverfis. Önnur tillagan kveður á um niðurfellingu gjalda vegna hjálparmiðstöðvar Hjálpræðishersins en hin um að leita álits Persónuverndar vegna fyrirhugaðra aðgerða Reykjavíkurborgar um að auka kjörsókn ákveðinna hópa í komandi borgarstjórnarkosningum. Þegar fulltrúum meirihlutans varð ljóst hvaða málefni Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að setja á dagskrá fundarins brugðust þeir ókvæða við og ákváðu síðan að einungis eitt mál yrði á dagskrá fundarins. Greinilegt er að vinstri meirihlutinn vill lágmarka umræður um borgarmálefni í borgarstjórn í aðdraganda komandi borgarstjórnarkosninga. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla harðlega þessum vinnubrögðum meirihlutans enda eru þau ólýðræðisleg og ganga gegn því verklagi sem hingað til hefur verið án undantekninga, að minnihluti borgarstjórnar hafi jafnan rétt og meirihlutinn að setja mál á dagskrá næsta borgarstjórnarfundar. Leitt er að fulltrúar meirihlutans vilji ekki leiðrétta þau auðhröktu ósannindi sem þeir lögðu fram á síðasta fundi forsætisnefndar með fullyrðingu um að löng hefð sé fyrir því að taka ekki önnur mál á dagskrá á þeim borgarstjórnarfundum sem ársreikningur Reykjavíkurborgar er til umræðu.

4.    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Óskað er eftir upplýsingum um öll vilyrði til aðila utan borgarkerfisins sem borgarstjóri eða aðrir embættismenn hafa veitt með undirritun sinni og líkleg eru til að hafa fjárútlát í för með sér fyrir Reykjavíkurborg. Einnig er óskað eftir því að þessar upplýsingar verði veittar sem fyrst og eigi síðar en i lok yfirstandandi viku. R17010090

5.    Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Það er ekki mikil lýðræðisást á því verklagi að svör við fyrirspurnum sem ég hef lagt fram sem kjörinn borgarfulltrúi í borgarstjórn sé svarað á öðrum vettvangi en þar sem fyrirspurnir mínar eru lagðar fram, sérstaklega þar sem borgarfulltrúi á ekki seturétt í öðrum nefndum og ráðum en borgarstjórn. Ég óska því eftir skýringum á því hvers vegna svör við fyrirspurnum mínum í borgarstjórn er svarað í forsætisnefnd þar sem ég hef ekki seturétt og á hvaða reglum Reykjavíkurborgar það byggir og hvers vegna þá hafa verið gerðar undantekningar á því með svörum til annarra borgarfulltrúa í borgarstjórn. R18020049

6.    Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Ég legg fram ítrekun á fyrirspurn minni sem ég lagði fram í borgarstjórn 20. mars síðastliðinn varðandi launakjör borgarfulltrúa og annarra pólitískt kjörinna fulltrúa í nefndir og ráð á vegum borgarinnar. R18020049

Fundi slitið kl. 17.25

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Líf Magneudóttir

Kristín Soffía Jónsdóttir    Marta Guðjónsdóttir

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 0 =