Borgarstjórn 6.9.2016

B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2016, þriðjudaginn 6. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Ingvar Mar Jónsson, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Áslaug María Friðriksdóttir og Hildur Sverrisdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fer umræða um skólamál í Reykjavík.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja áríðandi að setja málefni grunnskóla og leikskóla í fyrsta sæti hjá Reykjavíkurborg. Meirihlutinn í Reykjavíkurborg hefur ekki staðið vel að þeim málum og kemur sér hjá því að takast á við eðlilega forgangsröðun í þágu skólanna sem er ein allra mikilvægasta grunnþjónusta borgarinnar. Alvarlegt er að skólamálin séu ekki í betri farvegi miðað við loforð meirihlutans um að grunnþjónusta yrði ekki skert og í ljósi þess að ótal hagræðingarhópar hafa nú þegar verið að störfum undanfarin ár.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:
Tafarlaust verði settur í gang neyðarhópur „ad hoc“ með fulltrúum leikskólastjóra, leikskólakennara, sérkennara og matráða í leikskólum ásamt fulltrúum skóla- og frístundasviðs, skóla- og frístundaráðs og fjármálaskrifstofu borgarinnar. Starfshópnum verði ætlað að draga fram brýnasta vanda í rekstri leikskóla í dag og skila skýrslu fyrir 30. september 2016 svo að mögulegt sé fyrir Reykjavíkurborg að koma fram með raunhæfar áætlanir um langtímalausn á árlegum rekstrarvanda. Með þessari tillögu næst einnig fram sátt um áætlanir og úrlausnir til lengri tíma. Börnin í höfuðborginni er viðkvæmur hópur sem ávallt á að vera í forgangi og ekki er með nokkru móti ásættanlegt að sé látinn mæta afgangi.
Tillögunni er vísað frá með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er forgangsverkefni meirihlutans að bæta rekstrarskilyrði leikskólanna eftir tímabil aðhalds og sparnaðar frá hruni efnahagskerfisins. Skýrar vísbendingar eru um að hagræðingaraðgerðir síðustu missera séu að skila árangri sem skapar nú skilyrði til að snúa vörn í sókn. Tillögur um fyrstu aðgerðir í því efni hafa verið í mótun undanfarnar vikur og er vinnsla þeirra á lokastigi. Þær tillögur verða kynntar síðar í þessum mánuði. Mikilvægt er að halda til haga að afbragðs gott starf er unnið á leikskólum borgarinnar enda sýna kannanir mikla ánægju foreldra með þá þjónustu sem þar er innt af hendi. Engin ástæða er til að setja umræðuna um það starf í það samhengi að neyðarástand vofi yfir. Tillaga Framsóknar og flugvallarvina kveður jafnframt á um að tíma verði eytt í nefndastarf og greiningarvinnu þegar áhersla meirihlutans er að móta tillögur um aðgerðir sem komi til framkvæmda á allra næstu vikum.
Borgarfulltrúar Framsókn og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er með ólíkindum að meirihlutinn hafni tillögu þessari á þeirri forsendu að ekki sé um neyð að ræða og að tímarammi tillögunnar sé of rúmur. Í ræðu borgarfulltrúa meirihlutans er gefið í skyn að málefni leikskólanna séu í góðum farvegi þrátt fyrir gagnrýni leikskólastjóra á rekstrarvanda. Gögn sýna að það er ekki styrkleiki meirihlutans að koma fram með úrlausnir og tillögur hratt og örugglega úr „nefndarvinnu“ og því vildum við gefa meirihlutanum hæfilegan tíma til að bregðast við.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir það sjónarmið að við alvarlegan vanda er að etja í rekstri leikskóla Reykjavíkurborgar en benda á að sambærilegur vandi er fyrir hendi í rekstri grunnskóla og frístundaheimila. Nauðsynlegt er að borgaryfirvöld leysi vandann án málalenginga eins fljótt og auðið er.
3. Fram fer umræða um drög að frístundastefnu Reykjavíkurborgar.
- Kl. 19.00 víkur Skúli Helgason af fundinum og Sabine Leskopf tekur sæti.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Í því skyni að auka gagnsæi og eftirlit við ráðstöfun almannafjár beinir borgarstjórn því til borgarritara að bæta eftirfarandi texta við lið 1.4. í reglum um ferðaheimildir og greiðslu ferðakostnaðar í ferðum á vegum Reykjavíkurborgar: „Ákvarðanir um ferðir starfsmanna og ráðgjafa á vegum borgarráðs eða borgarstjórnar skulu kynntar í borgarráði en aðrar ferðir starfsmanna og ráðgjafa skulu kynntar á fundi þeirrar nefndar eða ráðs, sem viðkomandi svið heyrir undir.“
Tillögunni er vísað frá með níu atkvæðum  borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Í átján mánuði hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað lagt til að ákvarðanir um utanlandsferðir á vegum borgarinnar verði kynntar í viðkomandi nefndum og ráðum í því skyni að auka gagnsæi og aðhald við ráðstöfun almannafjár. Í jafnlangan tíma hafa fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna komið í veg fyrir að slíkar upplýsingar séu birtar með ótrúlegum undanbrögðum. Þá hefur ekki enn borist svar við átta mánaða gamalli fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina um ferðakostnað borgarinnar árið 2015. Á borgarstjórnarfundi í kvöld kýs vinstri meirihlutinn enn að vísa á bug tillögu, sem augljóslega er til þess fallin að auka gagnsæi almennings og auðvelda eftirlit kjörinna fulltrúa með fjármálum borgarinnar. Þess í stað vísar meirihlutinn til tillögu um framlagningu ársfjórðungslegra lista yfir ferðakostnað, sem samþykkt var í borgarráði 18. júní 2015. Grundvallarmunur er á upphaflegri tillögu Sjálfstæðisflokksins, sem gerir ráð fyrir því að upplýst verði um viðkomandi kostnað fyrirfram, og tillögu vinstri meirihlutans, sem gerir ráð fyrir því að gerð verði grein fyrir kostnaðinum eftir á. Skemmst er frá því að segja að umrædd samþykkt hefur verið þverbrotin þar sem að slíkir listar hafa aldrei verið lagðir fram þrátt fyrir að næstum fimmtán mánuðir séu liðnir frá henni. Hér sannast sem fyrr að fyrirheit vinstri meirihlutans um aukið gagnsæi í borgarrekstrinum eru innantóm og merkingarlaus.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð hefur nú þegar samþykkt það verklag að ársfjórðungslegir listar yfir samþykktar ferðaheimildir verði lagðir fyrir í borgarráði og viðkomandi fagráði eftir atvikum. Meirihlutinn hefur talið að rétt væri að láta reyna á það verklag áður en flækjustig framlagninga ferðaheimilda er aukið enn frekar með því að láta leggja fram hverja og eina fyrirfram. Sú reynsla hefur leitt í ljós að enn hefur alls ekki náðst að innleiða það verklag að fullu. Þetta er að sjálfsögðu bagalegt og úr því þarf að bæta.
- Kl. 19.50 víkur Magnús Már Guðmundsson af fundi og Dóra Magnúsdóttir tekur sæti.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn beinir því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að skoða og gera áætlun um hvernig og hvenær lækka megi orkugjöld á heimili.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
Borgarfulltrúar Framsókn og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir samþykkja tillöguna að Orkuveitan skoði og geri áætlun um hvernig og hvenær lækka megi orkugjöld á heimili. Er það í samræmi við bókun okkar frá 17. nóvember sl. að þar sem Orkuveita Reykjavíkur hækkaði verulega orkugjöld til heimilanna vegna slæmrar fjárhagsstöðu sinnar væru eðlilegt þar sem staða Orkuveitunnar hefur batnað verulega að hækkunin sem varð verði látin ganga til baka. Framsókn og flugvallarvinir eiga ekki fulltrúa í stjórn Orkuveitunnar en teljum það ábyrga rekstrarstefnu að álagspróf verði framkvæmt á Orkuveitunni áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar um arðgreiðslu til hluthafa eða lækkunar á gjaldskrám. Álagsprófið skal framkvæmt með tilliti til hvernig OR stenst áföll m.a. í formi gengissveiflna íslensku krónunnar, sveiflna í álverði, virðisrýrnun á eignum og vaxtabreytinga. Þá er ljóst að góða stöðu Orkuveitunnar má m.a. þakka góðum ytri efnahags- og fjárhagsaðstæðum sem ríkisstjórn sl. 3 ára hefur skapað.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Eðlilegt er að skoða hvort lækka megi orkugjöld á heimili þegar ljóst er að árangur Orkuveitu Reykjavíkur er eins góður og raun ber vitni. Orkugjöld eru vænn hluti af húsnæðiskostnaði almennings, húsnæðiskostnaði sem borgarstjórnarmeirihlutinn hefur margoft lýst sig sammála um að hann vilji lækka. Ekkert verður þó vart við vilja meirihlutans til aðgerða hvað það varðar. Í nóvember 2015 samþykkti borgarstjórn að vísa tillögu um rýningu orkugjalda til borgarráðs enda mátti skilja það á orðum borgarstjóra þá að hann vildi skoða málið. Nú 10 mánuðum síðar hefur engin umræða átt sér stað um málið hjá borgarráði. Fyrir ári síðan setti borgarstjórnarmeirihlutinn væntingar um heilmiklar arðgreiðslur úr fyrirtækinu inn á fimm ára áætlun. Þar með telja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að eðlilegt og sanngjarnt sé að skoða hvort lækka megi orkugjöld á heimili. Fálæti borgarstjórnarmeirihlutans bendir til þess að almenningur sem ekki síst tók á sig hækkanir vegna orkugjaldanna muni ekki fá að njóta árangurs fyrirtækisins.
6. Fram fer umræða um árshlutauppgjör Reykjavíkurborgar janúar-júní 2016.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að ákveðinn viðsnúningur komi fram í 6 mánaða uppgjöri Reykjavíkurborgar. Það er kominn tími til að löngu tímabili taprekstrar hjá Reykjavíkurborg ljúki. Hafa ber í huga að ástæða viðsnúnings er vegna þess að skatttekjur eru 575 milljónir kr. yfir áætlun og að tekjum er flýtt vegna eftirálagðs útsvars um 1,5 milljarða kr. Þá ber að hafa í huga að tekjufærsla á samstæðu er 5,6 milljarðar kr. vegna hækkunar á eignum Félagsbústaða sem er einungis reiknuð stærð og hefur engin áhrif á rekstur eða efnahag Reykjavíkurborgar. Álagning útsvars á Reykvíkinga getur samkvæmt lögum ekki orðið hærra sem er breyting frá fyrri árum. Meirihluti borgarstjórnar þarf að horfa meira á útgjaldahlið rekstrarreiknings og skera niður þætti sem geta ekki talist vera grunnþjónusta og nauðsynleg þjónusta. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að um leið og svigrúm skapast hjá borginni til að bæta þá grunnþjónustu sem enn er ekki nógu góð eigi að hefja lækkun útsvars í áföngum. Þess er líklega ekki að vænta hjá núverandi meirihluta sem virðist ekki hafa getu til að lækka ónauðsynleg rekstrarútgjöld og bæta grunnþjónustuna.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar-júní 2016 sýnir að rekstrarniðurstaða samstæðu, a- og b-hluta, var jákvæð um 10.561 milljón krónur en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 5.300 milljónir á tímabilinu. Rekstrarniðurstaðan var því 5.261 milljónum betri en gert var ráð fyrir, en það má rekja að mestu til fjármagnsliða og matsbreytinga fjárfestingaeigna. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 9.504 milljónir, sem var 622 milljónum hærra en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða a-hluta var jákvæð um 490 milljónir króna, en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 300 milljónir á tímabilinu. Jákvæð niðurstaða skýrist að hluta af hærri skatttekjum, sem voru 554 milljónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir, en einnig af hagræðingarvinnu á fagsviðum borgarinnar, sem skilaði 611 milljónum króna á tímabilinu. Launakostnaður er þó aðeins yfir áætlun og mikilvægt er að halda áfram hagræðingaraðgerðum þrátt fyrir að þær hafi nú þegar skilað rekstrinum yfir núllið. Rekstri borgarinnar sem og sveitarfélaga almennt er enn þröngur stakkur sniðinn og nauðsynlegt er að samhliða hagræðingu verði áfram unnið með ríkinu að endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga, enda hafa þau þar öll sameiginlegra hagsmuna að gæta.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Við fögnum að tillögur okkar um rekstrarhagræðingu og eftirfylgni í þeim efnum hafa skilað jákvæðri niðurstöðu aðalsjóðs í 6 mánaða uppgjöri. Framsókn og flugvallarvinir fagna hvatningu fjármálaskrifstofu til borgarstjórnar um endurskoðun á framkvæmaáætlunum a-hluta og fyrirtækja Reykjavíkurborgar, í ljósi þróunar efnahagsmála og byggingamarkaðar á næstu misserum. Öllum er ljós sú þensla sem nú á sér stað t.d. á fasteignaverði í Reykjavík sem hefur m.a. leitt til 5 milljarða endurmats fasteigna Félagsbústaða á fyrstu 6 mánuðum ársins, en sú fjárhæð er reiknuð stærð en ekki raunverulegir peningar í kassa borgarsjóðs. Nýsamþykkt lög um opinber fjármál gera ráð fyrir að opinberir aðilar eins og Reykjavíkurborg dragi saman seglin á þenslutíma eins og nú er. Mikilvægt hlýtur að vera fyrir borgarstjórn að taka ákvarðanir um að draga einnig saman í rekstri á þeim verkefnum sem Reykjavíkurborg er ekki skylt samkvæmt lögum að sinna.
7. Lagt er til að Jóna Björg Sætran taki sæti sem varamaður í borgarráði í stað Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur.
Samþykkt.
S. Björn Blöndal og Halldór Auðar Svansson sitja hjá við afgreiðslu málsins.
8. Lagt er til að Stefanía Ingibjörg Sverrisdóttir taki sæti í umhverfis- og skipulagsráði í stað Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur.
Samþykkt.
S. Björn Blöndal og Halldór Auðar Svansson sitja hjá við afgreiðslu málsins.
9. Lagt er til að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir taki sæti sem varamaður í stjórnkerfis- og lýðræðisráði í stað Jónasar Þórs Jónassonar.
Samþykkt.
S. Björn Blöndal og Halldór Auðar Svansson sitja hjá við afgreiðslu málsins.
10. Lagt er til að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir taki sæti sem varamaður í velferðarráði í stað Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur.
Samþykkt.
S. Björn Blöndal og Halldór Auðar Svansson sitja hjá við afgreiðslu málsins.
11. Lagt er til að Björn Ívar Björnsson taki sæti í menningar- og ferðamálaráði í stað Jóns Finnbogasonar.
Samþykkt.
S. Björn Blöndal og Halldór Auðar Svansson sitja hjá við afgreiðslu málsins.
12. Lögð fram beiðni Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur borgarfulltrúa um tímabundna lausn frá störfum til loka októbermánuðar 2016.
Samþykkt.
13. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 23., 25. og 30. júní, 7. og 21. júlí, 11., 18., og 25. ágúst og 1. september.
- 19. liður fundargerðarinnar frá 25. ágúst, viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2016 samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
- 24. liður fundargerðarinnar frá 1. september, samkomulag við Búseta um uppbyggingu á lóðinni Keilugrandi 1 samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja að lóðin Keilugrandi 1 (SÍF reiturinn) verði skilgreind sem íþrótta- og útivistarsvæði og að hún verði öll nýtt í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í Vesturbænum. Aðstöðuskortur háir nú þegar íþróttastarfsemi í hverfinu og er því mikilvægt að hún fái aukið athafnarými. Enn skal minnt á að útlit er fyrir mikla þéttingu byggðar í Vesturbænum á næstu árum, sem gæti haft í för með sér að íbúum hverfisins fjölgi um allt að 5.500 manns eða 33%. Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna sýnir af sér mikið fyrirhyggjuleysi í skipulagsmálum með því að leggja annars vegar mikla áherslu á fjölgun íbúa í Vesturbænum en neita hins vegar að horfast í augu við þá staðreynd að slík fjölgun kallar á umtalsverða uppbyggingu innviða, ekki síst í þágu íþrótta- og grunnskólastarfsemi. Margoft hefur verið bent á að ákjósanlegasti kosturinn til að stækka íþróttasvæði KR sé að heimila félaginu afnot af umræddum reit að Keilugranda 1. Með þeirri ákvörðun vinstrimeirihlutans að ráðstafa umræddri lóð undir þétta fjölbýlishúsabyggð er jafnframt komið í veg fyrir að hún geti nýst í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í Vesturbænum.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinar, Bjartrar Framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Minnihlutinn í borgarstjórn verður að gera upp við sig hvort hann ætlar að hafa mestar áhyggjur af því að lóðaverð sé orðið of hátt eða, eins og í þessu dæmi, að það sé of lágt þegar um er að ræða uppbyggingu í þágu húsnæðisstefnu borgarinnar. Búseti greiðir fyrir byggingarréttinn enda eru ekki sérstök tekjumörk eða félagsleg sjónarmið sem ráða úthlutun íbúðanna og við verðlagningu var kaupverð borgarinnar á viðkomandi eign m.a. haft til hliðsjónar.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Við samþykkjum ekki ráðstöfun eigna/fasteigna borgarinnar án þess að fyrir liggi verðmat tveggja óvilhallra fasteignasala við ákvörðunartöku. Óvarlegt er að ráðstafa eignum með þessum hætti þegar að fasteigna- og lóðaverð hækkar á jafnmiklum hraða og raun ber vitni. Við vísum til óafgreiddar tillögu í borgarráði þann 21. júlí 2016, þar sem segir m.a. „mikilvægt er fyrir kjörna fulltrúa að hafa sem gleggstar upplýsingar á hverjum tíma um verðmæti þeirra lóða sem borgin á og til stendur að selja eða ráðstafa.“ Við höfnum því sem meirihlutinn heldur fram að við séum á móti uppbyggingu, þetta snýst um að fyrir liggi upplýsingar við ákvarðanatöku, sérstakt er að meirihluti gegnsæis sé ekki tilbúinn að verða við þessu og þannig að hafa uppi á borðinu gögn sem staðfesta verð, í stað þess að hægt sé að draga verðlagningu í efa.
- 25. liður fundargerðarinnar frá 1. september, úthlutun á lóðinni Skógarvegur 16 til Búseta, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja fjölbreyttar aðgerðir í húsnæðismálum enda eru þarfir einstaklinga mismunandi. Mikilvægt er að jafnræði sé meðal húsbyggjenda varðandi möguleika á lóðum til að byggja á. Húsnæðissamvinnufélög eins og Búseti eru mikilvæg inn í fjölbreytta flóru á húsnæðismarkaði en þau starfa á almennum íbúðamarkaði og eiga þess vegna að taka þátt á þeim markaði eins og aðrir sem þar starfa. Þess vegna telja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að úthlutun lóða til Búseta eigi ekki að fara fram fyrr en að undangengnu útboði þar sem fleiri aðilar á markaði hafa rétt til að taka þátt. Niðurstaðan úr slíku útboði á að ráða því hverjir fá lóðir en ekki á að handvelja eins og meirihluti borgarstjórnar gerir með því að úthluta beint til Búseta. Lengi vel hefur meirihlutinn skýlt sér á bakvið að verklagið um að útluta lóðum til Búseta sé réttlætanlegt til að styðja við lægra leiguverð til tekjulægra fólks. Nýlegur fréttaflutningur af ofurleigum á íbúðum Búseta sýna að slíkur málflutningur meirihlutans heldur ekki vatni.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar Framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Minnihlutinn í borgarstjórn verður að gera upp við sig hvort hann ætlar að hafa mestar áhyggjur af því að lóðaverð sé orðið of hátt eða, eins og í þessu dæmi, að það sé of lágt þegar um er að ræða uppbyggingu í þágu húsnæðisstefnu borgarinnar. Búseti greiðir fyrir byggingarréttinn enda eru ekki sérstök tekjumörk eða félagsleg sjónarmið sem ráða úthlutun íbúðanna og við verðlagningu var kaupverð borgarinnar á viðkomandi eign m.a. haft til hliðsjónar.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Við samþykkjum ekki ráðstöfun eigna/fasteigna borgarinnar án þess að fyrir liggi verðmat tveggja óvilhallra fasteignasala við ákvörðunartöku. Óvarlegt er að ráðstafa eignum með þessum hætti þegar að fasteigna- og lóðaverð hækkar á jafnmiklum hraða og raun ber vitni. Við vísum til óafgreiddar tillögu í borgarráði þann 21. júlí 2016, þar sem segir m.a. „mikilvægt er fyrir kjörna fulltrúa að hafa sem gleggstar upplýsingar á hverjum tíma um verðmæti þeirra lóða sem borgin á og til stendur að selja eða ráðstafa.“ Við höfnum því sem meirihlutinn heldur fram að við séum á móti uppbyggingu, þetta snýst um að fyrir liggi upplýsingar við ákvarðanatöku, sérstakt er að meirihluti gegnsæis sé ekki tilbúinn að verða við þessu og þannig að hafa uppi á borðinu gögn sem staðfesta ferð, í stað þess að hægt sé að draga verðlagningu í efa.
- 30. liður fundargerðarinnar frá 1. september, tillaga að kjörstöðum í Reykjavík, þóknunum fyrir störf í kjörstjórnum, umboð borgarstjórnar  til borgarráðs og fleira sem varðar kosningar til Alþingis í október 2016, samþykktur.
14. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 12. ágúst og 2. september, íþrótta- og tómstundaráðs frá 19. ágúst, mannréttindaráðs frá 23. ágúst, menningar- og ferðamálaráðs frá 22. ágúst, skóla- og frístundaráðs frá 24. ágúst, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 22. ágúst, umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. ágúst og velferðarráðs frá 25. ágúst.
Fundi slitið kl. 21.30
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Sóley Tómasdóttir
Kjartan Magnússon Heiða Björg Hilmisdóttir
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

17 + 0 =