Borgarstjórn 30.5.2017 | Reykjavíkurborg

Borgarstjórn 30.5.2017

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2017, þriðjudaginn 30. maí, var haldinn sameiginlegur fundur Borgarstjórnar Reykjavíkur og ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.03. Voru þá komnir til fundar, auk staðgengils borgarstjóra Sigurðar Björns Blöndal, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Halldór Auðar Svansson, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Magnúsdóttir, Diljá Ámundadóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Gréta Björg Egilsdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn eftirtaldir fulltrúar í ofbeldisvarnarnefnd: Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, Alda Hrönn Jóhannsdóttir, Ingimar Karl Helgason, I. Jenný Ingudóttir og Sigþrúður Guðmundsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fundurinn er settur með ávörpum staðgengils borgarstjóra, Sigurðar Björns Blöndal, og Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, borgarfulltrúa og formanns ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkur. 

2. Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, verkefnastýra á Stígamótum, fjallar um börn og unglinga sem eru beitt kynferðisofbeldi.

3. Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fjallar um börn og ofbeldi. Er eitthvað að breytast eða eru augu okkar að opnast ?

4. Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf fjallar um nauðsyn þess að tala um ofbeldi og sýnir fundinum kvikmynd fyrir börn um ofbeldi, sem var unnin fyrir Kvennaathvarfið.

5. Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, fjallar um sjónarmið barnaverndaryfirvalda. Tilkynningar og verkferla.

6. Inga Sigurðardóttir, aðstoðarskólastjóri Grandaskóla, og Martin Brus Smedlund, forstöðumaður Undralands frístundaheimilis, kynna Opinskátt um ofbeldi, þróunarverkefni Reykjavíkurborgar sem fór fram í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum.

7. Fram fara umræður borgarfulltrúa og fundargesta.

- Kl. 15.50 víkur Kjartan Magnússon af fundi og Börkur Gunnarsson tekur sæti.
- Kl. 16.05 víkur Magnús Már Guðmundsson af fundi og Sabine Leskopf tekur sæti.

8. Lögð er fram svohljóðandi tillaga borgarstjórnar:

Borgarstjórn Reykjavíkurborgar leggur til að verkefnið Opinskátt um ofbeldi verði tekið upp í öllum skólum borgarinnar. Skóla- og frístundasvið geri áætlun um innleiðingu þess í skólunum og sett verði á fót teymi skólum til stuðnings og ráðgjafar. Gengið verði frá innleiðingaráætluninni og teymið stofnað í sumar svo hægt sé að undirbúa verkefnið og innleiða það í einhverjum skólum á næsta skólaári. Í teyminu eigi sæti skólafólk sem tók þátt í tilraunaverkefninu ásamt fulltrúa frá mannréttindaskrifstofu en skrifstofan vann einnig að þessu verkefni. Mannréttindaskrifstofu, sem hefur reynslu af verkefninu Saman gegn ofbeldi, í samstarfi við fjármálastjóra Ráðhússins verði falið að vinna kostnaðaráætlun vegna verkefnisins í samráði við skóla- og frístundasvið og velferðarsvið og leggja fram til borgarráðs. Kostnaðaráætlunin taki bæði til þeirra þátta sem snúa að skóla- og frístundasviði og Barnavernd Reykjavíkurborgar en búast má við aukningu í tilkynningum til Barnaverndar í kjölfar verkefnisins.

Samþykkt.

Fundi slitið kl. 16.34

Forseti og formaður ofbeldisvarnarnefndar gengu frá fundargerð

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

11 + 7 =