Borgarstjórn 2.5.2017 | Reykjavíkurborg

Borgarstjórn 2.5.2017

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2017, þriðjudaginn 2. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.08. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sigurður Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagður fram til fyrri umræðu ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar fyrir árið 2016, sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. apríl 2017. Jafnframt er lögð fram skýrsla fjármálaskrifstofu, dags. í apríl 2017, skýrsla innri endurskoðunar um mat á eftirlitsumhverfi Reykjavíkurborgar, dags. í apríl 2017 og skýrsla endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. í apríl 2017. R16120061
Samþykkt að vísa ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2016 ásamt endurskoðunarskýrslum til síðari umræðu borgarstjórnar.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2016 sýnir sterkan rekstur borgarsjóðs og B-hluta fyrirtækja borgarinnar. Lægri rekstrarkostnaður hjá borginni þar sem grunnþjónustunni er hlíft, umfram þann samdrátt í útgjöldum sem áætlun gerði ráð fyrir, er stærsti einstaki þátturinn í þessari góðu útkomu þó tekjuaukning hjálpi einnig til. Hreinar vaxtaberandi skuldir A-hluta sem og samstæðu lækka, hagræðingarmarkmið hafa náðst, öll fagsvið borgarinnar eru innan fjárheimilda og veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum er 10,9% hjá A-hluta og 22% hjá samstæðu. Fjárhagsstaða borgarinnar er því sterk þó áframhaldandi aðhalds sé þörf. Einnig er fagnaðarefni að þetta er í fyrsta sinn sem ársreikningur er gefinn út á opnu sniði, ekki einungis hjá borginni heldur á landinu öllu. Stjórnendum og starfsfólki borgarinnar eru færðar þakkir fyrir þá miklu vinnu við greiningar og aðhald sem hefur staðið yfir undanfarin ár og er nú að bera ávöxt.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Niðurstaða A-hluta er ekki glæsileg þrátt fyrir að tekjur hafa aukist verulega og útsvar sé í hámarki. Tap er á aðalsjóði og vegur rekstrarniðurstaða eignasjóðs upp tapið sem hefur valdið vanrækslu á viðhaldi á eignum borgarinnar. Meðan staðan er þannig er reksturinn ekki góður. Hagnaður samstæðunnar er borinn upp af B-hlutanum, vanrækslu á viðhaldi á eignum borgarinnar, skertri þjónustu, gengisbreytingum, gangvirðisbreytingum innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum og hækkun matsbreytinga fjárfestingaeigna en 42% af hagnaðinum skýrist af matsbreytingum fjárfestingaeigna Félagsbústaða sem nam um 10,9 ma.kr. sem rekja má til hækkunar á gangvirði fasteigna félagsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ekki seinna vænna að rekstur Reykjavíkurborgar, sem hefur verið í algjörum ólestri allt þetta kjörtímabil sem og kjörtímabilið 2010-2014, verði betri. Allt frá árinu 2010 hefur vandræðagangur verið á rekstrinum með of slöku rekstraraðhaldi því rekstrarvandræði borgarinnar hafa verið útgjaldavandi en ekki tekjuvandi. Árið 2016 er gert upp með rekstrarafgangi og væri það ótrúlegt ef slíkt tækist ekki miðað við þá gríðarlegu tekjuaukningu sem orðin er í íslensku samfélagi og sjá má á jákvæðri rekstrarniðurstöðu sveitarfélaga um land allt. Þetta má sjá á því að tekjur A-hlutans aukast um 9,5 milljarða kr. milli áranna 2015 og 2016 og borgarbúar eru skattpíndir því útsvarið í þessu stærsta sveitarfélagi landsins getur ekki verið hærra skv. lögum. Þrátt fyrir bættan rekstur frá því sem verið hefur aukast skuldir borgarsjóðs (A-hluta) um 3 milljarða á milli áranna 2015-2016. Þegar skuldaþróun frá árinu 2010 er skoðuð má sjá að skuldir A-hluta hafa aukist úr 47,8 milljörðum kr. í 83,7 milljarða árið 2016.

2. Lagt er til að Diljá Ámundadóttir taki sæti í innkauparáði í stað Magneu Guðmundsdóttur. R14060125
Samþykkt.

3. Lagt er til að Karl Sigurðsson taki sæti í umhverfis- og skipulagsráði í stað Magneu Guðmundsdóttur. R14060110
Samþykkt.
Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

4. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 6. og 27. apríl. R17010001
13. liður fundargerðarinnar frá 6. apríl, deiliskipulag Hlíðarenda 20-26 samþykktur með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina. R17020239

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við atkvæðagreiðsluna og leggja fram svohljóðandi bókun:

Miklar breytingar hafa verið gerðar  á upphaflegum deiliskipulagshugmyndum á Hlíðarenda. Samþykkt deiliskipulag árið 2010 gerði ráð fyrir 300 íbúðum en árið 2014 fóru íbúðirnar úr 360 í 600 og nú er lagt til að fjölga þeim enn frekar eða upp í allt að 800 íbúðir. Nú liggur fyrir að vinna er í gangi í innanríkisráðuneytinu að skoða öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar sem hugsanlega gæti haft áhrif á heildarskipulagið á Hlíðarend. Þvi hefði verið betra að bíða með frekari deiliskipulagsákvarðanir þangað til niðurstöður úr þeirri vinnu liggja fyrir. Með þetta í huga greiða fulltrúar Sjálfstæðisflokks ekki atkvæði með deiliskipulagsbreytingunni.

5. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 28. apríl, íþrótta- og tómstundaráðs frá 7. apríl, mannréttindaráðs frá 4. og 25. apríl, menningar- og ferðamálaráðs frá 3. og 24. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 6. apríl, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 3. og 24. apríl, umhverfis- og skipulagsráðs frá 5. og 26. apríl og velferðarráðs frá 6. apríl.  R17010084


Fundi slitið kl. 16.52

Líf Magneudóttir

Skúli Helgason Kjartan Magnússon

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 0 =