Borgarstjórn 2.2.2016 | Reykjavíkurborg

Borgarstjórn 2.2.2016

B O R G A R S T J Ó R N
 
Ár 2016, þriðjudaginn 2. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Ilmur Kristjánsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Jóna Björg Sætran, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
 
Þetta gerðist:
 
1. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 27. janúar 2016, þar sem lagt er til að hagræðing í samþykktri fjárhagsáætlun fagsviða og miðlægrar stjórnsýslu vegna ársins 2016 verði útfærð með nánar tilgreindum hætti, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. janúar sl. Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 
 
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Viðauki við fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 miðar að sjálfbærum rekstri borgarinnar. Til þess að tekjur dugi fyrir gjöldum var sett fram hagræðingarkrafa í fjárhagsáætlun sem nú hefur verið útfærð. Hagræðing á árinu 2016 mun því nema 1.780 milljónum af 98 milljarða króna rekstri eða um 1,8%. Mest verður hagrætt í miðlægri stjórnsýslu og stjórnun eða um 5%. Sparað verður í fermetrum, sölu eigna hraðað, hægt á ráðningum auk annarra aðgerða sem ætlað er að ná þeim markmiðum um sjálfbæran rekstur sem um getur í inngangi fjárhagsáætlunar borgarinnar fyrir árið 2016.
 
2. Fram fer umræða um gagnsæi í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. 
 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Þrátt fyrir fögur fyrirheit meirihlutans um gagnsæi í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar hefur ekkert gerst. Það er bæði erfitt fyrir borgarbúa og borgarfulltrúa að nálgast ýmsar upplýsingar þar sem þær eru ekki aðgengilegar á vef borgarinnar. Getur það oft tekið vikur eða jafnvel mánuði fyrir borgarfulltrúa að fá svör við einföldum spurningum frá meirihlutanum. Ekki er farið eftir nýsamþykktri upplýsingastefnu borgarinnar sem sýnir að það er eitt að samþykkja hana og annað að framfylgja henni.
 
3. Fram fer umræða um málefni Breiðholts. 
 
- Kl. 18.30 víkur Ilmur Kristjánsdóttir af fundi og Eva Einarsdóttir tekur sæti. 
- Kl. 20.35 víkur Halldór Halldórsson af fundi og Hildur Sverrisdóttir tekur sæti. 
 
4. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 18., 21. og 28. janúar 2016.
11. liður fundargerðarinnar frá 21. janúar, samþykkt á útboði framkvæmda við endurnýjun á Grensásvegi sunnan Miklubrautar ásamt gerð nýrra hjólastíga, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina. 
 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir meiri rekstrarvanda en dæmi eru um í langri sögu borgarinnar. Meirihlutinn hefur samþykkt viðauka við fjárhagsáætlun vegna hagræðingaraðgerða að upphæð 1,8 milljarða kr. Mestur niðurskurður er á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði. Fjárfrekum verkefnum er slegið á frest, biðlistar eru langir en þrenging Grensásvegar sem áætlað er að kosti 170 milljónir er nú sett í forgang. Reynslan kennir okkur að með þrengingu gatna mun bílaumferð leita inn í nærliggjandi íbúðahverfi þar sem börn eru að leik. Grensásvegur er ekki í flokki hættulegra gatna. Engu að síður er hægt að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda með kostnaðarminni aðgerðum. Þrenging götunnar er ekki forsenda aukins öryggis og 170 milljón króna framkvæmd er ekki í neinum takti við þann niðurskurð sem unnið er að í öllu borgarkerfinu. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina styðja hjólreiðaáætlun en á sama tíma og ekki eru til peningar til að sinna grunnþjónustu borgarinnar, biðlistar eru langir og fjármálin slæm þarf að forgangsraða fjármunum og þetta verkefni er ekki slíkt forgangsmál.
 
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Gerð hjólastíga við Grensásveg er í samræmi við samþykkta hjólreiðaáætlun borgarinnar frá 2010 og endurskoðaða áætlun frá 2015. Um báðar áætlanir náðist þverpólitísk sátt í borgarstjórn og báðar áætlanirnar eru í samræmi við stefnu borgarinnar um eflingu vistvænni samgöngumáta. Fyrirhugaðar framkvæmdir við Grensásveg munu þó ekki bara nýtast ört vaxandi hópi borgarbúa sem nýta sér hjólreiðar sem samgöngumáta, heldur munu þær líka leiða til meira öryggis fyrir fótgangandi vegfarendur og íbúa í næsta nágrenni. Í dag skilur aðeins örmjó gangstétt bílaumferðina frá húsgörðum. Það hefur gerst trekk í trekk undanfarin misseri að bílstjórar missa stjórn á bílum sínum og bíll hafnar inn í húsagarði við götuna. Framkvæmdirnar fela í sér að akreinum fyrir bílaumferð er fækkað úr fjórum í tvær. Mælingar á umferðarþunga sýna að ekki er þörf á fjórum akreinum. Umferðarspár sýna að það verður ekki heldur þörf á þeim í framtíðinni. Breytingar sem verða á Grensásvegi munu leiða til þess að hægja mun á bílaumferðinni. Það er mjög æskilegt. Mælingar á umferðarhraðnum sýna að hann nær allt að 70 km á klukkustund. Það er allt of mikið. Vinna við hverfisskipulag Bústaða og Háaleitishverfis leiðir í ljós að hverfin eru umlukin miklum umferðaræðum sem hafa skaðleg áhrif á lífsgæði íbúanna. Undanfarið hefur verið unnið markvisst að því að draga úr þessum neikvæðu áhrifum. Þeirri vinnu verður haldið áfram. Breytingarnar á Grensásvegi eru liður í því.
 
12. liður fundargerðarinnar frá 28. janúar, breyting á deiliskipulagi Vesturbugtar, Gömlu hafnarinnar, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina. 
 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Þó borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina séu hlynntir uppbyggingu á reitnum verður að benda á að byggingarmagn á reitnum er of mikið miðað við heildaryfirbragð aðliggjandi byggðar. Sérstaklega þarf að vanda til hönnunar bygginga á þessu svæði sem er hluti gamla Vesturbæjarins sem hefur þróast í nánu sambandi við höfnina og sjávarútveginn en með fyrirhuguðum byggingum verður lokað á tengsl við höfnina og sjávarsíðuna. Hið nýja hverfi mun lítið eiga skylt við eldri byggð og byggingarsögu borgarinnar en við teljum að yfirbragð gamla Vesturbæjarins eigi að vera ríkjandi á svæðinu. Meirihlutinn hyggst nýta byggingar á þessari dýrustu byggingarlóð borgarinnar undir svokölluð Reykjavíkurhús. Með réttri nýtingu lóða í Vesturbugt gæti borgin fengið tekjur til að fjármagna kaup á fleiri íbúðum í sama hverfi eða miðlægt í borginni. Félagsleg blöndun er afar mikilvæg en vel er hægt að útfæra hana án þess að nota eina dýrustu byggingarlóð borgarinnar. Hundruð eru á biðlista eftir húsnæði og því mikilvægara að fleiri fái þak yfir höfuðið en að færri fái húsnæði á dýrri lóð.
 
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 
 
Uppbygging íbúða í Vesturbugt er hluti af húsnæðisáætlun borgarinnar sem gengur út á að á næstu árum fari 2500-3000 leigu- og búseturéttaríbúðir af stað í Reykjavík. Rauði þráður áætlunarinnar er húsnæði fyrir alla – hvar sem er í Reykjavík. Uppbyggingin gengur vel og eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa aldrei verið gefin út eins mörg byggingarleyfi til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis í Reykjavík en árið 2015, ef frá er talin uppbygging Breiðholtsins á áttunda áratugnum. Nú þegar eru meira en 1200 íbúðir í skipulagi eða komnar úr skipulagsferli. Um er að ræða lóðir í Urðarbrunni, Keilugranda, Kirkjusandi, RÚV-reit, Skógarvegi, Bólstaðarhlíð, Hraunbæ, Suður-Mjódd, Móavegi, Vatnsmýri og í Vesturbugtinni. Húsnæði fyrir alla, þétting byggðar og mannvænt skipulag þessara lóða þar sem félagsleg blöndun á sér stað, er mikilvægur hluti af húsnæðisáætlun borgarinnar.
 
30. liður fundargerðarinnar frá 28. janúar, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2016 vegna kjarasamninga, samþykktur. 
 
5. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 29. janúar, íþrótta- og tómstundaráðs frá 15. janúar, mannréttindaráðs frá 26. janúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 25. janúar, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 25. janúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. og 27. janúar og velferðarráðs frá 14. og 21. janúar. 
 
 
Fundi slitið kl. 21.15
 
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð
 
Sóley Tómasdóttir
 
Áslaug Friðriksdóttir Skúli Helgason
 
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

8 + 7 =